Vísindatortryggni

Á Íslandi er landlæg tortryggni í garð vísindanna. Þetta sér maður best þegar kemur að kenningum um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Í netheimum sé ég alla vega furðulega marga sem setja sig upp á móti þeim, þvert á þá staðreynd að meirihluti sérfræðinga á sviðinu eru sammála um að öll fyrirliggjandi gögn virðast benda til að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd.  Nei, hér á Íslandi eru margir sjálfskipaðir kverúlantar sem þykjast vita betur og treysta engum 'sérfræðingum' í neinu. Að sjálfsögðu er þetta heilbrigt viðhorf, í hófi, að gleypa ekki við því sem 'sérfræðingar' segja umhugsunarlaust. Hins vegar finnst mér það afskaplega aumlegt að væna svona marga vísindamenn um óheilindi ellegar vitleysisskap. Menn verða að hafa mjög mikið fyrir sér til að halda slíku fram, finnst mér.

Myndin The Great Global Warming Swindle, sem ég sá nýlega, er ágætis 'mótvægi' við ríkjandi viðhorf. Hún er hins vegar hreinn og klár áróður, og langt frá því að vera vísindalega nákvæm. Fólki ætti að nægja að líta til nafnsins til að sjá að lagt var upp frá því alveg í upphafi að 'afsanna' hina ríkjandi kenningu. Er það vísindalegt? Þeir sem geta ekki svarað því hiklaust neitandi ættu að kynna sér betur hvað vísindi eru nákvæmlega.

Annars kemur reyndar margt 'vísindalegt' fram í myndinni, innan um áróðurinn, en margt af því er gamalt, og hefur verið hrakið áður. Ég nenni ekki að fara þar út í smáatriði, enda er ég ekkert sérstaklega fróður um þessi fræði. Vísindunum treysti ég hins vegar mjög vel, enda hafa þau reynst vel hingað til, og meirihluti vísindamanna er á sama máli. Það eina sem ég ætla að leyfa mér að segja er að það er ekki nóg að benda á alls konar aðra þætti sem hafa áhrif á hitastig jarðar en koltvísýringsmengun - það þarf líka að afsanna að koltvísýringsmengun hafi áhrif, og það finnst mér engan veginn hafa tekist í þessari mynd. Einnig; varðandi áhrif sólarinnar, þá rakst ég til dæmis á þá merkilegu staðreynd að styrkur sólarinnar hefur ekki aukist síðan 1978 - þannig að hækkun hitastigs síðan þá getur ekki hafa verið af hennar völdum, sé þetta rétt.

Annars nenni ég ekki að fara að rífast um þetta. Ég veit að það er fullt af fólki sem virðist sannfært um að þessar kenningar eru algjört bull, og það er lítið hægt að þjónka við því. En þá vil ég spyrja þetta fólk: Er það virkilega ekki nægileg ástæða hvort eð er til að takmarka notkun kola og olíu að þetta eru takmarkaðar auðlindir? Getum við ekki öll verið sammála því að það er góð hugmynd að reyna að draga úr þessu sem mest við megum?

P.S. Mig grunar að þessi vísindatortryggni sé angi af almennri viðhorfssveiflu sem ég finn fyrir í íslensku þjóðfélagi, en hún einkennist af sívaxandi áhugaleysi í garð 'pælinga' hvers konar og tortryggni á allt sem sagt er á opinberum vettvangi. Það hljóta nefnilega allir að vera að þjóna einhverjum duldum málstað ... er íslenska viðhorfið. Þetta sést líka mjög glögglega í pólitískri umræðu, sem snýst fyrst og fremst um flokkadrætti og vangaveltur um hver þjónar hverjum. Svo er það bara neyslubrjálæðið og efnishyggjan, sem vaða uppi á kostnað þess að fólk nennir sjaldnast að staldra við til að íhuga eitt né neitt vandlega. En þetta er allt efni í lengri og enn sem komið er óskrifaðan pistil.


mbl.is Íslenskir jöklar horfnir eftir 200 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvað ég er sammála. Mér er alveg sama hvaða álit fólk hefur á gróðurhúsaáhrifunum - er ekki hægt að fara að spá í því hvað maður er að gera?? T.d. að hætta að láta lífsgæðakapphlaupið dáleiða sig í það að hlaupa út í Toyota og kaupa sér risastóran upphækkaðan jeppa sem mun eingöngu verða notaður til þess að keyra út í Kringlu og til baka. Éf fólk er í hálendis- og jöklaferðum reglulega þá skil ég mjög vel að það vilji eiga jeppa og ég er ekkert að finna að því - en það er Kringlu fólkið sem ég er ekki að fatta. --- Menga minna, endurvinna meira!! 

Mary 7.6.2007 kl. 15:17

2 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Ein helsta gagnrýnin núna er að 3ja heims löndin mega ekki nota auðlyndir sem að vesturlöndin eru að nota, og geta því ekki þróast sem skildi. Þeim er gert að nota sólarorku og vindorku, sem dugar ekki til fyrir þeirra þarfir, fyrir utan að þetta eru mun dýrari leiðir til að öðlast orku heldur en hinar hefðbundnu leiðir sem að vestulöndin nota.

En það er ekkert að því að leita hreinni og betri leiða til að gera hlutina. Afleiðingar mengunar olíu eru meiri en "trúlegar" hitaaukningar sem hún kann að valda.

http://en.wikipedia.org/wiki/The_Great_Global_Warming_Swindle

þetta er wiki hlekkur sem bendir á allar hliðar myndarinnar 

Sigurður Jökulsson, 7.6.2007 kl. 15:58

3 Smámynd: Þarfagreinir

Já, það er mjög leið staðreynd að þróunarlöndunum er í raun meinað að iðnvæðast almennilega, á meðan Vesturveldin njóta góðs af sínum kolum og olíu sem aldrei fyrr. Þetta hefur hins vegar nákvæmlega ekkert með sannleiksgildi vísindanna að gera, og því var það ekkert annað en hreinn áróður að hafa það með í myndinni. Hræsnin felst í því að koma svona fram við þróunarlöndin á meðan við í Vesturlöndum gerum í raun afskaplega lítið til að hefta okkar neyslu. Bandaríkin eru þar auðvitað fremst í flokki; stjórnvöld þarlendis hafa nákvæmlega engan áhuga á að takmarka eitt né neitt, og ekki eru fyrirtækin þar skárri. Ef við eigum að taka mark á kenningunum um hnattræna hlýnun verður það auðvitað að ganga jafnt yfir alla. Þetta er alveg sama hræsnin og þegar þær þjóðir sem eiga kjarnorkuvopn halda fast í þann forða sinn, en banna öllum öðrum þjóðum að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Olíumengun er síðan enn ein ástæða til að leita annarra leiða; svo er það blessað plastið sem aldrei brotnar niður heldur hleðst bara upp. Því miður virðist fátt ætla að koma fram á sjónarsviðið sem kemst í hálfkvisti við plastið hvað varðar notagildi og þægindi.

Að vissu leyti er það líklega alveg hárrétt að hnattræn hlýnun fær mikla athygli á kostnað annarra vandamála. Dómsdagsspár eru hins vegar eitthvað vekur fólk undantekningalaust til umhugsunar og fær það til að staldra við, og því er ekki skrýtið að þessi vísindi veki athygli fólks. En við megum ekki gleyma öllu hinu sem er ekki síður mikilvægt að velta fyrir sér. 

Þarfagreinir, 7.6.2007 kl. 16:16

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er stór hópur vísindamanna sem er ekki sammála að CO2 sé sökudólgurinn ekki bara nokkrir Íslendingar.  Og eitt dæmið sem á að vekja okkur til umhugsunar er að Mars er að hitna jafnmikið og Jörðin þannig að þetta er eitthvað meira en CO2, eins og til dæmis virkni sólar.  Ég segi ekki vera að ljúga að fólki að minnkun útblásturs (sem þarf að minnka) bjargi málunum þegar það er ljóst að það gerist ekki hvað sem gert verður.

Einar Þór Strand, 7.6.2007 kl. 18:03

5 identicon

Fínar pælingar.. 

Einar: Hvaða stóri hópur vísindamanna? Það er nefnilega ein útbreiddasta lygin að það sé "stór hópur vísindamanna" sem efast um að hlýnun andrúmsloftsins sé af mannavöldum. Bendi á nýlega bloggfærslu hjá undirrituðum :)

Baldur Kristjánsson 7.6.2007 kl. 18:59

6 Smámynd: Einar Þór Strand

Baldur

Til dæmis um 100 stk sem sendu bréf til ríkisstjórnar Canada.  En málið er það hefur aldrei verið sýnt framá að CO2 valdi þessum áhrifum í þessum mæli en ef einhver andmælir er krafist sannana, er það vísindalegt.  Málið er að þó við mennirnir hættum alveg að menga þá myndi það hafa lítil sem engin áhrif á hlýnunina og ástæðan er að sólin hefur mest áhrif.  Hinsvegar gæti aukinn agnaútblástur (sooting) gert "gagn" ekki að ég sé að mæla með því.  En grunnurinn er að árið 1974 var spáð ísöld af "visindamönnum" en í dag er það dómsdagur völdum hlýnunar.  Varðandi það að hlýnunin hafi aldrei verið eins hröð og núna þá má benda á að umhverfi veðurstöðva sérstaklega á norðurhveli hefur breyst úr sveita umhverfi í útborgar og borgar sem veldur hugsanlega skékkju.  Við vitum að jörðin er að hitna en við giskum á hvers vegna og vísindaactivistar banna mönnum að hafa aðra skoðun hvað þá skipta um skoðun.  Og það er líka staðreynd að margir vísindamenn eru ekki sáttir við þá einstengingslegu skoðun sem IPCC heldur fram án þess hægt séð að sanna hana eða afsanna.  Kenningin um hitnun vegna útblásturs er bara kenning og hefur ekki verið sönnuð en verið reynt að gera það með því að falsa gögn sbr íshokkíkylfuna.

Einar Þór Strand, 7.6.2007 kl. 21:15

7 identicon

Má kannski bera þennan efa saman við efann sem ýmsir halda á lofti um að það séu endilega reykingar sem valda krabbameini af ýmsu tagi: í lungum, munni og hálsi? Ekkert sem sýnir og sannar það?

lára 8.6.2007 kl. 08:34

8 Smámynd: krossgata

Í flóknum kerfum er hæpið að kenna einhverju einu um.  Ætli málið sé ekki margir samverkandi þættir, ekki bara losun CO2 eða bara sólin eða bara hitt eða þetta. 

Nákvæmlega eins með mannslíkamann, sem er flókið kerfi, þú getur mengað hann með mörgu, meðal annars reykingum, sem auka líkur á krabbameini, valda því ekki endilega.

krossgata, 8.6.2007 kl. 13:23

9 Smámynd: Þarfagreinir

Þetta er einmitt heila málið, krossgata ... sumir vilja stilla málinu þannig upp eins og vísindamennirnir sem eru að halda uppi 'dómsdagsspám' haldi því fram að koltvísýringur sé eini áhrifavaldurinn, en ég veit ekki til þess að neinn sé á þeirri línu. Ég er hins vegar að gagnrýna þá sem segja að koltvísýringur hafi barasta engin áhrif, sem er mjög þvert á ríkjandi kenningar í fræðunum. Hversu mikil áhrif þetta eru, og hvort jöklar eigi eftir að bráðna og veðurfarið eigi eftir að hríðversna, er hins vegar aðeins annar handleggur. Þetta er góð samlíking með reykingarnar; maður fær ekkert endilega krabbamein ef maður reykir, en það eykur líkurnar - og fáir halda því fram núorðið að reykingar séu ekki óhollar.

Hin vísindalegu rök benda til þess að koltvísýringsmengun hafi alla vega nokkur áhrif á hitastig jarðarinnar, og þess vegna er full ástæða til að draga úr henni eins framarlega og kostur er á. Varðandi þriðja heiminn, þá finnst mér að Vesturveldin mættu alveg minnka sína mengun til að gefa þróunarríkjunum 'séns' - það ætti ekki að vera erfitt. Það eina sem þarf til er vilji ... og kannski aðeins minna af til að mynda bensíngleypandi risajeppum.

Þarfagreinir, 8.6.2007 kl. 13:46

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Öll rök mæla með því að draga úr mengun.. global Warming er bara notað sem argument í þeirri baráttu og styður tölfræðin þessa kenningu.  EN.. ég hef heyrt því fleygt að á fyrstu 5 sekúntum eldgossins í Grimsvötnum 1996 þá hafi losnað úr læðingi jafnmikil CO2 mengun og kemur frá NY á ári.  Svo.. hvað getur maður sagt þegar maður sér svoleiðis tölur.. hef ekki reiknað út hver CO2 mengunin var í öllu þessu gosi en hún hefur eflaust verið margföld mengun allra iðnríkja heimsins til samans það árið og sennilegast yfir nokkur ár.

Óskar Þorkelsson, 8.6.2007 kl. 16:47

11 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Ætli miðað við slíkar tölur að við séum ein mengaðasta þjóð í heimi per capita? það væri þá þversögn í lagi miðað við hvernig við erum að selja okkur

Sigurður Jökulsson, 15.6.2007 kl. 09:58

12 Smámynd: Sigurjón

Hvort sem mengun veldur hlýnun eða ekki; það er ástæða til að draga úr mengun.

Þetta er ekki svo einfalt að þetta sé einungis okkur að kenna, þrátt fyrir að þetta sé vissulega að hluta okkur að kenna.  Jörðin var mun hlýrri á tímum risaeðlanna og ísaldir voru tíðar hér á öldum áður.  Náttúran mun ekki láta okkur ráða för varðandi framtíð Jarðarinnar.

Sigurjón, 17.6.2007 kl. 02:06

13 Smámynd: Fræðingur

Flottur pistill.

Annað sem ég hef tekið hér á landi, en það er andúð á menntun. Ef þú hefur verið lengi í skóla þá hefurðu augljóslega rangt fyrir þér og ert búinn að mennta burt allt vit frá þér. Það er allaveganna viðhorf sem ég hef orðið var við.

Fræðingur, 20.6.2007 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband