13.2.2008 | 15:57
Hugleiðingar
Ekki ætla ég nú að taka afgerandi afstöðu til þess hvort leggja beri Íbúðalánasjóð niður - þó ég hallist nú frekar að því að betra væri að halda honum ... en mig langar engu að síður til að afrita hingað athugasemd sem ég gerði við aðra færslu um þessa frétt, þar sem ég var að fjalla um þá algengu gagnrýni, að innkoma bankanna að húsnæðislánum á sínum tíma hafi verið einhvers konar 'innrás' eða 'aðför'. Hér er þetta:
Ég borga enn 4,15% vexti af því láni sem ég tók fyrir mínu húsnæði, og ekki stendur til að breyta því. Hver er 'sýndarmennskan' í því? Hinir auknu vextir eiga einungis við þau lán sem eru boðin núna, og þau kjör eru þeim sem fara út í kaup mjög svo ljós.
Ég gæti aldrei fengið 4,15% vexti hjá Íbúðalánasjóði í dag. Þar er boðið upp á 5,5% - reyndar hærra hjá bönkunum núna, en er þetta kannski ekki vísbending um að hinir lágu vextir sem bankarnir buðu upp á í fyrstu ganga ekki upp, fyrst að 5,5% er það besta sem meira að segja Íbúðalánasjóður virðist geta gert? Eða þá vísbending um að efnahagsástandið er slíkt að ekki er annað hægt en að hækka vextina (þar sem Íbúðalánasjóður hefur líka hækkað sína vexti undanfarin ár)?
Vissulega byrjuðu bankarnir með lága vexti og hækkuðu svo, en það hefur engin áhrif á þá sem nýttu tækifærið þá til að kaupa.
Það er þensla í íslensku efnahagslífi - mikil þensla. Hún hverfur ekki fyrr en fólk hættir að eyða um efni fram og fer að spara. Eða ætlar einhver að neita því að of margir Íslendingar eyða meiru en þeir hafa efni á; taka lán fyrir öllu og trekkja upp verðlag með því að henda peningum inn í hagkerfið sem í raun og veru eru ekki til?
Ég tel til að mynda að hækkun íbúðaverðs megi rekja beint til þess að þegar fólki bauðst lægri vextir og hærra lánshlutfall, þá fór það jafnframt að borga aðeins meira fyrir íbúðirnar en það gerði áður; undirbauð minna en áður - og seljendur nýttu sér þetta auðvitað með því að hækka verðið, af því að þeir vissu að þeir gátu fengið meira, í gegnum aukið framboð á lánsfjármagni. Fasteignasalar tóku síðan auðvitað glaðir þátt, þar sem þeir fá jú hlutfallslega þóknun af því sem þeir selja. Hér er þó ekkert samsæri á ferðinni - bara einföld markaðslögmál og samverkandi þættir. Nú er farið að hægjast á, þar sem verðið er orðið gríðarhátt, og vextirnir hafa farið hækkandi. Aftur; markaðslögmál. Það besta sem fólk getur núna er að fresta því að kaupa, eða þá bara einfaldlega að bjóða lægra. Aðeins þannig næst verðið niður.
Ég er enginn frjálshyggjumaður, en ég hef engu að síður trú á markaðslögmálunum - og tel þau ekki flókin í sjálfu sér.
Íbúðalánasjóður mein í íslensku hagkerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta kvak um íbúðarlánasjóð og samkeppni hans við bankana er í versta falli kjánalegt. Íbúðalánasjóður lánar í dag hámark 18 millur sem er með því að kaupandi eigi einhverjar millur rétt nóg fyrir 3 herb. íbúð. Annars tveggja. Fasteignasalar græddu og bankarnir fitnuðu en nú þegar fólk með 650 þús. útborguð á mánuði og fasteignaverð langt umfram byggingarkostnað hefur ekki efni á stúdíóíbúð er ljóst að það gerist eitthvað. Hvort það verði útsala bankanna á íbúðum sem þeir leystu til sín á nauðungarsölum, barátta fasteignasala fyrir tilveru sinni eða áframhaldandi vaxtastefna seðlabankans. Málið er að það fóru allir Íslendingar á yfirdráttarfyllerí þegar bankarnir komu inn á lánamarkaðinn og þetta eru bara eðlilegir timburmenn. Ég er sjálfur illa haldinn af þeim.
Ævar Rafn Kjartansson, 13.2.2008 kl. 23:30
18 millur? Já, það er nákvæmlega ekki neitt, miðað við verðlagið í dag. Eins og ég segi þarf fyrst og fremst að vinna í að ná því niður, með einum eða öðrum hætti. Samhryggist með timburmennina, Ævar. Drekktu bara nóg af vatni.
Þarfagreinir, 14.2.2008 kl. 21:47
Ég vil ekki kenna Íbúðalánasjóði um hækkun á húsnæðisverði heldur bönkunum. Íbúðalánasjóður hefur nefnilega aldrei lánað fyrir kaupverði íbúða/húsa heldur einungis fyrir brunabótamati og nú brunabótamati+lóðamati. Sem er auðvitað lág upphæð þar sem brunabótamat af 2-3 herbergja íbúð er kannski 8 milljónir. Svo lánar Íbúðalánasjóður aldrei meira en 18 milljónir.
Þessar reglur Íbúðalánasjóðs héldu íbúðaverði auðvitað niðri þar sem fólk fékk svo litla upphæð frá sjóðnum að það gat ekki boðið hátt í íbúðir/hús. Bankarnir komu svo inn á markaðinn með sömu lágu vextina og sjóðurinn er þeir höfðu þá reglu að upphæð lánsins fór eftir kaupverðinu. Fólk fékk því allt í einu frítt spil. Lágir vextir og há lán. Fólk gat boðið hærra í íbúðir og íbúðaverð rauk upp.
Það eru því bankarnir sem ollu því að íbúðaverð rauk upp og mér finnst sorglegt að þeir skuli ekki kunna að skammast sín. Þeir verða til þess að verð hækkar og hlaupa svo í burtu þegar illa árar. Samt halda þeir áfram að reyna að losna við Íbúðalánasjóð. Hvar væru íbúðakaupendur ef þeir hefðu ekki Íbúðalánasjóð eftir að bankarnir létu sig hverfa?
Guðrún 15.2.2008 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.