Kjarni málsins

Hvenær ætla 'hagsmunaaðliar' að sætta sig við það að tölvutæknin býður einfaldlega upp á það að fólk skiptist á öllu því efni sem það vill skiptast á, með einum eða öðrum hætti? Engu máli skiptir hvaða lögfræðihótunum, lögregluaðgerðum og áróðri er beitt ... ef einhver vill ná sér í eitthvað á netinu verður hann alltaf fær um það. Ég skil svo sem viðleitni þeirra sem telja sig hlunnfarna í að berjast gegn þessari tækni, en málið er einfaldlega að slík barátta er alltaf dauðadæmd. Ef Istorrent verður lokað verða enn til ógrynni erlendra Torrentsíðna þar sem Íslendingar munu geta deilt hvaða því íslenska efni sem þeir vilja. Ef þeim síðum verður lokað munu aðrar spretta upp í staðinn. Þannig er það einfaldlega bara.

Hér mætti fólk taka sér Radiohead til fyrirmyndar. Þeir kappar ákváðu að fara framhjá útgáfuapparatinu og gefa út sína nýjustu plötu sjálfir á netinu, og leyfa fólki að greiða það sem það vill fyrir hana. Þetta tel ég vera skynsamlegt; að nýta sér tæknina í eigin þágu og sýna fólki virðingu, í stað þess að berja höfðinu við steininn eins og hver annar þurs, og ofsækja venjulegt fólk með lögfræðihótunum og yfirgangi. Lögfræðihótunum er nefnilega ekki bara beint gegn þeim sem reka Istorrent, heldur líka hinum almenna borgara. Ágætt dæmi um slíkt má sjá hér.

Sjálfur væri ég meira en til í að hafa aðgang að einhvers konar kerfi þar sem ég gæti einfaldlega greitt þeim tónlistarmönnum sem ég hef gaman af og ber virðingu fyrir þær fjárhæðir sem ég vildi. Ég get sagt það í fullri einlægni að ef slíkt væri í boði myndi ég glaður henda nokkrum þúsundköllum í þá tónlistarmenn sem ég hef hlustað á í gegnum tíðina og jafnvel stolið tónlist af.

Síðan er það eitt sem ekki ætti að vera erfitt að átta sig á. Hagsmunaðilar reikna alltaf tekjutap sitt í fjölda niðurhala. Forsendan er sumsé sú að hvert einasta ólöglega niðurhal sé töpuð sala - að ef viðkomandi hefði ekki haft tök á því að nálgast efnið á netinu hefði hann farið og keypt það. Er það raunhæft? Spyr sá sem ekki veit. Tæknin er einfaldlega þannig að það er miklu minni fyrirhöfn að ná sér í það sem maður vill á netinu, og þetta er nokkuð sem hagsmunaðilar ættu að fagna og nýta sér í þágu neytenda. Reyndar ber hér að nefna að til er ágæt síða, tonlist.is, þar sem hægt er að kaupa íslenska tónlist gegn ekki svo slæmu verði. Hins vegar ber einnig að nefna að önnur ástæða þess að þessi leið til að reikna út tekjutap er óraunhæf er sú að stundum (jafnvel oft) nær fólk sér ókeypis í efni sem það myndi öðrum kosti aldrei borga fyrir. Hvar er tekjumissirinn þar?

Hvernig er svo annars með gjaldið sem er lagt ofan á hvern einasta fjárans geisladisk sem er keyptur hér á skerinu? Og sambærilegt gjald sem er lagt á upptökutæki og tónlistarspilara? 'Rökin' eru þau að allt þetta megi nota til að stela íslenskri tónlist. Þessir peningar renna því beint til STEF, og þetta getur ekki verið neitt annað en hreinasta gullnáma fyrir þau samtök. Hversu hátt hlutfall af keyptum geisladiskum og upptökutækjum hérlendis ætli sé notað til að stela íslenskri tónlist? Ætli það sé yfir 1%? Það efa ég stórlega. Þetta gjald er því ekkert annað en sekt fyrirfram fyrir glæp sem örfáir þeirra sem sektina greiða fremja. Samt sem áður berjast þessi sömu samtök með kjafti og klóm gegn ólöglegri afritun á tónlist, því það er jú ólöglegt! STEF fær því kökuna og étur hana líka, eins og enskumælandi myndu segja. Þeir fá sektir fyrir ólögmæta afritun, jafnvel úr vasa hinna saklausu - en þeir fá líka að ofsækja alla þá sem stunda þessa sömu ólögmætu afritun, þrátt fyrir að saklaus almenningurinn borgi þeim háar sektir fyrir hana með því einu að kaupa ákveðnar vörur. Þetta er ekkert annað en glæpsamlegt helvítis rugl. Ég skil engan veginn af hverju ráðamenn hafa ekki séð sóma sinn í að afnema þetta kjaftæði fyrir löngu síðan.

Varðandi STEF, þá er margt athyglisvert við þeirra starfsemi. Manni skilst til dæmis að venjulegir popparar græði afskaplega lítið á þeim samtökum. Um þetta má til að mynda lesa í þessari bloggfærslu Dr. Gunna. Þetta eru sumsé samtökin sem ásaka þá sem deila íslenskri tónlist á netinu um að hlunnfara íslenska tónlistarmenn. Magnað.

Tölvutæknin er að grafa undan hinum gömlu leiðum til að selja og miðla tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, og því um líku. Það er staðreynd. Ég er ekki með neinar patentlausnir handa þeim hagsmunaaðilum sem telja sig missa af gríðarmiklum tekjum vegna þessa, en ég held að ég geti sagt með fullri vissu að rétta leiðin er ekki að siga lögfræðingum á fólk hægri-vinstri. Hver einasti 'sigur' sem vinnst þannig er jafnframt gríðarlegt tap á vettvangi almannatengsla. Hvernig er hægt að bera virðingu fyrir þeim sem til að mynda hótar foreldrum lögsókn, skiptist börnin þeirra á höfundarvörðu efni á netinu? Þeim hinum sömu og nú þegar neyða hið sama barn, sem og saklaus börn, til að borga sekt fyrir slíkt athæfi í hvert sinn sem það kaupir sér geisladisk eða iPod?


mbl.is Styr um Torrent.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Það er auðveldara að vera þjófur en heiðarlegur. 

Púkinn, 10.11.2007 kl. 15:23

2 Smámynd: Þarfagreinir

Rétt er það Púki, og líklega einmitt kjarni málsins ... því miður.

Þarfagreinir, 10.11.2007 kl. 15:26

3 Smámynd: krossgata

"Hagsmunaðilar reikna alltaf tekjutap sitt í fjölda niðurhala. Forsendan er sumsé sú að hvert einasta ólöglega niðurhal sé töpuð sala - að ef viðkomandi hefði ekki haft tök á því að nálgast efnið á netinu hefði hann farið og keypt það."

Þeir tapa viðskiptum við fólk eins og mig, sem gjarna náði mér í tónlist á netinu og fór svo og keypti það sem mér líkaði.  Ég hlusta lítið á útvarp (enda afar lítið af tónlist eftir mínum smekk leikin í íslensku útvarpi).  Ég nenni ekki frekar að hlusta á bábiljuna á tónlistarsjónvarpsstöðvunum.  Netið var sá miðill sem var mitt útvarp.  Þegar meira og minna öllu er lokað sem streymir tónlist eða að hægt er að ná í, þá er ekkert sem laðar mig að kaupum - ég kaupi ekki það sem ég hef ekki heyrt áður.  Ég kaupi orðið aldrei tónlist. 

krossgata, 10.11.2007 kl. 19:47

4 identicon

Er ekki þá bara í lagi að taka bílinn þinn fyrir utan húsið hjá þér þar sem hann stendur mannlaus?

Þú verður að átta þig á því að það er MIKIL vinna tími og peningar á baki því að búa til tónlistina og framleiða sem þú "stelur"?

Þú segir að tónlistamenn eigi að taka sér Radiohead til fyrirmyndar fyrir þær sakir að þeir bjóða fólki þann möguleika að borga epa borga ekki fyrir að niðurhala sínu verki. Hefur þér ekki dottið það í hug að þeir eru að leita til sómakendar fólks með því?

Ég spyr: ert þú t.d. búinn að sækja þá plötu án þess að borga fyrir?

Þú segist vera tilbúinn að greiða fyrir þín niðurhöl á tónlist ef slíkt kerfi væri fyrir hendi. Sem er gott mál!

Þannig er þó því miður hlutum háttað hérna á íslandi að það er ekki fyrir hendi. Hér er ekki hægt að brúka Itunes kerfið t.d. þar sem að stærsti sölu og útgáfuaðili landsins Sena, á og rekur vefsíðuna tonlist.is .

Til þess að vefur Istore komi hingað þurfa að mig mynnir 80% viðurkendra tónlistarútgefenda landsins að samþykkja, Sena er sirka 90% og hefur engan hag af þar sem þeir eiga og reka tonlist.is sem er vefur sem af einhverjum furðulegum ástæðum gengur án þess að borga tónlistrmönnum þeirra arð af sölu.

Jón Gunnarsson 11.11.2007 kl. 01:12

5 Smámynd: Sigurjón

,,Er ekki þá bara í lagi að taka bílinn þinn fyrir utan húsið hjá þér þar sem hann stendur mannlaus"?

Kjánaleg röksemd hjá þér Jón.  Nær væri að spyrja hvort þér væri sama að einhver kæmi, myndi smíða bíl eftir þínum bíl sem þú smíðaðir sjálfur.  Mergurinn málsins er að sá sem afritar hluti skilur eftir frumeintakið.

Sigurjón, 11.11.2007 kl. 03:26

6 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Ég hef einmitt verið að blogga um þetta, góður punktur sem krossgata var að nefna, hefði orðið sala út í búð á öllu niðurhöluðu efni?  Engu að síður er efnið sótt, er það ólöglegt eður eit, þ.e.a.s. að sækja efnið?

Garðar Valur Hallfreðsson, 11.11.2007 kl. 09:27

7 identicon

"Kjánaleg röksemd hjá þér Jón.  Nær væri að spyrja hvort þér væri sama að einhver kæmi, myndi smíða bíl eftir þínum bíl sem þú smíðaðir sjálfur.  Mergurinn málsins er að sá sem afritar hluti skilur eftir frumeintakið. "

Þetta er náttúrulega svo kjánalegt hjá þér Sigurjón að það tekur ekki tali!!

Hefur þú enga þekkingu á því að hlutirnir í kringum þig hvort sem það er bíll eða tónlist er verk einhvers?

Heldur þú að bíllinn eða hljómplatan komi bara sjálf út úr verksmiðjunni??

Bjánalegt

Jón Gunnarsson 11.11.2007 kl. 14:17

8 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Jón Gunnarsson nú ertu algjörlega úti að aka, pun intended. Þú getur ekki, mátt ekki, bera stuld á stafrænu efni miðað við stuld á veraldlegu efni, til að mynda bíl. Þetta er hefur ekkert að gera við heimspeki eða lífsviðhorf, þetta er einföld hagfræði. Stafrænt efni er afritað, ekki tekið, punktur! Með þínum "bíla" rökum gæti ég keypt DVD mynd á tvöþúsundkall, "rippað" hana og breytt í 700MB form, keypt 500GB disk á áttaþúsundkall, afritað myndina í rúmlega 700 eintökum á diskinn, og selt svo diskinn fyrir 1.400.000 Krónur. Ekki raunhæft.

Og blessaður Þarfagreinir, fyrst þú minntist á Radiohead, ertu búinn að kíkja á nýjustu grein á Smais.is, endilega tékkaðu á henni, hún á ekki eftir að koma þér á óvart :) 

Gunnsteinn Þórisson, 11.11.2007 kl. 15:23

9 identicon

Segðu mér eitt Gunnsteinn Þórisson, af hverju kallar þú tónlist stafrænt efni?

Snýst þetta um formatt?

Er ekki málið að hlutnum "tónlistinni, myndinni" er stolið út af því að það er hægt tækninar vegna?

Það er líka hægt að ljósrita allar bækur Laxness og bera út í hús á höfuðborgarsvæðinu.

Er það ekki í lagi út af því að það er hægt??

Þú virðist vera svo mikill smáborgari að þú telur hluti ekki vera til nena að geta þukklað á þeim. Þetta er sennilegast allt spurning um þroska?

með velvild Jón Gunnars

Jón Gunnarsson 11.11.2007 kl. 15:37

10 identicon

Ég er mikill Radiohead aðdáandi og ég borgaði 10 pund fyrir nýjustu plötuna þeirra á vef þeirra, ég borgaði 990 krónur fyrir nýjustu plötu Sigur Rósar sem er hægt að ná í á Smekkleysu.is, ég keypti mér nýjasta diskinn með Mugison á tvöþúsundkall í Skífunni og rippaði um leið í tölvuna, varð svo pirraður þegar ég komst að því að ég hefði getað náð í hana á síðu Mugison ódýrar á mp3 formi og maður myndi fá eintak sent í pósti! Rosalega þægilegt að geta bara náð í tónlist á netinu.

 Ég næ í rosalega mikið af tónlist, ja kannski ekki rosalega mikið, en það er ótrúlegt hvað er mikið af sorptónlist sem kemur út! Svo er líka einstaklega pirrandi að hlusta á eitthvað lag í útvarpinu, kaupa diskinn út af því að lagið í útvarpinu með þessari ákveðnu hljómsveit var svo obboslega skemmtilegt og komast að því að öll hin lögin á disknum eru grútleiðinleg.

Svo er líka geisladiskamiðillinn alveg hundleiðinlegur, að mínu mati. Ég á iPod sem ég nota mjög mikið og ég geymi öll lögin mín á stafrænu formi og nota með iPodinum. Af hverju get ég ekki notað iTunes til að ná mér í tónlist sem mér langar að hlusta á?

Auðvitað er leiðinlegt fyrir greyji tónlistarútgefendurna að þeir séu að tapa á því að fólk nái einungis í tónlist þeirra, en það væri forvitnilegt að vita hversu stór partur af seldum disk rennur í vasa þeirra. Ef þeir myndu selja tónlist sína á vefnum, taka í burt milliliðina, gætu þeir selt tónlistina ódýrar og grætt meir á því (ja, að minnsta kosti held ég það :P)

En auðvitað er ekki hægt að tryggja það að þó tónlistin væri ódýrari myndi enginn stela henni, það verður alltaf til fólk sem stelur tónlist og að reyna að stöðva það er eins og að stöðva Gullfoss með Hagkaupspoka. 

Gísli Sigurðsson 11.11.2007 kl. 15:37

11 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Jón minn Gunnarsson, ég var einungis að benda þér á að sú líking sem þú notar var og er algjörlega út í hött. Ég geri mér fyllstu grein fyrir því að niðurhal/upphal/hlustun á tónlist án samþykkist höfundar og/eða útgefanda er brot á höfundarétti, aldrei neitaði ég því! En það að þú líkir það við stuld á bíl eða öðru, já, "hlutir sem þú getur snert" er gjörsamlega út úr kú.

Þakka þér fyrir að kalla mig smáborgaralegan og vísa í skort af þroska að minni hálfu, en rökin mín standa á föstu, EKKI bera afritun saman við stuld. Þetta eru tvenn ólík fyrirbæri, líkja þeim saman gerir bara verr fyrir þinn málstað er fólk fattar fáránleikan í rökunum.

Með ástarkveðju, -Gussi. 

Gunnsteinn Þórisson, 11.11.2007 kl. 16:40

12 identicon


[Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.
Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema:
   1. Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
   2. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
   3. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
   4. Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.

Höfundalög 20.11.2007 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband