Undarlegt hatur

Það er stórmerkilegt að sjá hversu margir virðast fyrirlíta þetta fólk. Ég skil vel að mörgum kunni að finnast mótmæli af þessu tagi tilgangslaus og pirrandi, og málstaðurinn bjánalegur - en fyrr má nú vera að ausa úr skálum forpokaðrar gremju og fýlu. Ég man varla til þess að nokkurn tímann hafi verið jafn víðtæk samstaða í íslensku þjóðfélagi um að fordæma fólk með fúkyrðum og ódýrum sneiðum. Maður verður eiginlega bara hálfsmeykur við að sjá sumar fordæmingarnar sem fólk hefur verið að rita á alnetinu.

Mig grunar að rótin að þessu sé sú að hér á Íslandi hefur lítið tíðkast að velta bátnum, sérstaklega með því að vekja athygli á sjálfum sér. Hvers kyns 'fíflalæti' og hegðun sem fellur ekki innan normsins er síðan afskaplega ámælisverð í íslensku samfélagi. Þeir sem hegða sér þannig hljóta að vera kolbilaðir atvinnulausir aumingjar - í augum Íslendinga. Mér sýnist sem svona viðhorf fari vaxandi, ef eitthvað er. Það verður sífellt minna og minna í tísku að mótmæla eða vekja athygli á einhverjum málstað á nokkurn hátt; áberandi hugsjónamennska er sett á svipaðan bás og holdsveiki hér á Fróni.

Það angrar mig sjálfan nákvæmlega ekki neitt þó að einhverjir skuli enn nenna að mótmæla á Íslandi. Deila má um aðferðir þessa hóps og hugmyndafræði, en mér finnst hann ekki hafa gert neitt til að verðskulda það gríðarlega hatur sem mér sýnist margir bera til hans. Er virkilega svona ljótt að mótmæla?


mbl.is Áberandi mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér, manstu hvernig Páli Óskari var tekið í fyrstu..... Ef bloggið hefði verið uppi þá, hvernig hefði umræðan um hann verið?  Þegar hann kom fram sem hommi og var allur útúr skápnum og birtist út um allt í skrítnum fötum....?

Steinn 21.7.2007 kl. 15:01

2 identicon

Ég er einnig hjartanlega sammála þér. Mér hefur sýnst á ummælum þeirra sem skammast út í mótmælendur að þeir hafi aðallega reiðst vegna þess að þeir komust ekki leiðar sinnar eftir Snorrabrautinni.

Svo eru sjálfsagt þessir menn þeir fyrstu sem hneykslast og skammast yfir þegar bensínverðið hækkar og byrja að tala um að það þurfi nú að fara gera eitthvað í þessu.

Birkir 21.7.2007 kl. 15:10

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ómar gekk sína göngu í vetur í samstarfi við lögregluna. Allir voru sáttir við hann, meir að segja hans helstu pólitísku andstæðingar. Hérna höfum við síðan lýð sem brýtur öll lög, neytar samvinnu við lögreglu, gerir aðsúg að henni  og sýnir síðan mótþróa við handtöku. 

Það er ekki málstaðurinn sem er að. Það er fólkið sem er að reyna að boða hann. Mér væri alveg sama ef þetta lið hefði gengið niður laugaveginn í viku í trúðsbúningum til að vekja athygli og eitthvað. En þeir eru með skemmdarverkum sínum og almennum lögbrotum að brjóta niður stoðir samfélagsins. Síðan er eitthvað kvartað yfir að löginn séu ósanngjörn.

Ég ætla að fara núna á eftir og keyra bílinn minn á 230 út um allt land því ég er á móti hámarks hraða 90km á klst. 

Fannar frá Rifi, 21.7.2007 kl. 15:15

4 Smámynd: Þarfagreinir

Já Steinn - það er eiginlega bara gott að netið hafi ekki verið jafn vinsælt og það er núna þegar Páll Óskar steig fram á sjónarsviðið. Eins gott og netið er, þá er það vissulega ókostur að allt of auðvelt er að henda inn á það fýlulegum fúkyrðum, vel einangraður frá þeim sem lesa þau. Öllum orðum fylgir ábyrgð; þetta vill stundum gleymast.

Birkir; já, það er alveg stórmerkilegt hvað Íslendingar eru duglegir við að nöldra yfir hinu og þessu, en geta sjaldnast komið sér saman um neinar samhæfðar aðgerðir til að sýna skoðanir sínar í verki. Kannski af því að okkur finnst að það hafi ekkert upp á sig ...

Það er reyndar góður punktur hjá þér að lítið var púað á Ómar og félaga, Fannar ... en má vera að það hafi verið vegna þess að, eins og þú segir, fólk var stillt þar, og svo var þetta svo fjölmenn ganga. Það er erfitt að dæma svo stóran hóp sem einhverja atvinnulausa aumingja og iðjuleysingja á einu bretti. Skemmdarverkin og skætingur við lögreglu er síðan svona það helsta sem má setja út á aðferðir Saving Iceland, og ég styð slíkar aðgerðir ekki. Það er góðra gjalda vert að setja sig á móti því að fólk brjóti lögin með þessum hætti, en mér finnst ekkert réttlæta þau fúkyrði og persónulega skítkast sem ég hef séð víða á netinu.

Þín gagnrýni er málefnaleg, Fannar, en eins og ég segi þá get ég því miður ekki sagt að það gildi um nærri því alla gagnrýni sem ég hef séð á Saving Iceland.

Þarfagreinir, 21.7.2007 kl. 15:38

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það sem ég hef gegn þeim er að þeir líta út eins og atvinnumótmælendur.. málstaður þeirra er hinsvegar góður og gildur.

Óskar Þorkelsson, 21.7.2007 kl. 21:03

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Atvinnumótmælendur er orð sem hefur verið markaðsett þannig að það felur í sér að viðkomandi sé: Atvinnulaus, auðnuleysingi, dópisti, ræfill, letingi, anarkisti og þaðan af verra.

Kannski er bara komið fram yfir þann tíma að mótmæla kurteisislega stjórnvöldum sem valta yfir alla skynsemi, tilfinningar og rök. 

Ævar Rafn Kjartansson, 22.7.2007 kl. 01:16

7 Smámynd: Sigurjón

Ég segi fyrir mitt leyti að ég fyrirlít ekki þetta fólk, heldur aðferðir þeirra við mótmælin.  Mér finnst lögreglan hafa verið ansi þolinmóð við þennan hóp.

Sigurjón, 22.7.2007 kl. 21:15

8 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Þetta fólk hefur ekki verið að skaða sér vinsældir

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 25.7.2007 kl. 00:04

9 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Sko, í fyrsta lagi held ég að enginn hati þetta lið, það finnst mér full sterkt tekið til orða. En eins og Sigurjón Vilhjálms sagði réttilega, það eru aðferðir þeirra sem fólk þolir ekki.

Svona trúðslæti og lýðsskrum á eftir að draga dilk á eftir sér. Í framtíðinni þegar þarf í alvöru að mótmæla einhverju, hvernig verður mannorð mótmælenda þá? Verða þeir mótmælendur ekki bornir saman við þennan hóp? Ég held það! Svona hefur landinn ætíð gert, hólfað fólk niður í ákveðinn hólf og frá því verður ekki vikið. Eins og við sjáum í dag, þá er verið nota orð eins og "atvinnumótmælendur" og "atvinnulausir hippar", þetta finnst mér alfarið rangt og er verið að stéttaskipta þessu fólki !

Þess vegna eru þeir að skemma fyrir þegar þarf virkilega að mótmæla einhverju í framtíðinni, mannorðið hefur orðið fyrir skaða og gerir öðrum erfiðara fyrir að mótmæla sökum samanburðarins.

Ég sé bara ekki tilganginn í  því að mótmæla við álver sem þegar eru byggð, eigum við þá bara ekki að safna öllum íslendingum saman og mótmæla við Danska sendiherraráðuneytið? Bara afþví að þeir sendu okkur myglað hveiti hér í denn? Nei, þetta er svona álíka heimskuleg mótmæli eins og Saving iceland gerir nú.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 25.7.2007 kl. 11:16

10 Smámynd: Þarfagreinir

Sammála síðasta ræðumanni í því að of generísk mótmæli eru skaðleg málstaðnum. Hið sama gildir um skemmdarverk og þess háttar. Þannig að ég tek undir áhyggjur þess efnis að það er áhyggjuefni að fólk lítur á þessa mótmælendur sem óalandi og óferjandi lýð - og er það ekki einmitt uppistaðan í færslunni minni?

En ég segi samt sem áður að mér finnst alls ekki réttlættanlegt að úthrópa þetta fólk með svívirðingum þegar það er svo margt fleira sem ég persónulega finnst meira pirrandi og/eða vandamál.

Þarfagreinir, 25.7.2007 kl. 16:09

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rétturinn til að mótmæla er ótvíræður og ekkert að því.  Það er hins vegar slæmt þegar farið er út í vitleysu eins og með Snorrabrautina, eignarspjöll og fleira.  Það skemmir málstaðinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.7.2007 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband