12.3.2008 | 14:20
Kemur ekki á óvart
Auðvitað segir það sig sjálft að þegar skattprósentan er lækkuð flatt, en persónuafslátturinn, barnabætur, og aðrar slíkar tekjujafnandi bætur dragast aftur úr launaþróuninni og verðbólgunni, þá græða hinir tekjumeiri meira en hinir tekjuminni. Er þetta ekki bara einföld stærðfræði?
Þrátt fyrir þessar einföldu staðreyndir hafa Sjálfstæðismenn löngum skellt skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum, og brugðist ókvæða við þegar þessi mál eru rædd á 'röngum' nótum. Hinar réttu 'nótur' eru nefnilega þær, að skattbyrðin á almenning hafi minnkað, og að skattastefnan undanfarin ár hafi nú bara hreint ekki leitt til aukins ójöfnuðar.
Eins og svo oft gerist í íslenskri stjórnmálaumræðu, þá taka andmælin sjaldnast á sig form málefnalegrar og rökrænnar umræðu, heldur mun frekar ógeðfellds persónulegs skítkasts og skætings.
Hér er ágætt dæmi um hvernig Stefán Ólafsson hefur til dæmis verið rakkaður niður af varðhundum Sjálfstæðisflokksins og afgreiddur sem spilltur flokkspólitískur ómerkingur fyrir að vera ekki á hinni réttu línu.
Það er annars nokkuð 'skondið' að þessi rætni pistill var skrifaður þegar skipun Þorsteins Davíðssonar til embættis héraðsdómara bar sem hæst, en það fannst Gísla Frey að því er virtist í fínu lagi, og sá enga hugsanlega spillingu þar.
'Skondið' er þarna líka að sjá Gísla Frey nota skýrslu frá hinu 'hataða' Evrópusambandi til að reyna að gera Stefán tortryggilegan. Sjálfstæðismönnum sem eru almennt tortryggnir í garð Evrópusambandsins þykir augljóslega í góðu lagi að notast við álit Evrópusambandsapparatsins þegar slíkt hentar þeirra málstað - enda lyktar málflutningurinn almennt séð langar leiðir af því, að tilgangurinn helgi meðalið. Þær tölur sem Gísli Freyr nefnir eru líka málinu algjörlega óviðkomandi; þó svo að tekjuójöfnuður sé tiltölulega lítill samkvæmt Evrópumeðaltali, þá segir það ekkert um hvernig hann hefur breyst undanfarin ár, né heldur segir það nokkuð til eða frá um áhrif skattastefnunnar á slíka þróun. Vissulega eru það gífuryrði hjá Stefáni að líkja stjórnvöldum hérlendis að þessu leyti við stjórn Pinochets, en að stökkva á þau orð ber þess merki að sá sem það gerir er ekki fyrst og fremst að einbeita sér að málefnalegum rökum.
Fróðlegt væri að sjá hvaða álit Gísli Freyr og hans félagar hafa á þessari nýjustu skýrslu OECD. Eitthvað segir mér þó að nú verði þeim fátt um svör.
Sem betur fer er þetta allt saman þó líklega aukaatriði, þar nýverið hefur verið unnið að því að snúa þessari þróun við og endurskoða fyrri skattastefnu. Batnandi mönnum er best að lifa.
Annars er þessi frétt mbl.is frekar rýr í roðinu, þannig að ég læt fljóta með hlekki á frekari umfjöllun fjölmiðla um skýrsluna (í hinni síðari frétt tjáir einmitt téður Stefán Ólafsson sig um skýrsluna):
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item196379/
http://visir.is/article/20080312/FRETTIR01/80312054
Þar sem oftast er best að notast við frumheimildir er hér síðan samantekt OECD á skýrslunni.
Áfellisdómur yfir skattastefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Facebook
Athugasemdir
Dharma er líka með mjög áhugaverða söguskýringu. Eins og er nú venjulega gaman af skrifum hans þá fer hann oft í fáránlega vörn og býr til strámenn hægri/vinstri.
Man einhver annar en ég eftir Radíusflugu þar sem Steinn Ármann var í viðtali um ógnir kommúnismans? Þá endaði hann á að fá taugaáfall og reyna að dusta af sér ósýnilega kommúnista sem voru að skríða upp eftir honum.
Einar Jón, 15.3.2008 kl. 12:31
Hvað er þetta Þarfi? Ráðast gegn okkur Sjálfstæðismönnum? Ég hringi bara í Davíð og fer að gráta...
Sigurjón, 16.3.2008 kl. 19:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.