Hugmyndafræðin fullkomnuð

Ástandið er verra en ég hélt.

Nú þegar hefur dómsmálaráðherrann okkar upplýst, að hans stefna er að afmá þrískiptingu ríkisvaldsins, með því að pota með valdi dómurum inn í dómskerfið, sem ekkert annað gera en að framfylgja hinum strengsta bókstaf laganna - nokkuð sem myndi gera dómara í raun valdlausa og óþarfa, þar sem þeirra viðhorf yrðu þá í algjöru samræmi við viðhorf löggjafans, og þeir yrðu múlbundnir af lögunum sem löggjafinn semur.

Nú hefur dómsmálaráðherrann gengið enn lengra í ofstækisfullri ofurtrú sinni á lögunum:

Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmaður, ritar grein í Morgunblaðið í dag um starfshætti dómnefndar. Hann bendir á, að hlutverk hennar sé að segja álit sitt á umsækjendum um dómaraembætti og spyr, hvaðan hún hafi umboð til að fella dóm um stjórnsýslu Árna M. Mathiesens. Þess sé hvergi getið í reglum um nefndina, að hún hafi umboð til slíkra starfa.

Þorsteinn Einarsson segir í grein sinni:

„Í greinargerð dómnefndar er ráðherra gagnrýndur fyrir ákvörðun sína og á því byggt að ráðherra hafi brotið lög með því að skipa ekki í embættið einn umsækjenda sem dómnefnd mat hæfastan. Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið að fara að umsögn hennar er röng. Dómnefnd misskilur hlutverk sitt og misles einfaldan lagatexta. Lögin eru skýr. Dómnefnd er falið eitt og aðeins eitt hlutverk: Að veita ráðherranum umsögn um umsækjendur, sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekst á hendur það lögskipaða hlutverk sitt að gera upp á milli umsækjenda. “ (Feitletrun Bj. Bj.)

Hvenær skyldi fréttastofa sjónvarps eða ritstjórn Kastljóss segja frétt af þessari grein Þorsteins Einarssonar eða láta ræða efni hennar? Þorsteinn er jú hæstaréttarlögmaður eins og Ástráður Haraldsson. Er það kannski málstaðurinn sem stjórnar ákvörðunum hjá hinu óhlutdræga RÚV?

Það sem Þorsteinn þessi Einarsson er þarna í rauninni að segja, og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tekur undir sem sannleika, er að þar sem nefndin hafði enga skýra lagaheimild til að tjá sig opinberlega, þá átti hún ekkert með það að vera að því!

Ég endurtek: Björn Bjarnason dómsmálaráðherra virðist vera þeirrar skoðunar, að ákveðnir menn megi ekki tjá sig opinberlega, nema þeir hafi til þess skýra og beina heimild í lögum!

Lögin eru skýr. Þau eru það eina sem skiptir nokkurn tímann máli. Nefndin á að veita umsögn, og halda kjafti. Enginn er hins vegar beinlínis skyldaður með lagabókstafnum til að fara að neinu leyti eftir þessu áliti, þannig að ráðherra getur hundsað það að vild. Þannig er viðhorfið.

Mér er fyrirmunað að skilja þá sturlun, sem liggur að baki því viðhorfi, að hin eina skylda nokkurs manns í stjórnkerfinu eigi að vera að framfylgja hinum strengsta bókstaf laganna. Þegar haft er í huga, að löggjafinn (sem er mjög svo blandaður framkvæmdarvaldinu hérlendis) semur þessi sömu lög, þá er komið kerfi, þar sem allir eru algjörlega múlbundnir af lögum, sem tiltölulega fámennur hópur semur - og enginn, þar með talinn þessi hópur, er skyldaður til neins annars en að fara eftir lögum!

Frekari sannanir þess efnis, að þetta viðhorf ríkir hjá ráðherrum okkar, má finna í því, að þeir hafa gengið fram með ósannindum og blekkingum í málflutningi sínum í kringum 'Þorsteinsmálið', og hafa almennt séð ekki sýnt því neinn áhuga, að ræða málið á sönnum forsendum, en búa þess í stað sér til sinn eigin veruleika, sem þeir reyna að þröngva upp á almenning. Þetta virðist benda eindregið til þess, að þeir telji, að þeim sé frjálst að haga sér eins og þeim sýnist, svo lengi sem þeir brjóta ekki þau lög sem þeir sjálfir semja.

Björn Bjarnason hefur nú bæst í hóp þeirra sem virðast beita blekkingum til að fegra málstað sinn í þessu máli. Það sem hann hefur hér eftir Þorsteini Einarssyni sem sannleika, „Í greinargerð dómnefndar er ráðherra gagnrýndur fyrir ákvörðun sína og á því byggt að ráðherra hafi brotið lög með því að skipa ekki í embættið einn umsækjenda sem dómnefnd mat hæfastan. Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið að fara að umsögn hennar er röng., er nefnilega ekkert annað en hrein og klár ósannindi - því hvergi í greinargerð nefndarinnar kemur það nokkurs staðar fram, að nefndin telji að Árni Mathiesen hafi brotið nokkur lög, né heldur er þar því haldið fram, að honum hafi verið beinlínis skylt að fara eftir umsögn nefndarinnar! En auðvitað setur Björn þetta svona upp, væntanlega bæði vegna þess að það hljómar betur, og vegna þess að ekki getur það nú verið, að nokkur maður geti gagnrýnt nokkurn annan mann fyrir neitt annað en lögbrot ... er það nokkuð?

Lögin eru allt.

Svona eru viðhorf dómsmálaráðherrans.

Hversu margir samherja hans fylgja honum hér að máli?

Ætlar almenningur að láta bjóða sér þetta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gummih

Spurningin er líka hversu lengi flokksmenn muni láta bjóða sér þetta - hversu margir þeirra sem strikuðu Björn Bjarnason út í síðustu kosningum urðu reiðir þegar atkvæði þeirra var látið telja til áframhaldandi starfa hans?
Enn og aftur gremst mér valdahafapólitík Björns Bjarnasonar þar sem allt snýst um rétt valdhafans til að beita valdi sínu og auka völd sín.

gummih, 18.1.2008 kl. 14:09

2 identicon

Líttu á Þarfagreinir:

nú hefur annar D-maður lokað á mig: konu sem aðhyllist í flestum efnum stefnu D (en þó ólíkt sumum ekki D sem söfnuð hafinn yfir gagnrýni), í þetta sinn er það Sveiflan (Hjörtur) sem þolir ekki gagnrýni innan frá.

Þér þætti eflaust athyglisvert að sjá hvað lítið þarf til að vera vísað frá umræðu (seinni grein hans um dómaramálið) af verjendum Þorsteinsmáls. 

olof magnusson 18.1.2008 kl. 18:40

3 identicon

Þú mættir gjarnan gera mér þann greiða að benda lesendum Þorsteinsmáls á síðu Sveiflunnar á að  Hjörtur hafi kosið, fremur en að svara skýrum, einföldum spurningum mínum, að losa sig í eitt skipti fyrir öll við mínar óþægilegu athugasemdir. 

Og getur ekki vísað til þess að ég sé orðljót.  

En vissulega (sbr Þorsteinsmál): hann hefur VALD til að loka á þá sem honum sýnist.

olof magnusson 18.1.2008 kl. 18:50

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og þú (et tu!), Ólöf, sem sagðir Hirti í einum pósti þínum, að hann væri þinn eftirlætisbloggari! – En þeim lesendum, sem ókunnugt er um málflutning Ólafar, get ég bent á þennan útdrátt minn: Sterk siðvæðingarrödd innan Sjálfstæðisflokks: Ólöf Magnússon, og tengil þar á meira efni.

Jón Valur Jensson, 18.1.2008 kl. 22:46

5 identicon

 Jón:

Ég sagðist já hafa aðspurð nefnt hann sem minn eftirlætisbloggara.

En þá - er ég var að hrósa honum - hafði ég reyndar lítið lesið af bloggi, en séð til Hjartar í góðum rimmum gegn femínistum og (öðrum) vinstri mönnum.

En þeir eru nú nokkuð margir D-mennirnir sem lækka í áliti hjá mér þessa dagana: þeir sem stíga á stokk með (svo vísað sé til þín Jón)  nýju-fötin-keisarans-rök til varnar ráðningunni.

Því þau varnarrök sem ég hef heyrt eða lesið í þessu máli misbjóða mér jafnt sem vitsmuna- og siðgæðisveru.

olof magnusson 19.1.2008 kl. 00:21

6 Smámynd: Þarfagreinir

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 03:20

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér gott svarið, Ólöf, og ég skil þig vel. – Ekki var gott að hlusta á hana nöfnu þína Nordal í þættinum Í vikulokin hjá Hallgrími Thorsteinsson á Rás 1 nú fyrir hádegið. M.a. kallaði hún dómnefnina "ráðgjafarnefnd" fyrir ráðherrann, það var einn þáttur í spunanum. – En nú fer ég að líta á þessi skrif hans Sigurðar Kára. Þó eitt að lokum: Var Hjörtur búinn að loka á þig, Halldór þarfagreinir, og þá fyrir hvaða 'sakir'?

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 12:53

8 Smámynd: Þarfagreinir

Það sem fjölmiðlar verða einfaldlega að gera er að átta sig á hversu alvarlegur málflutningur Björns Bjarnasonar er og taka á honum!

Ef fjölmiðlar ætla bara að taka þessu þegjandi, er ekki hægt að líta svo á sem að fjölmiðlar séu neitt annað en valdalaust tæki yfirgangsstjórnar! 

Hjörtur hefur annars ekki lokað á mig að mér vitandi - en ég hef ekki verið að skrifa margar athugasemdir hjá honum undanfarið.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 13:33

9 identicon

Þið ættuð nú að sleppa því að skrifa einhverjar ath hjá honum Hirti! Hvað þá lesa eitthvað eftir hann.. Maðurinn er brandari... Tekur ekki afstöðu í þessu máli en er duglegur að berjast hetjulega fyrir flokkinn við þá sem eru ekki sammála þessari ráðningu. Og hann heldur áfram:

"Það hlýtur að vera hverjum manni í sjálfs vald sett hvort og þá hvenær og að hvaða skilyrðu uppfylltum hann myndar sér skoðun á einhverju. Enginn er í þeirri stöðu að geta krafizt þess að annar einstaklingur myndi myndi sér skoðun á einu eða neinu "

GOTT OG VEL HJÖRTUR.

Hann er sem sagt enn þá að mynda sér skoðun á þessu máli og hugsanlega munum við aldrei lesa um hana! En ég get ekki séð að maðurinn sé hlutlaus! Þeir fá að heyra það frá honum sem eru á móti þessari embættisveitingu hans Árna og klapp á bakið við þá sem styðja hann. Svo segist Hjörtur að hann sé að mynda sér skoðun í þessu máli! Hehehe

Þröstur Halldórsson 19.1.2008 kl. 15:00

10 Smámynd: Þarfagreinir

Æi, það er gaman að rífast. En ég er sammála þér Þröstur - þetta er frekar tilgangslítið.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 15:22

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, þetta er ekki tilgangslítið, Þarfagreinir! Ertu að slakna í baráttunni?

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 16:11

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég smellti inn athugasemd hjá sigurði kára.. verður gaman að sjá hvort hún fái að standa.

Óskar Þorkelsson, 19.1.2008 kl. 17:52

13 Smámynd: Þarfagreinir

Haha nei Jón Valur minn. Ég á bara við að það er farið að verða tilgangslítið að reyna að ræða við suma, sem eru augljóslega ekki á þeirri línu að ræða málin af alvöru, heldur bara verja sína valdaklíku.

Ég þakka annars ómetanlegan stuðning þinn í þessari baráttu, og vona að þið séuð í miklum meirihluta innan Sjálfstæðisflokksins, sem setja siðferðið og heill þjóðarinnar á efsta stall. Vonandi verður almennilega tekið á þessu innan flokksins, því í honum er margt gott.

Og já - athugasemdin þín fékk að standa hjá Sigurði Kára eins og allar hinar, Óskar, sem er vel. Þetta mál verður ekki þaggað niður með valdi. 

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 19:21

14 Smámynd: halkatla

þú:

halkatla, 19.1.2008 kl. 19:22

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Sigurður Kári er blessunarlega opnari fyrir innleggjum en sumir pólitíkusarnir, sem skrifa á Moggavefinn – eða t.d. hann Eiríkur Bergmann (sem er nú auðvitað Großpolitiker í raun). Annar, sem hefur opið hjá sér, er hann Óli Björn Kárason, og svo lengi hefur hann þagað í allan dag við þessu innleggi mínu, að halda mætti, að hann hafi engin svör.

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 23:40

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Höldum þessu málefni vakandi, Halldór, á næstunni, þrátt fyrir mikla viðburði í borgarmálum, sem sumir myndu eflaust vilja, að verði til þess, að þetta hneykslismál gleymist og "fyrnist"!

Annars var ég að leggja inn eftirfarandi aths. á annarri vefslóð: 

Össur Skarphéðinsson var trúlega að reyna að réttlæta það að veita karlmanni, samherja hans, embætti orkumálastjóra, með því að veita kvenmanni, þótt ólærð sé í ferðamálafræðum, þetta embætti [ferðamálastjóra]. Hvað kemur líffræðiþekking ferðamálafræðum við? Og hvernig gerir BA-próf í dönsku kvenmann færari um að vera fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins heldur en langtíma fjölmiðlareynsla mestu fréttahauka landsins, sem sóttu um það starf hjá Ingibjörgu Sólrúnu, en fengu ekki? – Samfylkingin er með allt niðrum sig í þessum málum, þótt það jafnist ekki á við skammarstrik Árna Mathiesen í dómaramálinu

Jón Valur Jensson, 22.1.2008 kl. 03:58

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jón Valur Jensson, 22.1.2008 kl. 04:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband