19.6.2008 | 18:34
Jahá
Já, jahá.
Er ég einn um að vera uggandi yfir þessum aðgerðum? Er ég að misskilja eitthvað?
Það fyrsta sem mér datt í hug var nefnilega að þetta (lán Íbúðalánasjóðs til banka, og afnám brunabótaviðmiðsins) þýðir aukið framboð á lánsfé til íbúðakaupa.
Var þetta ekki orsök þenslunar á húsnæðismarkaði til að byrja með - offramboð á lánsfé? Með innkomu bankanna gat fólk tekið hærri lán, sem vitaskuld ýtti húsnæðisverðinu smátt og smátt upp. Auðvitað er til að mynda aðeins minni hvati fyrir fólk að semja um lækkað verð þegar það tekur 90% lán, en þegar það tekur 70% lán, svo dæmi sé tekið. Þegar lítið er greitt út í hönd er auðvelt að sópa afgangnum undir teppið.
Þetta er vitaskuld einföldun, en ég tel þetta standast, í grófum dráttum.
Nú er svo komið að íbúðaverð hérlendis er hreinlega of hátt. Hverjum það er nú um að kenna þá hefur þetta leitt til þess að útlánahjólin hafa stöðvast. Bankarnir meta klárlega stöðuna sem svo að ekki borgar sig lengur að lána jafn ört og þeir gerðu áður, á því verði sem íbúðir seljast á núorðið. Íbúðalán eru lánuð til lengri tíma, sem þýðir vitaskuld þau eru hreinlega ekki arðbær til skamms tíma.
Það eru síðan ekki bara bankarnir sem eru orðnir tregir til að lána - fólk verður auðvitað að einhverju tregara til að kaupa eftir því sem verðið hækkar, óháð framboði á lánsfé. Það sem ætti eðlilega að gerast, með minnkandi eftirspurn, er að húsnæðisverð lækkar aftur - seljendur lækka verðið niður í það sem kaupendur og lánveitendur ráða við. Einhverjir tapa auðvitað á þessu, en aðrir græða á móti.
Í stað þess að leyfa lögmálinu um framboð og eftirspurn að ráða ferðinni er hins vegar farið í aðgerðir til að handstýra framboðinu á lánsfé - sem vitaskuld viðheldur óbreyttu, eða jafnvel hækkandi fasteignaverði.
Óháð því hversu slæmt er fyrir fólk að þurfa að borga svimandi háar upphæðir fyrir húsnæði - hvaða áhrif ætli þetta hafi nú á verðbólguna? Ekki er hún nú til að mynda góð fyrir fólk með verðtryggð húsnæðislán á herðunum ...
Það er jákvætt að auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð, en ég tel réttu leiðina til þess ekki þá að einfaldlega henda í það meira lánsfé. Fyrr eða síðar kemur að skuldadögum. Eina rétta leiðin er að leyfa húsnæðisverðinu að lækka. Eða það held ég ...
Breytingar á Íbúðalánasjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 4.7.2008 kl. 23:38 | Facebook
Athugasemdir
Það sem mér þykir ekki bara einkennilegt heldur beinlínis bráðfyndið er að nú á Íbúðalánasjóður að bjarga sínum stærstu óvinum, bönkunum sem fóru hamförum yfir tilvist hans fyrir skömmu síðan þegar enn draup smjör af hverju strái á þeim bænum.
Það er líka athyglisvert að við skattborgararnir, þeir sömu og eru að borga bönkunum höfuðstól og vexti af lánum, eigum að lána þeim til baka peninginn sem þeir eru að lána okkur, klárlega á lægri vöxtum. En svona ganga kaupin á eyrinni. Mammon er máttugur guð og ræður ríkjum yfir þessari ríkisstjórn sem öðrum.
Heimir Arnar Birgisson 19.6.2008 kl. 19:14
Er sammála. Þegar ég las þessa frétt varð ég fyrst voða glöð en síðan hálf skelkuð, þar sem íbúðaverðið á örugglega eftir að þenjast út og ekki lækka eins og spáð var. Fasteignasölurnar hafa verið duglegar að passa að markaðslögmálið bíti ekki af verði fasteigna í þessari minnkandi sölu nú eftir áramótin.
En hvað skal gera? Ættu allir nýir kaupendur að neita að kaupa og fara bara í Búseta?
Bryndís Böðvarsdóttir, 19.6.2008 kl. 19:29
Ósammála.
Íbúðaverð hefur nú þegar lækkað um 10% að raungildi frá áramótum og fasteignaviðskipti hafa nánast stöðvast vegna skorts á lánsfé. Sérstaklega er erfitt að fjármagna viðskipti með stærri eignir. Þá hefur viðmiðun Íbúðalánasjóðs við brunabótamat leitt til þess að lánshlutfall sjóðsins er í flestum tilfellum mun lægra en 80%, algengt hlutfall er um 50%. Vandinn sem við er eiga er að forða verðfalli á íbúðum umfram það sem þegar orðið, auðvelda íbúðakaupendum að eiga viðskipti og greiða fyrir sölu íbúða.
Húrra fyrir ríkisstjórnina!
Lára 19.6.2008 kl. 21:06
Lára: Vertu ekki að predika þessa vitleysu. Það á að sjálfsögðu ekki að stöðva verðfallið. Þannig réttir markaðurinn sig af. Hann var blásinn út af bönkunum og allar íbúðir urðu óeðlilega háar. Af hverju má hann ekki falla saman aftur og ná eðlilegri stærð? - Mátt ekki vera svona gráðug..
Guðmundur P. Gunnarsson 20.6.2008 kl. 01:05
Það sem fólk gleymir er það hver mun á endanum borga fyrir þessa fasteignahækkun sem hefur átt sér stað síðustu ár. Það eru börnin ykkar sem fá að greiða fyrir hana með því að skrifa upp á þrælasamning við bankana til æviloka til þess eins að kaupa nokkra rúmmetra af steypu.
Spyrjum okkur svo, hver græddi raunverulega á þessari fasteignahækkun? Ekki var það Jón Jónsson íbúðareigandi þó svo að margir jónarnir hafi haldið það, því sjáið þið til; Jón Jónsson sem er hæst ánægður með að hafa "grætt" 10 milljónir á því að íbúðin hans hækkaði í verði frá 10 millum upp í 20 þarf jú ennþá að eiga þak yfir höfuðið til æviloka. Þannig að hvernig hefur hann hugsað sér að taka út gróðann? Ég minnist þess ekki að farið sé að setja vasa á líkklæðin. Ef hann hyggst gera sér mat úr hækkuninni, þá verður hann að flytja út á land eða af landi brott, því víðast hvar í heiminum fást ódýrari fasteignir en í henni Reykjavík.
Það væri þá nær að þessi hægri ríkisstjórn sviki ekki lit og leyfði nú markaðslögmálunum að ráða atburðarásinni í stað þess að grípa inn í hana með sósíalískum stuðningi við kapítalismann. Ég veit ekki með ykkur, en ég fæ kjánahroll þegar ég hugsa til þess að einkavæðing bankanna skili sér í því að þeir séu orðnir ómagar á hreppnum...
Heimir Arnar Birgisson 20.6.2008 kl. 04:29
Ég er sammála því að það er margt undarlegt í kýrhaus þessa máls en það sem vantar inn í þessa tilkynningu er hvenær hlutirnir eigi að verða og hvaða upphæðir eru í spilinu.
Sigurjón Þórðarson, 20.6.2008 kl. 09:16
Hárrétt greining, Þarfagreinir. Bankarnir virðast hafa skipt um áætlun. Fyrst þeim tókst ekki að drepa Íbúðalánasjóð í einu höggi, þá ætla þeir nú að nota hann sem eins konar skjöld. Íbúðalánasjóður á helst eingöngu að vera ríkistryggður bakhjarl fyrir bankana og aðeins lána þeim íbúðakaupendum sem bankarnir líta ekki við. Síðan á að halda áfram að ýta húsnæðiverði út fyrir öll velsæmismörk til að græða á skuldsettum landanum.
Stefán Jónsson, 21.6.2008 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.