Um aðkomu RÚV að SMÁÍS

Já, ég veit að þetta er fjórða færslan í röð um torrentmál, en þau eru mér hugleikin. Ég tel þetta varða grundvallarhugsjónir og það hvernig samfélagi við viljum búa í.

Eitt sem mér var að velta fyrir mér og finnst afar merkilegt er að RÚV er aðili að SMÁÍS, eins og sjá má hér:

http://smais.is/template25024.asp?pageid=4643

Af hverju er þetta merkilegt?

Jú, af því að RÚV er fjármagnað með almannafé. Núna þegar RÚV er orðið að opinberu hlutafélagi verður aðaltekjustofn þess opinbert gjald sem allir skattgreiðendur verða skyldaðir til að greiða. Fram að þessu hefur það verið fjármagnað með afnotagjöldum, sem allir þeir sem eiga viðtæki greiða, en praktískt séð kemur það út á eitt - RÚV er og hefur alltaf verið fjármagnað af meira og minna öllum landsmönnum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Samkvæmt þessu hefði ég haldið að flest eða velflest það efni sem RÚV framleiðir sé í raun almannaeign. Ef það er það ekki, þá ætti það að vera það; það þætti mér langeðlilegast miðað við þá staðreynd að fyrirtækið er í almenningseigu og fjármagnað af almenningi.

Hvaða erindi á RÚV þá í SMÁÍS, samtök sem berjast harkalega gegn öllum þeim sem deila höfundarvörðu efni? Eina ástæðan fyrir því væri til að standa vörð um það efni sem RÚV framleiðir og ganga hart gegn þeim sem dreifa því ... því varla er RÚV meðlimur í SMÁÍS í því skyni að standa vörð um efni annarra aðila að samtökunum.

Þarna sýnist mér sumsé að RÚV sé, með milligöngu SMÁÍS, að ofsækja þá sem dreifa þeirra efni ... efni sem er fjármagnað með skattfé. Sumsé, fólk sem er í langflestum tilfellum búið að greiða fyrir allt það efni sem RÚV framleiðir að flestu eða öllu leyti, er ofsótt fyrir að deila því. Efni sem er, eða ætti réttilega að vera, í eigu allra Íslendinga er þá augljóslega óheimilt að dreifa á netinu - þeir sem það gera eiga á hættu að fá á sig kærur og háar fjársektir.

Magnað.


mbl.is Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur

Ég skrifaði bloggfærslu um það að Svavar Lúthersson hafi verið handtekinn fyrr í dag, og benti á hið fádæma rugl sem fólst í því að lögfræðingur SMÁÍS  hafi verið með þeim sem handtóku hann í för. Nú er augljóslega þörf á að skrifa meira.

Takið eftir því að enn og aftur koma allar fréttatilkynningarnar frá SMÁÍS. Gott og vel; þetta er einkamál - en engu að síður hélt ég að það væri svo, að framkvæmdavaldið væri hjá lögreglunni, og að það væri hennar að upplýsa um framgang mála sem eru í rannsókn hjá henni. Í þessu máli er hins vegar ljóst að SMÁÍS eru í einstaklega nánu samstarfi við lögregluna, og fá fréttir af öllum þeirra aðgerðum án tafar.

Við skulum alveg hafa það á hreinu hvað þetta þýðir. Samtök sem hafa beina hagsmuni (eða telja sig hafa beina hagsmuni af því; nánar um það hér á eftir) af því að Istorrent verði lokað, og að aðstandendur síðunnar verði kærðir og sakfelldir, eru í nánu samstarfi við lögregluna. Þetta er nákvæmlega það sama og var uppi á teningnum í DC++ málinu víðfræga; það varð til vegna þess að SMÁÍS laumuðu flugumanni inn í það samfélag sem safnaði sönnunargögnum gegn meðlimum þess, en tók um leið virkan þátt í hinum meintu lögbrotum. Eftir það valdi SMÁÍS hverjir áttu að fá skellinn, og bentu lögreglunni á þá. Tölvubúnaður þeirra var gerður upptækur, þeir handteknir, en aldrei varð neitt úr kærum. Lögreglan var þar ekkert annað en handbendi SMÁÍS, að mínu mati. Hið sama virðist vera uppi á teningnum hér. Það kæmi mér mjög svo á óvart ef að eitthvað yrði úr kærum ... en hagsmunaðilarnir fengu þó sínu framgengt, alla vega tímabundið - að loka síðunni.

Málið er síðan að þetta skiptir nákvæmlega engu máli, þegar upp er staðið. Nú munu íslenskir deilendur flykkjast á Pirate Bay, eða aðrar sambærilegar erlendar síður sem íslensk yfirvöld eða hagsmunaaðilar geta ekkert hróflað við. Eða þá að einhver opnar nýja íslenska torrentsíðu, hýsta erlendis ... sem hefur þá nákvæmlega sömu stöðu og allar erlendu síðurnar. Vandamálið mun þá ekki hverfa, heldur stigmagnast. Hagsmunaðilarnir tapa líka ótrúlega miklum PR-prikum við svona aðgerðir. Eins og þetta hræði einhvern frá því að hlaða niður höfundarvörðu efni ... ég er frekar hræddur um að þetta tvíefli marga í andúð sinni á þessum hagsmunasamtökum og einbeittum vilja til að deila sem mestu af þeirra efni. Hvað munu hagsmunaðilarnir gera þá? Fá lögregluna í lið með sér til að handtaka einstaklinga í stórum stíl? Smala þeim saman eins og ótíndum glæpamönnum?

Hið grábölvaðasta í þessu er að þetta lögbann kemur mjög skömmu á eftir því að aðstandendur Istorrent fóru að fylgja óskum þeirra sem fóru fram á að efni þeirra yrði ekki dreift í gegnum síðuna. Þannig var til dæmis orðið óleyfilegt að dreifa á síðunni ýmsum þáttum sem Stöð 2 hefur til sýningar, sem og plötum hinna og þessa íslensku tónlistarmanna. Í stað þess að þakka aðstendunum síðunnar fyrir þessa viðleitni til að draga úr brotum notenda síðunnar ákváðu hagsmunaaðilarnir hins vegar að láta setja lögbann á síðunna og handtaka aðalstjóranda hennar - með dyggilegum stuðningi lögmanns SMÁÍS. Þetta er ekki beinlínis rétta leiðin til að öðlast vinsældir í augum almennings, myndi ég segja.

Ég er nokkuð hræddur um að þetta sé einungis upphafið að mjög svo hatrammri baráttu. Telji hagsmunaðilarnir sig hafa unnið eitthvað með þessum aðgerðum, þá verð ég því miður að upplýsa þá um að þar skjátlast þeim mjög svo hrapalega.

Þetta mun valda holskeflu, vitiði bara til - og það verða ekki bara "bólugrafnir ungir menn með bremsufar í nærbuxunum heima hjá foreldrum sínum" sem verða í hópi andstæðinga hagsmunasamtakanna.


mbl.is Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirsátar SMÁÍS

Af visi.is:

Rétt í þessu var Svavar Lúthersson, eigandi torrent.is, færður til yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hann var vakinn upp í morgun á heimili sínu í Hafnarfirði af fulltrúum Sýslumanns í Hafnarfirði, lögreglumönnum og Hróbjarti Jónatanssyni, lögmanni SMÁÍS, samtaka myndrétthafa á íslandi.

Talið er að heimsókn yfirvalda til Svavars tengist ásökunum um ólöglegt niðurhal á íslensku höfundarréttarvörðu efni.

Þegar Vísir náði tali af Svavari sagðist hann lítið geta tjáð sig um málið. "Ég veit ekkert. Þetta er bara að gerast. Þeir hafa varla talað við mig," segir Svavar og á þá við lögregluna. Hann viðurkennir þó að þetta hafi ekki komið honum á óvart. "Ég var nú frekar rólegur þegar þeir birtust," segir Svavar.


Nú staldraði ég við þessa setningu: "Hann var vakinn upp í morgun á heimili sínu í Hafnarfirði af fulltrúum Sýslumanns í Hafnarfirði, lögreglumönnum og Hróbjarti Jónatanssyni, lögmanni SMÁÍS, samtaka myndrétthafa á íslandi."

Er eðlilegt að lögmaður einhverra hagsmunasamtaka úti í bæ sé að taka þátt í lögregluaðgerð???

