Hugmyndafræðin loksins opinberuð

Stórfrétt - Björn Bjarnason opinberar hugmyndafræðina að baki því, að flokkshollum Sjálfstæðismönnum hefur verið potað inn í dómskerfið á bloggi sínu:

Sigurður Líndal er helsti talsmaður þess, sem nefnt hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um, hve langt dómstólar ganga inn á verksvið löggjafarvaldsins. Sigurður er einnig helsti talsmaður þess, að dómarar ákveði sjálfir, hverjir sitji í dómarasæti.

Almennt er litið á þetta sem andstæður – ef dómarar ætli að taka sér stjórnmálavald eigi að velja þá af kjörnum fulltrúum, það er stjórnmálamönnum. Dómstólar hafa gengið lengra hér á landi en til dæmis í Danmörku við það, sem nefnd er „framsækin lagatúlkun“, það er sókn inn á verksvið löggjafans. Ef dómari er ekki fylgjandi „framsækinni lagatúlkun“ skipta stjórnmálaskoðanir hans ekki máli, dómarinn dæmir aðeins samkvæmt lögunum. Hinn „framsækni“ fer hins vegar inn á hinn pólitíska vettvang.

Tilraunir til að þrengja að veitingarvaldi ráðherra við skipan dómara eru alkunnar hér á landi hin síðari ár. Ég er ekki málsvari þess, að svigrúm dómsmálaráðherra sé þrengt í þessu efni eða hendur hans bundnar af álitsgjöfum, hverju nafni, sem þeir nefnast, umfram það, að velja úr hópi þeirra, sem taldir eru hæfir af þeim, sem til eru kallaðir í því skyni að leggja á það mat.

Björn viðurkennir hér berum orðum að hann vilji að ráðherrar hafi algjörlega frjálsar hendur við val á dómurum!

Hugmyndafræðin virðist líka snúast um annað og meira en það, að verðlauna flokksholla menn með dómarastöðum. Hún snýst um það að gera dómstólana algjörlega hliðholla framkvæmda- og löggjafarvaldinu! Allt vegna þess, að ákveðnum hópi finnst vegið að sér með einhverju sem er kallað "Framsækin lagatúlkun"! 

Vísbendingar voru uppi um þetta áður, m.a. í málflutningi þess efnis, að ráðherrar ættu að bera endanlega ábyrgð á ráðningum dómara, því þeir beri ábyrgð gagnvart sínum kjósendum, sem geta lagt mat á verk þeirra og kosið eftir því.

Það er hins vegar alveg hreint ótrúlega súrrealísk hugmynd, því hún byggist á því, að kjósendur leggi mat á það, með því að kjósa einhvern flokk á fjögurra ára fresti, hvernig ráðherrum hefur tekist til við að skipa dómara - og þurfi í þokkabót að blanda því saman við öll þau önnur mál, sem þeir kjósa um hverju sinni! Auðvitað sér hver heilvita maður að það er tómt rugl - og að þessi hugmyndafræði gefur þá ráðherrum, praktískt séð, nánast algjörlega frjálsar hendur við að raða hverjum þeim sem þeim sýnist inn í dómskerfið! Þetta er því ekkert annað alvarleg aðför að þeirri þrískiptingu valds, sem tíðkast hefur í öllum lýðræðisríkjum!

Nú eru menn sumsé loksins farnir að viðurkenna af alvöru, hvað þeim gengur til. Það er þó skárra að koma svona hreint fram, en að halda áfram að ljúga að þjóðinni, með því að halda sig við þá staðhæfingu, að Þorsteinn Davíðsson hafi verið hæfastur umsækjenda til embættis héraðsdómara. Verra er þó að hugmyndafræðin er á þá vegu, að nasistasamlíking Sigurðar Líndals á eiginlega bara fyllilega rétt á sér! Mér þykir alla vega persónulega vandséð, að svo gríðarlegir almannahagsmunir séu í húfi, að nauðsyn beri til að eyðileggja svona með öllu sjálfstæði dómstólanna og útmá þrískiptingu valdsins!

Reynum annars að átta okkur aðeins betur á því, hvað er hér á ferðinni. Undanfarna áratugi hefur þróunin í lögspekinni verið á þá vegu, að ekki skuli dæmt eingöngu eftir lögunum, eins og þau standa í sinni tærustu mynd. Önnur stjónarmið þurfi að koma til grundvallar dómum og lagatúlkunum. Lögspekin hefur því með öðrum orðum orðin flóknari, og vaxið út frá því að notast einungis við lagabókstafi, heldur er horft til grunngilda og óskráðra reglna. Nauðsynlegt hefur sumsé verið að hugsa hlutina betur, eftir bitra reynslu af því, hvernig fer, þegar menn ríghalda í lögin og telja sig ekki bundna neinu öðru. Þetta er það sem Sigurður Líndal var að árétta í hinni margfrægu grein sinni. Ég skil þetta auðvitað ekki alveg fyllilega, ólöglærður sem ég er, en held ég skilji það í meginatriðum.

Björn Bjarnasson og hans hugmyndafræðilegu félagar virðast hins vegar á því að þetta sé slæm þróun - að með þessu seilist dómstólar of langt, og gerist hlutdrægir - af því þeir dæma ekki bara nákvæmlega samkvæmt lagabókstafnum, heldur notast við fleira en hann. Þannig vilja þeir meina að dómstólar séu orðnir 'pólitískir' - sumsé, farnir að seilast meira inn á svið löggjafans, og séu ekki rígbundnir af lagabókstafnum. Þetta kalla þeir 'framsækna lagatúlkun', og slíkt virðist þeim eitur í beinum - þá væntanlega sökum þess, að þeir hafa slæma reynslu af því, að geta ekki stjórnað dómstólunum algjörlega með lagaboðum, þar sem dómstólarnir geta sloppið undan slíku með sínum 'framsæknu túlkunum'.

Svo virðist sem að eina leiðin til að leiðrétta þessa þróun, að þeirra mati, sé að færa skipunarvald yfir til ráðherra, til að tryggja, að einungis þeir sem aðhyllast rétta hugmyndafræði (þá, að einungis skuli dæmt eftir lagabókstafnum eins og löggjafinn setur hann niður á blað) sitji í dómstólunum. Með þessu ætla þeir sér að rígbinda dómstólana niður með lagaboðum, og tryggja að algjört samræmi sé milli sjónarmiða löggjafans og dómaranna - sem er ekki síður til þess fallið að veikja skilin milli valdsviðana, en það að framkvæmdavaldið raði dómurum í dómstólana á annað borð. Ekki er alveg víst, að þeir sem aðhyllast téða hugmyndafræði geri sér fyllilega grein fyrir alvarleikanum í þessu. Þó ætti að vera nokkuð ljóst, að hæpið er að fyrirkomulag af þessu tagi sé að einhverju leyti nauðsynlegt almannahagsmunum - nema þó síður sé - enda byggist það á því að láta hollustu við ákveðna hugmyndafræði ganga framyfir hæfni, þegar kemur að því að skipa dómara. Enda er hugmyndafræðin, að ég tel, ekki til komin vegna ástar á almannahagsmunum, heldur pirrings yfir því, að dómstólar hafa reynst löggjafanum og framkvæmdavaldinu á köflum óþægilegir.

Svo virðist síðan vera, sem að þeir sem aðhyllast þessa hugmyndafræði tengist allir, eða flestir, ákveðnum armi Sjálfstæðisflokksins - armi sem hefur m.a. verið kenndur við þá félaga Björn Bjarnason og Davíð Oddsson. Þannig útskýrist það, að  menn tengdir þeim hafa verið settir inn í dómskerfið, ekki fyrst og fremst af því að þeir eru þannig tengdir, heldur því, að þeir aðhyllast þessa hugmyndafræði! Þorsteinn Davíðsson er því sá þriðji sem potað er inn af þessum hagsmunaöflum - nema í þetta sinn var andstaðan svo harkaleg, að menn virðast hafa gefist upp á því að beita blekkingum til að leyna hinum sanna tilgangi þessa athæfis, og ákveðið að segja eins og er.

Já, við lifum sannarlega á áhugaverðum tímum.

Áhugavert verður að sjá, til dæmis, hvernig Samfylkingin bregst við á næstu dögum - það er að segja, haldi Björn og félagar þessari hugmyndafræði til streitu. Ég neita að trúa því, að þetta sé nokkuð sem Samfylkingarfólk hefur áhuga á að styðja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Lög sem eru skrifuð af framkvæmdavaldinu, meira og minna.

Og svo þetta: "að einungis skuli dæmt eftir lagabókstafnum eins og löggjafinn setur hann niður á blað". Á þá dómarinn að dæma eftir prentvillunum líka? Það er ALLTAF túlkunaratriði hvernig er dæmt þótt við skiljum alveg muninn á dómstólavæðingu og þröngri túlkun, eða því sem þú nefnir, þ.e. að dómari vilji kannski fara eftir stjórnarskrá eða jafnvel margfrægum "anda" laga.

Dæmi um ónákvæmlega skrifuð plögg er reglugerð um æðri menntun og prófgráður gefin út bæði á íslensku og ensku þar sem hugtakið learning outcomes, ættað úr samræmingarferli háskólamenntunar í Evrópu, er þýtt á a.m.k. þrjá vegu: viðmið um þekkingu og hæfni; viðmið um þekkingu, hæfni og færni; viðmið um þekkingu, hæfni og getu. Út úr þessu verður hin skrípislega sletta lörning átkomsin!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 17.1.2008 kl. 06:41

2 identicon

domaraskipan.net

domaraskipan.net 17.1.2008 kl. 11:15

3 Smámynd: Billi bilaði

Verst að maður getur bara hrist hausinn yfir þessu.

Billi bilaði, 17.1.2008 kl. 16:36

4 identicon

alveg merkilegt hvað þetta kosningaleikrit á að innihalda margar upplýsingar, við erum að samþykkja allar gerðir í 4 ár og velja stefnu næstu 4, allt með krossaspurningu með einum svarmöguleika...

farin að halda að einu skilaboðin sem við getum fært stjórnvöldum, sé að sitja öll heima á kjördag 

Gullvagninn 17.1.2008 kl. 17:18

5 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Sitja heima á kjördag? Já kannski er það eina sem við getum gert. Ekki það að ef Framsókn fær verri útreið í næstu kosningum þrátt fyrir milljónatugi í kosningarbaráttuna gæti þetta síast inn. Það er augljósara en Litla gula hænan hvað er í gangi og það að aðskilnaður framkvæmda- og dómsvalds sé ekki þóknanlegur ákveðnum völdum í þjóðfélaginu. En það er þess mikilvægara að láta þessi öfl ekki komast upp með þjösnaskap sinn án þess að þau viti að við séum ekki öll gullfiskar.

Ævar Rafn Kjartansson, 18.1.2008 kl. 00:48

6 identicon

Ég held að það sé töluverður misskilningur í því hjá þér að þessi hugmyndafræði sé nú loks að koma fram. En um þetta hefur verið lengi deilt.

Menn hljóta að spyrja sig, hvort eðlilegt sé að embættismenn, sem eru nær algerlega ónæmir gegn vilja almennings, setji lög eða löggjafarvaldið sem kosið er með lýðræðislegum hætti.

Auðvitað túlka dómarar lögin, en það hafa hinsvegar komið upp dæmi þar sem hæstiréttur tekur upp á því að dæma þvert gegn settum íslenskum lögum. Það er ekki túlkun heldur löggjafarstarf.

Lýðræðið hefur hinsvegar valið menn, sem eru fylgjandi því að löggjafarvaldið sé í höndum Forseta og Alþingis, en ekki dómara, til að fara með valdið til að skipa dómara. Þeir hljóta því að reyna að skipa einstaklinga sem eru síður líklegir til að ganga gegn hinu lýðræðislega kjörna löggjafarvaldi.

Sú túlkun, að framkvæmdavaldið sé að ganga inn á svið dómsvaldsins og skaða sjálfstæði dómstóla, er því ekki endilega mjög nákvæm eða rétt. Skipaðir dómarar eru tiltölulega fastir í sessi og framkvæmdavaldið getur í raun ekkert gert í tilviki dómara sem ryðst inn á svið löggjafarvaldsins, nema meiri hluti hæstarréttardómara telji það nægilega alvarlegt brot til að víkja honum úr starfi. Dómstólar geta því enn farið sínu fram.

Pétur Guðmundur Ingimarsson 19.1.2008 kl. 08:52

7 Smámynd: Þarfagreinir

Tja, það má segja að þetta sé í fyrsta sinn sem hugmyndafræðin kemur fram með svona algjörlega skýrum hætti.

Þú nefnir nokkur hugsanleg vandamál, t.d. þess efnis að ráðgjafar hafi ekki umboð frá þjóðinni, og að dómstólar hafi dæmt gegn lögum. Lausnin á slíkum vandamálum er ekki að framkvæmdavaldið ráði því algjörlega hverjir eru dómarar, og að hinir sömu dómarar aðhyllist einhverja hugmyndafræði í þá veru, að dómstólar eigi í raun að vera valdlausir!

Ég held ég hafi tekið á þeim rökum, að embættismenn hafa ekki lýðræðislegt umboð, einmitt hér í pistlinum. Það er bara einfaldlega hættuleg lýðskrumshugmynd. Kjörnir fulltrúar eru ekki kjörnir til að hafa vit á öllu. Þeir eru kjörnir til að taka réttar ákvarðanir. Ákvarðanir sem koma þjóðinni í heild sem best, en ekki þeim sjálfum. Sérhæfðir embættismenn eru til staðar til að veita þeim ráðgjöf, og því er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við að fylgja henni, þegar menn hafa engar forsendur til að vita betur. Þess fyrir utan hafa ráðamenn oft einhver áhrif á því, hverjir gegna þessum embættum hvort eð er. Má þá ekki segja að embættismennirnir hafi þá einhvern snefil af umboði frá þjóðinni? Ekki hafa t.d. ráðherrar beint umboð frá þjóðinni, en samt er hamrað á því, að þeir beri ábyrgð eingöngu gagnvart kjósendum (en ekki t.d. embættismönnum innan þess kerfis sem þeir starfa jú hjá).

Sumsé, tilgangurinn með kjörnum fulltrúm er ekki að fara í öllum tilfellum alltaf eftir eigin sannfæringu, heldur að gæta hag þjóðarinnar. Í málum þar sem þær hafa enga burði til að vita betur en ráðgjafarnir, en hafa þess í stað jafnvel beinan persónulegan hag af því að velja á þann hátt, sem kemur þjóðinni ekki vel, er rugl að fara ekki eftir áliti ráðgjafa, bara vegna þess að þeir hafa ekki beint umboð frá þjóðinni.

Enn og aftur - kjörnir fulltrúar eiga fyrst og fremst að gæta hagsmuna okkar allra. Það er þeirra æðsta skylda - ekki að þeir geri það sem þeim sýnist. 

Varðandi það að dómstólar dæmi gegn lögum, þá er nákvæmlega ekkert að því, ef lögin eru óskýr, ónákvæm, eða jafnvel óréttlát. Þetta er vegna þess að dómstólar eiga að hafa sjálfstætt vald! Það er einmitt það sem 'þrískipting valds' þýðir. Að skylda dómstóla til að fara algjörlega eftir lagabókstafnum í öllum tilfellum afmáir bara einfaldlega það vald dómstólanna - og það er stórhættuleg hugmyndafræði.

Aftur, kjörnir fulltrúar eru ekki kjörnir til að ráða öllu því sem þeir vilja ráða. Vilji og vald ráðamanna hefur ekki forgang yfir þjóðarhag og þrískiptingu valdsins. Slíkar hugmyndar geta bara ekki talist annað en fasískar. 

Morgunblaðið hefur gagnrýnt rússnensku stjórnina fyrir aðför hennar að sjálfstæði dómstólanna, og kallað slíka tilburði fasíska.

Hví þegir Mogginn núna?

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 13:47

8 identicon

Vissulega eiga dómstólar ekki að dæma eftir ólögum, en slík lög eru eðli máls samkvæmt hinsvegar aldrei gild lög og því ekki um setningu löggjafar um að ræða. Dómstólum er ætlað að fara að stjórnarskrá, sem æðri réttarheimild en almennum lögum og að grundvallarnáttúruréttindum. Lög sem ganga gegn slíku eru einfaldlega ekki gild lög. Um það er ekki verið að deila.

Íslenskir dómstólar hafa hinsvegar átt til að dæma gegn íslenskum lögum án þess að koma með rökstuðning fyrir því að um ólög hafi verið að ræða.

Dómstólar hafa valdið til að dæma, það er þeirra biti af þrískiptingunni, en ef þeir hafa vald til að setja lög, þá hafa þeir tekið sér hluta af sneið Alþingis og forseta.

Pétur Guðmundur Ingimarsson 20.1.2008 kl. 06:01

9 Smámynd: Þarfagreinir

Geturðu nefnt dæmi um slík tilfelli, Pétur? Ég man bara t.d. eftir öryrkjadómnum, sem miklar deilur voru um, og þá aðallega hvaða um rökstuðning dómarar notuðust nákvæmlega við. Vissulega var þarna dæmt gegn ákveðnum lögum, en mig minnir nú að rökstuðningur hafi verið gefinn - vísun í aðrar lagaheimildir og stjórnarskráratkvæði, til dæmis. Ekki finn ég hins vegar dóminn sjálfan eða hlutlæga umfjöllun um hann á netinu í fljótu bragði.

En ef þú segir að til séu dæmi þess að dæmt hafi verið gegn lögum án góðs rökstuðnings, þá hlýtur þú að vera með dæmi um slíkt.

Aftur árétta ég annars að lausnin á svona hugsanlegum vandamálum getur aldrei verið að ráðherrar ráði algjörlega hverjir setjast í sæti dómara. Gætum við þjóðin allt eins þá ekki bara kosið dómarana sjálf? Ég sé lítinn eðlismun þar á milli. Hvort tveggja er álíka fáránlegt.

Þarfagreinir, 20.1.2008 kl. 14:48

10 identicon

Ég er því miður ekki staddur á Íslandi sem stendur, og hef ekki aðgang að dómasafninu.

Ég man hinsvegar eftir máli frá miðjum 10. áratugnum, svokölluðu dómtúlksmáli þar sem deilt var um hvort menn þyrftu að borga fyrir hann. Íslensk lög sögðu skýrt að fyrir slíkt þyrfti að borga, en hæstiréttur dæmdi þvert gegn lögunum.

Önnur dæmi eru um að dómstólar hafi jafnvel litið á reglur ESB sem æðri íslenskum lögum og hafi beina réttarverkun í gegnum EES. En það gengur algerlega gegn grundvallarhugmyndum íslenskrar stjórnskipunar.

Annars er ég alveg sammála að það sé vel athugandi að dómarar séu kosnir með atkvæðum almennings. Þannig er þessu skipað á mörgum stöðum. 

Pétur Guðmundur Ingimarsson 21.1.2008 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband