Kemur ekki á óvart

Auðvitað segir það sig sjálft að þegar skattprósentan er lækkuð flatt, en persónuafslátturinn, barnabætur, og aðrar slíkar tekjujafnandi bætur dragast aftur úr launaþróuninni og verðbólgunni, þá græða hinir tekjumeiri meira en hinir tekjuminni. Er þetta ekki bara einföld stærðfræði?

Þrátt fyrir þessar einföldu staðreyndir hafa Sjálfstæðismenn löngum skellt skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum, og brugðist ókvæða við þegar þessi mál eru rædd á 'röngum' nótum. Hinar réttu 'nótur' eru nefnilega þær, að skattbyrðin á almenning hafi minnkað, og að skattastefnan undanfarin ár hafi nú bara hreint ekki leitt til aukins ójöfnuðar.

Eins og svo oft gerist í íslenskri stjórnmálaumræðu, þá taka andmælin sjaldnast á sig form málefnalegrar og rökrænnar umræðu, heldur mun frekar ógeðfellds persónulegs skítkasts og skætings. 

Hér er ágætt dæmi um hvernig Stefán Ólafsson hefur til dæmis verið rakkaður niður af varðhundum Sjálfstæðisflokksins og afgreiddur sem spilltur flokkspólitískur ómerkingur fyrir að vera ekki á hinni réttu línu.

Það er annars nokkuð 'skondið' að þessi rætni pistill var skrifaður þegar skipun Þorsteins Davíðssonar til embættis héraðsdómara bar sem hæst, en það fannst Gísla Frey að því er virtist í fínu lagi, og sá enga hugsanlega spillingu þar.

'Skondið' er þarna líka að sjá Gísla Frey nota skýrslu frá hinu 'hataða' Evrópusambandi til að reyna að gera Stefán tortryggilegan. Sjálfstæðismönnum sem eru almennt tortryggnir í garð Evrópusambandsins þykir augljóslega í góðu lagi að notast við álit Evrópusambandsapparatsins þegar slíkt hentar þeirra málstað - enda lyktar málflutningurinn almennt séð langar leiðir af því, að tilgangurinn helgi meðalið. Þær tölur sem Gísli Freyr nefnir eru líka málinu algjörlega óviðkomandi; þó svo að tekjuójöfnuður sé tiltölulega lítill samkvæmt Evrópumeðaltali, þá segir það ekkert um hvernig hann hefur breyst undanfarin ár, né heldur segir það nokkuð til eða frá um áhrif skattastefnunnar á slíka þróun. Vissulega eru það gífuryrði hjá Stefáni að líkja stjórnvöldum hérlendis að þessu leyti við stjórn Pinochets, en að stökkva á þau orð ber þess merki að sá sem það gerir er ekki fyrst og fremst að einbeita sér að málefnalegum rökum.

Fróðlegt væri að sjá hvaða álit Gísli Freyr og hans félagar hafa á þessari nýjustu skýrslu OECD. Eitthvað segir mér þó að nú verði þeim fátt um svör.

Sem betur fer er þetta allt saman þó líklega aukaatriði, þar nýverið hefur verið unnið að því að snúa þessari þróun við og endurskoða fyrri skattastefnu. Batnandi mönnum er best að lifa. 

Annars er þessi frétt mbl.is frekar rýr í roðinu, þannig að ég læt fljóta með hlekki á frekari umfjöllun fjölmiðla um skýrsluna (í hinni síðari frétt tjáir einmitt téður Stefán Ólafsson sig um skýrsluna):

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item196379/ 

http://visir.is/article/20080312/FRETTIR01/80312054 

Þar sem oftast er best að notast við frumheimildir er hér síðan samantekt OECD á skýrslunni.



mbl.is Áfellisdómur yfir skattastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Dómarinn er sama sinnis"

Ég hef undanfarið, í huganum, verið að velta mér upp úr ýmsum hliðum meiðyrðadóms sem féll nýverið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ég hef þó ekki fundið neinn áhugaverðan og frumlegan vinkil á hann sem réttlætir það að ég skrifi um hann - þar til núna.

Enn og aftur eru það orð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem eru mér tilefni til skrifa. Þarsíðastliðinn þriðjudag hafði hann þetta um dóminn að segja:

Í dag féll sögulegur dómur í héraðsdómi Reykjavíkur, þegar Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari dæmdi bloggara miskabætur vegna ummæla annars bloggara. Ég hef lengi talið, að höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar. Dómarinn er sama sinnis. Nú ætti einhver að láta reyna á ábyrgð þeirra, sem halda úti vefsíðum, þar sem nafnleysingjar vega að samborgurum sínum með dónaskap og óhróðri.

Ekki þarf að rýna mikið í þessi orð til að sjá það út að Björn er þarna að fagna því að dómarinn sé 'sama sinnis' og hann sjálfur - að túlkun dómarans sé Birni þóknanleg. Enda er það svo, að þessi dómur er eitt af fáum dæmum þess í íslenskri réttarsögu, að beitt er svokallaðri lögjöfnun. Hérna má finna skilgreiningu á því fyrirbæri:

Lögjöfnun (analogia) er fólgin í því að beita settri lagareglu með ákveðnum hætti. Lagareglu er þá beitt um ólögákveðið tilfelli sem samsvarar efnislega til þeirra sem rúmast innan lagareglunnar.

Með lögjöfnun er lagaregla í reynd látin ná yfir tilvik sem strangt til tekið á ekki undir hana.

Úr þessu má, enn og aftur, lesa það að Björn Bjarnason er ánægður með lagatúlkun dómarans í þessu máli - að hún er honum þóknanleg. Reyndar ætti orðalagið 'sama sinnis' eitt og sér að nægja til að sýna fram á að Björn er þarna að tala um persónulega túlkun dómarans, en ekki lagabókstafinn eingöngu.

Reyndar tók þessi lögjöfnun einungis til þess ákvæðis sem lýtur að því að Gauki var skylt að birta dómsniðurstöðuna á bloggi sínu, en rökin fyrir því voru engu að síður áhugaverð, og hljóta að varpa ákveðnu ljósi á afstöðu dómarans til netsins:

Eins og ákvæðið ber með sér tekur það til birtingar efnis í blöðum eða tímaritum en ekki til efnis sem birt er á vefsíðum. Ekki er til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum.  Með lögjöfnun frá 22. gr. laga nr. 57/1956 ber því að taka til greina þá kröfu stefnanda að stefnda verði gert skylt að birta forsendur dóms og dómsorð á vefsvæði sínu þegar dómur gengur.  

Það þykja mér undarleg rök að segja að af því að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum, þá sé blogg sambærilegt við dagblað. Finnst mér einnig líklegt að þetta viðhorf til netsins hljóti að hafa mótað dóminn í heild sinni að einhverju leyti.

Benda má að Björn Bjarnason sér ekki ástæðu til að ræða efnisatriði dómsins, til að mynda lögjöfnunina, þannig að ætla má að hann sé sammála honum að öllu eða flestu leyti. Hann mótmælir því í öllu falli ekki að dómarinn hafi þarna túlkað lög. Við lestur dómsins er einnig ljóst að hann reyndi á ýmis túlkunaratriði, eins og til dæmis hvort stefnandi teljist opinber persóna, sem og merkingu orða - jafnvel orða í lögunum sjálfum. Jafnframt var stefnda gert að fjarlægja viðkomandi ummæli af bloggsíðu sinni, þrátt fyrir að engin bein heimild sé til slíkra tilskipanna í lögum. Þetta er því ekki alveg klippt og skorið. Engu að síður telur Björn dóminn afdráttarlaust vera til marks um að 'höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar' - og þá hlýtur hann að telja dóminn og túlkanirnar réttar. Gildandi lög virðast nægja honum, jafnvel þó að þau taki ekki á netskrifum með beinum hætti ... svo lengi sem dómarar túlka lögin rétt, alla vega.

Svo komum við bara aftur að þessu orðalagi ... "Dómarinn er sama sinnis" ...

En bíðum nú við. Eins og ég hef áður fjallað um á þessum vettvangi, þá virðist svo vera að Björn hafi áður lýst því yfir að hann sé þeirrar skoðunar að dómarar eigi að dæma eftir lögunum eingöngu, og að lagatúlkanir séu eiginlega af hinu illa. Hér eru hans orð í þá veru: 

Sigurður Líndal er helsti talsmaður þess, sem nefnt hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um, hve langt dómstólar ganga inn á verksvið löggjafarvaldsins. Sigurður er einnig helsti talsmaður þess, að dómarar ákveði sjálfir, hverjir sitji í dómarasæti.

Almennt er litið á þetta sem andstæður – ef dómarar ætli að taka sér stjórnmálavald eigi að velja þá af kjörnum fulltrúum, það er stjórnmálamönnum. Dómstólar hafa gengið lengra hér á landi en til dæmis í Danmörku við það, sem nefnd er „framsækin lagatúlkun“, það er sókn inn á verksvið löggjafans. Ef dómari er ekki fylgjandi „framsækinni lagatúlkun“ skipta stjórnmálaskoðanir hans ekki máli, dómarinn dæmir aðeins samkvæmt lögunum. Hinn „framsækni“ fer hins vegar inn á hinn pólitíska vettvang. [Feitletranir mínar]

Ég get ekki skilið þessi orð öðruvísi en svo, að dómarar eigi ekkert með það að vera að túlka lögin; að með því séu þeir að seilast inn á verksvið löggjafans. Að það sé löggjafans að setja lögin niður á blað, og dómaranna að dæma eftir þeim nákvæmlega eins og þau hljóða.

Svo maður setji þetta síðan í samhengi, þá féllu þessi orð Björns vitanlega í tengslum við umræðu um dómaraskipanir. Einnig kom fram að hans lausn á þessum 'vanda' með 'framsæknu lagatúlkanirnar' virðist vera að gefa ráðherra óskorað vald til að skipa ráðherra sem dæma einungis eftir lögunum:

Tilraunir til að þrengja að veitingarvaldi ráðherra við skipan dómara eru alkunnar hér á landi hin síðari ár. Ég er ekki málsvari þess, að svigrúm dómsmálaráðherra sé þrengt í þessu efni eða hendur hans bundnar af álitsgjöfum, hverju nafni, sem þeir nefnast, umfram það, að velja úr hópi þeirra, sem taldir eru hæfir af þeim, sem til eru kallaðir í því skyni að leggja á það mat.

Hvaða skynsami maður sem er ætti alla vega að geta tengt þetta tvennt saman og fengið það út að tilgangurinn með því að gefa ráðherra óskorað vald væri þá að gefa honum svigrúm til að skipa dómara sem 'dæma aðeins samkvæmt lögunum' ... samanber það að hann segir að ef dómarar eigi að taka sér 'stjórnmálavald', þá eigi kjörnir fulltrúar að velja þá. Hann virðist þarna feta einhvers konar milliveg til að leysa þennan 'vanda' sem hann hefur búið til ('vanda' sem ég hef áður lýst sem aðför að þrískiptingu ríkisvaldsins); að kjörnir fulltrúar skipi dómara, en skipi þá dómara sem dæma aðeins samkvæmt lögunum.

Nú fagnar Björn því hins vegar allt í einu að dómari er sama sinnis og hann sjálfur, og túlki lögin á þann hátt, sem er honum að skapi.

Ljóslega gildir það þá ekki alveg í öllum tilfellum, í huga Björns, að dómarar eigi að dæma eftir lögunum eingöngu. Klárlega er þarna að hans mati eitthvað svigrúm til túlkunar. 

Enn og aftur vaknar því upp sú spurning, hvað Björn átti nákvæmlega við. Áður hefur vaknað hjá mér grunur þess efnis, að Björn hafi aðallega þarna verið að vísa í tilfelli þar sem dómstólar hafa dæmt ríkinu í óhag - að með því að dæma gegn ríkinu séu dómstólar að 'fara inn á hinn pólitíska vettvang', og að til þess eigi þeir engan rétt. Mér þykir afstaða Björns í þessu meiðyrðamáli benda til þess - að honum þyki lagatúlkanir einna helst slæmar, þegar þær eru ríkinu í óhag.

Nú er það stóra spurningin - í hverju felst munurinn? Af hverju er í góðu lagi að túlka lög almennum borgara í óhag, en vont mál að túlka þau ríkinu í óhag? Á ekki í öllum tilfellum, samkvæmt hugmyndafræði Björns, að halda sig við að dæma aðeins eftir lögum, svo ekki sé seilst inn á verksvið löggjafans?

Í þessu sambandi má benda á að það er ríkið sem setur lögin, en ekki hinn almenni borgari, þannig að maður hefði haldið að ríkið hefði meira að segja smá forskot - því varla fer ríkið að setja lög sem því eru í óhag. Eina leiðin til að dæma ríkinu í óhag væri þá, að öllu jöfnu, að túlka lögin, eða þá beita öðrum lögum en þeim sem ríkið setur sjálft (þá á ég við til að mynda stjórnarskrána, eða þá alþjóðalög, en það er nokkuð sem ég held að Birni sé líka lítt að skapi, og falli í hans huga undir 'framsækna lagatúlkun' ... í hið minnsta er ljóst að slíkt grefur undan valdi íslenska löggjafans). 

Er málinu kannski, hugsanlega, mögulega, og þrátt fyrir allar tilraunir Björns til að ræða málið eins og um hugmyndafræði væri að ræða, þannig háttað að hann vill einfaldlega hafa dómara í dómstólunum sem eru sammála honum, og sem fylgja hans hagsmunum, sem og hagsmunum ríkisvaldsins?

"Dómarinn er sama sinnis" ...


Lögbrot?

20. gr. Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.

Ég sé ekki betur en að þessi lög nái yfir þessa frétt ...

Ekki það að ég ætli mér að dæma um réttmæti laganna, en núorðið virðist vera töluvert í tísku að vera á þeirri línu að lög séu það sama og siðferði ...

Á það þá ekki að ná jafnt yfir alla - og gilda um öll lög? 


mbl.is Nýr bjór kemur á markað um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagabókstafurinn og túlkun hans

Ég fór mikinn í því að gagnrýna þennan dóm á sínum tíma, og þótti hann fráleitur. Gott að sjá að Hæstiréttur er þar mér sammála - það er vonandi að Héraðsdómur muni taka þetta til athugunar.

Það er víst algjör óþarfi að ég fari að endurtaka það sem ég sagði um dóminn á sínum tíma. Nóg ætti að vera að vísa bara í eldri pistla:

Gallaðar skilgreiningar

Verjandi á villigötum

Annars má bæta einu við - hér eru klárlega á ferðinni túlkanir á lagatextanum, og ágreiningur um þær; hversu þröngar þær eiga að vera. Hér virðist vera sem að Héraðsdómur hafi túlkað lagaákvæði þar sem er notast við hugtakið ofbeldi afskaplega þröngt, og nú hefur Hæstiréttur troðið því ofan í kokið á lægri réttinum. Túlkunin um að manninum hefði ekki endilega átt að vera það ljóst að kynmökin fóru fram í óþökk konunnar vegna þess að hann hafi 'ekki haft ástæðu til að halda að hún væri honum andhverf', sem einnig er hrakin ofan í Héraðsdóm, er síðan afskaplega áhugaverð, svo vægt sé til orða tekið.

Ég hef áður haldið því fram að vandinn stafi af ónákvæmum lagabókstaf - en núna er ég frekar farinn að hallast að því að rót vandans megi frekar rekja til lélegra túlkana. Kannski er þetta bland beggja.

Ástæðan fyrir því að ég er orðinn andhverfari trú minni á því að lögin þurfi að vera betur skilgreind er aðallega sú, að í seinni tíð hef ég séð glitta hjá ákveðnum ráðamönnum hérlendis í þá hugmyndafræði, að lögin eigi að vera allsráðandi, og að allt sem ekki sé beinlínis brot á lagabókstafnum, í hans þrengstu og tærustu mynd, sé hafið yfir gagnrýni. Þetta sannfærir mig um að svo lengi sem einhverjir sjá enga nauðsyn á því að túlka nokkurn tímann lögin, eða þá vilja túlka lögin eins þröng og hægt er, þá skiptir litlu máli hversu vel skilgreind lögin eru - það verður alltaf hægt að fara framhjá þeim og finna í þeim gloppur. Það er sérstaklega slæmt þegar valdamiklir menn eru haldnir slíkum viðhorfum, þar sem áhrif þeirra hljóta að leiða til þess að viðhorfin smita út frá sér. Því tel ég mikilvægara að berjast gegn þessu viðhorfi, en að beita sér fyrir breytingum á lögunum sjálfum.

Ég vísa í þennan pistil hér - þar sést nákvæmlega hvað ég á hér við. Já, og þennan hér líka. Reyndar er þessi líka ágætur.

Svo má líka vísa til þess sem fyrrverandi borgarstjórinn Vilhjálmur sagði nýlega, þess efnis, að venjulega segðu menn af sér ef þeir hefðu brotið lög eða reglur - en að hann hefði engin lög brotið. Það var sumsé hans helsta réttlæting fyrir því að segja ekki af sér.

Dómsmálaráðherrann virðist sumsé vilja hafa dómara í dómstólunum, sem dæma eingöngu eftir lagabókstafnum - þá er auðvitað alveg öruggt að enginn sem ekki brýtur lögin eins og þau eru nákvæmlega sett niður á blað verði nokkurn tímann dæmdur fyrir dómstólum. Engar hvimleiðar túlkanir leyfilegar.

Kannski er ómaklegt hjá mér að tengja þetta tvennt saman; hugmyndafræði dómsmálaráðherrans um túlkunarhefta dómara, og það viðhorf sumra ráðamanna að fátt sé ámælisvert, annað en brot á lögum - en það er vissulega mjög freistandi. Í báðum finnst mér alla vega felast tilraun til að afnema flest önnur mannleg viðmið en lagabókstafinn - og vitaskuld kemur það sér óneitanlega vel fyrir þá sem vilja ekki vera bundnir af öðru en lögum, ef dómararnir túlka lögin þröngt. Einnig er mjög hentugt að geta þá jafnframt sett lögin sjálfur.

Mér þætti fróðlegt að fá að sjá hjá dómsmálaráðherranum nánari útlistun á þessari hugmyndafræði hans. Hingað til hefur hann ekki útskýrt hana mjög ítarlega, né sett hana í samhengi við nein dæmi úr veruleikanum. Hann hefur heldur útskýrt hvað hann á nákvæmlega við með 'framsækinni lagatúlkun', eða þá hvað er svona slæmt við hana. Hann segir að dómarar seilist með þessu inn á svið löggjafans - en er þetta ekki nokkuð sem dómararar verða alltaf að gera? Að túlka lögin, og jafnvel notast stundum við önnur viðmið en lögin eingöngu?

Eins og ég lít á þetta, þá eru dómarar mannlegar verur, og lögin alltaf ófullkomin. Líkt og ég hef gagnrýnt áður, þá er síðan ekki einu sinni eins og íslensk lög séu ítarlega orðuð, né skilgreiningar þar settar kyrfilega niður. Ef dæma ætti í brotamálum samkvæmt lagabókstafnum eingöngu, þá væri það í raun oft á tíðum ómögulegt, því þar eru engar skilgreiningar að finna á því hvað hugtök á borð við líkamsárás og ofbeldi þýða.

Hversu langt nær þetta hjá Birni? Hvar finnst honum mörkin liggja? Hvenær ganga dómstólar of langt í að túlka lögin, og hvenær ekki? Er verið að 'seilast inn á verksvið löggjafans' þegar hugtök eru túlkuð? Ef ekki þá, hvað þarf þá til, svo segja megi að dómstólarnir séu farnir að ganga of langt?

Björn telur lausnina á vandanum vera þá, að skipa eingöngu þá sem aðhyllast ekki 'framsækna lagatúlkun' sem dómara - en hver er vandinn? Og er vandinn virkilega það mikill að það réttlæti að misvitur ráðherra ráði því sjálfur, hverja hann skipar til að dæma yfir okkur Íslendingum? Að hann þurfi ekki að taka tillit til neinna annarra í því sambandi, né réttlæta skipanirnar umfram það að segja, að hann ráði þessu bara lögum samkvæmt?

Væri ekki nær að skilgreina vandann betur áður en menn fara að rífast við prófessora um hann?

Þarna er kannski komin skýringin á því af hverju Birni virðist lífsins ómögulegt að ræða málin efnislega við Sigurð Líndal - hann veit kannski bara ekkert hvað hann er að fara sjálfur. Né þá hefur hann kannski gert sér fyllilega grein fyrir afleiðingum þess fyrir þjóðina, ef ríkisstjórnin ætlar sér að fara út í að skipa flokksgæðinga í dómarastöður, og ýta þar með hæfara (í öllum hlutlægum skilningi þess orðs - já, hæfni getur vel verið hlutlægt hugtak, sama hvað sumir röfla) fólki til hliðar.

Hvaða hagsmunir eru það nákvæmlega sem réttlæta það að pota á kostnað annarra flokksgæðingum inn í dómskerfið, Björn Bjarnason?

Stórt er spurt ... 

P.S. Biðst forláts á því hversu pólitísk þessi færsla varð. Ég hafði það ekki í huga þegar ég hóf að skrifa hana að tengja hana við pólitík, en svo virðist sem heilinn í mér sé stilltur sjálfkrafa inn á það að gera pólitík úr (flest)öllu.


mbl.is Ályktun héraðsdóms stenst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar

Ekki ætla ég nú að taka afgerandi afstöðu til þess hvort leggja beri Íbúðalánasjóð niður - þó ég hallist nú frekar að því að betra væri að halda honum ... en mig langar engu að síður til að afrita hingað athugasemd sem ég gerði við aðra færslu um þessa frétt, þar sem ég var að fjalla um þá algengu gagnrýni, að innkoma bankanna að húsnæðislánum á sínum tíma hafi verið einhvers konar 'innrás' eða 'aðför'. Hér er þetta:

Ég borga enn 4,15% vexti af því láni sem ég tók fyrir mínu húsnæði, og ekki stendur til að breyta því. Hver er 'sýndarmennskan' í því? Hinir auknu vextir eiga einungis við þau lán sem eru boðin núna, og þau kjör eru þeim sem fara út í kaup mjög svo ljós.

Ég gæti aldrei fengið 4,15% vexti hjá Íbúðalánasjóði í dag. Þar er boðið upp á 5,5% - reyndar hærra hjá bönkunum núna, en er þetta kannski ekki vísbending um að hinir lágu vextir sem bankarnir buðu upp á í fyrstu ganga ekki upp, fyrst að 5,5% er það besta sem meira að segja Íbúðalánasjóður virðist geta gert? Eða þá vísbending um að efnahagsástandið er slíkt að ekki er annað hægt en að hækka vextina (þar sem Íbúðalánasjóður hefur líka hækkað sína vexti undanfarin ár)?

Vissulega byrjuðu bankarnir með lága vexti og hækkuðu svo, en það hefur engin áhrif á þá sem nýttu tækifærið þá til að kaupa. 

Það er þensla í íslensku efnahagslífi - mikil þensla. Hún hverfur ekki fyrr en fólk hættir að eyða um efni fram og fer að spara. Eða ætlar einhver að neita því að of margir Íslendingar eyða meiru en þeir hafa efni á; taka lán fyrir öllu og trekkja upp verðlag með því að henda peningum inn í hagkerfið sem í raun og veru eru ekki til?

Ég tel til að mynda að hækkun íbúðaverðs megi rekja beint til þess að þegar fólki bauðst lægri vextir og hærra lánshlutfall, þá fór það jafnframt að borga aðeins meira fyrir íbúðirnar en það gerði áður; undirbauð minna en áður - og seljendur nýttu sér þetta auðvitað með því að hækka verðið, af því að þeir vissu að þeir gátu fengið meira, í gegnum aukið framboð á lánsfjármagni. Fasteignasalar tóku síðan auðvitað glaðir þátt, þar sem þeir fá jú hlutfallslega þóknun af því sem þeir selja. Hér er þó ekkert samsæri á ferðinni - bara einföld markaðslögmál og samverkandi þættir. Nú er farið að hægjast á, þar sem verðið er orðið gríðarhátt, og vextirnir hafa farið hækkandi. Aftur; markaðslögmál. Það besta sem fólk getur núna er að fresta því að kaupa, eða þá bara einfaldlega að bjóða lægra. Aðeins þannig næst verðið niður.

Ég er enginn frjálshyggjumaður, en ég hef engu að síður trú á markaðslögmálunum - og tel þau ekki flókin í sjálfu sér.


mbl.is Íbúðalánasjóður mein í íslensku hagkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af gefnu tilefni

Við þessa frétt hlaðast inn færslur þess efnis, að hér á Íslandi ríki nú ekki sama samkeppni. Í þessu sambandi er áhugavert að bera innlánsvexti hérlendis saman við þá innlánsvexti sem þarna eru gefið upp, að breskir bankaviðskiptavinum bjóðist. Fyrir þá...

Línan dregin í sandkassann

Nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins svo gott sem tekið af allan vafa um hvernig hugmyndafræði flokksins er háttað, þegar kemur að því að skipa dómara. Hann hefur því dregið lokalínuna í þann sandkassa, þar sem Sjálfstæðismenn hafa þyrlað upp...

Nonnimús og Síutollararnir

Anonymous er nú reyndar ekki heildstæður hópur, heldur lauslega skipulagður hópur fólks sem á uppruna sinn að rekja til síðunnar 4chan.org, sem er spjallborð þar sem allir eru nafnlausir. Í gegnum árin hefur þar þróast allsérstök menning og húmor. Oft á...

Hugmyndafræðin fullkomnuð

Ástandið er verra en ég hélt. Nú þegar hefur dómsmálaráðherrann okkar upplýst, að hans stefna er að afmá þrískiptingu ríkisvaldsins , með því að pota með valdi dómurum inn í dómskerfið, sem ekkert annað gera en að framfylgja hinum strengsta bókstaf...

Hugmyndafræðin loksins opinberuð

Stórfrétt - Björn Bjarnason opinberar hugmyndafræðina að baki því, að flokkshollum Sjálfstæðismönnum hefur verið potað inn í dómskerfið á bloggi sínu : Sigurður Líndal er helsti talsmaður þess, sem nefnt hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband