Ódýrar lausnir

Jæja, ætli maður þurfi ekki að tjá sig aðeins um Vítisenglana?

Ég hef verið að velta því svolítið fyrir mér hvaða skoðun ég á að hafa á þessu. Rétt í þessu flugu mér í huga tvö orð sem ég held að lýsi minni skoðun ágætlega, en þessi orð mynda titil þessarar bloggfærslu: Ódýrar lausnir.

Það er einmitt nákvæmlega það sem mér sýnist þetta mál snúast um. Ódýrar lausnir yfirvaldsins hér á Íslandi. Í þetta skipti sá yfirvaldið fram á að hingað væri að koma hópur manna sem eru meðlimir í vafasömum samtökum; menn sem gætu hugsanlega valdið usla. Menn sem eru ekkert sérstaklega velkomnir hingað og sem eru ólíklegir til að láta nokkuð gott af sér leiða.

Hvað gerir yfirvaldið þá? Jú, það meinar þeim einfaldlega að koma til landsins. Handtekur þá í Leifsstöð þar sem þeir eru veikir fyrir og geta enga mótspyrnu veitt, heldur þeim þar, og hendir síðan úr landi. Ódýrasta lausnin.

Svo eru hérlendis nokkrir vinir Vítisenglanna, meðlimir mótorhjólaklúbbsins Fáfnis. Þeir eru líka vafasamir og hættulegir, og grunur leikur á að þeir séu glæpamenn.

Hvað gerir yfirvaldið þá? Jú, það sendir einhverja sérsveit til að leita í húsakynnum þeirra. Finnur eitthvað smávegis af vopnum og dópi, og gerir það upptækt. Ekki fylgja þó fréttum af þessari aðgerð neinar tilkynningar um handtökur, enda er líklega erfitt að sanna upp á einhverja einstaka Fáfnismenn að þeir hafi átt það sem gert var upptækt. En það náðist þó eitthvað af ólöglegu dóti. Ódýrasta lausnin.

Ef yfirvaldið hefði einhver tök á slíku hefði það í staðinn getað sett mannafla í það að fylgja þessum mönnum eftir og njósna um þá. Það hefði getað njósnað um vini þeirra hérlendis, Fáfnismenn. Það hefði getað laumað flugumanni inn í Fáfni. Það hefði getað gripið þessa menn glóðvolga við að fremja einhverja alvöru glæpi. Það hefði getað tengt Fáfnismenn í alvörunni við skipulagða glæpastarfsemi og náð að búra þá inni til langs tíma. Það hefði getað handtekið Vítisenglana fyrir alvöru glæpi og vísað þeim héðan fyrir fullt og allt, af alvöru ástæðum.

Og ef íslenska lögreglan hefði gert allt þetta og ekkert saknæmt fundið á þessa menn, þá hefði hún þó alla vega gert sitt besta til að fylgja eftir rökstuddum grun sínum, án þess að brjóta réttindi nokkurs manns. Þannig var þetta einmitt víst orðað í fréttunum; lögreglan hafði rökstuddan grun um að einhverjir Vítisenglanna hefðu gerst brotlegir við lög í þeirra heimalöndum. Í stað þess að fylgja þessum rökstudda grun eftir með því að vakta þessa menn var gripið til þess ráðs að vísa þeim öllum úr landi. Ódýrasta lausnin.

Nei, íslenska lögreglan virðist því miður ekki hafa neina burði til að taka á skipulögðum glæpum af neinu alvöru viti. Til þess skortir fjármagn, aðallega.

Þannig er málum víst háttað hér á skerinu. Ódýrar lausnir ódýrs yfirvalds.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er hið besta mál, að senda liðið úr landinu. Lögreglan þekkir vel til staða í húsum þessara manna. Því að það eru eingöngu menn í þessum "outlaw" hópi. Það er þekkt staðreynd að þessir aðilar lifa á dópi og öðru sem heyrir glæpalífinu til. M.a. handrukkaraþjónstu. Einnig er algengt að stofa fyrirtæki í byggingageiranum, og flutningabransanum. Að leyna inn flugumönnm í samtökin er léttara sagt en gert.

Sérstaklega í litlu þjóðfélagi eins og Íslandi. Ekki eru þeir sérstaklega mikið fyrir að tala heldur. Þegar samtökin eru búin að fá fótfestu koma keppinautarnir og svo er stríðið komið á fullt. Morð og annað sem fylgir því.

Lögreglan getur ekki ein komið þessum samtökum fyrir kattanef. Ekki án þess að hafa samvinnu við erlend lögregluyfirvöld. En eitt er ljóst. Þegar samtökin eru komin inn í landið, losnum við ekki við þau.

jón spæjó 5.11.2007 kl. 12:57

2 Smámynd: krossgata

Ég hef enga skoðun á Vítisenglunum, þekki ekki neitt af þeim nema sögur fjölmiðlanna.  Ég velti fyrir mér á hvaða forsendum er hægt að stoppa fólk í "hliðinu" að landinu.  Sögusagnir um glæpi?  Með hraðakstur á sakaskránni?  Þetta er alltaf eitthvað svo loðið.

krossgata, 5.11.2007 kl. 13:18

3 Smámynd: Sigurjón

Það er einmitt málið.  Það er ekki hægt að láta fólk af erlendu bergi brotið undirrita skjöl á íslenzku, án þess að hafa lögfræðing þeim til handa viðstaddan.  Þetta er valdníðsla.

Sigurjón, 10.11.2007 kl. 04:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband