Rofar til

Það að leggja til að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra er ein langskynsamlegasta hugmynd sem fram hefur komið í íslenskri pólitík í ... allt of langan tíma.

Með fullri virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, sem ég hef ágætar mætur á sem stjórnmálamanni, þá fannst mér heldur furðulegt að hún hafi ekki stigið til hliðar um leið og hún veiktist. Dags daglega, við eðlilegt árferði, er alveg nógu mikið álag á pólitíkusa í framlínunni - en þessa dagana hlýtur það að vera margfalt. Það er varla starf fyrir veikt fólk. Steininn tók úr þegar orðrómur fór á kreik þess efnis að rætt væri um að færa Ingibjörgu í annan ráðherrastól en utanríkisráðherrastólinn, því hún ætti erfitt með að ferðast. Þá vaknaði vitaskuld sú spurning af hverju hún tæki sér þá ekki bara frí.

Eins er með forsætisráðherrann Geir, sem einnig er góður og traustur stjórnmálamaður. Þegar hann greindist með krabbamein sagðist hann að vísu ætla að stíga til hliðar og ekki sækjast eftir endurkjöri, en eitthvað virðist vera á reiki hvort hann er hættur eður ei. Þorgerður Katrín er sögð starfandi forsætisráðherra, en það er Geir sem kemur ennþá fram í fjölmiðlum.

Það er ekki laust við að maður vorkenni þessu fólki. Það er augljóslega vinnusamt með eindæmum, en öllu má ofgera. Stundum veltir maður því fyrir sér hvort pólitíska umhverfið hér á skerinu sé virkilega svona óvægið; að ekki megi stíga til hliðar vegna veikinda, því þá missir maður úr 'slagnum' og eigi ekki auðveldlega afturkvæmt.

En að aðalefninu - það væri mikill akkur í Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Hún er reynslumikil og sköruleg, og af henni fer gott orð. Þeir eru fáir sem lasta Jóhönnu.

Í þessu ljósi er sérlega undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hafnað að gefa Samfylkingunni eftir forystuna í stjórninni (það hefði verið ögn auðveldara að gagnrýna það ef Ingibjörg Sólrún hefði sjálf farið fram á forsætisráðherrastólinn) - enda voru einu rökin sem frá Geir komu þau, að hefð væri fyrir því að stærri flokkurinn leiddi ríkisstjórn. Forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar var afgreidd með þeim rökum að um það hafi verið samið í upphafi kjörtímabils, en vandséð er að það sé eitthvað höfuðatriði í því sambandi. Einhver fiskur liggur hér undir steini - það er næsta víst.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Þú er vænsti fýr.  En minn tími mun koma.

Offari, 26.1.2009 kl. 14:14

2 Smámynd: Þarfagreinir

Sömuleiðis, Offari.

Annars var þessi færsla tengd við frétt um þá tillögu að Jóhanna yrði forsætisráðherra, en sú frétt er nú horfin. Ojæja.

Þarfagreinir, 26.1.2009 kl. 14:20

3 Smámynd: Offari

Það gerist margt á hverju korteri þessa stundina. Kannski er Jóhanna orðin úrelt núna. Ef svo er finnst mér að hennar tími hafi verið full stuttur, en hann kom.

Offari, 26.1.2009 kl. 14:35

4 Smámynd: Sigurjón

Ég hef aldrei skilið að því er virðist skilyrðislausa aðdáun fólks á J.S.

Hvað hefur hún gert svona frábært?  Getur einhver nefnt mér þrjú helstu mál sem hún hefur staðið fyrir og framkvæmt, sem eru svona meiriháttar?

Ég veit um eitt:  Um áramótin hækkuðu örorkubætur um 9,3%.  Gott og vel, en skv. lögum eiga örorkubætur að vera verðtryggðar og hefðu því átt að hækka um rúm 19%!  Æðislegt fyrir öryrkjana okkar að eiga Jóku að, svona bara til að lækka bæturnar þeirra um heil 10%!

(D)jóka mæ es...

Sigurjón, 27.1.2009 kl. 12:38

5 Smámynd: Þarfagreinir

Tja, stórt er spurt. Jóhanna hefur bara sér einhverja mjög svo jákvæða ímynd sem rennur væntanlega seint af henni. Ég játa það alveg fúslega að ég hef svosem lítið kynnt mér hvað hún hefur gert, annað en það að það fer gott orð af henni.

Þarfagreinir, 27.1.2009 kl. 15:42

6 Smámynd: Einar Indriðason

Fiskurinn undir steini?  Er það ekki Seðlabankinn, og "höfðinginn" þar?

Og á því strandaði í raun?

Einar Indriðason, 27.1.2009 kl. 17:34

7 Smámynd: Offari

Jóhanna hefur litlu áorkað enda bara ein úr 63 manna hóp. Hún hefur alltaf barist fyrir hag heimina og reynt að ná eins langt og hún kemst en því miður hefur hún litlu komið í framkvæmd af sínum hugarmálum þar sem henni hefur ekki tekist að fá fleiri á band með sér.

Offari, 27.1.2009 kl. 17:39

8 Smámynd: Sigurjón

Hún hefur verið ráðherra talsvert lengi og ætti því að hafa haft næg tækifæri til að framkvæma eitthvað af þessum hugðarefnum sínum.  Málið er bara að hún er, bara eins og allir aðrir pólitíkusar, að hugsa fyrst og fremst um eigin hag...

Sigurjón, 28.1.2009 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband