16.1.2008 | 14:58
Fjörið heldur áfram
Já, hann er magnaður, málflutningur þeirra sem verja gjörðir Árna. Hvergi kemur hér fram rökstuðningur fyrir því, að Þorsteinn Davíðsson hafi verið hæfastur umsækjenda - ekki frekar en fyrri daginn. Ekki sé ég neitt slíkt í frétt Vísis um málið heldur. Má vera að eitthvað slíkt hafi engu að síður komið fram á þinginu, og er þá miður ef það hefur ekki ratað inn á þessa miðla - því gaman hefði verið að sjá þann rökstuðning.
Skyldi maður ekki ætla, að öll önnur rök í málinu væru aukaatriði, með vísun til þess að Árni sjálfur segir að Þorsteinn hafi verið hæfastur, og að hann hafi tekið sína ákvörðun á þeim grundvelli?
Ég bíð góðra slíkra raka enn með eftirvæntingu.
En hvað um það. Segjum að eftirfarandi sé engu að síður að einhverju leyti til þess fallið að verja skipun Þorsteins:
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í lögum um dómstóla væri hvergi tekið fram að ráðherrum bæri að fara eftir niðurstöðu nefndar, sem fjallar um hæfi umsækjenda. Þá væri niðurstaða nefndarinnar ekki bindandi fyrir ráðherrann. Lögin væru alveg skýr en menn gætu haft skoðanir á því hvort það ætti að breyta þeim.
Hér er Sigurður Kári að fara með hluti sem ég tel að hafi verið sýnt fram á að sé, þegar allt kemur til alls, óvandaður og illa ígrundaður málflutningur. Má þar einna helst nefna ágæta grein Sigurðar Líndals.
Enn hef ég ekki séð neitt, sem ég tel góð málefnaleg andsvör við þeim lagalegu rökum sem eru færðar í grein prófessorsins, þó vissulega megi deila um ágæti þess að hún sé skreytt stóryrðum sem þeim rökum eru óviðkomandi. Rökin eru engu að síður skýr.
Þó hefur, skemmtilegt nokk, Sigurður Kári sjálfur gert tilraun til andmæla á bloggsíðu sinni. Það sem einnig er skemmmtilegt er að ég sjálfur hef þar sett inn svar. Þó hefur Sigurður Kári ekki svarað því svari, þegar þetta hefur verið ritað. Það verður gaman að sjá hvað hann segir. Kannski það verði komið inn, þegar þú smellir á hlekkinn, lesandi góður.
P.S. Ég minni enn og aftur á að ég hef nú þegar skrifað fjölmarga pistla um málið. Þá má finna í lista hér til hægri. Spurning um hvort maður fari ekki að gera þetta að fullri vinnu?
P.P.S. Ég tel annars ekki, að breyta þurfi neinum lögum, í sjálfu sér. Nóg ætti að vera, að ráðherrar sýndu manndóm og heilindi.
Ósammála ráðherra um mat á umsækjendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2008 | 02:51
Árni í Kastljósinu
Árni M. Mathiesen sannaði endanlega fyrir mér í Kastljósi kvöldsins, að hann hafði engar málefnalegar ástæður fyrir sinni ákvörðun um að skipa Þorstein Davíðsson í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystri.
Hann beitti grófum rangfærslum til að gera nefndina eins tortryggilega og mögulegt var, og til að láta sig sjálfan líta betur út. Aldrei útskýrði hann síðan með eitthvað sem nálgaðist fullnægjandi hætti, þá hrokafullu yfirlýsingu sína að hann hafi vitað betur en nefndin. Það getur enginn heilvita maður haldið því fram að hann hafi þarna verið að verja góðan málstað - alla vega enginn sem nennir að setja sig inn í málið.
Hið versta er síðan að fréttakonan (sem ég man því miður ekki hvað heitir) leiðrétti engar af rangfærslum Árna. Þetta fékk allt að standa óskorað. Margar af þessum rangfærslum voru samt það grófar og augljósar, að einungis nægir að lesa greinargerð nefndarinnar til að sjá þær. Árni sagði þarna til að mynda að nefndin hefði haldið því fram að aldrei hefði verið gengið framhjá áliti hennar áður, sem væri nú rangt ... þetta er gróf rangfærsla sem ég hef hrakið áður hér á blogginu. Merkilegt nokk þá hrakti ég hana samt fyrst nokkru áður en Árni fór að halda henni fram. Aldrei hélt ég á þeim tíma að ég ætti eftir að hrekja aftur sömu rangfærslu hjá fjármálaráðherranum sjálfum - hvað þá að hann myndi komast upp með að halda henni fram í Kastljósinu! Svo var líka þetta með þá grófu einföldun, að nefndin væri bara að kvarta yfir því að fá ekki að ráða. Gömul lumma það ...
