Apakaffi

Í gær skoðaði ég okursíðu Dr. Gunna, þar sem hann heldur utan um okur hvers konar. Þar er margt merkilegt, og ótrúlegt að sjá svona mikið af okri samankomið á einum stað. Ég óska Dr. Gunna til hamingju með þessa skemmtilegu hugmynd, og vonast til að hún verði sem flestum til gagns.

Ég ætlaði þó ekki að skrifa aðallega um þessa okursíðu, heldur annað sem á uppruna sinn að rekja til hennar. Þannig er mál með vexti að á síðunni sá ég minnst á svokallað Apakaffi frá Panama. Þar var því lýst með orðunum "Nýjasta snobb og tískukaffið". Ég var forvitinn um þetta kaffi og ákvað að gúgla "apakaffi panama". Það skilaði aðeins einni niðurstöðu; ákvörðun Neytendastofu í máli þar sem innflytjandi Apakaffisins kvartaði undan því að annað fyrirtæki væri að flytja inn kaffið og selja það á undirverði í Kolaportinu. Það sem vakti sérstaka athygli mína voru eftirfarandi orð:

Kvartandi telur að tilgangur sölu Apakaffis í Kolaportinu sé eingöngu sá að eyðileggja fyrir kvartanda þar sem verið sé að selja kaffið langt undir eðlilegu verði og slíkt skaði ímynd vörunnar.

Það var nefnilega það! Þarna stendur svart á hvítu að það er meining innflytjandans að hátt verð sé hluti af ímynd vörunnar! Að það eitt að varan sé fáanleg á lágu verði í Kolaportinu sé til þess að skaða ímyndina ...

Þetta vakti mig til umhugsunar. Er virkilega til fólk sem telur að það sé gæðastimpill á vöru að hún kosti mikið? Getur jafnvel verið að til sé fullt af slíku fólki? Mig hryllir við tilhugsuninni, því annan eins skort á heilbrigðri skynsemi og ... viti er vart hægt að ímynda sér. Hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa? Að Apakaffið (eða hvaða önnur dýr snobbvara sem er) verði sjálfkrafa gott ef það er dýrt? Að það sé 'flott' að borga morð fjár fyrir hlutina? Getur hérna verið komin hugsanleg skýring á okrinu? Að sumir vilji hreinlega borga okurverð, því að það er svo 'flott'?

Æi, ég á afskaplega erfitt með að skilja svona vitleysu. Sjálfur er ég ekki endilega að horfa í aurana; versla bara þar sem mér finnst þægilegast hverju sinni ... en fjárinn hafi það að ég fari að kaupa dýra vöru bara af því að hún er dýr. Ég kaupi það sem mér finnst gott, og það sem ég þarf.

En auðvitað er ég frekar einföld sál ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

jæks hvað ég vona að þetta séu ekki margir, það er ekki hægt að ímynda sér neitt hallærislegra en að kaupa sér vöru af því að hún er dýr. Að gera það ætti að vera skilgreiningin á lúser...

halkatla, 2.10.2007 kl. 15:04

2 Smámynd: Einar Jón

það er ekki hægt að ímynda sér neitt hallærislegra en að kaupa sér vöru af því að hún er dýr.

Amen og hallelúja.  En það er ótrúlegt hversu margir virðast kaupa vörur af þeirri einu ástæðu að þær eru dýrar.

Einar Jón, 2.10.2007 kl. 16:24

3 Smámynd: krossgata

Ég hef einhvern veginn trú á að þetta sé viðhorf meiri hluta verslunarmanna.*  Ég hef ekkert fyrir mér í því annað en verðlag á Íslandi og einhverja algerlega óskilgreinda tilfinningu.

Smá dæmi:  Ef ég kaupi mér 3 geisladiska á netinu fæ ég þá á verði svona eins til eins og hálfs hér heima.  Þá er ég búin að borga tolla af þessum 3 og sendingarkostnað.  Oft segir verslunarfólk að það sé flutningskostnaður og tollar sem orsaka verðið og það hvað Ísland sé lítið.  En verslunin kaupir í meira magni en ég og hefur alls konar afsláttarkjör á flutningi (það hef ég reyndar frá fyrstu hendi).

Þetta hefur gert það að verkum að ég trúi ekki skýringum verslunarfólks.

*Hér er ekki átt við hinn almenna starfsmann í verslunum.

krossgata, 2.10.2007 kl. 17:54

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Það er hálf hlægilegt hvernig þetta er orðað, er Bónus að eyðileggja fyrir t.d. Hagkaup og 10-11 fyrir að selja hinar og þessar vörur ódýrari? Þeir virðast ekki vita af hugtakinu samkeppni, ætli það megi ekki segja að þeir séu bölvaðir apar sjálfir með apakaffið sitt.

Kristján Hrannar Pálsson, 7.10.2007 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband