30.4.2007 | 22:05
Enn af spillingu
Á vef RÚV er sagt frá staðreyndum sem komu fram í Kastljósi í kvöld, sem ég sá reyndar ekki. Þarna segir meðal annars:
Í Kastljósi var umsókn stúlkunnar borin saman við umsóknir hinna 17 sem fengu ríkisborgararétt um leið og stúlkan. Aðstæður þeirra voru allt aðrar en hennar, t.d. voru 5 af þessum 17 börn íslenskra ríkisborgara, 2 voru flóttamenn, 2 voru fæddir á Íslandi en vantaði lítillega upp á dvalartíma, einn var giftur Íslendingi. Þrír uppfylltu öll lagaskilyrði en þurftu að sækja um undanþágu vegna þess að þeir höfðu þegið framfærslustyrk. Tveir uppfylltu öll lagaskilyrði, allir þessir einstaklingar höfðu dvalið lengur í landinu en stúlkan frá Gvatemala.
Hér eru sönnur færðar, svo ekki verður um villst, á þá staðhæfingu í upphaflegu fréttinni, að aðstæður hinna sem fengu ríkisborgararétt hafi verið allt aðrar en hinnar gvatemalísku (eða hvað sem er annars rétt að segja hér) kærustu sonar Jónínu Bjartmarz. Þeir sem hafa reynt að þæfa málið með því að efast um að staðhæfingin hafi átt við rök að styðjast mega nú vinsamlegast hætta því jarmi.
Ég kalla enn og aftur eftir dæmum um að manneskju í sambærilegri stöðu hafi nokkurn tímann verið veittur ríkisborgaréttur, sem og rökstuðningi fyrir því af hverju það var gert í þessu tilfelli.
Einnig ítreka ég, svo það komi skýrt fram, að ég set ekkert út á að þessari stúlku hafi verið veittur ríkisborgaréttur, og ég býð hana velkomna í hóp Íslendinga. Málið snýst um að í eðlilegu samfélagi sem á að heita lýðræðislegt eiga sömu reglur að ganga yfir alla. Þegar óvægnum reglum, sem hefur verið beitt miskunnarlaust á fjölda fólks í áraraðir, er allt í einu ýtt til hliðar í þágu manneskju sem tengist ráðherra, þá hlýtur almenningur að kalla á svör. Þau höfum við ekki fengið, og því fordæmi ég allt þetta pakk. Pakk, segi ég og skrifa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2007 kl. 00:18 | Facebook
Athugasemdir
Jónína kom mjög illa út í viðtalinu við Helga Seljan um daginn. Helgi stóð fyrir sínu og óx talsvert í áliti hjá mér, Jónína kom út frekar kjána/frekjulega út.
Ef skoðuð eru gögn þau sem Alsherjarnefnd lætur frá sér um einstaklingana sem fengu ríkisborgararétt þá eru heimilisföng allra með greinagerðinni og hægt er að finna að Lucia Celeste Molina Sierra hefur sama heimilisfang og Jónína. Ef alsherjarnefnd vissi þetta ekki þá er hún skipuð sauðum.
Lucia sjálf ætti að koma fram fyrir skjöldu og standa fyrir sínu, hún segir jú á flickr síðunni sinni að hún sé 'honest'.
Ég skil reyndar ekki alla sem eru að bera í bætifláka fyrir þessa stúlku, eru þeir sem taka við ölmusu frá spilltum aðilum eitthvað skárri en þeir spilltu sjálfir?
Lucia hefði aldrei fengið ríkisborgararétt án Jónínu og það veit hún örugglega sjálf. Þetta er sambærilegt við stöðuveitingar innan ríkisins. Við sökum alltaf bæði ráðherrann sem veitti stöðuna og þann sem við henni tók ef þannig spilling kemst upp. Lucia er ekki hvítþveginn sakleysingi í mínum augum.
Ef Lucia hefði í það minnsta verið orðin 25 ára þá væri ég ekki svona reið. Ég hef sjaldan verið jafn örg út í samfélagið, nema ef vera skildi gagnvart Árna Johnsen og hans 'syndaaflausn'.
Ég hélt nefnilega að sala aflátsbréfa hefði verið hætt á tímum Lúters. Íslendingar eru augljóslega svolítið aftarlega á merinni.
Nornin 1.5.2007 kl. 11:46
Ég vil benda á ennþá meira lýðræði í þessu, þeir rúv menn hafa tekið sig til og tekið kastljósþáttinn sem Bjarni Ben sat fyrir svörum vegna spillingar Jónínu af vefnum þeirra. Sjá hér, þarna er hvergi að finna umræddan þátt, spurning er því sú, hver hefur talað við hvern í þessu? Hvert er lýðræðið ef ritskoðunin felst í duttlungum spilltra stjórnmálamanna?
Guðsteinn Haukur Barkarson, 1.5.2007 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.