Undirliggjandi óánægja

Það kemur mér lítt á óvart að mótmælabylgjan sé farin að vinda upp á sig. Mig grunaði strax í upphafi að mótmæli trukkabílstjóranna væru ekkert annað en angi af djúpstæðra 'meini' - undirliggjandi óánægju í íslensku samfélagi.

Þegar önnur eins straumhvörf verða í samfélagi og ég tel að nú séu að verða í hinu íslenska samfélagi, er óhjákvæmilegt að það birtist með jafn áþreifanlegum hætti og nú er raunin. Ekki rökrétt, ekki skynsamlegt - en engu að síður óhjákvæmilegt.

Það er kannski ekki sérlega rökrétt eða skynsamlegt að stöðva umferð í mótmælaskyni, og það er alls ekki rökrétt né skynsamlegt að vera ekki einu sinni með það alveg á hreinu hverju nákvæmlega er verið að mótmæla. Þrátt fyrir það finnst mér að ekki sé hægt að afskrifa þessa atburði svo gjörla - sópa þeim undir teppið með því að benda á að þetta sé bara 'skríll' sem veit ekkert hvað hann hugsar, og að þetta fólk eigi bara að sjá sóma sinn í að halda sig heima.

Staðreyndin er nefnilega sú að nú eru miklir óvissutímar - og óróatímar.

Miklar blikur hafa verið á lofti í efnahagsmálum; krónan og verðbréfin falla, á meðan verðbólgan eykst, og ekki einungis virðast stjórnvöld ekki vera með alveg á hreinu hvað veldur, heldur hafa þau enga hugmynd um hvað skal gera.

Og Seðlabankinn - hann kann engar aðrar lausnir en að hækka stýrivextina, og reyna að tala íbúðaverð niður með óraunhæfum spám.

Í téðum Seðlabanka situr síðan bankastjóri sem flest bendir til að eigi ekkert erindi í slíkt embætti - maður sem frekar ætti að draga sig í hlé, íhuga farsælt ævistarf í ró og næði, og jafnvel skrifa eina eða tvær bækur. Tregða hans til að sleppa krumlunum af valdinu veldur því hins vegar að honum er slíkt lífsins ómögulegt - starfi hans er, að hans mati, hvergi nærri lokið. Honum og hans undirsátum er síðan nákvæmlega sama hvað hver segir - það er hans réttur að sitja í þessari stöðu, algjörlega óháð því hversu hæfur hann er til þess.

Syni téðs bankastjóra var síðan einhverra hluta vegna troðið í embætti héraðsdómara, og þar var heldur ekki hlustað á neinar gagnrýnisraddir. Það var réttur sonarins að fá þetta embætti, og réttur flokksins að fá þennan mann sem dómara. Allir sem dirfðust að andmæla voru rægðir í svaðið með útúrsnúningum og skætingi, og öllu var klárlega til fórnandi - fulltrúar flokksins stigu fram hver á fætur öðrum og gerðu sig að fíflum og rustum, til þess eins að reyna að réttlæta það sem ekki var hægt að réttlæta.

Í höfuðborginni situr síðan í skjóli flokksins borgarstjóri sem enginn vill hafa í því embætti. Undir honum situr borgarstjórn sem enginn vildi - borgarstjórn sem fátt hefur unnið sér til ágætis annað en að kaupa kofa sem enginn vildi hafa á uppsprengdu verði. Kofa sem enginn veit hvað gera skal við eftir að hundruðum milljóna í viðbót hefur verið varið í að lappa upp á þá. Á meðan drabbast aðrir kofar niður, en borgarstjórnin getur ekkert gert í því - eða vill ekkert gera í því.

Oddviti flokksins í borginni er síðan enn einn maðurinn sem enginn vill hafa - maður sem veit ekki einu sinni sjálfur hvað hann ætlar að gera í þeirri stöðu sem hann er kominn í. Það reddast víst bara einhvern veginn, eins og allt annað.

Hér dugir ekki lengur að benda fólki bara á að það geti kosið eitthvað annað næst, sé það ósátt. Ef núverandi stjórnvöld valda ekki sínu hlutverki, hvað er það þá sem segir að aðrir væru einhverju betri? Samfylkingin hefur nú til að mynda komist til valda, eftir áralangt tuð yfir því hvað allt væri ómögulegt - og hún hefur litlu breytt sem máli skiptir.

Kjörnir fulltrúar geta ekki endalaust vikið sér undan ábyrgð með því að vísa til þess að þjóðin hafi nú kosið þá, og þá sé til lítils fyrir hana að væla síðan yfir því hvernig staðið er að málum. Ráðamenn segja þetta kannski ekki endilega hreint út, en þetta eru engu að síður þau skilaboð sem allt of oft eru gefin, þegar bent er á það sem aflaga fer hjá okkar kjörnu fulltrúum. Svona hefur þetta verið allt of lengi hér á skerinu - en ég held að það sé fyrst núna sem fólk er orðið þreytt á því, upp til hópa. Fólk er farið að átta sig á því að pólitíkin skiptir máli ... og að pólitík sé meira en það að kjósa flokk á fjögurra ára fresti, en þegja þess á milli ... að fólk getur ekki endalaust látið bjóða sér að rödd þess sé hundsuð, þegar það dirfist að þegja ekki.

Þessum skilaboðum verður hins vegar ekki komið á framfæri nema með látum.

Sofandi maður verður ekki vakinn með því að hvísla létt í eyra hans.

Þjóðin er að vakna, og hún er að reyna að vekja stjórnvöld með sér. Því fylgja átök. Svo einfalt tel ég málið vera. 


mbl.is Ungmenni tefja umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ágæt grein.  Það virðist eitthvað afl vera að vakna með fólkinu og spurning hvað það er nákvæmlega sem er að vekja þjóðina frá værum blundi síðasta áratugs.

Hrannar Baldursson, 25.4.2008 kl. 16:50

2 Smámynd: Bara Steini

Mjög góður pistill.

Bara Steini, 25.4.2008 kl. 17:00

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær pistill :)

Óskar Þorkelsson, 25.4.2008 kl. 17:14

4 identicon

Djöfs. snillingur ertu!!!

Helga Finnsdóttir 25.4.2008 kl. 17:47

5 identicon

Ánægð með þennan pistil hjá þér og algjörlega sammála þér í einu og öllu hér fyrir ofan ! Get ekki beðið eftir að flytja burt af landinu í sumar.. býst alveg við að það verði svolítil fólksflótti næstu mánuðina.. ekki orðið búandi hérna á íslandi lengur, en þó ég fari þá ætla ég samt að gera mér ferð bara til að skila auðu í næstu kosningum og ég er ánægð með að fólkið í landinu sé farið að vakna til lífsins upp úr þessum þyrnirósarsvefni sínum og MÓTMÆLA !

Sonja (ókunnug) 25.4.2008 kl. 22:30

6 Smámynd: Einar Indriðason

Góður pistill, og sammála!

Einar Indriðason, 26.4.2008 kl. 00:38

7 Smámynd: Einar Jón

Það er sorglegt að setja þetta Laugavegskofamál í samhengi við söluna á Fríkirkjuvegi 11.

Þar selur borgin ríkasta manni landsins hús á svipuðu verði og kofarnir munu kosta hana. Munurinn á þessum eignum er sennilega eins og á ryðgaðri Lödu og þokkalegum Rolls Royce.

Einar Jón, 28.4.2008 kl. 13:47

8 Smámynd: Þarfagreinir

Ég þakka góðar viðtökur. Ég sem átti von á einhverri uppbyggilegri gagnrýni.

Góður punktur með samanburðinn við söluna á Fríkirkjuhúsinu, Einar Jón. Ætli núverandi meirihluti afsaki verðið ekki með því að það sé svo langt síðan að salan var ákveðin - þeir sjálfir hefðu sko fengið miklu hærra verð?

Þetta er einn kosturinn við að skipta um stjórn á eins árs fresti - það er hægt að kenna einhverjum öðrum um allt sem aflaga fer.

Þarfagreinir, 29.4.2008 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband