Af hnattrænni hlýnun

Ég hef lengi gengið með ítarlegan pistil um kenninguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum (hér eftir kölluð ýmist 'kenningin um hnattræna hlýnun', eða bara 'kenningin', þegar ljóst má vera af samhenginu hvað átt er við) í maganum. Þar er margt sem mig langar að koma á framfæri, og í ljósi umræðunnar vegna komu Als Gores hingað til lands tel ég daginn í dag ágætan til að gera tilraun til þess. Ég mun brjóta greinina upp til að aðskilja mismunandi hugrenningar, og reyna að hafa framsetninguna sem agaðasta og rökréttasta - því ég hef margt að segja, en vil ekki drekkja lesendum með óþarfa vaðli. Ég vona að það takist, þó ég sjái fram á að greinin verði ekki beinlínis stutt.

Grunnorðið er Vísindi

 

Frá unga aldri hef ég heillast af hinum vísindalega hugsanahætti. Undur þau sem vísindin hafa leitt í ljós um heiminn tel ég með allra merkilegustu afrekum í sögu mannkynsins. Ekki má heldur gleyma því að öll þau tæki og tól sem við tökum núorðið sem sjálfsögðum hlut eru til komin vegna vísindanna. Uppfinningar verða ekki til fyrir tilviljun. Forsenda þeirra eru vísindalegar rannsóknir og kenningar. Til þess að búa til hlut verður maður fyrst að vita hvernig hann á að virka. Til að vita hvernig hlutir eiga að virka verður maður að skilja heiminn, eða alla vega þá hluta hans sem lúta að hlutnum. Þannig hefðu tölvur til að mynda aldrei orðið til án til að mynda þess stærðfræðikerfis sem George Boole lagði grunn að. Eða þá framlags manna á borð við James Clerk Maxwell til rafmagnsfræðanna. Eða þá fyrstu 'tölvanna' sem til að mynda Charles Babbage hannaði. Þannig mátti áfram telja.

Gott og vel. Við vitum að vísindi eru nauðsynleg forsenda uppfinninga og framfara. En hvað eru vísindi, nákvæmlega? Þegar sú spurning er borin upp er ekki víst að allir geti svarað henni svo nákvæmlega. Það er nefnilega svo að í umræðunni virðast allir hreinlega ekki hafa það á hreinu hvað vísindi eru. Orðalag á borð við að eitthvað (til að mynda kenningin um hnattræna hlýnun af mannavöldum) sé 'bara kenning' sem 'hefur ekki verið sönnuð' varpar til dæmis ljósi á slíka vanþekkingu. Staðreyndin er nefnilega sú að 'bara kenningar' er það sem vísindi snúast um. Kenningar eru kjötið sem vísindamenn nærast á. Án kenninga væru vísindin lítið annað en naglasúpa. Skilgreiningin á vísindalegri kenningu er nokkurn veginn svona: "Heildstæð útskýring á einhverju fyrirbæri, sem byggð er empírískum athugunum, og sem hefur forspárgildi". Hér eru 'empírískar athuganir' og 'forspárgildi' lykilþættir. Með empírískum athugunum er átt við mælingar, sem vitaskuld fara í gegnum skynfæri vísindamanna, en þær eru líka byggðar á tölum; einhverju mælanlegu. Með forspárgildi er átt við að með kenningunni má spá fyrir um hvað muni gerast við ákveðnar aðstæður.

Við getum tekið dæmi af þyngdaraflskenningunni, sem Sir Isaac Newton setti fyrstur manna fram. Raunar var sú kenning vitaskuld ekki nema hluti af mjög heildstæðu kenningakerfi sem Newton vann alla sína ævi að - en þyngdaraflið er (nú í dag, þökk sé vísindunum) einfalt fyrirbæri, og því ágætt dæmi. Nú er það alþekkt og einföld staðreynd að hlutir falla til jarðar þegar þeim er sleppt; að hlutir dragast að jörðinni. Þetta hefur verið vitað frá örófi alda. Hins vegar tók það mannkynið alllangan tíma að setja fram heildstæða kenningu sem lýsir þeim krafti sem þar er að verki nákvæmlega, og tengja hann við hreyfingar plánetanna. Núorðið er það alþekkt staðreynd að pláneturnar eru kúlur sem snúast hver um aðra, vegna þess sama þyngdarafls og heldur okkur föst við jörðina. Einnig eru nú ýmsir eiginleikar þessa krafts þekktir, svosem sú staðreynd að máttur hans minnkar sem hlutfall af fjarlægð í öðru veldi - sumsé, eftir því sem hlutir fjarlægjast, þá hefur fjarlægðin ekki línuleg áhrif á þyngdaraflið á milli þeirra, heldur veldisáhrif (Þetta gildir annars líka um marga aðra krafta sem hefur verið lýst með vísindalegum kenningum). Þetta fékk Newton út með mælingum (empírískum athugunum), og það hefur verið staðfest með fleiri mælingum (forspárgildi). Þetta held ég að undirstriki þá staðreynd að kenning er, aftur, rökfræðikerfi byggt á mælingum, sem útskýrir af hverju mælingarnar eru til komnar, og segir til um niðurstöður annarra mælinga fyrirfram.

 

Kenningin um hnattræna hlýnun í vísindalegu tilliti

 

Nú þegar ég hef (vonandi) útskýrt í hæfilega grófum dráttum hvað vísindi snúast um, og sér í lagi hvað vísindalegar kenningar snúast um, er komið að því að yfirfæra þetta yfir á kenninguna um hnattræna hlýnun. Það ætti að koma fáum á óvart að þetta geri ég með því að benda á að kenningin um hnattræna hlýnun byggist á mælingum, og henni er ætlað að hafa forspárgildi. Henni er hins vegar ekki ætlað að 'sanna' eitt né neitt, né vera endanlegur dómur um eitt né neitt að neinu leyti. Hún er ekki heilagur sannleikur, og hún er jafn opin fyrir gagnrýni og allar aðrar kenningar. Hins vegar skiptir afar miklu máli á hvaða forsendum vísindalegar kenningar eru gagnrýndar.

Kenningin um hnattræna hlýnun er með þeim vísindakenningum sem almenningur þekkir hvað best - hún hefur eðlilega ratað inn í almenningsumræðuna og pólitíkina, þar sem það sem hún spáir fyrir um er víðtækt, truflandi, og eðlilega umdeilt. Því er eðlilegt að alls kyns spuni fari fram í kringum hana, á báða bóga. Bæði þeir sem 'aðhyllast' kenninguna og þeir sem 'efast' um hana nota oft orðalag og röksemdir sem hafa lítið með kenninguna sjálfa að gera; vísindin sjálf sem liggja að baki. Þannig er hræðsluáróður um þann voða sem steðjar að algjörlega ótengdur kenningunni sem slíkri, í raun og veru. Hið sama gildir um 'samsæriskenningar' um einhverja allsherjarklíku sem þrífst á þeim 'bransa' sem sumir vilja meina að hafi myndast í kringum kenninguna; að þetta sé bara pólitík, áróður, og gervivísindi. Málið er nefnilega að ef menn vilja kalla eitthvað gervivísindi, þá ber að sýna fram á það með vísindalegum rökum.

Í almenningsumræðunni, sem maður verður svo oft var við (oftast á þeim nótum að kenningin er dregin rækilega í efa), fer nefnilega sjaldnast mikið fyrir umræðu um vísindin sjálf. Þess í stað eru menn miklu frekar í ódýrum skotum og undarlegum rökum á borð við það, hversu margir vísindamenn styðja hvort 'liðið'. Umræðan er því á pólitísku sandkassaplani. Það er enginn hroki falinn í því að benda á að slíkt á ekki við í umræðu um vísindi. Þetta er bara einföld staðreynd - vísindamenn hafa sett fram ákveðna kenningu, sem smíðuð er með aðferðum vísindanna. Vísindin hafa, að ég tel, áunnið sér það mikla virðingu í gegnum mannkynssöguna að þau verðskulda að þeim sé sýnd virðing. Ekki nema með því að afskrifa alla þá sem halda fram kenningunni um hnattræna hlýnun sem vísindamenn með öllu (sem sumir gera nú reyndar vissulega) er hægt að koma sér hjá þeirri kvöð að kynna sér vísindin sjálf áður en maður getur verið raunverulega dómbær á réttmæti þeirra. Vísindin hafa sannað sig, þó þau séu kannski því miður oftar en ekki misskilin nú á tímum hátækni. Vísindin eru nú í dag það sjálfsagður hlutur að fólk veltir þeim lítt fyrir sér. Þau eru ekki svo sýnileg meðalmanninum, sem þekkir miklu frekar pólitík og hugmyndafræði. Já - og tæknina sem hann notar, en veltir sjaldnast fyrir sér hvaðan er komin.

 
Als þáttur Gores

 

Vegna þess hversu fyrirferðarmikil persóna Al Gore er í umræðunni um kenninguna er víst nauðsynlegt að taka hann aðeins fyrir. Í ljósi þess sem fram kemur hér að ofan er hann hins vegar fljótafgreiddur - persóna hans og málflutningur kemur kenningunni nákvæmlega ekkert við. Hann er hægt að mæra eða níða eins og menn vilja; en slíkt breytir engu um gildi kenningarinnar til eða frá. Al Gore er bara einn maður, og því jafn merkilegur eða ómerkilegur og hver annar í vísindalegu tilliti. Hann tengist reyndar kenningunni á þann hátt að hann hefur farið mikinn í að útskýra hana fyrir almenningi, og búa til hugmyndafræði í kringum hana, en enn og aftur - slíkt hefur ekkert um kenninguna sjálfa að segja.

 

Léleg 'vísindarök'

 

Þá hef ég vonandi afgreitt það að alvöru umræða um vísindalega kenningu getur ekki átt sér stað nema á grundvelli hennar sjálfrar. Vitaskuld hef ég væntanlega ekki sannfært nærri því alla lesendur um þetta, né geri ég mér neinar grillur um að þessi pistill minn muni koma til með að breyta nokkru um umræðuna sjálfa. Þetta er hins vegar mitt eigið rökstudda viðhorf, sem ég má til með að koma á framfæri og impra á, í þeirri veiku von um að það vekji einhverja til umhugsunar.

Vissulega er þó ekki öll umræða um kenninguna á óvísindalegu plani. Þó er jafnvel sú umræða sem er á vísindalegu plani (eða nálgast það að vera á því plani) oftar en ekki óvönduð. Til dæmis sér maður stundum þau 'rök' að staðbundnir kuldar hér og þar afsanni kenninguna. Þetta má til dæmis sjá í íslensku netumræðunni nú í dag, þegar snjóaði hér á skerinu í apríl. Hjá sumum er þetta reyndar ódýrt skens, en hjá öðrum virðist vera alvara að baki. Þessi rök eru af sama meiði og þau að síðastliðinn vetur var óvenju harður víða um heim. Hér gætir einfaldlega misskilnings um kenninguna. Hvergi hef ég séð þess getið að meðal þess sem hún spáir fyrir um sé 'aldrei mun snjóa framar á Íslandi í apríl', eða þá 'vetrar munu verða sífellt mildari og mildari um allan heim'. Svona 'rök' eru því barnaleg, og sýna einna helst grunnhyggni þeirra sem þeim beita. Það er afskaplega einfalt að þykjast vera sniðugur með því að benda á 'mótsagnir' á borð við þessar, en með þeim er engum greiði gerður. Að afgreiða heila vísindakenningu með þessum hætti er lélegt innlegg í umræðuna.

Svo fleiri dæmi séu tekin, þá eru það til að mynda oftar en ekki léleg rök að tala um áhrif sólarinnar á veðurfar; að þau séu miklu meiri en áhrif gróðurhúsalofttegunda. Þau eru nánar til tekið léleg þegar engar frekari tilraunir eru gerðar til að sýna fram á þetta með tölum, eða öðrum vísindarökum. Ef fullyrðingar á borð við þessa eru ekki studdar rökum, þá er ekki hægt að líta öðru vísi á slíkan málflutning en að hann byggist á óskhyggju, eða annarri fyrirfram mótaðri hugmyndafræði; "Ég vil að/tel ekki að maðurinn geti haft svona mikil áhrif á umhverfið, og þess vegna er kenningin um hnattræna hlýnun röng". Raunar eru þetta mjög algeng 'mótrök', hvort sem minnst er á hugsanleg áhrif sólar eður ei - en þau hafa ekkert að segja í vísindalegu tilliti. Hinn efnislegi heimur er að miklu leyti eins og vísindin segja að hann sé, sama hvað fólki kann að finnast um það. Einhverjum kann að finnast það bjánalegt og ótrúlegt að hraði hafi áhrif á tímann, eins og afstæðiskenningin segir til um, en engu að síður er sú kenning studd ótal mælingum. Enn og aftur skal áréttað að til að andmæla vísindalegri kenningu ber að gera það á grundvelli vísinda. Annað er hjóm eitt.

Dæmi um ásættanleg rök er til að mynda þegar talað er um að heildarhitastig Jarðar hafi ekki farið svo hækkandi undanfarin x ár - því það er einmitt eitt af því sem kenningin segir víst að eigi að gerast ár eftir ár. Þetta eru því góð og gild rök, sem ræða má um - rökræða það hversu mikið hitastigið hafi farið hækkandi, og hversu mikil áhrif það hefur til veikingar kenningarinnar, ef ljóst er að hækkunin hefur ekki verið mikil á einhverju nýliðnu tímabili. Einnig eru það ásættanleg rök að draga einhvern þátt kenningarmódelsins í efa, svo sem þá staðhæfingu að gróðurhúsalofttegundir festi hita inni í andrúmsloftinu, eða þá nákvæmlega hversu mikil áhrif þær hafa þá á hitastigið - en ekki hefur mér fundist fara mikið fyrir slíkum rökum í umræðunni, og ef þau koma fyrir, þá eru þau sjaldnast mjög ítarleg, né studd miklum gögnum.

Lesendur sjá væntanlega eðlismuninn á þessum gerðum raka. Lykilatriðið að rökin snúist um það sem kenningin sem slík á að segja til um, og þær vísindalegu forsendur sem hún byggist á, en ekki aukaatriði, útúrsnúninga, eða þá bara misskilningi á eðli kenningarinnar.

 

Lærdómurinn

 

Hér ætla ég að láta staðar numið, enda held ég að ég hafi komið aðalatriðinum á framfæri. Virðing fyrir vísindunum og skilningur á eðli þeirra er hér aðalmálið sem ég vil vekja fólk til umhugsunar um. Vísindin eru því miður ekki sjálfsagður hlutur, og mér finnst heldur halla á þau í nútímasamfélagi. Almenningur kynnist aðallega afrakstri þeirra, tækninni, en minna fer fyrir því að ræða það sem tækninni er til grundvallar. Hvernig við hugsum um heiminn skiptir gríðarlega miklu máli - og sjálfur tel ég að hin vísindalega aðferð sé þar afskaplega gott og þarft tól. Stundum þarf bara að skerpa á því. Má vera að menntakerfið hafi þar brugðist, enda fannst mér sjálfum í minni skólagöngu að vísindakennsla hafi frekar snúist um þurrar staðreyndir og útreikninga, en kennslu á grundvallaratriðum á borð við hina vísindalegu aðferð (mælingar - kenning - mælingar), eða þá hinum vísindalega þankagangi almennt. En vitaskuld er menntakerfið oftar en ekki hentugur blóraböggull fyrir hvað það, sem fólki finnst vera athugavert við samfélagið. Aðalsökin hlýtur að liggja hjá okkur sjálfum, og hér þarf hver að líta í eigin barm.  Ég vona að þessi pistill hafi hjálpað einhverjum til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Guðmundsson

þetta er mjög fínn pistill.

Ég hef ekkert við þetta að bæta en þetta minnti mig svolítið á þennan brandara:

http://xkcd.org/397/

...spurning hvar string theory passar inn í þessar pælngar? :D 

Aðalsteinn Guðmundsson, 9.4.2008 kl. 13:17

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Er vandinn ekki einmitt sá að hér ræðir ekki um neina kenningu, heldur tilgátusafn, sem mönnum er ætlað að taka afstöðu til? Vísindakenning þarf að vera studd athugunum, tilgreina annmarka sína og afsönnunarskilmála. Vísindakenning er ekkert gisk, heldur kerfisbundin útskýring á fyrirbærum, sem staðist hefur allar prófanir og tilraunir, sem unnt er að endurtaka. Tilgátur eru ekki háðar sams konar takmörkunum en fyrir vikið er lítið hægt að gera með þær í vísindalegu tilliti, þó þær get dafnað í pólitískum skilningi (eða misskilningi).

Því stöndum við frammi fyrir þeim einkennilega veruleika að fylgjendur tilgátunnar um hnattræna hlýnun af mannavöldum hafa nánast snúið sönnunarbyrðinni við. Þess vegna megum við nú þola það að það sé sett fram sem röksemd fyrir tilgátunni að svo og svo mörg prósent hins óljósa lýðmengis „vísindamanna“ aðhyllist kenninguna. En það er einmitt punkturinn við empírísk vísindi, að þau eru ekki vinsældaval. Merkilegustu uppgötvanir mannsins hafa enda einatt orðið með þeim hætti að alger minnihluti vísindamanna, jafnvel aðeins einn einasti, hefur kollvarpað viðteknum skoðunum með því að sýna fram á að þær voru rangar.

Al Gore og félagar hefðu ekki notið mikilla vinsælda hjá Karl R. Popper, sem manna skynsamlegast hefur skrifað um hina vísindalegu aðferð.

Andrés Magnússon, 9.4.2008 kl. 15:44

3 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Mjög upplýst og skilmerkileg grein

Róbert Badí Baldursson, 9.4.2008 kl. 15:51

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill eins og vænta mátti.

ég hef undir höndum mjög athyglisverða skýrslu um umhverfismál sem gekk meðal norskra atvinnulífstoppa og stjórnmálamanna í febrúar og er á pdf formi. Hún er á norsku en ef einhver hefur áhuga á að lesa skýrsluna, 20 mínútna lesning, þá skal ég senda viðkomandi emil með skjalinu.  Hún varpar ljósi á margt og fær mann til að efast um margt sem maður var fullviss um áður.

skari60@hotmail.com

Óskar Þorkelsson, 9.4.2008 kl. 17:11

5 Smámynd: Þarfagreinir

Aðalsteinn:

Já, xkcd stendur allt fyrir sínu - og strengjakenning er auðvitað aðallega súrrealismi!

Andrés:

Það er að vissu leyti réttmæt gagnrýni að benda á að 'hnattræn hlýnun' er ekki kenning, alla vega ekki í jafn ströngum skilningi og til að mynda eðlisfræðikenningar. Hins vegar er heldur ekki alveg rétt að kalla þetta 'tilgátusafn', þar sem 'tilgáta' er í vísindalegu tilliti eitthvað sem hefur ekki verið sannreynt með tilraunum eða athugunum. Hér er ágætis skýring á muninum á kenningu og tilgangi, og þarna er hlekkjað yfir á þetta svar á Vísindavefnum, þar sem að vísu er talað um þróunarkenninguna, en þessar skýringar held ég að megi heimfæra yfir á loftslagsfræðin, þar sem í báðum tilfellum er um að ræða flókin kerfi sem erfitt er að gera beinar, einfaldar tilraunir með. Þetta þýðir hins vegar hvorki að ekki sé hægt að gera tilraunir til að sannreyna hinar og þessar tilgátur í tilgátukerfinu upp að einhverju marki, né heldur að ekki sé hægt að færa empirísk rök fyrir réttmæti þeirra. Svo lengi sem tilgáta hefur eitthvað forspárgildi, þá getur orðið hún að gildri kenningu, ef hún uppfyllir þær spár sem í henni felast. Þannig er einn grundvöllur loftslagsfræðanna til að mynda kenningin um sjálf gróðurhúsaáhrifin, sem fyrst var sett fram sem tilgáta af Joseph Fourier árið 1824, og hefur síðan þá fyrir löngu öðlast sess kenningar. Þannig eru gróðurhúsaáhrifin sem slík óumdeild. Tölurnar um hlýnun Jarðar eru til að mynda einnig lítt umdeildar.

Það sem er hins vegar (líklega réttilega) að einhverju leyti umdeilt eru nánari útfærslur á gróðurhúsakenningunni, og nákvæmlega hvaða áhrif mannleg mengun hefur á hitastig Jarðar, til að mynda sem hlutfall af öðrum þáttum sem mannlegur máttur fær ekki ráðið við. Það er alveg rétt að þar verða hlutirnir aðeins loðnari; mikið fer eftir þeim forsendum þeim menn gefa sér, og þeim tölvumódelum sem stuðst er við. Að vissu leyti má segja að módelin séu ígildi tilrauna, en þau eru þeim annmörkum háð að um þau gildir Garbage in, garbage out; gildi þeirra fer mikið eftir því hvernig þau eru forrituð, og þeim forsendum sem menn gefa sér. Þó má nefna að unnt er að styðjast að miklu leyti við hörð tölfræðileg gögn þegar forsendurnar eru metnar.

Það er margt sem getur klikkað í þessu; til dæmis er ekki nóg að hitastigið fari hækkandi - það þarf að sýna fram á orsakasamhengi milli hækkunarinnar og mengunarinnar (sem að vissu leyti er reyndar nú þegar til staðar í hinni óumdeildu gróðurhúsakenningu). Svo er ekki einfalt mál að reikna út afleiðingar slíkrar hitahækkunar, þó ljóst sé í grófum dráttum að þær eru í heildina séð ekki jákvæðar.

Sá punktur að menn séu að nota 'vinsældakosningar' sem rök fyrir sínu máli er síðan algjörlega góður og gildur, og hluti af því sem ég er að gagnrýna í pistlinum.

Það er líka rétt að það hefur oftar en ekki gerst að ríkjandi viðhorfum hefur verið kollvarpað af fáum eða einum, sem setja fram ný sjónarhorn. Eitt frægasta dæmið um slíkt er líklega sjálfur Albert Einstein. Áður en hann setti fram afstæðiskenningu sína var það nánast ríkjandi viðhorf í eðlisfræðinni, að flestallt hefði verið uppgötvað sem ætla mætti, og að eftirleiðis myndi eðlisfræðin fyrst og fremst snúast um að fínstilla fasta. Hins vegar má benda á að Einstein afnam í raun fátt af því sem áður hafði fram komið - hann útvíkkaði það frekar og sameinaði; kom með betri og heilsteyptari kenningu, sem útskýrði heiminn betur og nánar. Þannig afsannaði Einstein til að mynda í raun ekkert af því sem Newton hafði sett fram, heldur sýndi fram á að hans kenningar stóðust ekki í öllum tilfellum; voru ekki nógu ítarlegt módel af heiminum. Ekki rangt módel, heldur ónákvæmt. Ég held að færri dæmi séu um það að ríkjandi kenningum, sem lengi hafa verið við lýði, hafi verið kollvarpað með öllu, þó auðvitað sé slíkt alls ekki útilokað - dæmi um slíkt væru síðan vel þegin. En - enn og aftur, þá er það hversu vinsælar ákveðnar kenningar eru, í besta falli ákveðin vísbending um réttmæti þeirra, en alls ekki neinn Stóridómur. Ég skil vel að mörgum gremjist slíkt og kalli það lýðskrum og fleira ljótt.

Því er um að gera að hlusta á alla þá sem eru á öndverðum meiði, og eru með aðrar tilgátur (eða jafnvel kenningar) sem gefa hugsanlega betri mynd af loftslaginu og hitastigi þess en hinar ríkjandi kenningar - en þeir að gangast við alveg sömu viðmið og hinir, sem hafa fjöldann með sér. Vísindaleg rök ber að meta sem slík, hvað sem öllu öðru líður.

Annars játa ég að mér finnst einfaldasta viðhorfið vera að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Ég er enginn sérfræðingur í hnattrænni hlýnun, og held ég muni aldrei nenna að verða það, og því hef ég takmarkaða getu eða áhuga til að ræða vísindin sjálf til hlítar - ég tel að þau eigi réttilega heima hjá sérfræðingum á sviðinu. Og nei, það er engin skömm að því að mínu mati að fela ákveðin mál í hendur sérfræðinga - sérhæfing er það sem nútímasamfélag gengur út á, ekki satt?

Önnur rök fyrir því að draga úr menguninni eru að ljóst að olía og kol eru ekki endalausir orkugjafar hvort eð er, og því hlýtur að mínu mati að vera markmið í sjálfu sér að draga úr notkun þeirra eftir fremsta megni. Þetta er hins vegar miklu flóknara en það hljómar, og það er hér sem pólitík og efnahagsmál fara réttilega að spila ansi stóran þátt. Hvað skal gera, og hvernig? Hreint ekki auðsvaranlegar spurningar, og svörin fara að miklu leyti eftir þeim sem svarar.

Róbert: 

Takk fyrir það. Ég vandaði mig líka.

Óskar:

Það væri áhugavert að sjá þessa skýrslu, enda er ég slarkfær á norskuna. Má alla vega láta á það reyna. Ég sendi þér póst.

Þarfagreinir, 9.4.2008 kl. 17:38

6 Smámynd: Þarfagreinir

Smá leiðrétting: Þar sem í fyrri athugasemd segir 'ágætis skýring á muninum á kenningu og tilgangi' á vitaskuld að standa 'ágætis skýring á muninum á kenningu og tilgátu'.

Þarfagreinir, 11.4.2008 kl. 11:59

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hvernig fannst þér lesturinn á skýrslunni ?

Óskar Þorkelsson, 11.4.2008 kl. 19:22

8 Smámynd: Swami Karunananda

Þú ert mikill snillingur, bróðir kær. Skrif þín hafa þann aðdáunarverða en alltof sjaldgæfa eiginleika að sameina dýpt í hugsun og skýrleika í framsetningu.

Varðandi innihald þessa pistils þá verð ég að játa fáfræði mína og vangetu til að segja nokkuð af viti um það. En ég er hjartanlega sammála ummælum þínum þess efnis að virðing fyrir vísindalegri aðferð eigi að vera leiðarstjarnan í öllum umræðum um hnattræna hlýnun, rétt eins og sem allra flestum sviðum tilverunnar öðrum. Til að mynda hef ég löngum haft mikinn áhuga á andlegum og trúarlegum málefnum; áhugi sem ýmsum á þessum efnishyggjusinnuðu tímum finnst vafalaust ´óvísindalegur´- en ég hef alla tíð reynt að hugsa sem opinhugaðast, gagnrýnast og - já- vísindalegast um málefni þessi. Það er fyrir öllu að viðurkenna fáfræði okkar, forðast alla óskhyggju og reyna að renna sem styrkustum stoðum sannanlegra raka undir þankagang okkar og skoðanir. Í stuttu máli: lifi vísindaleg hugsun, um veraldleg jafnt sem yfirjarðnesk hugðarefni!

Swami Karunananda, 13.4.2008 kl. 19:34

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

enn ekki fengið viðbrögð þín við skýrslunni góðu.. hvernig fannst þér hún ?

Óskar Þorkelsson, 20.4.2008 kl. 22:57

10 identicon

Voðalega er heitt hjá þér!

Cactus Buffsack 21.4.2008 kl. 15:29

11 Smámynd: Þarfagreinir

Ég var einmitt að komast í það að lesa skýrsluna í gær, Óskar. Þetta er áhugavert, en sumar af þessum röksemdum hefur maður séð áður ... þetta er einhvern veginn svona 'ég veit betur en þessir loftslagsvísindamenn', og gæti vel verið eitthvað sem hefur allt verið afgreitt af hinum sömu vísindamönnum einhvern tímann. Ég játa hins vegar að ég hef bara einfaldlega ekki þekkingu til að leggja mat á þetta - þó ég hafi skilið það langflest, þrátt fyrir norskuna.

Þarfagreinir, 21.4.2008 kl. 16:48

12 Smámynd: Þarfagreinir

En já - þakka hólið bróðir sæll.

Og já, Cactus, ég er funheitur.

Þarfagreinir, 21.4.2008 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband