"Dómarinn er sama sinnis"

Ég hef undanfarið, í huganum, verið að velta mér upp úr ýmsum hliðum meiðyrðadóms sem féll nýverið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ég hef þó ekki fundið neinn áhugaverðan og frumlegan vinkil á hann sem réttlætir það að ég skrifi um hann - þar til núna.

Enn og aftur eru það orð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem eru mér tilefni til skrifa. Þarsíðastliðinn þriðjudag hafði hann þetta um dóminn að segja:

Í dag féll sögulegur dómur í héraðsdómi Reykjavíkur, þegar Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari dæmdi bloggara miskabætur vegna ummæla annars bloggara. Ég hef lengi talið, að höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar. Dómarinn er sama sinnis. Nú ætti einhver að láta reyna á ábyrgð þeirra, sem halda úti vefsíðum, þar sem nafnleysingjar vega að samborgurum sínum með dónaskap og óhróðri.

Ekki þarf að rýna mikið í þessi orð til að sjá það út að Björn er þarna að fagna því að dómarinn sé 'sama sinnis' og hann sjálfur - að túlkun dómarans sé Birni þóknanleg. Enda er það svo, að þessi dómur er eitt af fáum dæmum þess í íslenskri réttarsögu, að beitt er svokallaðri lögjöfnun. Hérna má finna skilgreiningu á því fyrirbæri:

Lögjöfnun (analogia) er fólgin í því að beita settri lagareglu með ákveðnum hætti. Lagareglu er þá beitt um ólögákveðið tilfelli sem samsvarar efnislega til þeirra sem rúmast innan lagareglunnar.

Með lögjöfnun er lagaregla í reynd látin ná yfir tilvik sem strangt til tekið á ekki undir hana.

Úr þessu má, enn og aftur, lesa það að Björn Bjarnason er ánægður með lagatúlkun dómarans í þessu máli - að hún er honum þóknanleg. Reyndar ætti orðalagið 'sama sinnis' eitt og sér að nægja til að sýna fram á að Björn er þarna að tala um persónulega túlkun dómarans, en ekki lagabókstafinn eingöngu.

Reyndar tók þessi lögjöfnun einungis til þess ákvæðis sem lýtur að því að Gauki var skylt að birta dómsniðurstöðuna á bloggi sínu, en rökin fyrir því voru engu að síður áhugaverð, og hljóta að varpa ákveðnu ljósi á afstöðu dómarans til netsins:

Eins og ákvæðið ber með sér tekur það til birtingar efnis í blöðum eða tímaritum en ekki til efnis sem birt er á vefsíðum. Ekki er til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum.  Með lögjöfnun frá 22. gr. laga nr. 57/1956 ber því að taka til greina þá kröfu stefnanda að stefnda verði gert skylt að birta forsendur dóms og dómsorð á vefsvæði sínu þegar dómur gengur.  

Það þykja mér undarleg rök að segja að af því að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum, þá sé blogg sambærilegt við dagblað. Finnst mér einnig líklegt að þetta viðhorf til netsins hljóti að hafa mótað dóminn í heild sinni að einhverju leyti.

Benda má að Björn Bjarnason sér ekki ástæðu til að ræða efnisatriði dómsins, til að mynda lögjöfnunina, þannig að ætla má að hann sé sammála honum að öllu eða flestu leyti. Hann mótmælir því í öllu falli ekki að dómarinn hafi þarna túlkað lög. Við lestur dómsins er einnig ljóst að hann reyndi á ýmis túlkunaratriði, eins og til dæmis hvort stefnandi teljist opinber persóna, sem og merkingu orða - jafnvel orða í lögunum sjálfum. Jafnframt var stefnda gert að fjarlægja viðkomandi ummæli af bloggsíðu sinni, þrátt fyrir að engin bein heimild sé til slíkra tilskipanna í lögum. Þetta er því ekki alveg klippt og skorið. Engu að síður telur Björn dóminn afdráttarlaust vera til marks um að 'höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar' - og þá hlýtur hann að telja dóminn og túlkanirnar réttar. Gildandi lög virðast nægja honum, jafnvel þó að þau taki ekki á netskrifum með beinum hætti ... svo lengi sem dómarar túlka lögin rétt, alla vega.

Svo komum við bara aftur að þessu orðalagi ... "Dómarinn er sama sinnis" ...

En bíðum nú við. Eins og ég hef áður fjallað um á þessum vettvangi, þá virðist svo vera að Björn hafi áður lýst því yfir að hann sé þeirrar skoðunar að dómarar eigi að dæma eftir lögunum eingöngu, og að lagatúlkanir séu eiginlega af hinu illa. Hér eru hans orð í þá veru: 

Sigurður Líndal er helsti talsmaður þess, sem nefnt hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um, hve langt dómstólar ganga inn á verksvið löggjafarvaldsins. Sigurður er einnig helsti talsmaður þess, að dómarar ákveði sjálfir, hverjir sitji í dómarasæti.

Almennt er litið á þetta sem andstæður – ef dómarar ætli að taka sér stjórnmálavald eigi að velja þá af kjörnum fulltrúum, það er stjórnmálamönnum. Dómstólar hafa gengið lengra hér á landi en til dæmis í Danmörku við það, sem nefnd er „framsækin lagatúlkun“, það er sókn inn á verksvið löggjafans. Ef dómari er ekki fylgjandi „framsækinni lagatúlkun“ skipta stjórnmálaskoðanir hans ekki máli, dómarinn dæmir aðeins samkvæmt lögunum. Hinn „framsækni“ fer hins vegar inn á hinn pólitíska vettvang. [Feitletranir mínar]

Ég get ekki skilið þessi orð öðruvísi en svo, að dómarar eigi ekkert með það að vera að túlka lögin; að með því séu þeir að seilast inn á verksvið löggjafans. Að það sé löggjafans að setja lögin niður á blað, og dómaranna að dæma eftir þeim nákvæmlega eins og þau hljóða.

Svo maður setji þetta síðan í samhengi, þá féllu þessi orð Björns vitanlega í tengslum við umræðu um dómaraskipanir. Einnig kom fram að hans lausn á þessum 'vanda' með 'framsæknu lagatúlkanirnar' virðist vera að gefa ráðherra óskorað vald til að skipa ráðherra sem dæma einungis eftir lögunum:

Tilraunir til að þrengja að veitingarvaldi ráðherra við skipan dómara eru alkunnar hér á landi hin síðari ár. Ég er ekki málsvari þess, að svigrúm dómsmálaráðherra sé þrengt í þessu efni eða hendur hans bundnar af álitsgjöfum, hverju nafni, sem þeir nefnast, umfram það, að velja úr hópi þeirra, sem taldir eru hæfir af þeim, sem til eru kallaðir í því skyni að leggja á það mat.

Hvaða skynsami maður sem er ætti alla vega að geta tengt þetta tvennt saman og fengið það út að tilgangurinn með því að gefa ráðherra óskorað vald væri þá að gefa honum svigrúm til að skipa dómara sem 'dæma aðeins samkvæmt lögunum' ... samanber það að hann segir að ef dómarar eigi að taka sér 'stjórnmálavald', þá eigi kjörnir fulltrúar að velja þá. Hann virðist þarna feta einhvers konar milliveg til að leysa þennan 'vanda' sem hann hefur búið til ('vanda' sem ég hef áður lýst sem aðför að þrískiptingu ríkisvaldsins); að kjörnir fulltrúar skipi dómara, en skipi þá dómara sem dæma aðeins samkvæmt lögunum.

Nú fagnar Björn því hins vegar allt í einu að dómari er sama sinnis og hann sjálfur, og túlki lögin á þann hátt, sem er honum að skapi.

Ljóslega gildir það þá ekki alveg í öllum tilfellum, í huga Björns, að dómarar eigi að dæma eftir lögunum eingöngu. Klárlega er þarna að hans mati eitthvað svigrúm til túlkunar. 

Enn og aftur vaknar því upp sú spurning, hvað Björn átti nákvæmlega við. Áður hefur vaknað hjá mér grunur þess efnis, að Björn hafi aðallega þarna verið að vísa í tilfelli þar sem dómstólar hafa dæmt ríkinu í óhag - að með því að dæma gegn ríkinu séu dómstólar að 'fara inn á hinn pólitíska vettvang', og að til þess eigi þeir engan rétt. Mér þykir afstaða Björns í þessu meiðyrðamáli benda til þess - að honum þyki lagatúlkanir einna helst slæmar, þegar þær eru ríkinu í óhag.

Nú er það stóra spurningin - í hverju felst munurinn? Af hverju er í góðu lagi að túlka lög almennum borgara í óhag, en vont mál að túlka þau ríkinu í óhag? Á ekki í öllum tilfellum, samkvæmt hugmyndafræði Björns, að halda sig við að dæma aðeins eftir lögum, svo ekki sé seilst inn á verksvið löggjafans?

Í þessu sambandi má benda á að það er ríkið sem setur lögin, en ekki hinn almenni borgari, þannig að maður hefði haldið að ríkið hefði meira að segja smá forskot - því varla fer ríkið að setja lög sem því eru í óhag. Eina leiðin til að dæma ríkinu í óhag væri þá, að öllu jöfnu, að túlka lögin, eða þá beita öðrum lögum en þeim sem ríkið setur sjálft (þá á ég við til að mynda stjórnarskrána, eða þá alþjóðalög, en það er nokkuð sem ég held að Birni sé líka lítt að skapi, og falli í hans huga undir 'framsækna lagatúlkun' ... í hið minnsta er ljóst að slíkt grefur undan valdi íslenska löggjafans). 

Er málinu kannski, hugsanlega, mögulega, og þrátt fyrir allar tilraunir Björns til að ræða málið eins og um hugmyndafræði væri að ræða, þannig háttað að hann vill einfaldlega hafa dómara í dómstólunum sem eru sammála honum, og sem fylgja hans hagsmunum, sem og hagsmunum ríkisvaldsins?

"Dómarinn er sama sinnis" ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

BB er í besta falli varhugaverður maður.. í versta falli stórhættulegur lýðræðinu.

Óskar Þorkelsson, 10.3.2008 kl. 00:09

2 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Já Þarfi það er dapurlegt að fleiri skrifi ekki um þetta mál, þetta er bráðnauðsynleg umræða og þessir pistlar þínir ættu að birtast í blöðunum. Takk fyrir skrifin.

Kristján Hrannar Pálsson, 10.3.2008 kl. 11:42

3 Smámynd: Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvers vegna þú gerir svona margar tilraunir til að skrifa um lögfræði, þar sem þær mistakast nánast allar.

Það er rétt að lögjöfnun er alls ekki algeng, en þetta er langt því frá að vera eitt af fáum dæmum sem henni er beitt. Lögjöfnun er viðurkennd réttarheimild, um það er ekki deilt.

Það sem er athyglisvert í þessu máli er að birting dóms má telja refsikennd viðurlög. Deila má um hvort lögjöfnun sé tæk refsiheimild en um það hefur verið deilt og menn eru ekki á einu máli um. Þú gleymdir að minnast á þetta.

Að sama skapi er hæpið að segja að dómari hafi túlkað lögin hvað lögjöfnunina varðar í þessu máli. Hann metur það svo að tvö tilvik séu sambærileg og skuli heyra undir sama ákvæði að breyttum breytanda. Lagaákvæðinu er eftir sem áður beint án sérstakrar túlkunar. 

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, 10.3.2008 kl. 13:56

4 Smámynd: Þarfagreinir

Sæll Þorvaldur,

Það er ávallt gott að fá uppbyggilega gagnrýni. Ekki vil ég nú meina að þessi skrif mín hafi 'misheppnast algjörlega' þó þú hafir út á ákveðin efnisatriði að setja.

Grunnpunkturinn í þessum skrifum mínum eru þau skrif dómsmálaráðherra í þá veru að dómari eigi helst að dæma 'eingöngu samkvæmt lögum' - þetta gildir einnig um fyrri skrif mín. Tilgangur minn er að reyna að komast að því hvað nákvæmlega ráðherrann á við. Jón Steinar hefur gefið það út að æskilegt væri að dómarar tjáðu sig frekar um einstaka dóma en þeir gera nú, og Björn Bjarnason hefur tekið undir það. Væri þá ekki líka eðlilegt að fara fram á að dómsmálaráherrann útskýri einnig sína hugmyndafræði betur en hann hefur gert hingað til?

En að því sem þú hefur að segja ...

Ég hef aðallega Moggann sjálfan sem heimild fyrir því að fá dæmi séu um að lögjöfnun hafi verið beitt, og ekki var ég nú heldur að mótmæla því að lögjöfnun væri viðurkennd réttarheimild. Ég viðurkenni þó fáfræði ef svo er að hún er algengari en ég vildi meina að hún væri.

Varðandi það hvort lögjöfnun sé tæk refsiheimild, þá rámar mig í að hafa rekist á vangaveltur þess efnis, en þær rötuðu ekki inn í þennan pistil, þar sem ég játa fúslega að ég gerði mér ekki grein fyrir mikilvægi þessa atriðis.

Og síðasti punkturinn, að hæpið sé að dómari hafi verið að túlka lög þegar hann mat tvö tilvik sambærileg ... við því get ég sagt að það er alla vega nokkuð ljóst að dómarinn dæmdi þarna ekki eingöngu eftir lögunum eins og þau standa. Um það hljóta allir að geta verið sammála. En þess fyrir utan þá stend ég við það að ég tel eftirtalandi rök umdeilanleg: Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum. Jafnvel þó þetta sé dagsatt, þá eru þetta hæpin rök fyrir því að blogg sé sambærilegt við blað eða tímarit. Með sömu rökum gæti ég haldið því fram að blogg væri orðabók, spjallvefur, eða þá hvað annað sem einnig má finna á netinu. Eins og dómarinn orðar þetta eru rökin sumsé undarleg, þó vissulega megi færa rök fyrir því að blogg sé í eðli sínu ekki algjörlega ósvipað blaði eða tímariti.

Hvað finnst þér annars um það sem ég týndi til, að dómarinn hafi skyldað Gauk til að fjarlægja ummælin af bloggi sínu, þrátt fyrir að engin lagaheimild sé til þess? Fróðlegt væri að fá þinn vinkil á það, þar sem þú virðist sannarlega lögfróður.

En enn og aftur vil ég í lokin impra á því að tilgangur minn með skrifum mínum er fyrst og fremst að benda á að dómarar dæma sjaldnast eftir lögunum eingöngu - smáatriðin og orðalagið sem er notað til að benda á þá staðreynd eru kannski aukaatriði, þó svo ég fagni vissulega öllum leiðréttingum. Því bið ég enn frekari skýringa  dómsmálaráðherrans á þessum orðum sínum, og nánari útlistanna á því hvenær hann telur dómara ganga of langt, og hvað það er nákvæmlega sem hefur ergt í réttarkerfinu undanfarið - svo mikið að hann telur nauðsynlegt að skipa dómara samkvæmt hugmyndafræði sem hann hefur (að mínu mati) ekki enn útskýrt fyllilega. Finnst mér, enn og aftur, sem að hann hafi sjálfur dálítið gefið tóninn með því að taka undir það að dómarar eigi að tjá sig meira opinberlega um dóma.

Þarfagreinir, 10.3.2008 kl. 14:24

5 Smámynd: Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

Sæll aftur.

Ég biðst afsökunnar á orðunum í innganginum hjá mér, þau voru ómakleg.

Að öðru þá er ég sammála þér með að skrifa dómsmálaráðherra eru ekki alltaf mjög málefnalega, en það virðist til lítils að biðja hann um að útskýra þau nánar. Raunar finnst mér ekki að dómsmálaráðherra eigi að tjá sig um einstaka dómara eða dóma, því með því er vegið að sjálfstæði dómstólanna að mínu mati. Ég held að það sé nokkuð víst að flestir dómarar séu mun lögfróðari en ráðherrann þó hann sé lögfræðimenntaður.

Hvað varðar það að umræddur aðili hafi verið dæmdur til að fjarlægja ummælin af bloggi sínu, þá verður að athugast að hann átti einungis að fjarlæg þau ummæli sem dæmd voru dauð og ómerk. Með því er eðlilegt að þau séu fjarlægð, þar sem þau í "raun áttu sér ekki stað". Ég er þó sammála þér að ekki stendur að því að verður séð til þess bein lagaheimild, en hins vegar er til lítils að dæma ákveðin ummæli dauð og ómerk ef þau standa áfram.

 Bestu kveðjur,.

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, 11.3.2008 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband