Af gefnu tilefni

Við þessa frétt hlaðast inn færslur þess efnis, að hér á Íslandi ríki nú ekki sama samkeppni.

Í þessu sambandi er áhugavert að bera innlánsvexti hérlendis saman við þá innlánsvexti sem þarna eru gefið upp, að breskir bankaviðskiptavinum bjóðist.

Fyrir þá sem ekki vita, þá eru innlánsvextir vextir af þeim peningum sem viðskiptavinurinn á. Sumsé, þeir vextir sem hann fær þegar hann sparar. Ég tek þetta fram til öryggis, þar sem svo virðist vera að margir Íslendingar vita varla hvað þetta orðið spara þýðir, hvað þá meira.

Samkvæmt þessari frétt eru hæstu mögulegu innlánsvextir í Bretlandi 8%.

Skoðum nú vaxtatöflur stærstu íslensku bankanna:

Vaxtatafla Kaupþings

Vaxtatafla Landsbankans

Vaxtatafla Glitnis 

Af þessu má glögglega sjá að með því að sætta sig við ákveðinn binditíma er leikur einn fyrir meðaljóninn á Íslandi að fá vel yfir 10% vexti af sínum innlánum. Að vísu er um 4% hærri verðbólga hér en í Bretlandi, en í vaxtatöflunum má einnig sjá að hægt er að fara í yfir 7% vexti á verðtryggðum reikningum hérlendis, sætti fólk sig við nokkurra ára binditíma. Ekki einungis eru það betri verðtryggðir vextir en gefast í Bretlandi, heldur verndar þetta gegn allri aukningu á verðbólgu, svo lengi sem innistæðan helst á verðtryggðum reikningi.

Það sem er hins vegar staðreynd er að útlánsvextir hér á Íslandi eru í hærra lagi - en það eru einu vextirnir sem fólk virðist vilja bera saman við erlenda vexti. Þar eru oftast yfirdráttarvextirnir nefndir, en hér á Íslandi hafa yfirdráttarlán þau sérstöðu, að þau eru notuð af almenningi til langtímafjármögnunar. Að hafa lán sem er með um 25% vexti áhvílandi í lengri tíma er auðvitað ekkert sérstaklega gáfulegt, svo vægt sé til orða tekið. Má vera að sumir neyðist bókstaflega til að taka yfirdráttarlán, en ég held nú að meirihluti fólks sé ekki í þeim hópi - grunar að oftar sé fólk þá frekar að fjármagna umframneyslu.

Varðandi húsnæðislánin, þá var ég svo heppinn að kaupa þegar vextir af þeim voru 4,15%, og ég er sæmilega sáttur við greiðslubyrðina af mínu húsnæðisláni. Ég er þó uggandi yfir hækkunni á húsnæðislánum undanfarið, og vona að frekari hækkana sé ekki að vænta. Annars má líka nefna að íslensku bankarnir eru farnir að bjóða húsnæðislán í erlendri mynt, sem mér sýnist vera ágætis valkostur fyrir þá sem geta mætt gengissveiflum (sumsé, hafa sett aura aukalega til hliðar).

Hitt er hins vegar annað mál, að húsnæðisverðið hér er fáránlega hátt, og fer ekki lækkandi. Það tel ég vera aðalvandann í því samhengi - ekki vextina af húsnæðislánunum, þó þeir bæti auðvitað ekki úr skák. Þessi hækkun á húsnæðisverði á sér vafalítið margar orsakir, en offramboð á lánafjármagni held ég að hljóti að vera einhver hluti útskýringarinnar. Er þar við bankana að sakast? Hugsanlega að einhverju leyti, en það breytir því ekki að það eina sem þeir hafa gert er að uppfylla ákveðna eftirspurn. Vel má vera að margir Íslendingar hafi svipað viðhorf til húsnæðis og annars þess sem þeir kaupa - að svo lengi sem þeir geti fengið lán fyrir því, þá skipti verðið ekki máli, og því gera þeir lítið í því að reyna að prútta verðið niður.  

Bílalán er ég síðan með, á hóflegum vöxtum. Bíllinn sem ég á er gamall og ljótur, en dugar til að komast á milli staða, og þarfnast ekki mikils viðhalds. Meiri kröfur geri ég ekki til bíla. Má vera að það sé mikil nægjusemi hjá mér, en hún veldur því alla vega að ég er ekki að sligast undir afborgunum af margmilljóna króna bíl, sem stórrýrnar í verði með hverjum einasta degi sem líður.

Önnur lán hef ég ekki, og dettur ekki í hug að taka þau. Alla vega alls ekki á 20%+ vöxtum.

Má vera að ég væri verr settur ef ég væri ekki barnlaus, en ég er þó að spara upp á framtíðina að gera, núna þegar ég get það. Þar nýt ég hárra vaxta, og dettur ekki í hug að kvarta yfir þeim. Það er víst það sem ég er aðallega að árétta í þessari færslu - það vekur mikla furðu mína að undarlega margir Íslendingar virðast ekki gera sér grein fyrir því að við búum hér við einna hæstu innlánsvexti sem völ er á. Hvað annað sem má segja um íslensku bankana, þá eru lágir innlánsvextir ekki nokkuð sem hægt er að úthúða þeim fyrir.


mbl.is Kaupþing í vaxtastríði í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svolítið mikið af of stórum orðum fyrir blöpulinn sem fjölmennir hérna.

Borgari 4.2.2008 kl. 17:10

2 Smámynd: Bobotov

Að bera saman vexti á íslenskum krónum og bresku pundi er eins að bera saman skröltorm og bómul.

Bobotov , 4.2.2008 kl. 21:45

3 Smámynd: Maelstrom

Í þessari grein sem vitnað var í var reyndar verið að bera saman pund vs pund.

 Það gleður mig mikið að heyra að til séu Íslendingar sem þekkja hugtakið að 'spara'. 

Maelstrom, 5.2.2008 kl. 11:07

4 Smámynd: Swami Karunananda

Allt tal um efnahagsmál er iðulega kínverska í mínum eyrum - en þér tekst samt að gera hugleiðingar þínar um þessi mál nokkurn veginn skiljanlegar. Vel af sér vikið!

Swami Karunananda, 5.2.2008 kl. 17:22

5 Smámynd: Einar Jón

Eru háir innlánsvextir ekki bein afleiðing af háum stýrivöxtum Seðlabankans?

Er vaxtamunurinn (útlánsvextir-innlánsvextir), og þjónustugjöldin (t.d. FIT) ekki það sem máli skiptir?

Einar Jón, 6.2.2008 kl. 23:32

6 Smámynd: Þarfagreinir

Hvernig hafa stýrivextir áhrif á innlánsvextina? Nú spyr ég í fáfræði ...

Vaxtamunurinn er ekki hár hér - útlánsvextirnir eru bara ekki nógu háir til þess. Sum þjónustugjöld eru síðan óhóflega há, en FIT er  t.d. nokkuð sem á að vera hægt að forðast, með því að fara aldrei yfir á reikningnum.

Kannski er ég að hugsa þetta dálítið úr frá sjálfum mér ... það má vel vera ... en ég hef alla vega litla ástæðu til að kvarta yfir mínum samskiptum við bankakerfið. 

Þarfagreinir, 8.2.2008 kl. 14:04

7 Smámynd: Einar Jón

Nú svara ég í fáfræði: Smá gúgl bendir á wikipedia og kaflana Lán gegn veði og stýrivextir hjá seðlabankanum, sem segja að þetta séu þeir vextir sem yfirvöld nota til að reyna að hafa áhrif á markaðsvexti.

Lönd með háa stýrivexti eru því líkleg til að hafa háa innláns- OG útlánsvexti. T.d.  er Japan með ~0.5% stýrivexti og vextir á yenareikningum og japönskum lánum eru eftir því.

En ég hef svo sem ekki yfir miklu að kvarta, enda húsnæðislaus og því skuldlaus, og hef ekki fengið FIT-rukkun síðan í menntaskóla því ég nota debetkortin nær eingöngu sem hraðbankakort.

Einar Jón, 8.2.2008 kl. 17:07

8 Smámynd: Þarfagreinir

Þetta er áhugavert Einar ... en er vaxtamunurinn ekki engu að síður frekar hár hér? Vextir á íbúðahúsnæði eru enn ekki svo gríðarháir, miðað við innlánsvextina, þó vextir á öðrum lánum séu kannski verri.

En hvað segirðu Laissez-Faire - er krónan að hrynja? Ljótt ef satt er. Kannski maður ætti að stofna gjaldeyrisreikning og dæla aurum inn á hann ... verst að gott hefði verið að kaupa evrur t.d. um mitt síðasta ár; evran er hærri en hún hefur nokkurn tímann verið, og það er ekki bara út af lækkun krónunnar.

Þarfagreinir, 13.2.2008 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband