Guð og keisarinn

Ég skil ekki alveg þessa líkingu hjá Guðna. Jesús rak víxlarana úr helgidómnum af því að hann taldi þá ekki eiga þar erindi; vildi ekki sjá Mammonsdýrkun í húsi föðursins. Hann heimfærir þetta einhvern veginn upp á að taka eigi kristnina úr skólastarfinu. Hvar er samlíkingin eiginlega? Eru ekki allir sammála um að þetta hafi verið gott hjá Jesúsi, að skilja að óskylda starfsemi? Engu að síður virðist Guðni vera á því að þetta sé hið versta mál. Undarlegt.

Jesús boðaði líka að gjalda ætti Guði það sem Guðs er, og keisaranum það sem keisarans er. Önnur vísbending, að mínu mati, um að hann hafi ekki verið hrifinn af því að blanda trúmálum inn í önnur svið samfélagsins, og öfugt. Hið andlega og hið veraldlega virtust að hans mati vera aðskildir heimar.

Í þessu sambandi staldra ég sérstaklega við þessi orð Björns Bjarnasonar:

Sagði Björn að það yrði íslensku þjóðinni til varanlegs tjóns ef hætt yrði að leggja rækt við hinn kristna arf eða drægi úr virðingu fyrir kristni og kirkju. Hins vegar væri álitaefni hverju sinni hvernig haga skuli löggjöf sem treysta eigi grunngildi þjóðarinnar hverju sinni.

Þarna finnst mér votta fyrir ansi alvarlegri forræðishyggju. Er það hlutverk ríkisvaldsins að 'leggja rækt við hinn kristna arf'? Blómstrar kristnin á Íslandi ekki án verndar ríkisins? Verðum við öll að heiðingjum ef ríki verður aðskilið frá kirkju? Minnkar virðingin fyrir kristninni ef ríkisvaldið heldur henni ekki á lofti? Hvernig er það annars; er ekki meirihluti þjóðarinnar kristinn hvort eð er? Eru það ekki mest notuðu rökin fyrir því að hafa þjóðkirkju; að þjóðin sé svo kristin hvort eð er? Hvernig samræmist það þá þeim rökum að allt færi (bókstaflega) til fjandans ef ekki er hér þjóðkirkja með stuðningi ríkisvaldsins? Eru þetta ekki hringavitleysurök?

Eitt síðan varðandi þá afstöðu að löggjöfin eigi að 'treysta grunngildi þjóðarinnar'. Eftir því sem ég best veit er ríkið ekki þjóðin. Þjóðin samanstendur af einstaklingum, sem taka sína afstöðu á sínum eigin grundvelli. Þannig mótar ríkið ekki 'grunngildi þjóðarinnar', né getur það treyst þau - alla vega ekki með góðu móti. Þessi grundvallargildi eru komin frá fólkinu sjálfu, og það erum við, fólkið, sem þurfum að leggja rækt við þau, ef við svo kjósum. Ekkert ríkisvald getur haft úrslitaáhrif þar. Ég vil því ganga enn lengra og Björn, og segja að löggjöf sem treysta á grunngildi þjóðarinnar er marklaus. Að segja að kennsla í skólum þjóðarinnar eigi að mótast af kristilegu siðgæði er álíka marklaust og að binda í lög að allir eigi alltaf að vera glaðir, svo maður taki öfgafullt dæmi. Það er ekki ríkisvaldsins að móta siðgæði fólksins; það kemur að sjálfu sér. Og já, hér á ég líka við um skólana. Skólarnir eru að mínu mati til að kenna krökkum, ekki ala þá upp. Slíkt er hlutverk foreldranna.

Gjöldum keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er. Guð sér um sig og sína. Hann þarf ekki á stuðningi ríkisvalds kristinnar þjóðar að halda.

Eða er það nokkuð?


mbl.is Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð hugmynd að setja í skálnámskrána að allir skuli vera glaðir. Betra en þessi leiðindi. Ekki hægt? Auðvitað er hægt að koma fólki og börnum í gott skap með góðum vilja. Og sá sem heldur að skólinn sé ekki að ala upp börnin okkar ætti að skoða hug sinn betur. Ekki er það betra að börnin ali sig upp sjálf. Foreldrarnir? Eru stundum ekki með börnunum nema 2-4 tíma af vökudegi barnanna. Annars er margt gott í hugleiðingunum, og ég er sammála: Gjalda keisaranum það sem keisarans er, en "keisarinn" á að gjalda Guði það sem Guðs er, ekki satt?

gudni 12.12.2007 kl. 18:11

2 Smámynd: Þarfagreinir

Þakka málefnalega athugasemd.

Kannski var það ofmælt hjá mér að skólarnir eigi alveg að vera lausir við uppeldishlutverk, en það á mínu mati ekki að vera á þeirra ábyrgð fyrst og fremst - og besta leiðin til að ala upp er að kenna, ekki satt? Ekki innræta. Mér finnst fínasta mál að kenna krökkum boðskap Jesús Krists, sem og annarra vitra manna, en að gera honum hæst undir höfði, eða kenna Biblíusögurnar sem staðreyndir, er klárlega brot á trúfrelsinu (að mínu mati). Einnig finnst mér móðgun falin í því að binda siðgæðið sérstaklega við kristnina. Mér er misboðið persónulega vegna þess, þar sem með því er gefið í skyn að ég, sem guðleysingi, sé siðlaus, ekki satt? Aðrir geta haft sína skoðun á þessu máli, en með því að ríkisvaldið styðji þessa hugmynd, að siðgæðið þrífist ekki án kristninnar, eða að kristið siðgæði sé öðru æðra, finnst mér það brjóta gegn mér, og öðrum guðleysingjum.

Og auðvitað geldur keisarinn Guði það sem Guðs er, ef hann svo kýs. Hann gerir það bara sjálfur, persónulega - en blandar ekki keisaradæminu inn í það mál.

Þarfagreinir, 12.12.2007 kl. 18:30

3 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég hikstaði líka dálítið á þessum ummælum. Kannske það sé meiningin, Guðni er á sinn lúmska hátt að benda á vankunnáttu "kristinna" frónbúa á Biflíunni. Svo eftir nokkra daga stekkur hann fram með glott eins og nýkysst belja og hrópar DJÓK!

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 12.12.2007 kl. 23:36

4 Smámynd: halkatla

ég skildi aldrei Guðna og það var alltaf mjög erfitt, þartil bara nýlega að ég skyndilega "fattaði" hann og eftir það finnst mér allt sem hann segir hrein snilld, ég er komin í beljuhópinn sem fílar Guðna svo mikið að hann getur sagt hvað sem er, baulað þessvegna og það er samt kúl (undirniðri veit ég að þessi samlíking og fleira sem hann lét útúr sér er vandræðalega súrt en það breytir engu...)

halkatla, 14.12.2007 kl. 01:23

5 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Gleðileg jól, og takk fyrir góð samskipti á árinu sem er að líða

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 25.12.2007 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband