Batnandi mönnum er best að lifa

Það er ágætt að hann Sigurður Kári er búinn að átta sig á því að það fyrirfinnst spilling í íslenskum stjórnmálum. Þetta virðist honum nefnilega hafa verið ögn á huldu fyrir rétt rúmum fimm árum síðan.

Þess má geta að sú skýrsla forsætisráðherra sem þarna var til umræðu varð til þess að stofnuð var nefnd um þessi mál, og vinna hennar leiddi til þeirra lagasetningar sem loksins var farið í í árslok 2006 (þið munið; árið sem Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsóknarflokkur sættu lagi til að safna styrkjum sem aldrei fyrr á meðan enn gafst færi á því).

Meðal þeirra sem báðu um þessa skýrslu var Jóhanna Sigurðardóttir. Hún var alla tíð ötull talsmaður lagasetningar um styrki til flokkanna, líkt og sjá má til dæmis í hennar framlagi til umræðunnar á þinginu þennan daginn.


mbl.is Vænd um spillingu og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Seðlabanka

Undanfarið hefur borið nokkuð á gagnrýni á fráfarandi stjórn Seðlabankans vegna lána þeirra til viðskiptabanka í undanfara hrunsins. Nú síðast var það Ríkisendurskoðun sem setti út á þetta atriði. Aðrir voru hins vegar fyrri til, og hafa þeir fengið afar bágt fyrir í skrifum þeirra sem teljast mega til þess félagsskapar sem stundum er nefndur 'Náhirðin'. Þar má fyrstan nefna Jón Steinsson, sem nú er keppst um að gera sem tortryggilegastan sem persónu. Hið sama gildir um Gauta B. Eggertsson.

Töluvert minna fer þó fyrir vitrænum efnislegum svörum við þessari gagnrýni. Það er eins og sumir eigi afskaplega erfitt með að halda sig við þetta einfalda efni, sem er lán Seðlabankans til viðskiptabankanna gegn ótryggum veðum. Meðal annars er garfað í málflutningi Jóns Steinssonar fyrir hrun og reynt að gera mikið úr því að hann hafi ekki varað nógu rækilega við hruni. Við því er það eitt að segja að nokkru fyrir hrun áréttaði Jón Steinsson einmitt það atriði sem hann gagnrýnir Seðlabankann fyrir eftir hrun; að í lausafjárkreppu skuli einungis lánað gegn traustum veðum. Hvað þetta atriði varðar hefur því aldrei verið neitt ósamræmi í hans málflutningi - og eru tilraunir til að gera lítið úr persónu hans vegna annars málflutnings hans því þeim mun aumkunarverðari.

Annað sem ég tel ósvarað, svo maður freistist til að draga persónu Davíðs Oddssonar inn í umræðuna (sem er reyndar að vissu leyti réttlætanlegt miðað við að skítmokstur 'Náhirðarinnar' virðist aðallega stundaður í því skyni að verja téða persónu), er af hverju maðurinn sem sagði 0% líkur á að bankarnir myndu lifa af fjármálakrísuna kaus í krafti embættis síns að teygja sig ansi langt til að reyna að halda þeim á floti, m.a. með lánum gegn ótraustum veðum. Af varnarræðunni sem sjá má hér má helst ráða að Seðlabankanum var nauðugur einn kostur, ekki síst vegna þess að bankarnir fegruðu efnahagsreikninga sína. En - enn og aftur - ef Davíð var hvort eð er sannfærður um að bankarnir myndu ekki lifa af, hví þá að láta blekkjast af efnahagsreikningum?

Önnur spurning vaknar síðan þegar þessi málflutningur er skoðaður í ljósi eldri málflutnings sama manns. Þar segir meðal annars:

„Hefðum við haft meira svigrúm hefðum við verið í betri stöðu til að þrýsta á bankana um að draga saman seglin. Við hefðum bæði haft gulrætur og svipu en í raun höfðum við hvorugt."

Málatilbúnaðurinn hér er sumsé í þá veru að Seðlabankinn hafi haft afar takmörkuð völd til að þrýsta á bankana, þó vilji hafi staðið til þess. Þessi lína var töluvert básúnuð af 'Náhirðinni' upp úr hruni og frameftir þessu ári.

Hins vegar segir í Morgunblaðspistlinum sem vísað er í hér fyrir ofan (og sem vafalaust er eftir Davíð):

„Ef Seðlabankinn hefði lýst því yfir að hann veitti ekki lán sem hefðu viðskiptabankana þrjá að veði hefðu þeir orðið að loka fáum mínútum eða klukkustundum síðar. Þá væru sjálfsagt ekki neinir í vafa um hver eða hverjir hefðu komið bönkunum á hausinn!"

Hér er sumsé ekki annað að sjá en að fram sé komin svipan sem sögð var vera ekki til staðar. Samkvæmt þessum málflutningi voru viðskiptabankarnir algjörlega háðir Seðlabankanum upp á að lifa fjármálakreppuna af, og Seðlabankinn hefði því hæglega getað beitt þeim þrýstingi til að þeir drægju úr umsvifum sínum, gegn því að þeir fengju lánað. Engum sögum fer þó af því að þetta hafi verið gert. Hvað veldur þessu misræmi í málflutningi?

Það væri afar fróðlegt að fá að vita hvort 'Náhirðin' hefur einhver svör við þessum spurningum. Hugsanlega er það þó ögn raunhæfari krafa að hún svari fyrst gagnrýninni á lánveitingar Seðlabankans gegn ótryggum veðum á efnislegan og sannfærandi hátt - það verkefni liggur enn fyrir.


Af væli

Pirringur Katrínar þykir mér eiga sér eðlilegar orsakir, þó vissulega séu upphlaup í ræðustól á Alþingi sjaldnast fólki til vegsauka. Ekki var málþóf þingmanna Sjálfstæðisflokksins þó heldur þeim til vegsauka.

Já, því málþóf var það, samkvæmt öllum eðlilegum viðmiðum.

Þetta er lagafrumvarpið sem var til þriðju umræðu í gærkvöldi, og sem kosið var um í morgun, laust fyrir hádegi (samkvæmt vef Alþingis sýnist mér svo vera; og að upphlaup Katrínar hafi þá orðið í morgun). Það snerist sumsé um breytingu á einni prósentutölu.

Eins og sjá má á Alþingisvefnum voru það einungis Sjálfstæðismenn og hinn Frjálslyndi Grétar Mar sem tóku til máls um frumvarpið í gærkvöldi, og þeir gerðu það oft og mikið. Á tímabilunum 19:00-19:21, 20:01-20:54, og 21:07-00:02 'ræddu' þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og Grétar Mar stuttlega) þetta 'mjög svo mikilvæga' lagafrumvarp sín á milli í þaula, í töluðu máli jafnt sem söng.

Þessari 'umræðu' lauk síðan með því að frumvarpið var samþykkt samhljóða. Leiðinlegt nokk var söngfuglinn Árni hins vegar meðal fjarstaddra, og fékk því miður ekki færi á að tjá afstöðu sína til málsins með atkvæði sínu.

Maður hlýtur að spyrja að tilgangnum með þessum fíflaskap ...


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt fyrirsögn

Fyrirsögn þessarar fréttar er núna: "Geir: Tek minn hluta af ábyrgðinni".

Í yfirlitinu yfir innlendar fréttir lítur fyrirsögnin hins vegar svona út.

Hið sama blasir við einmitt núna þegar ég er að skrifa þessa færslu.

Erfitt er að álykta annað en að það sem þarna sést sé upphaflega fyrirsögn fréttarinnar, en að henni hafi síðan verið breytt yfir í það sem hún er núna.

Af hverju ætli það hafi verið gert?

 


mbl.is Geir: Biðst ekki afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um þingrofsvaldið

Það gat nú verið að enn og aftur er deilt um valdsvið forseta lýðveldisins. Nú setja ýmsir út á það að hann hafi fullyrt að forsætisráðherra hefði ekki þingrofsrétt (eða óskoraðan þingrofsrétt). Gagnrýnendur hans vilja sumsé meina að hann sé þarna að taka sér vald, sem hann ekki hafi; að hann seilist inn á verksvið forsætisráðherra. Þetta er allrar umræðu vert.

Það sem Ólafur Ragnar sagði í gær var þetta (skrifað upp eftir honum héðan):

Ég hef tekið eftir því að það hefur verið hér umræða í fjölmiðlum um þingrof og sú kenning hefur verið sett fram af ýmsum, eða það sjónarmið, að forsætisráðherra hafi þingrofsréttinn, einn og sér. Þetta er misskilningur á íslenskri stjórnskipan. Forsætisráðherra hefur tillögurétt um þingrof, og síðan er það sjálfstætt mat forseta, eins og dæmin sanna, úr íslenskri sögu, hvort að hann verður við þeirri ósk eða ekki. En fráfarandi forsætisráðherra, Geir Haarde, setti ekki fram neina slíka ósk á okkar fundi hér áðan. Þess vegna er auðvitað alveg ljóst að frá og með þessari stundu er ekki starfandi neinn forsætisráðherra í landinu sem getur gert tillögu um þingrof, og samkvæmt stjórnskipun er það þess vegna alfarið í hendi forsetans.

Það er síðasta setningin sem sætt hefur gagnrýni, meðal annars af hálfu Björns Bjarnasonar, AMX, og Vefþjóðviljans - enda kjósa allir þessir pennar, líkt og margir fjölmiðlar, að túlka ummælin sem svo að forsetinn segi að enginn starfandi forsætisráðherra geti gert tillögu um þingrof, vegna þess að forsætisráðherra hafi beðist lausnar. Af orðum forsetans í heild sinni er hins vegar nokkuð ljóst að hann telur að enginn starfandi forsætisráðherra geti gert tillögu um þingrof, vegna þess að forsætisráðherra baðst lausnar án þess að fara fram á þingrof. Þetta er mikilvægt atriði, þó sumum kunni virðast það smátt; forsetinn hefði væntanlega tekið tillögu um þingrof til greina ef forsætisráðherra hefði sett hana fram í gær - en svo var ekki, og því er þingrofsrétturinn, sem og umboðið til að mynda ríkisstjórn, eðlilega í höndum forseta. Orðalagið hjá forsetanum er reyndar í besta falli óheppilegt, því vitaskuld er og verður alltaf starfandi forsætisráðherra í landinu - en það sem mest er um vert er að forsetinn var alls ekki að hrifsa þingrofstillöguréttinn af forsætisráðherra með ómaklegum hætti.

Annað sem sett er út á er það að forsetinn segist hafa þingrofsrétt yfir höfuð. Vefþjóðviljinn fullyrðir meðal annars að "Geir H. Haarde [hafi] enn óskorað vald til að rjúfa alþingi og boða til kosninga" - en þetta er hreinlega rangt, enda stendur langt í frá skýrum stöfum í stjórnarskrá að forsætisráðherra hafi þingrofsrétt. Þvert á móti stendur þar skýrum stöfum, í 24. grein, að forseti hafi þingrofsrétt, þó töluvert hafi verið deilt um praktíska þýðingu þeirrar tilteknu greinar (sem og fleiri greina í stjórnarskrá sem forsetaembættið varða) með því að vísa til greina í stjórnarskránni þar sem kveðið er á um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, og fleira í þeim dúr. Hvað sem því öllu líður er óvefengjanlega hefð fyrir því, eins og Ólafur Ragnar minnist á, að það er forsetinn sem tekur lokaákvörðun um þingrof, samanber það þegar forsætisráðherrann Ólafur Thors fór fram á þingrof 1950, en Sveinn Björnsson forseti neitaði að verða við því. Það er því augljóst að forsætisráðherra hefur hvergi nærri 'óskorað vald til að rjúfa alþingi'. Hins vegar má deila um hvort forsætisráðherra hafi óskoraðan rétt til að fara fram á þingrof, en það er auðvitað allt annað mál - sem tekið var fyrir hér fyrr í pistlinum.

Valdaránið og stjórnlagakreppan sem sumir vilja sjá úr þessum orðum forsetans eru því heldur í þynnra lagi. Forseti ræddi við forsætisráðherra; sá síðarnefndi baðst lausnar, fór ekki fram á þingrof, og fól hinum fyrrnefnda að mynda nýja stjórn og kveða á um þingrof. Þar til það hefur verið gert, og ný stjórn tekur við, starfar forsætisráðherra að forminu til. Aðrar túlkanir á atburðarásinni og viðhorfum þeirra sem að henni koma virðast lítið annað en smásmugulegar og ósanngjarnar túlkanir á orðum.

Annars ætti nú að vera einfalt mál að skera úr um hvort hér ríkir stjórnlagakreppa eða ekki - það má einfaldlega spyrja Geir Hilmar Haarde að því, hvort hann hafi áhuga á að fá stjórnarmyndunarumboð, og/eða fara fram á þingrof í náinni framtíð. Ef svarið er nei við báðu, þá er ekki um neina stjórnlagakreppu að ræða.

Stjórnmál snúast nefnilega ekki um lögin og valdið eingöngu, heldur líka samskipti og samkomulag milli fólks. Því vilja sumir gleyma stundum.


Rofar til

Það að leggja til að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra er ein langskynsamlegasta hugmynd sem fram hefur komið í íslenskri pólitík í ... allt of langan tíma. Með fullri virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, sem ég hef ágætar mætur á sem...

Af röskuðu jafnvægi

Í dag birtist í Fréttablaðinu pistill eftir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, þar sem hann viðrar sínar skoðanir á bankahruninu og orsökum þess. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég leiða þennan pistil hjá mér, eins uppfullur af undarlegheitum og hann...

Sögufölsun?

"Sögufölsun", æpa sumir nú. Fyrir mér er þetta hins vegar ósköp einfaldlega svona: 1) Bókin fjallar væntanlega að miklu leyti um tengsl forsetans við útrásarævintýrið, og hans óbilandi trú á því. 2) Í formála og eftirmála er þá væntanlega vikið töluvert...

Eðli lýðræðisins

Nú tel ég hreint ekki úr vegi að rifja upp mótmælin í Ráðhúsinu fyrr á árinu, þegar hinn skammlífi og að mínu mati fyrirfram feigi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. var myndaður. Flestum ætti að vera í fersku minni að við þeim mótmælum brugðust...

Borgarmálin

Það er ekki laust við að maður sé hálforðlaus yfir þeim. Fátt kemur manni orðið á óvart þegar þau eru annars vegar. Það er nokkuð ljóst að eitthvað mjög mikið er að hér í höfuðborginni. Þeir sem ekki sjá það eru með hausnum í sandinum. Ég tel afskaplega...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband