27.7.2007 | 11:39
Endalaust okur
Ég horfði á Ísland í dag í gær (já, ég veit að þetta er ruglingslegt; mig svimar sjálfum við að skrifa þetta). Þar var meðal annars fjallað um þá ömurlegu staðreynd að verðlag hefur ekkert lækkað hér á skerinu þrátt fyrir að krónan hafi styrkst verulega og aðrir gjaldmiðlar, aðallega dollarinn, hafi fallið.
Rætt var við Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakana, og fullyrti hann að rannsóknir hafi ítrekað bent til þeirrar tilhneigingar kaupmanna að hækka verðlag snarlega um leið og krónan veikist, en þráast síðan við að lækka þegar krónan styrkist. Þarna þarf í raun engra rannsókna við; þetta sér hver heilvita maður - en engu að síður er auðvitað gott að hafa rannsóknir þessu til staðfestingar.
Einnig var farið í bílaumboð nokkuð og rætt við mann þar (ég man hvorki nafn umboðsins né umrædds manns; en það er aukaatriði). Hann notaði þá gömlu og þreyttu rullu að bílarnir sem umboðið væru að selja núna hefðu verið keyptir fyrir það löngu síðan að gengið hafi verið hærra þá. Allir kaupmenn sem eru spurðir um ástæður þess að verðlag þeirra lækki ekki með styrktu gengi krónunnar nota þessi rök, og fá önnur.
Þá er mér spurn; hvað þá þegar það hendir að keypt er inn á einu gengi, og síðan styrkist krónan þannig að gengið hækkar? Er þá engin ástæða til þess að selja á lægra verði fyrst að keypt var inn á svo lágu gengi? Af hverju virkar þetta bara í aðra áttina?
Til að gera síðan endanlega út við þetta endalausa kjaftæði ætti síðan að nægja að horfa til verðsins á bíómiðanum. Það hefur hefur hækkað stöðugt, en aldrei lækkað. Auðvitað er einhver verðbólga, þannig að einhver þróun upp á við er eðlileg, en það hafa verið miklar sveiflur í gengi krónunnar undanfarin ár, og ekki síst dollarsins (sem maður hefði nú haldið að hefði mikil áhrif á innkaupskostnað bíóhúsanna). En nei, verðið fer bara upp á við. Aldrei niður um eina einustu krónu.
Það er fjárans skömm að því hvernig er farið með neytendur hér á Íslandi. Það versta er að maður hefur síðan aldrei neitt raunverulegt val, þar sem allir sem veita okkur vörur og þjónustu virðast stunda þessa móðgandi vitleysu.
Hvað er til ráða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.7.2007 kl. 12:24 | Facebook
Athugasemdir
Mér sýnist þessi neytendasamtök vera jafntannlaust ljón og neytendur sjálfir. Íslendingar eru jú þekktir fyrir að láta fáranlegustu hluti yfir sig ganga stundum. Þannig það er engann við neinn að sakast nema okkur sjálf sem neytendur, hver skilur svo sem ekki kaupmennina að vilja græða á rekstri sínum, það er í okkar hlutverki sem neytendur að halda þeim í skefjum, þar höfum við öll algjörlega brugðist.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 27.7.2007 kl. 13:16
neytendasamtökin eru tannlaus vegna þess að þjóð þessa lands eru leiðitamir sauðir... það er ekki við neytendasamtökin að sakast þótt verð lækki ekki heldur
sauðheimskur almúginn sem lætur þetta viðgangast möglunarlaust og gerir grín
af þeim sem mótmæla líkt og "saving iceland" hópnum.
Óskar Þorkelsson, 27.7.2007 kl. 19:52
Markaðurinn hér er svo lítill að samkeppni er að mjög skornum skammti. Mjög erfitt er fyrir okkur að sneyða hjá ákveðnu fyrirtæki eða tegund fyrirtækja. Einnig eru eigendur og stjórnendur í mjög nánu sambandi við stjórnmálamenn svo þeir þora lítið að gera. Eina vonin er að neytendasamtökin yrðu almennilegt þrýstiafl en til þess yrðu allir að borga í þau og engin tímir því. Hvað er til ráða...???
Halla Rut , 27.7.2007 kl. 20:18
Ég vil benda á hvað innkaupastjórar Olíufélaganna virðast hafa sérstaklega lélegt peningavit... Þeir virðast alltaf kaupa INN olíuna, þegar gengið er Hátt, en... eiga svo alltaf allt of miklar birgðir þegar gengið er hagstæðara....
(Í alvöru viðskiptum, hjá alvöru fyrirtækjum, væru svona.... snillingar látnir taka pokann sinn.)
Ah, já... ég gleymdi mér aðeins. Olíufélögin eru ekki að hugsa um neytendur, heldur sjálf sig. Ah, já. Auðvitað, hvernig læt ég.
Einar Indriðason, 27.7.2007 kl. 20:23
það sem er til ráða er að byrja að kaupa vörur á netinu af miklum krafti.. litla pakka of og mörgum sinnum frá útlöndum.. sökkva tollinum í vinnu og gefa bónus og krónunni ásamt öðrum fyrirtækjum forsmekk af því hvað frjáls markaður er í raun.
Óskar Þorkelsson, 27.7.2007 kl. 20:24
Í fyrsta lagi og það gerist ekkert fyrr en það verður lagað af stjórnvöldum þá er FÁKEPPNI á flest öllum mörkuðum hér á landi. Það eru 2 blokkir sem ráða matvörumarkaðinum, 2 sem ráða byggingaiðnaði, 3 tryggingafélög, 3 bankar, 3 olíufélög, bifreiðaumboðin á fárra höndum , skipa- og flugfélögin líka, fjölmiðlar samanþjappaðir í höndum þessara sömu aðila og passað að hafa verðið svona kurteisislega krónum minna eða meira eftir atvikum. Og málið er að þetta ERU ALLT SÖMU FÁU AÐILARNIR!
Í öðru lagi eru neytendasamtökin hér tannlaus kettlingur ekki ljón.
Jón Ásgeir, Björgúlfur og handfylli í viðbót gætu kollvarpað íslensku samfélagi með nokkrum ákvörðunum ef þeim sýndist sem svo. Gert íslensku krónuna að meiri skrípamynd en hún er nú þegar og stjórnvöld hafa engin ráð til að tryggja sjálfstæði krónunnar.
En það væri kannski góð hugmynd að halda úti heimasíðu sem sýnir verðið á alls konar vörum á Íslandi og nokkrum nágrannalöndum. Þá á matvöru, bílum, byggingarefni, bensíni, víni, tryggingum osvfrv. Það fengi kannski neytendur til að hugsa sig betur um. Og þó.
Ævar Rafn Kjartansson, 27.7.2007 kl. 21:04
Já og kettir borða ekki Wiskas nema þeir séu verulega svangir.......... Allavega ekki Skaði, Hjálmar og Ylur!
Ævar Rafn Kjartansson, 27.7.2007 kl. 21:08
Það er mikið til í því að íslenskir neytendur eru fjarskalélegir. Þeir eru svo ný-ríkir í hegðun, halda að það sé flott að sóa peningum, kunna ekki að leita að hagstæðum tilboðum og trúa því að sölumaðurinn sé vinur þeirra.
Einn útlendingurinn sem ég þekki kom auga á þessa sérkennilegu íslensku hegðun með peninga: ef íslendingur þarf að láta mála grindverk, sem tæki hann 2 tíma að gera, þá borgar hann frekar einhverjum öðrum fyrir verkið, þó íslendingurinn sé heilan dag að vinna fyrir reikningnum.
Það er ekki von á miklum breytingum á Íslandi fyrr en stór hluti neytenda lærir að elska peningana sína, og byrja að nenna að leita bestu viðskiptanna. Það má segja að það vanti smá Þjóðverja í okkur.
Það væri gaman að geta keypt meiri vöru erlendis frá, til að sýna smásölunum í tvo heimana. En því miður þá er í raun einokunarstaða á póstflutningum til íslands (nema á hraðsendingum), og þar að auki leggst á allverulegt "afgreiðslugjald" þegar vörur eru tollafgreiddar hjá einokunarfyrirtækinu Póstinum, og bætist þetta gjald við okurtollana og skattana sem greiða þarf af vörunni. Allt leggst þetta á eitt við að torvelda fólki að kaupa staka vöru erlendis frá.
Promotor Fidei, 28.7.2007 kl. 01:58
Einmitt Keli! Svo er Jóhannes Gunnarsson ekki riddari á hvítum hesti. Hann er bitlaust vopn í höndum viljalausra neytenda. Eða neitenda...
Sigurjón, 29.7.2007 kl. 02:27
Margar réttar og góðar ábendingar hér. Fákeppnin, lítill markaður, háir tollar á vörum ef fólk reynir að flytja þau inn sjálf, lélegt verðskyn og leti í neytendum ... allt eru þetta þættir í háu verðlagi.
Ísland er einangruð eyja, og þess vegna gilda sömu lögin og reglurnar alls staðar. Ef við tökum einfalt dæmi af áfengisverslun þjóða á meginlandi Evrópu, þá gildir þar ákveðið flæði suður á bóginn. Svíar fara til Danmerkur til að kaupa áfengi, Danir fara til Þýskalands, og Þjóðverjar fara til Póllands - og auðvitað gildir svipað um fleiri vörur líka. Samkeppnin kemur þannig líka frá nágrannalöndunum. Þess vegna er það svo mikil svívirða, sem Hnoðri bendir á, að hér séu svo háir tollar lagðir á það sem fólk reynir að flytja inn sjálft. Þannig er okkur refsað tvisvar fyrir að búa í einangruðu landi - einu sinni með hærri innflutningsgjöldum og aukinn kostnað við að flytja okkur sjálf til útlanda, og tvisvar með því að leggja á okkur tolla fyrir að dirfast að flytja inn vöru sjálft. Ef þessir bévuðu tollar væru lækkaðir, þá er ég viss um að minnkuð sala hjá íslenskum kaupmönnum myndi neyða þá til að lækka sitt verðlag. Maður getur alla vega alltaf látið sig dreyma ...
Og Ævar, ég kaupi líka aldrei Whiskas nema ég neyðist til þess. Þarna sést mín eigin leti sem neytandi; stundum gerist það að kattamaturinn er búinn, og ég hef verið það óhagsýnn, klukkan orðin það margt, að ég neyðist til að fara út í nálægt Nóatún til að bjarga því, en þar er eingöngu Whiskas á boðstólnum.
Þarfagreinir, 29.7.2007 kl. 16:53
Fyrst örstutt (og óþörf) leiðrétting: "mig svimar" ekki "mér svimar".
Annars heyrði ég gamlan "nýrússa"-djók um daginn, og finnst hann lýsa hinum dæmigerða úthverfaíslendingi nokkuð vel:
"Flott bindi, félagi! Hvar fékkstu það?"
"Í búðinni þarna, á 500 rúblur."
"Nú léstu svindla á þér, þú hefðir getað borgað helmingi meira fyrir það í næstu götu!"
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 30.7.2007 kl. 12:16
Urg, ljót villa þarna já. Ég skal laga. Fínn djókur annars.
Þarfagreinir, 30.7.2007 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.