9.10.2007 | 16:23
Ábyrgð
En þetta er ekki það sem fólkið vill," sagði Kristinn bætti við, að stjórnvöld ættu að axla ábyrgð á að byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni en stuðla ekki að því að fólk flytji burtu.
Nú spyr ég eins og fávís vitleysingur ...
Er það alfarið á ábyrgð stjórnvalda að byggja upp atvinnulíf? Er það almennt viðhorf nútímafólks að það séu stjórnvöldin sem eigi að byggja upp atvinnulífið - eða gildir þetta kannski bara um landsbyggðina? Af hverju þá?
Hvar eru allir frumkvöðlarnir á landsbyggðinni? Allir fluttir á mölina? Af hverju treysta þá þeir sem eftir búa stjórnmálamönnum til að finna upp á einhverjum snilldarlausnum? Er kannski ekki um neitt annað að ræða? Hví þá ekki að flytja bara suður, fyrst maður er upp á pólitíkusa kominn um hvort maður fær vinnu, og hvernig vinna það er?
Hörð gagnrýni á flutningastyrki vegna atvinnuleysis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
he he góður punktur hjá þér.. gott sjónarhorn á vandann finnst mér.
Óskar Þorkelsson, 9.10.2007 kl. 16:57
Já það er gott að sitja í höfuðborginni og hneikslast á bjargarleysi landsbyggðarinnar. Það er staðreynd að landsbyggðin stendur ekki jafnfætis höfuðborgarsvæðinu. Öll þjónusta er í borginni, þar er líka aðal markaðurinn fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem starfa útá landi.
Það er nánast sama hvaða vara, hugmynd eða þjónusta er til umfjöllunar, þá er upphafið eða endir alls í borginni.
Innflutningur fer í gegnum borgina og þaðan útá land. Útflutingur kemur utan af landi til borgarinnar og þaðan til útlanda. Segir þetta okkur ekki eitthvað um stöðuna. Þetta er aukinn kostnaður fyrir fyrirtæki útá landi, engin spurning um það.
Samgöngur eru annar vinkill á málinu og kemur auðvitað inná fjarlægðina á markaðinn.
Netsamband er síðan enn annar vinkill á málið.
Ég held reyndar að við verðum að horfast í augu við að landsbyggðin er að hopa, og þess vegna er eðlilegt að kalla eftir einhverri byggðastefnu sem felur annað og meira í sér en álver.
Ég ætla nú svo sem ekki að mæla með því að ríkisstjórnin sjái um að fólk á landsbyggðinni fái vinnu, en ríkið verður hins vegar að gera fólki kleift að vinna útá landi. Sú hugmynd er hins vegar meira í orði en á borði, og er auðvitað aldrei jafn áberandi og í kringum kosningar.
Kveðjur frá, Fnjóskdælingi, Akureyringi, Reykvíkingi og Vestmannaeyingi.
Guðmundur Örn Jónsson, 10.10.2007 kl. 22:36
Ég var einmitt að bíða eftir mótrökum í þessa veru, Guðmundur, enda var þessi færsla ekki sett fram af algjörri alvöru, heldur frekar til að vekja umræðu.
Auðvitað hef ég fulla samúð með landsbyggðinni og hennar vanda - mér þykir bara svo sorglegt að svo virðist fyrir landsbyggðarbúum komið að þeir virðast margir hverjir líta til stjórnmálamanna til að bjarga sér, sem ég tel einmitt ekki vera fólkið með snilldarlausnirnar, því miður. En að sjálfsögðu bera þeir mikla ábyrgð á að skapa góð skilyrði úti á landi, og þar hafa þeir brugðist að mörgu leyti - í stað þess einblína þeir á hálfkommúniskar allsherjarríkisvaldslausnir á borð við álver, sem eiga að redda fólki vinnu á einu bretti. Þeir sem eru á móti álverunum eru síðan spurðir hvað eigi að koma í staðinn (og felst þá oftast í þeirri spurningu vitaskuld hvað ríkið eigi að gera í staðinn til að skapa hundruðum manns atvinnu á einu bretti). Þetta tel ég mesta glapræðið í þessu öllu saman.
Þarfagreinir, 11.10.2007 kl. 00:01
Það er náttúrulega lítið vit í að halda uppi byggðarlögum eins og Siglufirði. Eftir að rækuvinnslan þar hættir starfsemi í lok mánaðarins verður meirihluti starfa á svæðinu hjá ríki og sveitarfélagi.
Á ekki bara að breyta pleisinu í sumarhúsabyggð og senda fólkið eitthvert annað?
Mótrök óskastEinar Jón, 11.10.2007 kl. 11:26
Gott að vita að hinn ísafjarðarættaði þarfagreinir veltir þessum málum upp, og ég sé það á svari þínu að við erum sammála í grundvallaratriðum. Þetta er spurning um að skapa fólki þær aðstæður að það geti bjargað sér, það er á ábyrgð ríkisins og þess vegna er nauðsynlegt að kalla eftir heildstæðri byggðastefnu. Það er sama hvað pólitíkusar tala um byggðastefnu, þá er málið einfaldlega þannig að það er engin byggðastefna til á Íslandi. Stefnan er miklu frekar að setja plástra á báttið og fara síðan undan í flæmingi þegar kallað er eftir stefnu.
Það Viðhorf sem Einar Jón kynnir er auðvitað alþekkt. En ég held að staðreyndin sé sú að með heildstæðri byggðastefnu þá værum við ekki að velta þessu fyrir okkur. Þá væri búið að taka ákvörðun um það hvort við viljum að landið sé byggt, eða þá að allir verði fluttir á einn stað á landinu, og þá er nú líklega stutt í að við förum að velta því fyrir okkur hvort ekki væri hagkvæmast að flytja þessar fáu hræður sem búa á Íslandi, eitthvað annað. Til Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada?
Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef engar patentlausnir á málum Siglufjarðar eða annarra minnkandi staða. En ég trúi ekki öðru en að við getum með einhverju móti gert fólki kleyft að búa útá landi, alveg eins og fólk á að geta flutt frá þessum stöðum, til höfuðborgarinnar eða einhverra annarra staða, án þess að eiga það á hættu að eina húsnæðið sem það getur keypt sér á nýjum stað sé ekki stærri en kústaskápur. Því verðgildi eigna er vissulega óyfirstíganlegt vandamál fyrir svo marga sem vilja breyta til.
Semsagt umferð fólks til og frá landsbyggðinni ætti að vera sem eðlilegust, það á auðvitað ekki að binda fólk niður þar sem það kærir sig ekki um að vera. Á sama hátt ætti fólk að geta búið þar sem það kærir sig um.
Ég þekki vel dæmi um fjölskyldu sem flutti útá land, inní blómlega sveit, þar sem frúin fór að kenna í skólanum í sveitinni og húsbóndinn ætlaði sér að vinna áfram í sinni vinnu í gegnum tölvuna (tengdist eitthvað forritun og sendingu gagna af öllum stærðum). Í ljós kom að tölvusamskiptin voru á engan hátt boðleg, og ein einasta mynd var endalausan tíma að downlodast, hvað þá heilu forritin. Þau stóðu frami fyrir því að annað hvort hætti hann í sinni vinnu eða þá að yrðu að flytja aftur.
Guðmundur Örn Jónsson, 11.10.2007 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.