15.1.2008 | 18:13
Rangtúlkanir Geirs
Nú bætist enn einn í hóp þeirra sem virðast vilja blekkja almenning, og forðast að ræða málin efnislega.
Haft er hér eftir Geir H. Haarde, sjálfum forsætisráðherranum:
Geir sagðist telja óeðlilegt ef einhverjum dytti í hug, að dómarastéttin hefði sjálfdæmi um hverjir kæmust í þeirra hóp.
Mér þykir í raun ótrúlegt að forsætisráðherranum láti sér detta í hug að láta út úr sér svona bölvað rugl.
Það er alla vega nokkuð ljóst að hvaða tilgangi sem þessi ummæli eiga nú að þjóna, þá eru þau nú ekki beint vel til þess fallin að verja embættisgjörð Árna M. Mathiesen, þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson í embætti dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra.
Eins og flestir sem með umræðunni hafa fylgst, svo ekki sé nema að einhverju marki, ættu að vita, þá hefur dómarastéttin lítið um það að segja hverjir komast í raðir héraðsdómara, undir núverandi fyrirkomulagi - og það þó að ráðherrann fari ekki algjörlega á svig við álit nefndarinnar sem metur hæfni umsækjenda, eins og Árni gerði í fyrsta sinn í 16 ára sögu nefndarinnar.
Nefndin er nefnilega skipuð lögfræðingum, en aðeins einn þeirra hverju sinni er dómari. Núverandi fulltrúi Dómarafélags Íslands í nefndinni er Eggert Óskarsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, sem er auðvitað annars allt annar dómur en héraðsdómur Norðurlands eystra. Það er þá alla vega nokkuð ljóst, að í þessu tilfelli var enginn nefndarmanna að ráða til sín samstarfsmann (því ef Geir á ekki við nákvæmlega eitthvað slíkt, þá veit ég ekki alveg hvaða hugsanlega vandamál hann er þá annars að reyna að benda þarna á).
Erfitt er því að koma auga á, hvað þessi undarlegu ummæli forsætisráðherra koma málinu við.
Einnig má nefna í framhjáhlaupi að hér notar Geir sömu slöppu aðferð og Árni, að vísa til þess að áður hafi nú svipaðir hlutir gerst, þegar skipun Þorsteins Davíðssonar var algjört einsdæmi að því leyti, að þar var í fyrsta sinn í 16 ára sögu sérfræðinefndar gengið algjörlega framhjá áliti hennar - og nefndin gerðist síðan svo djörf að kvarta með málefnalegum hætti.
Ég minni annars enn og aftur á að engum af hinum alvarlegu athugsemdum sem gerðar eru í þessari greinargerð hefur enn sem komið er verið svarað efnislega - en þess í stað er ýmsum lágkúrulegum brögðum beitt til að gera nefndina sem slíka tortryggilega. Ekki þarf síðan skyggnan mann til að spá fyrir um hvernig grein Sigurðar Líndal verður væntanlega afgreidd - á sama hátt og greinargerð nefndarinnar; með skætingi og undanbrögðum - og setur forsætisráðherrann þar tóninn.
Fyrir utan allt þetta (sem ráðherrarnir telja augljóslega vera ósvaraverð aukaatriði), þá stendur það eftir að Geir svarar engan veginn aðalatriðum málsins, frekar en nokkur annar sem haldið hefur uppi vörnum fyrir gjörðum Árna.
Grundvallarspurningin er:
Af hverju nákvæmlega var Árni, að lokinni tveggja daga yfirlegu (eftir því sem manni skilst), svona algjörlega ósammála samdóma áliti hinnar reyndu þriggja manna sérfræðinefndar, sem tók sér mun meiri tíma til að meta umsækjendur?
Það er aumkunarvert að sjá hvernig ráðherrar Sjálfstæðisflokksins (og því miður, einn ráðherra Samfylkingarinnar, sem komið er) flykkjast til að halda uppi ruglmálflutningi sem engu kemur við, og beita þar jafnvel rangfærslum - en forðast algjörlega að svara þessari einföldu spurningu.
P.S. Enn og aftur vísa ég til eldri pistla um sama mál, sem nú eru orðnir margir. Þá má sá hér í listanum til hægri.
Embættisveitingar innan marka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Facebook
Athugasemdir
Þetta mál erekki búið. Nú eru Össur, Þorgerður Katrín og Geir Haarde búin að gera í buxurnar líka.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.1.2008 kl. 18:20
Fínar greinar hjá þér Þarfagreinir. Það þarf að halda áfram að nudda þeim upp úr þessu og valda þeim slíkt viðhafa sem mestum pólitískum skaða sem frekast er unnt, sama hvar í flokki þeir eru.
Helgi Viðar Hilmarsson, 15.1.2008 kl. 21:50
Þakka hólið. Ég held ég hafi aldrei sett mig jafn vel inn í nokkurt mál áður, né talið jafn brýnt að berjast fyrir því - enda tel ég fulla ástæðu til.
Ég tek undir það viðhorf þitt, Helgi Viðar, að nauðsynlegt er að gagnrýna alla þá sem verja þessa svívirðu með sem harkalegustum hætti - sama hvar í flokki þeir standa. Þetta mál er algjörlega hafið yfir flokkapólitík - það snýst um miklu meiri grundvallaratriði sem svo. Þannig eru Árni Matt, Geir, Þorgerður Katrín, og Össur öll á mjög svo svörtum lista hjá mér núna, og óvíst að nokkuð muni breyta því í bráð.
Annars var ég að átta mig á því að rök Geirs, um að skipanir dómara hafi nú verið gagnrýndar áður, en að þeir hafi staðið sig vel þrátt fyrir það, eru ennþá lúalegri en ég gerði mér grein fyrir.
Hví? Jú, af því að með þessu er sú staðreynd, að svipaðar skipanir hafi verið gagnrýndar áður allt í einu orðin rök fyrir því að stunda þær! Þá megum við líklega eiga von á því að næst þegar einhver sem augljóslega er ekki hæfastur er settur inn í dómstól, verður vísað til þess að skipun Þorsteins hafi nú verið gagnrýnd harkalega á sínum tíma - en hann hafi nú staðið sig alveg ljómandi vel engu að síður!
Með þessu móti hættir vitleysan aldrei!
Einnig má benda á að málið snýst auðvitað hreint ekkert um hvort þessir menn sem eru ráðnir á ranglátum forsendum standi sig vel - heldur hvort kannski myndu nú einhverjir aðrir standa sig betur. Já, og svo líka að réttlætis sé gætt, en það er augljóslega orðið að aukaatriði líka.
Og hugsa sér svo - það er forsætisráðherrann sem leyfir sér svona svívirðilega léleg og hættuleg rök. Hvað er eiginlega að?
Þarfagreinir, 15.1.2008 kl. 22:19
Góð grein.
Eins og þið sáuð og heyrðuð, þá talaði Geir um ráðningar bæði Ösurar og Árna sem sambærileg mál, því er ég algerlega ósammála, sérstaklega m.t.t. þess valds sem um ræðir, þ.e. þrískiptingu valds. Össur var í þeirri aðstöðu að ráða, ég segi ekki eftir sínum geðþótta, heldur má segja að ráðningarsvið hans hefur með að gera svið, sem ráðherra hverju sinni hefur mótandi stefnu um hverju sinni, hver er.
Dómsvald er aftur á móti eitt af þremur undirstöðum okkar lýðræðis, því er sú ráðning allt annars eðlis, og að mínu viti á engan vegin að vera í höndum misvitra ráðherra sem koma og fara, Árni viðurkenndi að hans mat hafi að vissum hluta verið "tilfinningarlegt", gáfulegt. ekkert horft til reynslu, aldurs, fyrri starfa eða menntunar, látið líta út eins og aðstðarmaður ráðherra sé í raun lykilatriði við ráðninguna, ekki naut Eiríkur Tómasson þeirra forréttinda, umfram þeirra sem sóttu um stöðu Hæstarréttatdómara ásamt honum.
Tillaga að ráðningu dómara við dómstóla landsins:
Allir starfandi dómarar landsins hafi atkvæðarétt við skipun dómara, undanskildum þeim er um stöðuna sækja, atkvæðagreiðsla skuli vera leynileg. Forseti, gefi síðan út skipunarbréf, þeim sem flest atkvæði hlítur.
Jóhanna Guðný Baldvinsdóttir, 16.1.2008 kl. 12:39
Góður punktur með samlíkinguna á ráðningunum. Augljóslega er alvarleiki þeirra gríðarmikill.
Leitt er, ef breyta þarf reglum vegna dugleysis og óheilinda stjórmálamanna - en ef svo verður að vera, þá er lítið við því að gera víst.
Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.