Af hverju er þetta síðan til marks um að Árni sé að verja vondan málstað? Jú, af því hann er að beygja sannleikann að því sem kemur honum sjálfum betur. Auðvitað hljómar það til að mynda miklu mun betur, að áður hafi ekki verið farið eftir áliti nefndarinnar, en að aldrei áður hafi ekki einhver umsækjandi úr efsta hæfnisflokki verið skipaður - en svo allt í einu þegar það er gert, þá sé það þegar þrír umsækjendur eru tveimur hæfnisflokkum ofar en sá sem er skipaður, og að sá sem er skipaður er í flokki þeirra sem rétt rúmlega uppfylla lágmarkskröfur til að gegna embættinu!
Ef Árni hefði ekkert að fela og væri sáttur við sín verk, myndi hann væntanlega ekkert draga undan í þessum efnum, og útskýra gaumgæfilega af hverju hann tók svona afgerandi ákvörðun. Þetta tel ég frekar auðséð. Sú mynd sem þarna var hins vegar dregin upp af málinu var sú, að nefndin hafi ákveðið að gera ágreining út af minniháttar skoðanamun, þó svo að áður hafi slíkt komið upp án þess að nefndin hafi kvartað. Þetta er mjög langt frá því að vera sannleikanum samkvæmt. Fréttakonan gerði hins vegar nákvæmlega ekki neitt til að reyna að færa þessa mynd nær veruleikanum.
Þá er það annað sem er nú líka ekki svo gott - að Árni var aldrei inntur eftir því, af hverju hann nákvæmlega var svona ósammála nefndinni. Eðlilega hefði átt að koma þarna spurning í þá veru, að fyrst hann var svona gríðarlega glöggskyggn, og skoðaði öll gögn það gaumgæfilega að hann kom auga á alvarlega villu í gögnum nefndarinnar, þá ætti honum væntanlega að reynast auðvelt að rekja það ferli allt saman - þó ekki nema í stuttu máli. Það hefur hann nefnilega aldrei gert - ekkert sem hann hefur sagt hefur svo mikið sem hljómað í þá veru. 'Rök' hans eru miklu frekar að mestu á þá leið, að nefndin hafi bara vanmetið reynslu Þorsteins Davíðssonar - án þess að það sé útskýrt neitt frekar. Hví ætli það sé?
Árni sagði síðan eiginlega ekkert annað en það sem hann hafði sagt áður. Merkilegt hvernig spurningar fréttakonunnar snertu sjaldan neitt annað en það sem hann hafði áður fullyrt opinberlega. Hvernig stendur þá á því, að hún var svona illa í stakk búin til að kljást við hann? Hefði ekki verið eðlilegast, fyrir viðtalið, að athuga hvað hann hefur látið hafa eftir sér um málið áður, og rannsaka það, í stað þess að spyrja einfaldlega spurninga sem Árni hefur svarað áður, með það ófullnægjandi hætti að lágmarks rannsóknarvinna hefði getað leitt í ljós rangfærslur hans? Nú veit ég ekkert hvernig fréttamenn starfa, en þetta finnst ekki óeðlileg krafa.
Svo hefði nú líklega verið sniðugt að lesa bara greinargerð nefndarinnar ...
Ef ég hefði tekið þetta viðtal núna í kvöld, þá hefði ég getað bent á allar þær rangfærslur sem Árni fékk að komast upp með, og spurt hann út í þær. Ég hefði líka grillað hann út í ástæður þess að hann var svona ósammála nefndinni. Má vera að hann hefði komið vel út úr því (þó ég dragi það stórlega í efa), en það hefði þó verið miklu meira upplýsandi en sá skrípaleikur, sem þarna var á ferðinni.
Hvernig stendur á því að einn reiður tölvunarfræðingur getur gert betur en Kastljósið, í að benda á augljóslega óvandaðan málflutning ráðamanna?
Ég er í sjokki. Ég sem hélt að við byggjum í landi, þar sem ráðamenn komast ekki upp með að ljúga óáreittir í fjölmiðlum.
Sjokk ofan á sjokk. Nógu slæmt var nú að komast að því, að grundvallarhugsjónir eru hér hafðar að engu, ef það hentar hagsmunum þeirra sem völdin hafa.
Sjokk ofan á sjokk ofan á sjokk. Að fjölmiðlar leyfi ráðamönnum að komast upp með lygar, þegar þeir reyna að réttlæta grófa misbeitingu á valdi, er ólíðandi með öllu.
P.S. Þetta er annars að ég held sjötti pistill minn um þetta mál. Já, það er það mikilvægt, alla vega fyrir mér. Ég vísaði í tvo eldri pistla í þessum, en hina má auðvitað skoða með því að bera sig eftir þeim.
P.P.S. Ef einhver ætlar að gagnrýna mig fyrir að ásaka ráðherra um lygar, þá gangi honum vel. Vitaskuld er ekki hægt að sanna að Árni hafi talað þarna gegn betri vitund, en ég er óhræddur við að taka afleiðingum þess, ef einhver ætlar virkilega að fara að halda því fram og nota gegn mér, að kannski hafi Árni bara ekki vitað hvað hann var að tala um. Að lágmarki brást hann þarna algjörlega þeirri ábyrgð, að lesa þessa blessuðu greinargerð og setja sig inn í málflutning nefndarinnar, áður en hann mætti í fjölmiðla með gífuryrði í hennar garð. Meginatriðið er síðan að ég er með öll sönnunargögn í höndunum, sem sýna fram á að Árni hafði þarna rangt fyrir sér í mörgu því sem hann sagði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2008 | 18:13
Rangtúlkanir Geirs
Nú bætist enn einn í hóp þeirra sem virðast vilja blekkja almenning, og forðast að ræða málin efnislega.
Haft er hér eftir Geir H. Haarde, sjálfum forsætisráðherranum:
Geir sagðist telja óeðlilegt ef einhverjum dytti í hug, að dómarastéttin hefði sjálfdæmi um hverjir kæmust í þeirra hóp.
Mér þykir í raun ótrúlegt að forsætisráðherranum láti sér detta í hug að láta út úr sér svona bölvað rugl.
Það er alla vega nokkuð ljóst að hvaða tilgangi sem þessi ummæli eiga nú að þjóna, þá eru þau nú ekki beint vel til þess fallin að verja embættisgjörð Árna M. Mathiesen, þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson í embætti dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra.
Eins og flestir sem með umræðunni hafa fylgst, svo ekki sé nema að einhverju marki, ættu að vita, þá hefur dómarastéttin lítið um það að segja hverjir komast í raðir héraðsdómara, undir núverandi fyrirkomulagi - og það þó að ráðherrann fari ekki algjörlega á svig við álit nefndarinnar sem metur hæfni umsækjenda, eins og Árni gerði í fyrsta sinn í 16 ára sögu nefndarinnar.
Nefndin er nefnilega skipuð lögfræðingum, en aðeins einn þeirra hverju sinni er dómari. Núverandi fulltrúi Dómarafélags Íslands í nefndinni er Eggert Óskarsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, sem er auðvitað annars allt annar dómur en héraðsdómur Norðurlands eystra. Það er þá alla vega nokkuð ljóst, að í þessu tilfelli var enginn nefndarmanna að ráða til sín samstarfsmann (því ef Geir á ekki við nákvæmlega eitthvað slíkt, þá veit ég ekki alveg hvaða hugsanlega vandamál hann er þá annars að reyna að benda þarna á).
Erfitt er því að koma auga á, hvað þessi undarlegu ummæli forsætisráðherra koma málinu við.
Einnig má nefna í framhjáhlaupi að hér notar Geir sömu slöppu aðferð og Árni, að vísa til þess að áður hafi nú svipaðir hlutir gerst, þegar skipun Þorsteins Davíðssonar var algjört einsdæmi að því leyti, að þar var í fyrsta sinn í 16 ára sögu sérfræðinefndar gengið algjörlega framhjá áliti hennar - og nefndin gerðist síðan svo djörf að kvarta með málefnalegum hætti.
Ég minni annars enn og aftur á að engum af hinum alvarlegu athugsemdum sem gerðar eru í þessari greinargerð hefur enn sem komið er verið svarað efnislega - en þess í stað er ýmsum lágkúrulegum brögðum beitt til að gera nefndina sem slíka tortryggilega. Ekki þarf síðan skyggnan mann til að spá fyrir um hvernig grein Sigurðar Líndal verður væntanlega afgreidd - á sama hátt og greinargerð nefndarinnar; með skætingi og undanbrögðum - og setur forsætisráðherrann þar tóninn.
Fyrir utan allt þetta (sem ráðherrarnir telja augljóslega vera ósvaraverð aukaatriði), þá stendur það eftir að Geir svarar engan veginn aðalatriðum málsins, frekar en nokkur annar sem haldið hefur uppi vörnum fyrir gjörðum Árna.
Grundvallarspurningin er:
Af hverju nákvæmlega var Árni, að lokinni tveggja daga yfirlegu (eftir því sem manni skilst), svona algjörlega ósammála samdóma áliti hinnar reyndu þriggja manna sérfræðinefndar, sem tók sér mun meiri tíma til að meta umsækjendur?
Það er aumkunarvert að sjá hvernig ráðherrar Sjálfstæðisflokksins (og því miður, einn ráðherra Samfylkingarinnar, sem komið er) flykkjast til að halda uppi ruglmálflutningi sem engu kemur við, og beita þar jafnvel rangfærslum - en forðast algjörlega að svara þessari einföldu spurningu.
P.S. Enn og aftur vísa ég til eldri pistla um sama mál, sem nú eru orðnir margir. Þá má sá hér í listanum til hægri.
Embættisveitingar innan marka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2008 | 12:34
Fleiri lélegheit
Útúrsnúningarnir og lélegheitin halda áfram. Allt skal gert til að reyna að þyrla upp ryki og halda fólki í vafa um hvað málið nákvæmlega snýst - og gera nefndina sem Árni hundsaði sem allra tortryggilegasta.
Nú er Árni kominn með þá línu að það hafi nú gerst áður, að stjórnmálamenn hafi "neyðst" til að hundsa álit lögbundinna álitsgjafa. Auðvitað nefnir hann þar Hafró, sem hann veit væntanlega að er umdeild stofnun - margir hafa hrósað stjórnmálamönnum þegar þeir standa í hárinu á henni og lýst yfir efasemdum um ágæti hennar. Svo þykja mörgum svona sérfræðinefndir og stofnanir almennt séð frekar tortryggilegar, og vilja gera mikið í því að draga hlutleysi þeirra í efa (eins og ráðherrar séu þá til að mynda frekar hlutlausari?). Þetta sýnist mér því vera lítið annað en lýðskrum hjá Árna.
Einnig er áhugavert að Árni segir hér (eða gefur mjög eindregið í skyn) að hann hafi borið einhverja nauðsyn til að skipa Þorstein Davíðsson. Fyrst svo er, þá hlýtur hann að geta sagt af hverju svo var - nokkuð sem hann hefur engan veginn útskýrt með sannfærandi hætti ennþá.
Allt málþóf og útúrsnúningar breyta því ekki að þetta snýst um tvær mjög einfaldar spurningar:
- Af hverju taldi Árni M. Mathiesen Þorstein Davíðsson vera hæfastan umsækjenda?
- Að hvaða leyti er hann svona gríðarlega ósammála áliti nefndarinnar í því sambandi?
Árni getur þæft málið og reynt að gera nefndina tortryggilega alveg fram í rauðan dauðann - en það sem hann getur ekki gert er að svara þessum spurningum - enda eru án efa engin góð svör til við þeim.
Þegar Þorsteinn var skipaður var gengið framhjá hæfari umsækjendum. Ég hef nákvæmlega ekkert séð frá Árna, né neinum öðrum, sem hrekur þá staðhæfingu.
Og þið sem viljið röfla um pólitíska ábyrgð, og að Árni hafi nú verið í lagalegum rétti, og að ráðherrar eigi að vera bundir sinni sannfæringu eingöngu ... að sú ógeðfellda hugmyndafræði sé því grundvallaratriði að skipa hæfasta manninn í hverja stöðu æðri - allt það tal breytir því ekki að Árni heldur því fram að hann hafi skipað hæfasta umsækjandann. Því er ekkert sem firrir hann frá þeirri ábyrgð, að hann útskýri nákvæmlega á hvaða forsendum hann taldi Þorstein hæfastan. Þá sem halda því fram að það komi almenningi ekki við, eða þá að lýðurinn hafi enga heimtingu á að Árni útskýri sitt mál almennilega, kalla ég síðan fasista, og það með réttu - að ég tel.
Ég vísa annars aftur til eldri pistla um málið. Þeir eru þrír aðrir eldri hjá mér. Þið finnið þá bara sjálf ef þið hafið áhuga.
P.S. Ég minni líka á að engum af þeim alvarlegu spurningum sem velt var upp í greinargerð nefndarinnar hefur verið svarað af neinum ráðamanni, né þá af neinum öðrum þeirra sem vilja verja Árna í þessu máli, svo ég hafi séð - enda telur það fólk sig víst ekki þurfa að ræða það plagg efnislega, ekki frekar en neitt annað sem er þeim óþægilegt. Þessi greinargerð er nefnilega miklu meira og merkara plagg en svo, að nefndin sé að kvarta yfir því að ekki hafi verið farið eftir hennar áliti - þó svo að margir einum of flokkshollir Sjálfstæðismenn vilji afgreiða þessa greinargerð með svo skammarlega einfeldingslegum hætti. Það sem rætt er í henni lýtur að grundvallaratriðum íslenskrar stjórnsýslu og hvaða hugmyndafræði hún á að byggjast á - en því miður eru víst alltaf til einhverjir sem telja flokkspólitíkina og nánast ótakmörkuð völd (réttra) ráðherra (samhliða lítilli raunverulegri ábyrgð) mikilvægari en allt slíkt 'froðusnakk'.
Oft gerst að ráðherrar fari ekki að áliti álitsgjafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.1.2008 | 15:35
Rangtúlkanir Þorgerðar
Mogginn virðist hættur að ræða 'Þorsteinsmálið', þannig að nú verður maður víst að seilast yfir í vísi til að halda áfram að bölsóttast yfir vitleysisganginum í ráðherrum okkar.
Þarna segir Þorgerður meðal annars:
Það er rétt að undirstrika það að það er ekki hlutverk nefndarinnar að skipa mönnum í flokka eftir hæfni og að mínu mati hefðu menn átt segja hæfur eða ekki hæfur.
Þetta er algjörlega rangt hjá Þorgerði, og hún má skammast sín fyrir þessa rangfærslu alveg jafn mikið og Árni má skammast sín fyrir sínar. Það er einmitt hlutverk nefndarinnar að raða umsækjendum í hæfnisflokka! Reglur sem dómsmálaráðherra setti henni árið 1999 skuldbinda hana til þess. Um þetta hefur aldrei verið deilt áður. Ekki þarf að seilast lengra en yfir í nýlega greinargerð nefndarinnar til að sjá þetta skrifað skýrum stöfum:
Um störf dómnefndarinnar gilda auk 12. gr. dómstólalaga reglur nr. 693/1999. Í 5. gr. þeirra er sú skylda lögð á nefndina að setja fram í skriflegri umsögn um umsækjendur annars vegar rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og hins vegar rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni.
Er menntamálaráðherrann virkilega svo illa að sér að vita þetta ekki? Ég trúi því tæpast.
Að ráðherrar skuli grípa til lyga (Já, hví ekki að kalla þetta réttu nafni? Lygi er þetta, og lygi skal það heita) til að fegra eigin hlut er alveg hreint ótrúlega lúalegt, og sýnir svo ekki verður um villst, að þarna hafa menn vondan málstað að verja. Ráðherrar gera núna bókstaflega allt sem þeir geta til að gera nefndina tortryggilega og draga úr henni - allt nema að ræða það sem hún hefur fram að færa á efnislegum forsendum. Þetta fólk einangrar sig núna í fílabeinsturnum þar sem annar veruleiki er við lýði en hjá okkur hinum, og spýr þaðan bitru galli sem það ætlast til að við kyngjum möglunarlaust. Ekki ætla ég mér alla vega að gleypa það óæti.
Ingibjörg Sólrún þegir annars þunnu hljóði, og af því er einnig skömm - en þó er það ögn skárra en að opna munninn og láta lygar vella upp úr honum.
Ég hef aldrei nokkurn tímann áður skammast mín jafn mikið fyrir hönd ráðamanna þessa lands. Það er með ólíkindum að ekki sé gert miklu meira úr þessu en raun ber vitni. Geta ráðherrar logið hverju sem er opinberlega án þess að lenda í teljandi vandræðum vegna þess?
Ég vísa annars aftur til eldri pistla um málið:
VIÐBÓT 14/01: Ég fann loksins reglugerðina sjálfa á netinu. Hana má finna hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.1.2008 kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.1.2008 | 14:38
Rangtúlkanir Árna
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2008 | 11:04
Aumt mál, aumar varnir
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.1.2008 kl. 04:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2008 | 10:57
Hræsnarar
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2008 kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.12.2007 | 17:14
Guð og keisarinn
10.12.2007 | 16:44