Einmitt það já

"Ekki verið að brjóta nein grundvallarmannréttindi," segir borgarstjórinn.

Þannig að Villi virðist líta á það sem sitt hlutverk að standa vörð um grundvallarmannréttindi eingöngu - en þegar þeim sleppi geti hann sent bréf út um hvippinn og hvappinn án þess að spyrja kóng né prest, þar sem hann fer fram á að fyrirtæki skerði sína þjónustu. Af því að það eru jú engin grundvallarmannréttindi, svosem.

Vægast sagt frumleg afstaða hjá kjörnum fulltrúa, verð ég nú að segja ...

Hvurju andskotans máli skiptir það síðan, til eða frá, hvort bjór er seldur í stykkjatali þarna eða ekki? Það virðast allir aðrir en Villi (og Bingi auðvitað, sem virðist hafa verið upphafsmaðurinn að þessari fábjánalegu hugmyndafræði) gera sér fulla grein fyrir því að rónarnir eru ekki að fara neitt, þó þeir hafi ekki lengur kost á því að sníkja peninga fyrir einum og einum bjór ... sem ég vil annars meina að sé uppblásið vandamál; aldrei nokkurn tímann hef ég séð róna betlandi fyrir utan þessa búð.

Ég er með mjög einfalda lausn fyrir þá sem láta það fara í taugarnar á sér að rónar séu að belta fyrir utan þessa Vínbúð. Farið bara í einhverja aðra fjárans búð! Annars er ég líklega að tala við afskaplega lítinn hóp ... vona ég alla vega.

Rónarnir hafa alltaf verið til, og munu því miður líklega alltaf vera til. Þeir gera líka engum mein. Einhvers staðar þurfa þeir að vera, og ef einhverjum finnst algjörlega óbærilegt að þurfa að sjá þá, er einfalt mál fyrir viðkomandi að einfaldlega forðast að fara þangað sem von er á þá sé að finna.

Svo er það stóra spurningin - fyrir hvern eru Villi og Bingi að gera þetta?

Ef þeir eru að gera þetta fyrir (hugsanlega uppskáldaða) fólkið sem lætur það fara í taugarnar á sér að 'skrambans rónarnir' séu að áreita það, þá er það ógeðfelldur elítistahugsanaháttur; að rónarnir megi svosem vera í miðbænum, svo lengi sem þeir abbast ekki upp á broddborgarana. Og besta leiðin til að takmarka leiðir þeirra til að abbast upp á broddborgarana er síðan að sjálfsögðu sú að skrifa fyrirtækjum bréf og biðja þau um að vinsamlegast draga úr sinni þjónustu.

Ef þeir eru að gera þetta fyrir rónana, til að draga úr þeirra drykkju, þá er þetta vanhugsað rugl. Leiðin til að fá róna til að hætta að drekka, eða til að fá þá til að drekka minna, er ekki að takmarka aðgengi þeirra að hinni og þessari tegund áfengis. Hún er sú að koma þeim í meðferð. Athyglisvert að Villi Vínbúðarskelfir og Bingi Bjórdósabani hafi ekkert tjáð sig um þá hlið málsins ... hvernig hjálpa megi rónunum ... Maður er farinn að hallast að því að þeir hafi engan áhuga á því. En það getur nú varla verið, er það nokkuð? 


mbl.is Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Villi og bingi :D  algerir erkifávitar báðir tveir.. enda báðir framsóknarmenn þótt Villi sigli undir fölsku flaggi sjálfstæðisskútunnar..

Talandi um róna bæjarins.. hefur einhver séð róna kaupa sér bjór ? alvöru róni drekkur varla bjór, of mikið vesen, of lítill vínandi miðað við magn..

ég hef verslað nokkrum sinnum í vínbúðinni í austurstræti en ég hef aldrei tekið eftir kælinum.. sennilega verið svo sjálfsagður hlutur í versluninni að ég tók ekkert eftir honum.

Óskar Þorkelsson, 23.8.2007 kl. 16:37

2 Smámynd: Þarfagreinir

Þessi kælir var víst eitthvað bakatil; fólk þurfti að vita af honum til að komast í hann - biðja starfsmann um að ná í kaldan bjór úr honum. Skilst mér.

Þarfagreinir, 23.8.2007 kl. 17:47

3 Smámynd: krossgata

Hvaða fíflagangur er þetta í hrokagikknum?  Storma um alla fjölmiðla varðandi helsta mein miðbæjarins, vínbúðina þarna og þjónustuna þar og svo þegar fólk hlær að honum og skammar hann þá áttar hann sig á PR-klúðrinu hjá sér og snýr uppá sig með sínum venjulega hroka og segir Aðalmálið var ekkert aðalmálið fíflin ykkar.

krossgata, 23.8.2007 kl. 20:00

4 Smámynd: Þarfagreinir

Já, og frábært að heyra að hans vegna megi kælirinn fara upp aftur. Ég er að spegúlera að fara á fund hans og bugta mig fyrir honum á morgun, svo góður er hann við okkur lítilmagnanna.

Þarfagreinir, 23.8.2007 kl. 21:33

5 Smámynd: Furðuvera

Þetta minnir bara á París í gamla daga, fína fólkið fékk alveg fyrir hjartað ef fólk af lægri stéttum svo mikið sem yrti á það á götum úti. Villi er bara allt of snobbaður til að vera borgarstjóri, ef hann getur ekki borið virðingu fyrir ÖLLUM borgarbúum, hvort sem þeir eru ríkir, fátækir, heimilislausir eða eiga við vandamál að stríða, þá á hann ekki skilið að hafa áhrif á lífskjör þessa fólks. Líklega væri hægt að bjarga stórum hópi af útigangsfólki með því að koma þeim í meðferð því að kostnaðarlausu, gefa því föt og redda þeim vinnu og húsnæði þangað til þau gætu staðið á eigin fótum. Á endanum er tryggt að einhver prósenta þessa fólks myndi verða að nýtum þjóðfélagsþegnum.

Auðvitað leysir það engin vandamál að loka einni vínbúð af öllum þeim sem eru í höfuðborginni. Það mætti halda að grey rónarnir gætu ekki gengið nokkra kílómetra í aðra búð, fyrst þeir eru nógu örvæntingarfullir til að betla in the first place...

Furðuvera, 26.8.2007 kl. 21:03

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Villi viðutan er mjög villtur og vígreifur í yfirlýsingum sínum hvort sem er um þetta eða brunann. Þegar hann þarf svo að éta ofan í sig stóru orðin verður hann svo flóttalegur til augnanna að ég vorkenni honum. Í staðinn fyrir að vera eins og Jeltsín á skriðdrekanum eins og hann hefur sjálfsagt séð sig fyrir sér í slökkviliðsgallanum er hann meira í ætt við Clinton þegar hann sagðist ekki hafa haft mök við fröken Moniku. Svo er spurning hvort ÁTVR geti komið kælinum í verð eða hann endi í Ráðhúsinu. Er ekki alltaf verið að veita þar?

Ævar Rafn Kjartansson, 28.8.2007 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband