6.3.2007 | 12:57
Vangaveltur
Ingibjörg Sólrún virðist fæla konur frá þó hún sé kona. Vandi er að ráða fram úr því hvað veldur.
Má vera að þetta skýrist frekar af því hversu afgerandi afstöðu Vinstri Græn hafa tekið í kvenréttindamálum, og það er þá það sem laðar konur að þeim, frekar en að þær séu að hverfa markvisst frá Samfylkingunni.
Mér finnst þó sorglegt að vissu leyti að mjög skýrar línur virðast dragast í sandinn um þessar mundir. Karlar og konur hafa auðvitað alltaf almennt séð haft ólíkar skoðanir á hlutunum, en svo virðist sem hugmyndir VG um bann á klámi höfði að langmestu leyti til kvenna. Þetta útskýrist auðvitað af því að neytendur kláms eru að stærstum hluta karlkyns, en mér finnst það þó ótrúleg þröngsýni að vilja banna eitthvað bara vegna þess að það er manni sjálfum lítt þóknanlegt. Þetta er harðlínusjónarmið og forræðishyggja - það segi ég og skrifa.
Auðvitað er margt klám niðurlægjandi fyrir konur og opinberar ógeðfelld viðhorf. Auðvitað er margt af því er beinlínis mannskemmandi. Auðvitað er sumt af því framleitt með hjálp mansals. En að banna það? Það leysir nákvæmlega engan vanda. Það er eins og þeir sem styðji bann á klámi ímyndi sér að þar með muni viðhorf karlkynsins sjálfkrafa færast til betri vegar. Ég tel svo bara alls ekki vera. 'Klámvæðingin' svokallaða er ekki til komin vegna klámefnisins sjálfs. Hún er djúpstæðari en svo. Hún tengist viðhorfum sem eru til staðar í þjóðfélaginu, og þau viðhorf verða ekki eingöngu til með hjálp myndefnis og fjölmiðla. Við verðum bara að horfast í augu við það að til að mynda klámefni þar sem farið er illa með konur og þeim er sýnd vanvirðing er ekki eitthvað sem menn rekast bara á, neyta, og öðlast í kjölfarið þau viðhorf sem þar koma fram. Nei, viðhorfin koma fyrst, og neyslan mótast af þeim.
Mér þætti til að mynda mjög gaman að vita hvað fólk sem styður ritskoðun á klámi myndi segja við svokölluðu 'femdom' efni, þar sem konur niðurlægja karlmenn. Er það jafn slæmt? Skárra? Það er staðreynd að slíkt efni er til - klám nær yfir gríðarlega stóran skala þó að það efni sem niðurlægi konur sé kannski óþægilega algengt, og ákveðnir feministar einblíni hvað mest á það.
Það er einfeldningsleg og barnaleg lausn að grípa til banns gegn því sem er manni lítt þóknanlegt. Það sem þarf er umræða, sem er nokkuð sem mikið hefur verið um undanfarna daga, og er það vel. Umræða er það eina sem getur breytt viðhorfunum.
Konur í Samfylkingu og Framsókn á leið til vinstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir sem halda að allt klám sé niðurlægjandi fyrir konur hafa greinilega mjög takmarkaða reynslu af klámi. Svo ég æli úr mér latneskum frasa sem hefur verið að veltast um í hausnum á mér undanfarið: Abusus non tollit usum. Þó eitthvað sé misnotað er það ekki næg ástæða til að banna alla notkun þess. Þetta gildir jafnt um klám sem áfengi, eiturlyf, sykur og fitu, og raunar nánast allt annað.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.3.2007 kl. 19:43
Nákvæmlega. Frjálshyggjustuttbuxnadrengirnir hafa rétt fyrir sér að þessu leyti.
Þarfagreinir, 10.3.2007 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.