19.10.2007 | 00:59
Tollar
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér þessum blessuðu tollum sem lagðir eru á okkur Frónbúa. Þetta kviknaði allt saman þegar ég las einhvers staðar um það að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli tekur strangt á því þegar fólk fer með til dæmis fartölvur eða myndavélar út; skyldar fólk til að hafa með sér kvittanir svo það geti sannað að það hafi keypt græjuna hérlendis þegar það kemur heim aftur - annars þarf það að borga toll.
Svo gildir auðvitað hið sama ef manni dettur í hug að panta eitthvað af netinu ... þá þarf ekki einungis að borga virðisaukaskatt (sem er nú nógu hár), heldur tolla og vörugjöld og hvað þetta heitir allt saman.
Mér finnst þetta allt saman bara svo grábölvað; allt að því djöfullegt. Hér hírumst við á lítilli eyju í ballarhafi og komumst hvergi annað nema með því að fljúga. Ef við pöntum vörur að utan er síðan ágætis sendingarkostnaður lagður ofan á það. Innlendi markaðurinn er lítill og mikið um fákeppni; íslenskir kaupmenn okra, eins og við erum svo gjörn á að kvarta yfir. En hvað gerir svo kerfið til að auðvelda hinum almenna borgara lífið í þessum efnum? Ekki r*ssgat. Nei, þvert á móti er fólki allt að því refsað fyrir að flytja inn vörur sjálft og sleppa milliliðnum, ekki einungis með háum virðisaukaskatti, heldur alls kyns öðrum skemmtilegum gjöldum.
Annar vinkill er að með þessu ofstopafulla eftirliti er ferðalöngum sem dirfast að taka með sér tæknigræjur vitaskuld gert erfitt fyrir; þeir skyldaðir til að geyma kvittanir og taka með sér til að sanna að þeir eigi þetta nú fyrir, en séu ekki að 'smygla' þessu dóti inn ... ríkið verður nú alltaf að fá sitt, það sér hver maður. Fólk skal sko ekki dirfast að nota sínar dýru utanlandsferðir til að kaupa eitt né neitt dýrt án þess að borga af því toll. Vegna þessarar kvaðar er því að sjálfsögðu bráðnauðsynlegt að íþyngja meirihlutanum, sem tekur þetta með sér út í stað þess að flytja það inn.
Auðvitað gildir þetta síðan almennt, líka þegar maður kaupir í gegnum milliliði. Milliliðirnir þurfa jú líka að borga tolla og vörugjöld af því sem þeir flytja inn. Vegna hárrar álagningar þeirra er þó skárra að flytja inn sjálfur, en ekki alltaf ...
Það eru alls konar vöruflokkar sem ráða því hversu mikið er lagt á vöruna, en ástæðurnar fyrir þessu eru þeim mun óljósari. Ekki er þetta þó til að vernda innlenda framleiðslu, eins og venjulega gildir um tolla, því hérlendis er nú til dæmis ekki mikið framleitt af hátæknigræjum eða lúxusvarningi. Þetta virðist frekar vera svona aukaskattur fyrir að láta sér detta það í hug að kaupa ónauðsynjavörur.
Fuss og svei.
Svo eru það nú gjöldin sem eru lögð á geisladiska, tónlistarspilara, og þess háttar, sem renna beint til STEF, af því að þetta má jú nota til að stela íslenskri tónlist, og því þarf auðvitað að sekta alla þá sem slíkt kaupa fyrirfram fyrir þá óhæfu, þar með talið fólk sem ekki brýtur af sér. Þetta er þó efni í annan langan pistil.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Facebook
Athugasemdir
Ætli það verði langt í að fundinn verði upp regla og tollgjöld um að greiða verði fyrir fötin sem þú ferðast í ef þú ert ekki með kvittun um að þau hafi verið keypt hérlendis.
Og skemmdarverkaskattur á egg. Þau eru jú stundum notuð af misyndismönnum og í mótmælum til að grýta í hús og bíla.
krossgata, 19.10.2007 kl. 10:37
Verslaðu bara hluti í gegnum ShopUSA.is. Ég hef gert það nokkrum sinnum og sparað helling á því.
En já gallinn einmitt við að búa á eyju er að það er svo fjandi dýrt að koma varningi hingað til landsins og alli vilja nú græða.
Tryggvienator, 19.10.2007 kl. 15:57
Eitt sem kemur fram í þessu er rangt hjá þér Þarfi, það er að það verði að hafa með sér kvittanir þegar farið er til útlanda.
Þetta er alrangt. Tollurinn í Leifsstöð getur gefið þér kvittun fyrir dýru myndavélinni, fartölvunni eða hverju sem er (sértu með það í handfarangri). Ég fór til útlanda eitt sinn með 3 100.000 króna skjávarpa og 1.000.000 króna tölvu vegna sýningar sem ég vann að. Við fórum (gömlu leiðina) og ræddum við Tollarana á leiðinni út. Þeir létu okkur hafa gula miða þar sem kom fram tegund og svoleiðis... Síðan þegar við komum heim þá gátum við framvísað þessum miðum í Græna hliðinu og fórum í gegn án athugasemda.
Varðandi farangur sem á að fara í lestina er ég ekki lengur viss um hvað skuli gera. Best væri að leita upplýsinga hjá tollvörðunum sem eru faldir úti í horni, hægra megin við innganginn í farangursbottfarartékkið....
Hvað allt annað í færslunni varðar þá tek ég heilshugar undir með þér. Ég hata Eyjur.
B Ewing, 26.10.2007 kl. 15:21
krossgata: Þetta eru afbragðsgóðar hugmyndir. Ég er viss um að einhver kerfiskallinn sem les þetta á eftir að taka þær upp á sína arma.
Tryggvi: Þakka ábendinguna. Ég skoða þetta.
B. Ewing: Jæja, þá er það alla vega rangt. Ég fór eftir frétt sem ég las; má vera að ég hafi misskilið eitthvað. Þetta er þó aðeins skárra fyrirkomulag en að þurfa að geyma kvittunina.
Þarfagreinir, 27.10.2007 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.