Hefur lögreglan nákvæmlega ekkert lært af DC málinu? Þar var farið fram með offorsi vegna þrýstings frá hinum sömu samtökum (þau samtök notuðu líka tálbeitu sem sagt er að hafi fengið fúlgur fjár fyrir vikið); tölvubúnaður gerður upptækur og menn færðir í yfirheyrslu, en nákvæmlega ekkert gerðist. Ekki rassgat. Hið versta við það húllumhæ allt saman var að þessum búnaði var aldrei skilað; hann rykfellur enn í einhverjum kompum hjá lögreglunni. Enn bólar þó ekkert á kærum.

Er þetta íslenska lögreglan í hnotskurn? Menn sem bregðast við þrýstingi hagsmunasamtaka og vita síðan ekki hvern fjárann þeir eiga í raun að gera?

Þetta er svartur dagur í Íslandssögunni, að mínu mati. Ef lögreglan hefði haft vit á því að sýna eitthvert sjálfstæði í þessu máli, og sleppt því að hafa lögmann SMÁÍS með í handtökunni, þá myndi málið horfa töluvert öðruvísi við ... en svo er víst því miður ekki.

Áhugverðir hlekkir: 

http://www.netfrelsi.is/korkur/index.php?showtopic=2862

http://www.netfrelsi.is/gamalt/2006/09/u_varst_handtek.php 


Kjarni málsins

Hvenær ætla 'hagsmunaaðliar' að sætta sig við það að tölvutæknin býður einfaldlega upp á það að fólk skiptist á öllu því efni sem það vill skiptast á, með einum eða öðrum hætti? Engu máli skiptir hvaða lögfræðihótunum, lögregluaðgerðum og áróðri er beitt ... ef einhver vill ná sér í eitthvað á netinu verður hann alltaf fær um það. Ég skil svo sem viðleitni þeirra sem telja sig hlunnfarna í að berjast gegn þessari tækni, en málið er einfaldlega að slík barátta er alltaf dauðadæmd. Ef Istorrent verður lokað verða enn til ógrynni erlendra Torrentsíðna þar sem Íslendingar munu geta deilt hvaða því íslenska efni sem þeir vilja. Ef þeim síðum verður lokað munu aðrar spretta upp í staðinn. Þannig er það einfaldlega bara.

Hér mætti fólk taka sér Radiohead til fyrirmyndar. Þeir kappar ákváðu að fara framhjá útgáfuapparatinu og gefa út sína nýjustu plötu sjálfir á netinu, og leyfa fólki að greiða það sem það vill fyrir hana. Þetta tel ég vera skynsamlegt; að nýta sér tæknina í eigin þágu og sýna fólki virðingu, í stað þess að berja höfðinu við steininn eins og hver annar þurs, og ofsækja venjulegt fólk með lögfræðihótunum og yfirgangi. Lögfræðihótunum er nefnilega ekki bara beint gegn þeim sem reka Istorrent, heldur líka hinum almenna borgara. Ágætt dæmi um slíkt má sjá hér.

Sjálfur væri ég meira en til í að hafa aðgang að einhvers konar kerfi þar sem ég gæti einfaldlega greitt þeim tónlistarmönnum sem ég hef gaman af og ber virðingu fyrir þær fjárhæðir sem ég vildi. Ég get sagt það í fullri einlægni að ef slíkt væri í boði myndi ég glaður henda nokkrum þúsundköllum í þá tónlistarmenn sem ég hef hlustað á í gegnum tíðina og jafnvel stolið tónlist af.

Síðan er það eitt sem ekki ætti að vera erfitt að átta sig á. Hagsmunaðilar reikna alltaf tekjutap sitt í fjölda niðurhala. Forsendan er sumsé sú að hvert einasta ólöglega niðurhal sé töpuð sala - að ef viðkomandi hefði ekki haft tök á því að nálgast efnið á netinu hefði hann farið og keypt það. Er það raunhæft? Spyr sá sem ekki veit. Tæknin er einfaldlega þannig að það er miklu minni fyrirhöfn að ná sér í það sem maður vill á netinu, og þetta er nokkuð sem hagsmunaðilar ættu að fagna og nýta sér í þágu neytenda. Reyndar ber hér að nefna að til er ágæt síða, tonlist.is, þar sem hægt er að kaupa íslenska tónlist gegn ekki svo slæmu verði. Hins vegar ber einnig að nefna að önnur ástæða þess að þessi leið til að reikna út tekjutap er óraunhæf er sú að stundum (jafnvel oft) nær fólk sér ókeypis í efni sem það myndi öðrum kosti aldrei borga fyrir. Hvar er tekjumissirinn þar?

Hvernig er svo annars með gjaldið sem er lagt ofan á hvern einasta fjárans geisladisk sem er keyptur hér á skerinu? Og sambærilegt gjald sem er lagt á upptökutæki og tónlistarspilara? 'Rökin' eru þau að allt þetta megi nota til að stela íslenskri tónlist. Þessir peningar renna því beint til STEF, og þetta getur ekki verið neitt annað en hreinasta gullnáma fyrir þau samtök. Hversu hátt hlutfall af keyptum geisladiskum og upptökutækjum hérlendis ætli sé notað til að stela íslenskri tónlist? Ætli það sé yfir 1%? Það efa ég stórlega. Þetta gjald er því ekkert annað en sekt fyrirfram fyrir glæp sem örfáir þeirra sem sektina greiða fremja. Samt sem áður berjast þessi sömu samtök með kjafti og klóm gegn ólöglegri afritun á tónlist, því það er jú ólöglegt! STEF fær því kökuna og étur hana líka, eins og enskumælandi myndu segja. Þeir fá sektir fyrir ólögmæta afritun, jafnvel úr vasa hinna saklausu - en þeir fá líka að ofsækja alla þá sem stunda þessa sömu ólögmætu afritun, þrátt fyrir að saklaus almenningurinn borgi þeim háar sektir fyrir hana með því einu að kaupa ákveðnar vörur. Þetta er ekkert annað en glæpsamlegt helvítis rugl. Ég skil engan veginn af hverju ráðamenn hafa ekki séð sóma sinn í að afnema þetta kjaftæði fyrir löngu síðan.

Varðandi STEF, þá er margt athyglisvert við þeirra starfsemi. Manni skilst til dæmis að venjulegir popparar græði afskaplega lítið á þeim samtökum. Um þetta má til að mynda lesa í þessari bloggfærslu Dr. Gunna. Þetta eru sumsé samtökin sem ásaka þá sem deila íslenskri tónlist á netinu um að hlunnfara íslenska tónlistarmenn. Magnað.

Tölvutæknin er að grafa undan hinum gömlu leiðum til að selja og miðla tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, og því um líku. Það er staðreynd. Ég er ekki með neinar patentlausnir handa þeim hagsmunaaðilum sem telja sig missa af gríðarmiklum tekjum vegna þessa, en ég held að ég geti sagt með fullri vissu að rétta leiðin er ekki að siga lögfræðingum á fólk hægri-vinstri. Hver einasti 'sigur' sem vinnst þannig er jafnframt gríðarlegt tap á vettvangi almannatengsla. Hvernig er hægt að bera virðingu fyrir þeim sem til að mynda hótar foreldrum lögsókn, skiptist börnin þeirra á höfundarvörðu efni á netinu? Þeim hinum sömu og nú þegar neyða hið sama barn, sem og saklaus börn, til að borga sekt fyrir slíkt athæfi í hvert sinn sem það kaupir sér geisladisk eða iPod?


mbl.is Styr um Torrent.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marklaus siðanefnd

Vísar nefndin til þess, að fréttastofa Sjónvarps teldi sig hafa traustar heimildir fyrir þeirri fullyrðingu, að sumir mótmælendur fengju greitt fyrir að vera handtekin af lögreglu. Siðanefnd hafi ekki forsendur til að meta trúverðugleika heimilda Ríkissjónvarpsins enda hafi ekki verið lögð fram frekari gögn um efnið. Þar standi orð gegn orði.

...

Þá segist siðanefnd telja mikilvægt, að talsmanni Saving Iceland hafi verið gefinn kostur á að greina frá sjónarmiðum sínum strax og fullyrðingin var sett fram og leiðrétta það sem hann taldi rangfærslur fréttatstofunnar [svo]. Sjónarmið samtakanna hafi verið ítrekuð með viðtali síðar sama kvöld. Þá hafi kröfu um leiðréttingu einnig verið komið á framfæri í fréttatíma tveimur dögum síðar. Að mati siðanefndar hafi sjónarmið samtakanna því komið nægilega vel fram í umfjöllun fréttastofunnar.

Hér er siðanefndin ekki sjálfri sér samkvæm, ef tekið er mið af nýlegum og alræmdum úrskurði hennar í kærumáli Jónínu Bjartmarz vegna umfjöllunar Kastljóss um ríkisborgararéttinn sem hugsanlega væntanlegri tengdadóttur hennar var veittur. Ég man nefnilega ekki betur en að Jónínu hafi þar verið gefinn góður kostur á að koma sínu sjónarhorni á framfæri. Allar rangfærslur (sem voru smávægilegar) voru síðan leiðréttar. Það eina sem gerði Jónínu sjálfa tortryggilega var þessi tenging hennar við stelpuna, sem var gegnumgangandi staðreynd. Þar þurfti enga fréttamenn til að túlka hlutina. Aðalbrotið, að mati siðanefndar, virtist hafa verið að Kastljós skuli hafa vogað sér að fjalla um málið yfir höfuð.

Í tilfelli Saving Iceland er hins vegar um að ræða fullyrðingar sem Saving Iceland segir vera uppspuna frá rótum, en siðanefnd telur það í góðu lagi, þar sem Sjónvarpið 'taldi sig hafa góðar heimildir'. Siðanefnd nennir hér ekki að meta trúverðugleika heimildanna sjálf (þó hún hafi augljóslega kafað ofan í kjölinn á umfjölluninni um Jónínu), og segir hér standa orð á móti orði. Það er nefnilega svo vönduð og siðleg fréttamennska; að henda fram fullyrðingum og leyfa síðan bara böstörðunum að afneita þeim ... ekki satt?

Já, ég get ekki annað en ályktað að það er augljóslega munur á Jónínu og séra Jónínu hér á skerinu.

VIÐBÓT:

Ég ákvað að finna fréttirnar sem vísað er til á vef RÚV. Þarna kemur klárlega fram að um ónafngreinda heimildarmenn var að ræða:

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item164804/

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item165060/ 

Eftir stendur sumsé að siðanefndin telur það í fínasta lagi að fréttastofa hendi fram meiðandi fullyrðingum sem fengnar eru frá ónafngreindum heimildarmönnum, svo lengi sem þeir sem fyrir ásökunum verða fái færi á því að afneita þeim, og svo lengi sem fréttastofan telji sig hafa góðar heimildir.

Ég spyr því í fullri alvöru: Af hverju var umfjöllunin um 'ríkisborgaramálið' þá svona ósiðleg? Í hverju liggur munurinn?


mbl.is Sjónvarpið braut ekki siðareglur í umfjöllun um mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrar lausnir

Jæja, ætli maður þurfi ekki að tjá sig aðeins um Vítisenglana? Ég hef verið að velta því svolítið fyrir mér hvaða skoðun ég á að hafa á þessu. Rétt í þessu flugu mér í huga tvö orð sem ég held að lýsi minni skoðun ágætlega, en þessi orð mynda titil...

Svart vatn

Á meðan utanríkisráðherrarnir takast í hendur fer fram rannsókn á ásökunum þess efnis að hið skinhelga fyrirtæki , Blackwater, hafi látið PKK vopn í hendur . Einnig hafa komið fram ásakanir þess efnis að bandaríska ríkisstjórnin hafi stutt PJAK , hina...

Tollar

Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér þessum blessuðu tollum sem lagðir eru á okkur Frónbúa. Þetta kviknaði allt saman þegar ég las einhvers staðar um það að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli tekur strangt á því þegar fólk fer með til dæmis fartölvur...

Ábyrgð

„En þetta er ekki það sem fólkið vill," sagði Kristinn bætti við, að stjórnvöld ættu að axla ábyrgð á að byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni en stuðla ekki að því að fólk flytji burtu. Nú spyr ég eins og fávís vitleysingur ... Er það alfarið á...

Óþarfa ótti

Mér þykja þessar áhyggjur af stöðu íslenskunnar, sem virðast spretta upp frekar reglulega, frekar spaugilegar. Núna eru það áhyggjur af því að ákveðnir bankar séu hættir að gefa út sínar ársskýrslur á íslensku. Þó það fylgi ekki þessari frétt, þá hefur...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband