20.8.2008 | 12:53
Eðli lýðræðisins
Nú tel ég hreint ekki úr vegi að rifja upp mótmælin í Ráðhúsinu fyrr á árinu, þegar hinn skammlífi og að mínu mati fyrirfram feigi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. var myndaður.
Flestum ætti að vera í fersku minni að við þeim mótmælum brugðust ýmsir sjálfskipaðir varðhundar lýðræðisins hinir verstu við; kölluðu þetta 'skrílslæti' sem ekkert erindi ættu í lýðræðissamfélagi - að lýðræðið snerist um að fólkið kysi sér fulltrúa, og að þeir fulltrúar hefðu óskoraða heimild til að mynda hvaða meirihluta sem þeim sýndist. Reyndar voru sumir sem mislíkaði aðallega aðferðin sem notuð var til að mótmæla, en undiraldan var alla vega sú að meirihluti væri meirihluti, hvað sem tautaði og raulaði.
Skoðanakannanir sem sýndu trekk í trekk að mikill meirihluti kjósenda í Reykjavík studdi ekki þennan 'meirihluta' voru síðan hundsaðar og afgreiddar sem marklausar. Sagt (svo gott sem) að þetta hlyti nú að vera að koma allt saman. Áfram skyldi haldið, hvað sem tautaði og raulaði. Öll varnaðarorð látin sem vindur um eyru þjóta. Fráfarandi meirihluti, sem hafði góðan meirihlutastuðning meðal kjósenda, var afgreiddur sem veikur og nánast marklaus, af því hann hafði ekki komið sér saman um málefnasamning. Þessi nýi meirihluti hafði skrifað málefnasamning, og þá var hann mun starfhæfari og betri í alla staði. Meirihlutinn var æðislegur, Ólafur F. var æðislegur, og það var bara kjósendum að kenna að þeir skyldu ekki átta sig á því - enda þarf ekkert annað en að hafa meirihluta fulltrúa og málefnasamning til að mynda starfhæfan meirihluta. Almenningur hefur ekkert vit á því hvernig mynda skal meirihluta, og því er óþarfi að hlusta á rausið úr þeirri áttinni - enda hefur almenningur, almennt séð, ekkert annað hlutverk í lýðræðissamfélagi en að kjósa á fjögurra ára fresti og halda sér saman þess á milli.
Hvað gerðist síðan? Jú, meirihlutinn sprakk eins og graftarkýli. Ólafi var kastað til hliðar eins og notaðri tusku. Allt í einu var ekki hægt að vinna með honum, þrátt fyrir þennan vandaða málefnasamning. Og nei - auðvitað var engin leið að sjá þetta fyrir. Mótmæli og lélegt gengi í skoðanakönnunum voru bara tilviljanir, og gáfu hreint enga vísbendingu um neins konar veikleika í meirihlutanum.
Meirihlutinn var æðislegur og vel starfhæfur - allt þar til hann sprakk. Enginn gat séð fyrir hvernig þetta myndi fara. Eða ... nánar til tekið þá gat enginn sem mark var á takandi séð fyrir hvernig þetta myndi fara - því þeir kjósendur sem höfðu uppi efasemdir og studdu ekki meirihlutann í skoðanakönnunum eru vitaskuld ómarktækir, þar sem þeir hafa ekkert vit á pólitík. Fatta ekki hvað felst í góðum og starfhæfum meirihluta. (Málefnasamningurinn maður!)
Er ég einn um að sjá hvert vandamálið er hérna?
Nei, þeir einu sem sjá ekki vandamálið eru sjálfhverfir kjörnir fulltrúar sem vilja fá að vera fífl í friði fyrir almenningi.
Svo einfalt er nú það.
Sleppa pöllunum en mótmæla fyrir utan ráðhúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Facebook
Athugasemdir
Annars er, eftirá að hyggja, þessi pistill nú víst ekkert ósvipaður þessum, þó málið sé nálgast frá aðeins annarri hlið í þetta skiptið. Ég skal reyna að skrifa um eitthvað annað næst.
Þarfagreinir, 20.8.2008 kl. 13:21
Takk fyrir mig, alveg frábær pistill og þú mátt birta hann daglega fyrir mér, ekki mun af veita.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.8.2008 kl. 16:23
Gallinn er sá að það er ekki hægt að fara eftir skoðanakönnunum. Þá þyrfti ekkert að kjósa.
Þetta lið er búið að kúka upp á bak og mun gjalda þess í næstu kosningum. Það er ég sannfærður um.
Sigurjón, 20.8.2008 kl. 20:02
vandamálið hérna er að íslendingar lifa í ævintýrinu um Nýju fötin keisarans - ef þeir læra einhverntímann þá verður það of seint. Þvílík skömm
halkatla, 21.8.2008 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.