Um þingrofsvaldið

Það gat nú verið að enn og aftur er deilt um valdsvið forseta lýðveldisins. Nú setja ýmsir út á það að hann hafi fullyrt að forsætisráðherra hefði ekki þingrofsrétt (eða óskoraðan þingrofsrétt). Gagnrýnendur hans vilja sumsé meina að hann sé þarna að taka sér vald, sem hann ekki hafi; að hann seilist inn á verksvið forsætisráðherra. Þetta er allrar umræðu vert.

Það sem Ólafur Ragnar sagði í gær var þetta (skrifað upp eftir honum héðan):

Ég hef tekið eftir því að það hefur verið hér umræða í fjölmiðlum um þingrof og sú kenning hefur verið sett fram af ýmsum, eða það sjónarmið, að forsætisráðherra hafi þingrofsréttinn, einn og sér. Þetta er misskilningur á íslenskri stjórnskipan. Forsætisráðherra hefur tillögurétt um þingrof, og síðan er það sjálfstætt mat forseta, eins og dæmin sanna, úr íslenskri sögu, hvort að hann verður við þeirri ósk eða ekki. En fráfarandi forsætisráðherra, Geir Haarde, setti ekki fram neina slíka ósk á okkar fundi hér áðan. Þess vegna er auðvitað alveg ljóst að frá og með þessari stundu er ekki starfandi neinn forsætisráðherra í landinu sem getur gert tillögu um þingrof, og samkvæmt stjórnskipun er það þess vegna alfarið í hendi forsetans.

Það er síðasta setningin sem sætt hefur gagnrýni, meðal annars af hálfu Björns Bjarnasonar, AMX, og Vefþjóðviljans - enda kjósa allir þessir pennar, líkt og margir fjölmiðlar, að túlka ummælin sem svo að forsetinn segi að enginn starfandi forsætisráðherra geti gert tillögu um þingrof, vegna þess að forsætisráðherra hafi beðist lausnar. Af orðum forsetans í heild sinni er hins vegar nokkuð ljóst að hann telur að enginn starfandi forsætisráðherra geti gert tillögu um þingrof, vegna þess að forsætisráðherra baðst lausnar án þess að fara fram á þingrof. Þetta er mikilvægt atriði, þó sumum kunni virðast það smátt; forsetinn hefði væntanlega tekið tillögu um þingrof til greina ef forsætisráðherra hefði sett hana fram í gær - en svo var ekki, og því er þingrofsrétturinn, sem og umboðið til að mynda ríkisstjórn, eðlilega í höndum forseta. Orðalagið hjá forsetanum er reyndar í besta falli óheppilegt, því vitaskuld er og verður alltaf starfandi forsætisráðherra í landinu - en það sem mest er um vert er að forsetinn var alls ekki að hrifsa þingrofstillöguréttinn af forsætisráðherra með ómaklegum hætti.

Annað sem sett er út á er það að forsetinn segist hafa þingrofsrétt yfir höfuð. Vefþjóðviljinn fullyrðir meðal annars að "Geir H. Haarde [hafi] enn óskorað vald til að rjúfa alþingi og boða til kosninga" - en þetta er hreinlega rangt, enda stendur langt í frá skýrum stöfum í stjórnarskrá að forsætisráðherra hafi þingrofsrétt. Þvert á móti stendur þar skýrum stöfum, í 24. grein, að forseti hafi þingrofsrétt, þó töluvert hafi verið deilt um praktíska þýðingu þeirrar tilteknu greinar (sem og fleiri greina í stjórnarskrá sem forsetaembættið varða) með því að vísa til greina í stjórnarskránni þar sem kveðið er á um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, og fleira í þeim dúr. Hvað sem því öllu líður er óvefengjanlega hefð fyrir því, eins og Ólafur Ragnar minnist á, að það er forsetinn sem tekur lokaákvörðun um þingrof, samanber það þegar forsætisráðherrann Ólafur Thors fór fram á þingrof 1950, en Sveinn Björnsson forseti neitaði að verða við því. Það er því augljóst að forsætisráðherra hefur hvergi nærri 'óskorað vald til að rjúfa alþingi'. Hins vegar má deila um hvort forsætisráðherra hafi óskoraðan rétt til að fara fram á þingrof, en það er auðvitað allt annað mál - sem tekið var fyrir hér fyrr í pistlinum.

Valdaránið og stjórnlagakreppan sem sumir vilja sjá úr þessum orðum forsetans eru því heldur í þynnra lagi. Forseti ræddi við forsætisráðherra; sá síðarnefndi baðst lausnar, fór ekki fram á þingrof, og fól hinum fyrrnefnda að mynda nýja stjórn og kveða á um þingrof. Þar til það hefur verið gert, og ný stjórn tekur við, starfar forsætisráðherra að forminu til. Aðrar túlkanir á atburðarásinni og viðhorfum þeirra sem að henni koma virðast lítið annað en smásmugulegar og ósanngjarnar túlkanir á orðum.

Annars ætti nú að vera einfalt mál að skera úr um hvort hér ríkir stjórnlagakreppa eða ekki - það má einfaldlega spyrja Geir Hilmar Haarde að því, hvort hann hafi áhuga á að fá stjórnarmyndunarumboð, og/eða fara fram á þingrof í náinni framtíð. Ef svarið er nei við báðu, þá er ekki um neina stjórnlagakreppu að ræða.

Stjórnmál snúast nefnilega ekki um lögin og valdið eingöngu, heldur líka samskipti og samkomulag milli fólks. Því vilja sumir gleyma stundum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Swami Karunananda

Það er aðdáunarvert hvað þú getur skrifað af mikilli þekkingu og innsýn og myndugleika um stjórn - og efnahagsmál. Sjálfur þekki ég ekki haus frá sporði í þessum málaflokkum . . .  

Swami Karunananda, 31.1.2009 kl. 01:02

2 Smámynd: Billi bilaði

Það hafa verið ágætis umræður um stjórnarskrána á vala.blog.is.

Billi bilaði, 31.1.2009 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband