19.6.2007 | 15:56
Ja hérna
Má vera að ég sé eftirtektarlaus einfeldningur, en ég verð að segja að þessi niðurstaða kemur mér á óvart.
Ég man nefnilega alls ekki til þess að nokkurn tímann hafi verið farið með rangt mál í þessum fréttaflutningi, eins og fullyrt er í úrskurði siðanefndarinnar. Málið snerist einungis um það að hugsanlegri tilvonandi tengdardóttur Jónínu var veittur ríkisborgararéttur af Allsherjarnefnd með að því er virtist í besta falli undarlegum hætti. Þó svo að Kastljósið hafi auðvitað að hluta til beinst að Jónínu, þá minnist ég þess ekki að því hafi verið beinlínis haldið fram að hún hafi sjálf haft bein óeðlileg áhrif á gang mála. Hins vegar vöknuðu að sjálfsögðu grunsemdir um að svo væri, hjá mér og ýmsum fleirum. En er þá við fjölmiðlana að sakast? Mega þeir ekki fjalla um það þegar grunur vaknar um að óeðlilega hafi verið að málum staðið? Það er svo ekki eins og Jónína hafi ekki fengið tækifæri til að svara fyrir sig, né heldur meðlimir Allsherjarnefndar.
Ég minni á að ýmislegt var grafið upp eftir því sem á leið, og eftir stendur að mörgum spurningum er enn ósvarað, og Allsherjarnefnd er í mínum augum algjörlega rúin öllu trausti - ég get nefnilega ekki ályktað sem svo, út frá þeim gögnum og svörum sem fram hafa komið, að annað hvort hafi nefndin veitt þessari stelpu óeðlilegan forgang, eða þá vissu nefndarmenn ekki baun í bala hvern fjárann þau voru að gera. Já, þið hin 'vantrúuðu' getið röflað fram í rauðan dauðann um að það sé nákvæmlega ekkert óeðlilegt við að nefndarmeðlimir hafi hvorki tekið eftir því að stelpan var skráð á lögheimili Jónínu, né heldur því að móðir Jónínu var meðmælandi. Sjálfur get ég ekki litið á þetta öðruvísi en svo, að hafi nefndin ekki séð tengslin út frá þessum tveimur staðreyndum, þá var hún gjörsamlega vanhæf til að sinna sínu starfi.
Smá ráðgjöf til stjórnmálamanna sem vilja forðast 'ofsóknir' af því tagi sem 'aumingja' Jónína varð fyrir: Hafið kerfið þannig að það geti notið trausts almennings, en ekki þannig að það virðist vera byggt á geðþótta minnisleysingja eingöngu.
Trú mín á stjórnmálamönnum minnkaði allverulega í kjölfar þessa máls - það eru hreinar línur. Því miður.
Annars hef ég skrifað alveg feykinóg um þetta mál; hafið þið áhuga á að kynna ykkur mín sjónarhorn frekar ætla ég að láta mér nægja að vísa í eldri færslur. Þó verð ég jafnframt að skjóta því inn að ég lýsi yfir algjörri hneykslun minni yfir því að núverandi ríkisstjórn virðist algjörlega áhugalaus um að gera úrbætur á þessu undanþáguferli, sem er í mínum augum ekkert annað en handónýtt og illa skilgreint rusl sem er galopið fyrir misnotkun.
P.S. Jónína; af hverju í andskotanum varstu að veifa skjölum um mannréttindabrot í Guatemala, þegar þessi stelpa tilgreindi engar slíkar ástæður í umsókn sinni?
Siðareglur brotnar í umfjöllun um tengdadóttur Jónínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er grátbroslegt sniff sniff smæl
Hvaða fáránlegu siðareglur eru þetta.... ósiðareglur að mínu áliti; fréttamenn eru yfirhöfuð að taka allt of vægt á stjórnmálamönnum
DoctorE 19.6.2007 kl. 16:06
Þetta þýðir algjört vantraust á allt sem heitir rannsóknarblaðamennska ! það væri gaman að fá útlistað hvernig þetta reiknast sem brot, þ.e.a.s. samkvæmt hvaða lögum!
Ég held að formaðurblaðamanna félagsins sé punglaus gunga sem þorir ekki annað en að skammast sín fyrir að níðast á valdhöfum, hann kýs það frekar en sýna þann myndugleik að styðja við bakið á félagsmönnum sínum !!
Guðsteinn Haukur Barkarson, 19.6.2007 kl. 16:13
Jónína skaut sig algjörlega í fótinn með þessari kæru, man eftir því þegar hún "svaraði" Kastljósi í morgunblaðinu, stuttu eftir það kom vel skrifað mótsvar frá Kastljósi sem í raun hamraði niður hvern einasta punkt sem hún veifaði í fyrra svarinu, þá strax klukkustundum seinna kom kæran! Það sem Jónína hefði átt að gera, fyrst hún hélt því svo statt og stöðugt fram að hún væri blásaklaus öllum ásökunum, var að komast til botns í málinu! Rannsaka það hvort einhver "spilling" hafi átt sér stað, jafnvel af henni óafvitandi... en nei nei, hún bara skellir kæru í gegn, það er svo langt í frá að hún hafi "unnið" þetta mál, þetta er enn grunsamlegra núna en það var í byrjun.
Gunnsteinn Þórisson, 19.6.2007 kl. 16:15
Ég velti fyrir mér ienu, hefði þetta orðið niðurstaðan ef Helgi hefði frestað að fjalla um málið fram yfir kosningar og hefði þá Jónína brugðist eins við?
<>Furðuleg niðurstaða, sérstaklega miðað við það sem kom svo fram að það var margt athugavert við málið og svo kom í ljós í lokin þegar RÚV var hætt að fjalla um það(líklegast vegna þrýstings), að mamma Jónínu var meðmælandi og Bjarni Benedikstsson viðurkenndi að hann hefði ekki athugað eitt eða neitt með meðmælendur og e.t.v. önnur gögn málsins.AK-72, 19.6.2007 kl. 16:27
Hvenær fáum við að sjá siðanefnd stjórnmálamanna? Hvað myndi svoleiðis nefnd hafa að segja um málið?
Einar Jón, 19.6.2007 kl. 16:30
Ég man þegar ég heyrði viðtalið við stelpuna og komst að því að ástæða þess að hún sótti um flýtimeðferð var vegna þess að hún var að fara í nám til Bretlands og ef hún væri ríkisborgari þyrfti hún ekki að sækja um leyfi í hvert sinn sem hún kæmi til Íslands í heimsókn. Þessi flýtimeðferð var sem sagt veitt konu sem ætlaði ekki einu sinni að búa á landinu. Ég er alveg sammála þér, það var þarna greinilega maðkur í mysunni, fréttamenn sögðu frá því og lugu engu og nú þurfa þeir að borga fyrir en þeir sem sniðgengu lögin bera enga ábyrgð.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.6.2007 kl. 16:33
AK-72: Bjarni Benedikstsson kom í Kastljós og sagði að önnur gögn málsins (s.s. meðmæli), sem væru trúnaðarmál skiptu öllu í þessu tilviki, og ekki væri hægt að dæma þetta mál án þes að þekkja þau.
Sagði hann síðar að hann hefði ekki athugað eitt eða neitt með meðmælendur? Viðurkenndi hann semsagt að hafa ekki unnið vinnuna sína?
Kristín: Það kom líka margoft fram að stúlkan þarf ekki dvalarleyfi ef hún ætlar að dvelja skemur en 3 mánuði í einu á landinu (á hverju 6mán tímabili). Þessi ástæða er því í besta falli byggð á misskilningi, í versta falli tylliástæða til að falla undir "skert ferðarfrelsi", sem gildir oftast um vegabréfslausa og/eða flóttamenn.
Einar Jón, 19.6.2007 kl. 16:55
"Skert ferðafrelsi" er eitt af mörgum dæmum um það hvernig Bjarni Ben reyndi vísvitandi, að ég tel, að gera muninn milli umsækjanda sem minnstan. Skýrslunni sem hann mallaði taka margir sem heilögum sannleik, en það get ég ekki gert. Ættartengsl við Íslendinga eru t.d. annar þáttur sem Bjarni sleppti algjörlega.
Annars þá vil ég minna á að málið snýst ekki um lögbrot, enda held ég að lögum samkvæmt gæti þessi nefnd í raun gert hvern þann fjára sem hún vill. Þetta snýst um siðferði, vinnubrögð og vinnureglur. Allt þetta tel ég hafa verið í algjörum molum þarna.
Þarfagreinir, 19.6.2007 kl. 17:01
Jæja, þarna er úrskurðurinn:
http://www.press.is/nyr/efni.php?uid=2142&flokkur=%DArskur%F0ir&yflokkur=Si%F0anefnd
Þarna er sannarlega bent á rangfærslur og óvönduð vinnubrögð, en mér þykja þetta vera smáatriði. Alla vega breytir þetta engan veginn skoðun minni.
Þarfagreinir, 19.6.2007 kl. 17:26
Og svar Þórhalls Gunnarssonar:
http://www.visir.is/article/20070619/FRETTIR01/70619094
Ansi gott og áhugavert svar. Boltanum sparkað rækilega í átt að hinu markinu, finnst mér.
Þarfagreinir, 19.6.2007 kl. 17:57
Þarfagreinir:
Í frétt DV þriðjudaginn fyrir kosningar sem ég bloggaði um á sínum tíma þá kom það fram að mamma Jónínu hefði verið meðmælandi. Í fréttinni voru allir nefndarmenn spurðir út í þetta og viðurkenndi þá Bjarni ásamt hinum nefndarmönnum,að ekki hefði verið meðmælendurnir skoðaiðir.
Hérna er bloggið ef þú vílt kíkja á það, þú kommenteraðir allavega við það:)
http://ak72.blog.is/blog/ak72/entry/201790/AK-72, 19.6.2007 kl. 18:07
AK72: Áhugaverðar fréttir - ég missti greinilega af bæði DV og þínu bloggi þessa daga.
Mér finnst svolítið vanta follow-up spurningar við þetta, Byrgið, og allan skítinn sem hefur grasserað hjá stjórnmálamönnum síðustu árin. Nefndarformaðurinn Bjarni Ben sagði t.d. ýmislegt í Kastljósinu sem stenst ekki nánari skoðun og málaði sig eiginlega út í horn, en nú er öllum sama.
Einar Jón, 19.6.2007 kl. 19:18
Merkilegt.
"„Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu,“ segir siðanefndin, og kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að Ríkisútvarpið og Helgi Seljan hafi brotið 3. grein siðareglna og brotið sé alvarlegt. "
Þetta allt braut RUV/Kastljós með því að benda á slæleg vinnubrögð Allsherjarnefndar, en sömu siðanefnd finnst allt í lagi að krossfesta meinta glæpamenn og fjölskyldur þeirra með myndbirtingum og það löngu áður en víst er hvort málin eigi við rök að styðjast. Þá finnst þessari sömu siðanefnd að það sé skylda blaðamanna að koma upplýsingum á framfæri, þó svo að ekkert sé sannað og hinn meinti glæpamaður reynist bara hvergi hafa komið við sögu.
Já, eftir þetta undanþágumál er verulega grafið undan tiltrú manns á Allsherjarnefnd, en nú í hvert sinn sem þessi siðanefnd blaðamanna lætur eitthvað frá sér verð ég að segja að það verður æ þynnri pappír. Þolir greinilega illa skoðun.
krossgata, 20.6.2007 kl. 13:48
Alveg ótrúlegur úrskurður Blaðamannafélagsins. Þeir hafa reyndar verið svolítið skrítnir, úrskurðir siðanefndarinnar upp á síðkastið.
Og heldur betur skítalykt af þessu máli öllu saman, ekki öll kurl komin til grafar og allt það.
Hann ætlar að verða ansi lífseigur í íslenskum stjórnmálum, gamli góði fyrirgreiðslupúkinn.
Promotor Fidei, 20.6.2007 kl. 19:06
Já, þú ert eftirtektarlaus einfeldingur.
Sigurjón, 22.6.2007 kl. 20:41
Aumingja Jónína, fyrir klaufaskap og ómerkilega lygi var hún rúin trausti kjósenda og féll í kosningunum. Hún kunni einfaldlega ekki að biðjast afsökunar á því að kunna betur á kerfið en aðrir sem hefði trúlega bjargað einhverju fyrir hana.
Svona getur farið þegar lygavefurinn vindur sig upp í að verða að algjöru skrýmsli sem flestir hlægja bara að.
Haukur Nikulásson, 23.6.2007 kl. 09:49
ég er líka að kafna hér úr hneykslun
vér siðapostular þessa lands krefjumst þess að orðsbrotið "siða" verði tekið úr nafni þessarar blaðamannanefndar.
halkatla, 23.6.2007 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.