Rétt hjá Steingrími

Ég verð að taka undir þessar áhyggjur Steingríms. Það er ekkert í stjórnarsáttmálanum sem bendir til annars en að áfram verði haldið að drita niður virkjunum og álverum ... bara svo lengi sem það verður gert 'í sátt við náttúruna'.

Ég tel það mikið glapræði að halda áfram á þessari braut. Virkjanirnar eru nú eitt, en að nota alla orkuna í álver þykir mér metnaðarlaus vitleysa. Að stjórnvöld séu síðan virkt að móta stefnu í þessum efnum og séu í virkum herferðum til að laða að erlenda álrisa þykir mér nánast sovésk tímaskekkja. Mun eðlilegra væri að láta þetta algjörlega stjórnast af markaðsöflunum.

Fyrst minnst er á markaðsöfl, þá er það staðreynd, sem furðu margir þráast við að neita, að raforkan er seld álverunum á afskaplega lágu verði. Þetta er eina leiðin til að laða að álrisana - að undirbjóða til að mynda ríki í Suður-Ameríku, sem nota bene nota líka vatnsaflsorku í miklum mæli. Auðvitað hefur verið gert arðsemismat á þessu öllu saman, og ég efa ekki að þetta borgar sig að einhverju leyti til lengri tíma litið - sérstaklega þegar við almenningurinn í landinu erum látin niðurgreiða þetta lága verð sem stóriðjan greiðir. Hins vegar tel ég nær öruggt, sama hversu mikið er þráast við að neita því, að aðalástæðan fyrir þessari áherslu á að laða að álrisana er þrýstingur frá byggðarlögum úti á landi, sem mörg hver eru örvæntingarfull yfir fólksfækkun og hnignun, og vilja sjá einhverjar aðgerðir sem líklegar eru til að snúa þróuninni við. Þetta er afl sem ómögulegt virðist að stöðva - ekki ætlar ríkisstjórnin nýja að gera það.

Mér þætti afskaplega vænt um að fleiri myndu viðurkenna þennan sannleika í málinu; að stóriðjustefnan snýst ekki um efnahag landsins í heild, heldur byggðastefnu. Þá væri hugsanlega hægt að ræða þessi mál á vitrænni nótum. Umhverfisverndarrökin eru til að mynda algjörlega glötuð  - fullyrðingar um að ef við tækjum ekki við þessum álverum hingað þá yrðu þau bara sett upp í Kína og keyrð áfram af kolum standast til dæmis engan veginn þegar samkeppnin kemur fyrst og fremst frá áðurnefndum vatnsaflsvirkjuðum Suður-Ameríkuríkjum. Hver er síðan umhverfislegi 'sparnaðurinn' af því að flytja súrál langa leið yfir hafið hingað til Íslands, bræða það, og senda síðan afurðina annað til frekari vinnslu?

 


mbl.is Steingrímur: Samfylking virðist hafa gefist upp á umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þetta er fyrsta gáfulega bloggið sem ég les í dag.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.5.2007 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband