Um aðkomu RÚV að SMÁÍS

Já, ég veit að þetta er fjórða færslan í röð um torrentmál, en þau eru mér hugleikin. Ég tel þetta varða grundvallarhugsjónir og það hvernig samfélagi við viljum búa í.

Eitt sem mér var að velta fyrir mér og finnst afar merkilegt er að RÚV er aðili að SMÁÍS, eins og sjá má hér:

http://smais.is/template25024.asp?pageid=4643

Af hverju er þetta merkilegt?

Jú, af því að RÚV er fjármagnað með almannafé. Núna þegar RÚV er orðið að opinberu hlutafélagi verður aðaltekjustofn þess opinbert gjald sem allir skattgreiðendur verða skyldaðir til að greiða. Fram að þessu hefur það verið fjármagnað með afnotagjöldum, sem allir þeir sem eiga viðtæki greiða, en praktískt séð kemur það út á eitt - RÚV er og hefur alltaf verið fjármagnað af meira og minna öllum landsmönnum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Samkvæmt þessu hefði ég haldið að flest eða velflest það efni sem RÚV framleiðir sé í raun almannaeign. Ef það er það ekki, þá ætti það að vera það; það þætti mér langeðlilegast miðað við þá staðreynd að fyrirtækið er í almenningseigu og fjármagnað af almenningi.

Hvaða erindi á RÚV þá í SMÁÍS, samtök sem berjast harkalega gegn öllum þeim sem deila höfundarvörðu efni? Eina ástæðan fyrir því væri til að standa vörð um það efni sem RÚV framleiðir og ganga hart gegn þeim sem dreifa því ... því varla er RÚV meðlimur í SMÁÍS í því skyni að standa vörð um efni annarra aðila að samtökunum.

Þarna sýnist mér sumsé að RÚV sé, með milligöngu SMÁÍS, að ofsækja þá sem dreifa þeirra efni ... efni sem er fjármagnað með skattfé. Sumsé, fólk sem er í langflestum tilfellum búið að greiða fyrir allt það efni sem RÚV framleiðir að flestu eða öllu leyti, er ofsótt fyrir að deila því. Efni sem er, eða ætti réttilega að vera, í eigu allra Íslendinga er þá augljóslega óheimilt að dreifa á netinu - þeir sem það gera eiga á hættu að fá á sig kærur og háar fjársektir.

Magnað.


mbl.is Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei - efni sem RÚV tekur upp er ekki í almanna eigu. Höfundarrétturinn liggur hjá RÚV.

Dæmi: Amma mín og systur hennar höfðu samband við RÚV - nánar tiltekið útvarpið - og báðu um að fá afrit eða að fá að hlusta á leikrit þar sem pabbi þeirra er í aðalhlutverki. Hann var áhugaleikari og þal eru ekki til margar upptökur af honum að leika. Ég veit nú ekki alveg hvernig þær fréttu af þessu en þegar það kom í ljós að þessi upptaka væri til þá langaði þeim að heyra hana. Sá sem þær töluðu við kannaðist alveg við leikritið og viðurkenndi að það væri til en svar útvarpsins var: "Nei" og svo kom einhver langloka um höfundarrétt og rétt til að endurspila/sýna leikrit og bla, bla. Það eru nokkrir ÁRATUGIR síðan þetta leikrit var tekið upp.

Þannig að RÚV heldur utan um höfundarrétt á sínu efni föstum tökum og getur ekki einu sinni verið hjálplegt né liðlegt við fjórar eldri konur sem langar að hlusta á leikrit sem verður örruglega aldrei spilað aftur í útvarpinu og liggur líklega undir fjalli af ryki í einhverri hillunni.

Björk 27.11.2007 kl. 16:57

2 Smámynd: Kristján Gunnar Guðmundsson

Þeir ættu að breyta mottóinu hjá RÚV í

"Þínir Peningar, Okkar Réttindi".

Kristján Gunnar Guðmundsson, 27.11.2007 kl. 19:46

3 Smámynd: Einar Jón

Þú ert nú meiri dóninn að birta þetta í leyfisleysi. Veistu ekki að:

  • Óheimilt er að setja krækju (link) á vef SMÁÍS af annarri vefsíðu nema með skriflegu samþykki samtakanna. 
  • Skriflegt samþykki SMÁÍS þarf til að endurbirta, afrita eða dreifa upplýsingum sem fram koma á heimasíðu SMÁÍS

Þetta stendur allt saman hér: http://www.smais.is/template25024.asp?PageID=5615

Einar Jón, 27.11.2007 kl. 21:02

4 identicon

Hverning segir maður up sjónvarpstöð sem er "ókeypis"?

Kristján B 27.11.2007 kl. 22:09

5 Smámynd: Sigurjón

Já, þetta er magnað!  Palli ætti að taka þetta upp hjá sér.

Sigurjón, 28.11.2007 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband