Rangtúlkanir Árna

Á maður að trúa þessu? Ég sé ekki betur en að fjármálaráðherrann sé hér uppvís að rangtúlkunum og einföldunum í því skyni að slá ryki í augu fólks og þæfa málið; gera nefndina tortryggilega og leggja henni orð í munn.

Árni segir í yfirlýsingu sinni:

Nefndin fer rangt með þegar hún heldur því fram að það sé einsdæmi að ráðherra fari ekki að áliti nefndarinnar. Um það eru bæði nýleg og eldri dæmi. Einu gildir hversu mikill munur er á áliti nefndarinnar og niðurstöðu ráðherrans. Staðreyndin er sú að það er ekki einsdæmi að ekki sé farið að áliti nefndarinnar.

Þetta er rangt hjá honum Árna. Kolrangt. Nefndarmenn héldu aldrei því fram í greinargerð sinni, að það sé einsdæmi að ráðherra fari ekki að áliti hennar. Þetta er það sem segir orðrétt í greinargerðinni, þessu atriði að lútandi:

Í þau sextán ár, sem dómnefnd hefur verið að verki vegna umsókna um störf héraðsdómara, hafa dómsmálaráðherrar fram að þessu iðulega virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar þótt þeir hafi ekki ævinlega valið þann umsækjanda, sem dómnefnd setti í fyrsta sæti, ef slíkri röðun var beitt, heldur valið annan úr hópi þeirra, sem taldir voru hæfastir. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga enda er umsögn nefndarinnar ætlað að fela í sér faglega ráðgjöf án þess þó að binda hendur veitingarvaldsins. Eins og tilgangi með tilvist dómnefndar af þessu tagi er háttað er hins vegar óhjákvæmilegt að ætla að veitingarvaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, að minnsta kosti með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna. Dómnefndin telur að settur dómsmálaráðherra hafi við skipun í embætti héraðsdómara nú farið langt út fyrir slík mörk og tekið ómálefnalega ákvörðun, sem er einsdæmi frá því að sú tilhögun var tekin upp að sérstök nefnd legði rökstutt hæfnismat á umsækjendur. Með þessari ákvörðun hefur ráðherra ekki aðeins vegið að starfsheiðri og tilverugrundvelli dómnefndarinnar heldur einnig gengið í berhögg við það yfirlýsta markmið með stofnun hennar á sínum tíma að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og einvörðungu valdir samkvæmt hæfni. Þegar jafn óvönduð stjórnsýsla og nú er raunin er viðhöfð við veitingu dómaraembættis kemur vissulega til greina að dómnefndin leggi niður störf enda er ljóst að ráðherra metur verk hennar einskis. Í trausti þess að ákvörðun hins setta dómsmálaráðherra verði áfram einsdæmi við veitingu dómaraembætta mun dómnefndin hins vegar ekki velja þann kost, enda er starf hennar lögbundið og hefur jafnan verið metið að verðleikum með þessari einu undantekningu.

Nefndin segir hér sumsé berum orðum að það sé ekki einsdæmi að ekki sé farið alveg eftir áliti nefndarinnar, en að það sem sé hins vegar einsdæmi er að það sé gert með jafn augljósum og svívirðilegum hætti - svo svívirðilegum hætti að nefndinni var ekki stætt á því að þegja.

Árni ætti því að skammast sín fyrir þessa yfirlýsingu sína, þar sem ekki verður betur séð en að með henni reyni hann að slá ryki í augu fólks og fegra sinn málstað með ómálefnalegum og lúalegum hætti.

Varðandi aðra þætti yfirlýsingarinnar, þá er það lítið annað en viðrun þess viðhorfs að fyrst hann hafði úrskurðunarvaldið, og að álit nefndarinnar sé ekki bindandi, þá hafi hans ákvörðun verið í fínu lagi, þar sem hún hafi verið lögleg. Hann svarar þeirri ásökun nefndarinnar um að skipanin hafi brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum og anda laganna sumsé í engu - valdið er hjá honum, og þá er málið augljóslega útrætt hvað hann varðar. Löglegt en siðlaust, heitir þetta. Varðandi það sem Árni nefnir, að gallar hafi verið á umsögninni sjálfri, þá virðist það lítið annað en aumur varnarmálflutningur manns sem hefur vondan málstað að verja (gildir það reyndar um yfirlýsinguna í heild sinni). Hann eyðir afskaplega fáum orðum í að útlista þessa galla, né útskýrir hann hvernig meintir gallar tengjast því mati hans að nefndin hafi ekki komið auga á þá 'sjálfsögðu staðreynd', að Þorsteinn Davíðsson hafi verið hæfastur umsækjenda, heldur kýs þess í stað að segja lítið annað en 'umsögnin var gölluð!'.

Aumt er það. Afskaplega aumt.

P.S. Ég vísa einnig til fyrri pistils um sama mál.


mbl.is Segir dómnefnd hafa misskilið hlutverk sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Árni er siðspilltur sjálfstæðismaður.. hef reyndar lúmskan grun að þetta þyki eðlilegir stjórnunarhættir á þeim bænum.

Óskar Þorkelsson, 10.1.2008 kl. 20:42

2 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Sjáðu nú hvað iðnaðarráðherran hefur látið hafa eftir sér um málið.

http://eyjan.is/blog/2008/01/12/ossuri-renna-til-rifjar-arasir-a-þorstein-daviðsson-vegna-foður-sins/

Helgi Viðar Hilmarsson, 12.1.2008 kl. 16:31

3 Smámynd: Þarfagreinir

Já - ljótt að sjá þetta bull í Össuri. Hann fær mörg mínusstig fyrir þetta.

Þarfagreinir, 14.1.2008 kl. 03:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband