Íran, múgæsing, og Sádi Arabía

Ég skrifaði í gær fréttabloggfærslu sem fékk misjafnar undirtektir, og hef síðan staðið í ströngu við að ræða um Íran og afstöðu Vesturveldanna til þess ríkis í athugasemdum við önnur Moggablogg.

Mér er þetta afskaplega hugleikið, og því ætla ég að skrifa pistil um hvernig það horfir allt saman fyrir mér.

Það sem mér sýnist vera að gerast núna er að Vesturveldin, með Bandaríkin í fararbroddi, eru að búa sig undir einhvers konar hernaðaraðgerðir gegn Íran. Það er nákvæmlega sama andrúmsloft núna og fyrir fjórum árum, þegar ráðist var á Írak, með þeim afleiðingum sem núna liggja ljósar fyrir. Ekki einu sinni hörðustu andstæðingar þeirrar innrásar gátu gert sér í hugarlund hversu illa hún hefur misheppnast. Hinir bjartsýnu (lesist: veruleikafirrtu) haukar í Washington sáu fyrir sér skjóta uppgjöf allra mótspyrnuafla í Írak, og að innrásarhernum yrði tekið opnum örmum sem frelsurum. Skaðinn yrði lítill, og uppbyggingin yrði skjót. Ekkert af þessu hefur beinlínis staðist.

Það hefur alltaf skelfilegar afleiðingar í för með sér að ráðast á land, hvort sem það er gert með því að varpa á það sprengjum, eða senda inn í það her. Skemmst er að minnast þess þegar bandarískur háskólakennari setti það fram í gríni að Bandaríkin ættu að ráðast á Ísland - þá risu Íslendingar upp og var alls ekki skemmt. 'Hvílík tilhugsun - að varpa sprengjum á litla Ísland! Hvað höfum við til þess unnið? Skilur þessi maður ekki að það er ekkert gamanmál að varpa sprengjum á saklaust fólk?'

Þrátt fyrir þetta virðist, allt frá því að hryðjuverkin alræmdu voru framin á bandarískri grundu þann 11. september 2001, sem að hernaðaraðgerðir séu eiginlega nánast gamanmál. Það virðist alla vega vera afskaplega auðvelt að sveigja almenningsálitið í átt að því að styðja þær, þó ekki sé nema tímabundið. Svo mörgum árum seinna vakna menn upp við vondan draum, viðurkenna að þetta hafi kannski ekki verið nógu sniðugt, en einblína engu að síður á næsta óvin. Þessi hlýtur að vera vondur í alvörunni! Hann á skilið sprengjur! Á meðan deyr saklaust fólk í hrönnum, byggingar eru jafnaðar við jörðu, og milljónir hrekjast frá heimilum sínum, örkumlast, eða búa við ömurlegar aðstæður í kjölfar hernaðaraðgerða erlends innrásarhers.

Hvernig myndi Íslendingum líða ef Bandaríkjamenn myndu í alvöru varpa sprengjum á okkar helstu borgir, og senda hermenn hingað sem gengju um götur með alvæpni? Myndu andstæðingar núverandi ríkisstjórnar kætast við það, ef slíkri aðferð væri beitt til að koma henni frá? Myndu þeir taka hermönnunum sem frelsurum? Myndu þeir eiga auðvelt með að laga sig að þessum aðstæðum? Auðvitað er ég ekki að bera saman Ísland og ríki þar sem alvöru kúgun ríkir, en er virkilega svona erfitt að skilja að þetta er kannski ekki endilega besta leiðin til að 'frelsa' fólk?

Í öllum löndum ríkja hefðir, og menningin mótast að miklu leyti til af fólkinu sjálfu. Stjórnarfarið getur aldrei haft úrslitaákvæði um það. Vissulega búa Íranir við Sharialög, lítil mannréttindi, og skort á lýðræði. En myndi meðalíraninn kætast við það ef erlendur her færi að bomba landið hans í nafni þess að 'frelsa' þyrfti íbúa þess, eða til að refsa ríkisstjórninni fyrir stefnu hennar? Yrði hann sáttur við að kannski missa húsið sitt eða ástvini vegna þess að einhver sprengjan rataði ekki á rétt skotmark? Hverjum myndi hann kenna um það? Stjórnvöldum?

Athyglisvert er að geta þess að meirihluti venjulegra íranskra borgara styður kjarnorkuáætlun írönsku ríkisstjórnarinnar. Einnig hafa Íranar boðist til að vera samvinnufúsir í að tryggja að ekki verði hægt að búa til kjarnorkuvopn úr því geislavirka efni sem þeir eru að vinna. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Það er afdráttarlaus skoðun bandarísku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins að Íranar eigi engan rétt á því að koma sér upp kjarnorku, punktur. Þetta telja þeir sig geta ákveðið, þrátt fyrir að notast að miklu leyti við kjarnorku sjálfir. Allt vegna þess að Íranar eru 'vondi kallinn'.

Er kannski hugsanlegt að hin almenni Írani líti á afstöðu Vesturveldanna sem kúgun og yfirgang? Hverja ætli hann styðji frekar; innlenda ráðamenn sem fylgja Islam og íranskri þjóðernishyggju, eða erlend kristin ríki sem hafa sýnt yfirgang og árásarhneigð gagnvart völdum múslimaríkjum undanfarið ... ríkjum sem styðja Ísraela, sem margir múslimar líta á sem kúgara sem tróðu sér inn í land sem þeir áttu ekki rétt á?

Í þessum linnulausa áróðri gegn Íran nægir síðan auðvitað ekki það eitt að þeir gætu hugsanlega verið að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Nei, það verður að gera stjórnvöldin þar að djöflinum sjálfum. Ekkert minna dugir til. Þess vegna berast núna sífellt fleiri og fleiri fréttir af því hversu ógeðfellt og afturhaldssamt viðhorf stjórnvaldanna þar er, og hversu bersýnilega augljóst er að þegnar Írans búa við kúgun, og að best væri að koma þessari djöflastjórn frá völdum.

Í þessu öllu saman felst svo gengdarlaus hræsni að mér liggur við uppsölu. Ef menn vilja mála Íransstjórn sem djöful verða þeir að útskýra af hverju þeir sjá nákvæmlega enga ástæðu til að setja út á til að mynda stjórnina í Sádi Arabíu. Munurinn á þessum tveimur ríkjum er í raun sáralítill.

Íranir búa við Sharialög, en það gera Sádar líka.

Í Íran er samkynhneigð ólögleg, en í Sádi Arabíu líka.

Í Íran hafa konur lítil réttindi, en ekki eru réttindi þeirra mikið meiri í Sádi Arabíu.

Í Íran eru menn ekki hrifnir af Ísrael, en það gildir líka í Sádi Arabíu.

Í Íran er ekkert lýðræði, en ekki heldur í Sádi Arabíu.

... og þannig mætti afar lengi telja. Mér þætti afskaplega vænt um að fá að heyra einhver vitræn rök fyrir því að Íransstjórn sé verri en Sádastjórn, og að hin fyrrnefnda verðskuldi frekar að vera gerð að djöfli en hin síðarnefnda.

Annað sem má nefna í sambandi við Sádi Arabíu er að landið er gríðarlega ríkt af olíuauði, sem er meðal annars notaður í þeim afskaplega vafasama tilgangi að breiða um allan heim hið öfgafulla og ógeðfellda form af Islam sem Sádar aðhyllast. Þetta nefnist Wahhabismi; ég mæli með að fólk kynni sér það fyrirbæri - hér er til að mynda ágætislesefni. Það er úr þessum farvegi sem hryðjuverk eru sprottin; það er úr þessum farvegi sem Bin Laden er sprottinn; það er úr þessum farvegi sem meirihluti þeirra sem frömdu hryðjuverkin 11. september voru sprottnir.

Samt er það Afganistan, svo Írak, og nú Íran sem eru djöflarnir.

Þetta er sorglegt. 

Er til of mikils ætlast að fólk læri af sögunni, svona einu sinni? Opnið augun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

glæsilegur pistill !  Sammála þér í einu og öllu í þessum pistli.

Óskar Þorkelsson, 25.9.2007 kl. 13:01

2 Smámynd: Daði Einarsson

Mjög góður pistill!

Vandamálið með Íran er kjarnorkuáætlun þeirra,  sem þeir sem að málinu koma - ekki bara vesturveldin - telja ógn við heimsfriðinn eða a.m.k. alvarlegt vandamál.

Ég tek heilshugar undir með þér að þegar kemur að stjórnarfari og kúgun á borgurum sínum í nafni trúar þá eru Sádar síst skárri en Íranar. Að vísu hefur mér í þeim málum - án þess að vita mikið um það - frekar virst Íranar frjálslyndari ef eitthvað er.

Ennfremur er rétt sem þú segir varðandi notkun á hernaði. Hernaðarlausnir eiga að vera lokaúrræði í leit að pólitískri lausn þ.e. hótunin ef samningaviðræður ganga ekki upp. Mörgum finnst því miður eins og hernaður sé léttvægt úrræði, svona eins og í tölvuleik.

Daði Einarsson, 25.9.2007 kl. 13:45

3 identicon

1) Íranar hafa hafnað tilboði Rússa um að sjá þeim fyrir tilbúnum léttvatns-kjarnakljúf til raforkuframleiðslu. Af einhverjum ástæðum telja þeir það mjög mikilvægt að smíða þetta sjálfir.

2) Þrátt fyrir það segjast þeir aðeins ætla að framleiða rafmagn til friðsamlegra nota og efnahagsuppbyggingar. Er það rökrétt að taka svona mikla áhættu á að verða fyrir sprengjuárásum ef takmarkið er efnahagsuppbygging?

3) Pakistan hefur þegar eignast sprengjuna. Ef Íran eignast hana þá munu Sádar og e.t.v Egyptar vilja hana líka (þessum löndum kemur ekki of vel saman). Er íslamskt kjarnmorkukapphlaup skemmtileg tilhugsun?

4) Íran er stórt og öflugt land. Þeir þurfa ekki að óttast innrás frá öðrum löndum en Bandaríkjunum og þetta kjarnorkustand er síst til þess fallið að draga úr líkunum á að Bandaríkjamenn grípi til vopna. Markmið þeirra er annað en að tryggja eigið öryggi.

Þess má geta að það hefur verið markmið Íranstjórnar frá byltingunni að verða stórveldi innan heimshlutans.

5) Það er ólíklegt að þeir myndu nokkurn tímann nota sprengjuna til þess að gera eitthvað sem myndi kalla á gjöreyðingarárás af hálfu Bandaríkjamanna. Hinsvegar má spyrja sig hvort að smærri kjarnavopnabúr, t.d vopnabúr Ísraels, Pakistans og væntanlegt vopnabúr Sáda, myndu hafa sama fælingargildi gagnvart Íransstjórn.

Miðað við það hversu auðveldlega öfgamenn gætu komist með fingurinn á takkann þarna þá myndi ég telja að líkurnar á takmörkuðu kjarnorkustríði í M-Austurlöndum myndu margfaldast við það að Íran eignaðist sprengju.

6) Bandaríkjamenn eru ekki á leiðinni að hernema Íran. Til þess hafa þeir enga burði. Það reynir á þolmörk bandaríska landhersins við að halda úti liði í Írak og Afganistan. Ef bandaríkjamenn gera árás þá verða það loftárásir og e.t.v takmarkaðar aðgerðir á landi. Þeir eru ekki á leiðinni inn til þess að "stela olíunni".

Hans Haraldsson 25.9.2007 kl. 14:18

4 Smámynd: Þarfagreinir

Hans, þú færir hér góð rök fyrir því að hugsanlegt sé að Íranar ætli að koma sér upp kjarnorkuvopnum, og að það sé hugsanlega hættulegt öryggi og jafnvægi svæðisins - og þá eru komin praktísk rök fyrir því að ráðast á Íran til að fyrirbyggja þetta ... en það sem vantar eru hugmyndafræðileg rök, og réttlæting fyrir því að gera þetta.

Eitt af því sem mér finnst áhyggjuefni í framferði bandarískra stjórnvalda er sú hugmyndafræði að hernaðaraðgerðir að fyrra bragði séu réttlætanlegar til að ná fram ákveðnum markmiðum. Tilgangurinn helgar sumsé meðalið. Mér þykir þetta vera til marks um hugmyndafræðilegt gjaldþrot; að stjórnin hafi svikið þá frelsis- og mannréttindahugsjón sem Bandaríkin voru grundvölluð á. Bandaríkin eru með þessu orðin lítið annað en stóri bróðirinn sem kúgar hina til hlýðni með ofbeldi, en ekki stóri bróðirinn sem aðrir líta upp til og virða vegna visku hans eða hugsjóna.

Heimurinn verður með þessu fyrst og fremst grundvallaður á ofbeldi, eða óttanum við ofbeldi.

Má vera að svona virki heimurinn bara, en mér finnst þetta engu að síður sorglegt. Einnig endurtek ég að mér blöskrar hræsnin í þessu. Ef óttinn við ójafnvægi á svæðinu er ástæða þess að Bandaríkjamenn íhuga hernaðaraðgerðir gegn Íran, þá eiga þeir að hafa manndóm í sér til að segja það, í stað þess að spinna sögur um hversu vond íransstjórn er, og horfa um leið framhjá samsvarandi kúgun hjá öðrum ríkjum sem eru Könunum vinveittari. Það finnst mér alla vega ... 

Þarfagreinir, 25.9.2007 kl. 14:38

5 identicon

Ég á erfitt með að sjá aðra hugsanlega skýringu á skilvindumálinu en þá að Íranar ætli að smíða sprengju, jafnvel þótt ég horfi framhjá öllu öðru en því sem kemur fram í yfirlýsingum Íransstjórnar sjálfrar.

Það er svo spurning hvort að það séu ekki nægileg hugmyndafræðileg rök að vilja koma í veg fyrir kjarnorkuvopnaeign Írana. Tilhugsunin um nokkur kjarnorkuveldi búin nokkrum tugum af hefðbundnum kjarnasprengjum (ekki vetnissprengjum) og fjandsamleg hvor öðru er óhugnanleg. Þarna yrði ekki um að ræða möguleikann á gangkvæmri gjöreyðingu (nema í tilviki Ísraels sem myndi eyðast í kjarnorkustyrjöld) og það eru ansi skrýtnir fuglar sem eiga greiða leið til valda í þessum löndum. Eru það ekki ágæt hugmyndafræðileg rök að vilja koma í veg fyrir þannig ástand?

Annars grunar mig að þú lesir of mikið í þetta fjölmiðlakastljós sem beinist að Íran. Það er frekar sagt frá aftökum í Bandaríkjunum heldur en í Kína. Það er ef því að vestrænir fjölmiðlar hafa meiri áhuga á Bandaríkjunum, ekki af því að þeir séu á særum einhvers sem hefur hug á að gera innrás í Bandaríkin. Frá því að það komst upp um tilvist skilvindana þá hefur fjölmiðlakastljósið frekar beinst að Íran, fólk hefur einfaldlega meiri áhuga á því landi nú en áður.

Auðvitað eru fjölmiðlar ekki hlutlausir, sumir eru líklegir til að styðja árás, aðrir yrðu andvígir og sumum alveg sama. Mér sýnist Íransumfjöllun af ýmsu tagi þó áberandi í öllum.

Mér sýnast það ekki vera í kortunum að mannréttindavinkillinn muni skipta mjög miklu í málflutningi Bandaríkjastjórnar ef ráðist verður áð Íran, enda er allsherjarinnrás og stjórnarskipti ekki möguleiki í stöðunni.

Hans Haraldsson 25.9.2007 kl. 16:13

6 Smámynd: krossgata

Mjög góður og athyglisverður pistill, takk. 

"Mér þætti afskaplega vænt um að fá að heyra einhver vitræn rök fyrir því að Íransstjórn sé verri en Sádastjórn, og að hin fyrrnefnda verðskuldi frekar að vera gerð að djöfli en hin síðarnefnda."

Ég hef hvergi séð þau rök sem auglýst er eftir.  Sjálf sé ég ekki mun á mjöll og snjó.

krossgata, 25.9.2007 kl. 17:04

7 Smámynd: Swami Karunananda

Það er hrein unun að lesa skrif þín, bróðir sæll - rökföst, hnitmiðuð, kjarnyrt og afar lipurlega orðuð. Og auðvitað er þetta alltsaman satt sem þú segir í pistlinum. Hentistefna og hræsni hafa alltaf verið meginburðarásar utanríkisstefnu Bandaríkjanna; eitt dæmi af fjölmörgum, auk þeirra sem þú imprar á í pistlinum, er afstaðan til Saddams Husseins, sem Amríkanarnir dældu í vopnum og herþekkingu meðan hann stóð í stríðinu við déskotana í Íran, en sneru svo algerlega við blaðinu þegar karl ógnaði olíuhagsmunum BNA með innrásinni í Kúvæt og bombuðu Írak aftur til steinaldar til að koma þessum viðurstyggilega harðstjóra frá völdum (sem þó tókst einhverra hluta vegna ekki í fyrstu tilraun, þótt það hefði virst vera Kananum í lófa lagið - er ástæðan máski sú að það hentaði Könunum bara ágætlega eftir allt að hafa Saddam við völd, sem áframhaldandi mótvægi við djöflaveldið í Íran, svo fremi að hann gerði ekkert ósniðugt sem tefldi í tvísýnu olíuhagsmunum Kanans?)

Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að Saddam Hussein hafi verið dýrlingur eða salt jarðar. En það er ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um hugmyndafræði Bandaríkjanna sem gengur, þegar öllum fagurgala um lýðræði og mannréttindi sleppir, út á nákvæmlega ekkert annað en hernaðarlega og efnahagslega hagsmuni BNA. Og dæmið sem þú nefnir, bróðir, um hina tvífeldningslegu afstöðu Kanans til Írans annars vegar og Sádi Arabíu hins vegar er sígilt dæmi um þann siðferðilega aumingjaskap og lágkúru sem utanríkisstefna Kanans er og hefur alltaf verið.

Swami Karunananda, 25.9.2007 kl. 18:16

8 Smámynd: Sigurjón

Mér sýnist nú Hans, að í Bandaríkjunum eigi ekkert síður skrýtnir fuglar greiða leið að forsetaembættinu.  Ahmadinejad er verkfræðingur að mennt og er prýðilega máli farinn, þó skoðanir hans þyki róttækar (og jafnvel lausar við vit).  Bush er víðfrægur fyrir að vera málhaltur minnimáttarmaður og er ekki síður með skoðanir sem þykja róttækar og oft á tíðum lausar við vit.

Sigurjón, 28.9.2007 kl. 18:21

9 Smámynd: Sigurjón

Nánar tiltekið, er Ahmadinejad doktor í umferðar- og skipulaxverkfræði, meðan Bush er B.A. í sagnfræði (og að eigin sögn ,,meðalnámsmaður").

Sigurjón, 28.9.2007 kl. 18:54

10 Smámynd: Þarfagreinir

Já, en Bush er góður, og Ahmadinejad er vondur. Er það ekki það eina sem skiptir máli?

Þarfagreinir, 30.9.2007 kl. 17:43

11 Smámynd: halkatla

geggjuð grein, það er nákvæmlega sama andrúmsloft núna og fyrir Íraksinnrásina það er alveg rétt, en samt eru aðstæðurnar allt aðrar. Sama hvað mannréttindaástandið í Íran er slæmt þá skiptir það engu, það er ekki einsog það standi til að bjarga fólkinu þar frá kúgun þetta snýst enn og aftur um vopn, sömu afsakanir og sömu orð nánast og voru fyrir 4 árum.... mjög asnalegt. Ég beið eftir afskiptum Vesturlanda af talíbönum í Afghanistan frá 1996 en það var ekki fyrren eftir 9-11 sem ákveðið var að ráðast þar inn, það var semsé ekkert á dagskrá að gera neitt fyrir fólkið þar fyrren einhverjir aðrir hagsmunir komu inní. Sama má segja um Burma núna, enginn gerir neitt því það er nú bara fólk sem er í vanda þar, einsog í Afghanistan forðum.

Nú er eitthvað í uppsiglingu aftur og ég held persónulega að ekkert okkar viti í raun hvað býr að baki. Þetta snýst ekki um "frelsi" "olíu" né neitt sem okkur gæti dottið í hug, heldur eitthvað annað. Ahmadinejad er ekki góður maður og gengur reyndar erinda alveg fársjúkra klerka en það sama má segja um Bush, nema á bakvið hann eru ekki klerkar heldur "neocons" eða eitthvað álíka. Takk fyrir góðan pistil!

halkatla, 30.9.2007 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband