Apakaffi

Í gær skoðaði ég okursíðu Dr. Gunna, þar sem hann heldur utan um okur hvers konar. Þar er margt merkilegt, og ótrúlegt að sjá svona mikið af okri samankomið á einum stað. Ég óska Dr. Gunna til hamingju með þessa skemmtilegu hugmynd, og vonast til að hún verði sem flestum til gagns.

Ég ætlaði þó ekki að skrifa aðallega um þessa okursíðu, heldur annað sem á uppruna sinn að rekja til hennar. Þannig er mál með vexti að á síðunni sá ég minnst á svokallað Apakaffi frá Panama. Þar var því lýst með orðunum "Nýjasta snobb og tískukaffið". Ég var forvitinn um þetta kaffi og ákvað að gúgla "apakaffi panama". Það skilaði aðeins einni niðurstöðu; ákvörðun Neytendastofu í máli þar sem innflytjandi Apakaffisins kvartaði undan því að annað fyrirtæki væri að flytja inn kaffið og selja það á undirverði í Kolaportinu. Það sem vakti sérstaka athygli mína voru eftirfarandi orð:

Kvartandi telur að tilgangur sölu Apakaffis í Kolaportinu sé eingöngu sá að eyðileggja fyrir kvartanda þar sem verið sé að selja kaffið langt undir eðlilegu verði og slíkt skaði ímynd vörunnar.

Það var nefnilega það! Þarna stendur svart á hvítu að það er meining innflytjandans að hátt verð sé hluti af ímynd vörunnar! Að það eitt að varan sé fáanleg á lágu verði í Kolaportinu sé til þess að skaða ímyndina ...

Þetta vakti mig til umhugsunar. Er virkilega til fólk sem telur að það sé gæðastimpill á vöru að hún kosti mikið? Getur jafnvel verið að til sé fullt af slíku fólki? Mig hryllir við tilhugsuninni, því annan eins skort á heilbrigðri skynsemi og ... viti er vart hægt að ímynda sér. Hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa? Að Apakaffið (eða hvaða önnur dýr snobbvara sem er) verði sjálfkrafa gott ef það er dýrt? Að það sé 'flott' að borga morð fjár fyrir hlutina? Getur hérna verið komin hugsanleg skýring á okrinu? Að sumir vilji hreinlega borga okurverð, því að það er svo 'flott'?

Æi, ég á afskaplega erfitt með að skilja svona vitleysu. Sjálfur er ég ekki endilega að horfa í aurana; versla bara þar sem mér finnst þægilegast hverju sinni ... en fjárinn hafi það að ég fari að kaupa dýra vöru bara af því að hún er dýr. Ég kaupi það sem mér finnst gott, og það sem ég þarf.

En auðvitað er ég frekar einföld sál ... 


Íran, múgæsing, og Sádi Arabía

Ég skrifaði í gær fréttabloggfærslu sem fékk misjafnar undirtektir, og hef síðan staðið í ströngu við að ræða um Íran og afstöðu Vesturveldanna til þess ríkis í athugasemdum við önnur Moggablogg.

Mér er þetta afskaplega hugleikið, og því ætla ég að skrifa pistil um hvernig það horfir allt saman fyrir mér.

Það sem mér sýnist vera að gerast núna er að Vesturveldin, með Bandaríkin í fararbroddi, eru að búa sig undir einhvers konar hernaðaraðgerðir gegn Íran. Það er nákvæmlega sama andrúmsloft núna og fyrir fjórum árum, þegar ráðist var á Írak, með þeim afleiðingum sem núna liggja ljósar fyrir. Ekki einu sinni hörðustu andstæðingar þeirrar innrásar gátu gert sér í hugarlund hversu illa hún hefur misheppnast. Hinir bjartsýnu (lesist: veruleikafirrtu) haukar í Washington sáu fyrir sér skjóta uppgjöf allra mótspyrnuafla í Írak, og að innrásarhernum yrði tekið opnum örmum sem frelsurum. Skaðinn yrði lítill, og uppbyggingin yrði skjót. Ekkert af þessu hefur beinlínis staðist.

Það hefur alltaf skelfilegar afleiðingar í för með sér að ráðast á land, hvort sem það er gert með því að varpa á það sprengjum, eða senda inn í það her. Skemmst er að minnast þess þegar bandarískur háskólakennari setti það fram í gríni að Bandaríkin ættu að ráðast á Ísland - þá risu Íslendingar upp og var alls ekki skemmt. 'Hvílík tilhugsun - að varpa sprengjum á litla Ísland! Hvað höfum við til þess unnið? Skilur þessi maður ekki að það er ekkert gamanmál að varpa sprengjum á saklaust fólk?'

Þrátt fyrir þetta virðist, allt frá því að hryðjuverkin alræmdu voru framin á bandarískri grundu þann 11. september 2001, sem að hernaðaraðgerðir séu eiginlega nánast gamanmál. Það virðist alla vega vera afskaplega auðvelt að sveigja almenningsálitið í átt að því að styðja þær, þó ekki sé nema tímabundið. Svo mörgum árum seinna vakna menn upp við vondan draum, viðurkenna að þetta hafi kannski ekki verið nógu sniðugt, en einblína engu að síður á næsta óvin. Þessi hlýtur að vera vondur í alvörunni! Hann á skilið sprengjur! Á meðan deyr saklaust fólk í hrönnum, byggingar eru jafnaðar við jörðu, og milljónir hrekjast frá heimilum sínum, örkumlast, eða búa við ömurlegar aðstæður í kjölfar hernaðaraðgerða erlends innrásarhers.

Hvernig myndi Íslendingum líða ef Bandaríkjamenn myndu í alvöru varpa sprengjum á okkar helstu borgir, og senda hermenn hingað sem gengju um götur með alvæpni? Myndu andstæðingar núverandi ríkisstjórnar kætast við það, ef slíkri aðferð væri beitt til að koma henni frá? Myndu þeir taka hermönnunum sem frelsurum? Myndu þeir eiga auðvelt með að laga sig að þessum aðstæðum? Auðvitað er ég ekki að bera saman Ísland og ríki þar sem alvöru kúgun ríkir, en er virkilega svona erfitt að skilja að þetta er kannski ekki endilega besta leiðin til að 'frelsa' fólk?

Í öllum löndum ríkja hefðir, og menningin mótast að miklu leyti til af fólkinu sjálfu. Stjórnarfarið getur aldrei haft úrslitaákvæði um það. Vissulega búa Íranir við Sharialög, lítil mannréttindi, og skort á lýðræði. En myndi meðalíraninn kætast við það ef erlendur her færi að bomba landið hans í nafni þess að 'frelsa' þyrfti íbúa þess, eða til að refsa ríkisstjórninni fyrir stefnu hennar? Yrði hann sáttur við að kannski missa húsið sitt eða ástvini vegna þess að einhver sprengjan rataði ekki á rétt skotmark? Hverjum myndi hann kenna um það? Stjórnvöldum?

Athyglisvert er að geta þess að meirihluti venjulegra íranskra borgara styður kjarnorkuáætlun írönsku ríkisstjórnarinnar. Einnig hafa Íranar boðist til að vera samvinnufúsir í að tryggja að ekki verði hægt að búa til kjarnorkuvopn úr því geislavirka efni sem þeir eru að vinna. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Það er afdráttarlaus skoðun bandarísku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins að Íranar eigi engan rétt á því að koma sér upp kjarnorku, punktur. Þetta telja þeir sig geta ákveðið, þrátt fyrir að notast að miklu leyti við kjarnorku sjálfir. Allt vegna þess að Íranar eru 'vondi kallinn'.

Er kannski hugsanlegt að hin almenni Írani líti á afstöðu Vesturveldanna sem kúgun og yfirgang? Hverja ætli hann styðji frekar; innlenda ráðamenn sem fylgja Islam og íranskri þjóðernishyggju, eða erlend kristin ríki sem hafa sýnt yfirgang og árásarhneigð gagnvart völdum múslimaríkjum undanfarið ... ríkjum sem styðja Ísraela, sem margir múslimar líta á sem kúgara sem tróðu sér inn í land sem þeir áttu ekki rétt á?

Í þessum linnulausa áróðri gegn Íran nægir síðan auðvitað ekki það eitt að þeir gætu hugsanlega verið að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Nei, það verður að gera stjórnvöldin þar að djöflinum sjálfum. Ekkert minna dugir til. Þess vegna berast núna sífellt fleiri og fleiri fréttir af því hversu ógeðfellt og afturhaldssamt viðhorf stjórnvaldanna þar er, og hversu bersýnilega augljóst er að þegnar Írans búa við kúgun, og að best væri að koma þessari djöflastjórn frá völdum.

Í þessu öllu saman felst svo gengdarlaus hræsni að mér liggur við uppsölu. Ef menn vilja mála Íransstjórn sem djöful verða þeir að útskýra af hverju þeir sjá nákvæmlega enga ástæðu til að setja út á til að mynda stjórnina í Sádi Arabíu. Munurinn á þessum tveimur ríkjum er í raun sáralítill.

Íranir búa við Sharialög, en það gera Sádar líka.

Í Íran er samkynhneigð ólögleg, en í Sádi Arabíu líka.

Í Íran hafa konur lítil réttindi, en ekki eru réttindi þeirra mikið meiri í Sádi Arabíu.

Í Íran eru menn ekki hrifnir af Ísrael, en það gildir líka í Sádi Arabíu.

Í Íran er ekkert lýðræði, en ekki heldur í Sádi Arabíu.

... og þannig mætti afar lengi telja. Mér þætti afskaplega vænt um að fá að heyra einhver vitræn rök fyrir því að Íransstjórn sé verri en Sádastjórn, og að hin fyrrnefnda verðskuldi frekar að vera gerð að djöfli en hin síðarnefnda.

Annað sem má nefna í sambandi við Sádi Arabíu er að landið er gríðarlega ríkt af olíuauði, sem er meðal annars notaður í þeim afskaplega vafasama tilgangi að breiða um allan heim hið öfgafulla og ógeðfellda form af Islam sem Sádar aðhyllast. Þetta nefnist Wahhabismi; ég mæli með að fólk kynni sér það fyrirbæri - hér er til að mynda ágætislesefni. Það er úr þessum farvegi sem hryðjuverk eru sprottin; það er úr þessum farvegi sem Bin Laden er sprottinn; það er úr þessum farvegi sem meirihluti þeirra sem frömdu hryðjuverkin 11. september voru sprottnir.

Samt er það Afganistan, svo Írak, og nú Íran sem eru djöflarnir.

Þetta er sorglegt. 

Er til of mikils ætlast að fólk læri af sögunni, svona einu sinni? Opnið augun!


Áróður

Írakar áttu sér þennan mann, Muhammad Saeed al-Sahhaf, upplýsingaráðherra. Hann var óspart notaður til að gera grín að írösku ríkisstjórninni og heimsku hennar.

Mahmoud Ahmadinejad gegnir sama hlutverki fyrir hönd Írana. Hann er fíflið sem er notað til að gera Íransstjórn hlægilega ... og kynda undir hatur í hennar garð.

Það hefur afskaplega lítið breyst í Íran undanfarin ár. Engu að síður hrúgast núorðið inn fréttir af því hvað er að gerast þar, og hversu vitlaus og afturhaldssamur forsetinn þar er. Ég tel þetta einungis benda til eins. Þeir sem stjórna áróðursmaskínunni eru að búa sig undir stríð við Íran. Það er engin önnur vitræn skýring.

Reynum nú að læra aðeins af sögunni. Fyrir fjórum árum laug Bandaríkjastjórn að heimsbyggðinni og kynti undir stríð gegn Írak með áróðri. Við vitum öll hvernig það fór - jafnvel hörðustu hernaðarsinnar viðurkenna að sú innrás fór alls ekki eins og búist var við.

Það er ekki svartsýni að telja að innrás eins lands í annað land muni leiða til hörmunga. Það er einfaldlega raunsæi.

Hlustum ekki á áróðurinn - það er nákvæmlega engin vitræn ástæða fyrir því að ráðast á Íran, og meirihlutinn af uppgefnum ástæðum er hreinn og klár áróður kokkaður upp í Hvíta húsinu og Pentagon. Þannig er það nú bara.

Og af hverju er aldrei nokkurn tímann talað um til að mynda Sádi Arabíu sem vont, afturhaldssamt, og andlýðræðislegt ríki? Það er það!

Stundum verður maður alveg miður sín yfir því hversu auðvelt það virðist vera að brengla almenningsálitið, aftur og aftur og aftur ...


mbl.is Ahmadinejad segir samkynhneigð ekki þekkjast í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtal við Villa

Í Blaðinu í gær var viðtal við Vilhjálm borgarstjóra. Þar er hann meðal annars spurður út 'bjórkælismálið'. Um það hefur hann þetta að segja:

Það hefur nokkuð verið snúið út úr því máli. Mér gekk einungis gott eitt til og bað aldrei um að vínkælir í áfengisbúð yrði fjarlægður. Málið snerist um það að útigangsmenn í miðbænum hafa komið sér fyrir eins og setulið niðri í Austurstræti þar sem þeir áreita fólk, stökkva jafnvel að því og þrífa í það og krefja um pening fyrir bjór. Síðan fara þeir inn í áfengisverslunina og kaupa sér bjór í stykkjatali. Ég var að tala um þennan vanda. Það var ákvörðun áfengisverslunarinnar að fjarlægja kælinn. Eftir á að hyggja hefði ég hugsanlega mátt nálgast þetta mál með öðrum hætti en ég er ekki fullkominn frekar en aðrir. Þetta mál reyndist mér hins vegar alls ekkert erfitt. Eftir stendur að útigangsmenn í Austurstræti angra fólk og slíkt framferði þarf að stöðva.

Þar höfum við það. Svart á hvítu. Villa virðist algjörlega sama um neyð þessa útigangsmanna og þann vanda að til sé fólk sem er það langt leitt af áfengissýki að það býr á götunni og betlar. Nei, aðalvandamálið í hans augum er að þessi lýður skuli voga sér að angra broddborgarana. Ég hef af þessum sökum afskaplega lítið álit á borgarstjóranum og tel hann vera snobbhana og hrokagikk sem skeytir engu um raunverulega neyð hinna smæstu íbúa borgarinnar. Ég á alla vega afskaplega erfitt með að lesa nokkuð annað úr þessu viðhorfi Vilhjálms.

Síðan er það hinn bjánalegi útúrsnúningur Vilhjálms, að hann hafi ekki beðið með beinum orðum um að bjórkælirinn yrði fjarlægður. Hann bað um að búðin hætti að selja bjór í stykkjatali, fjárinn hafi það! Auðvitað var það bara málamiðlun hjá stjórnendum Vínbúðarinnar að fjarlægja kælinn; þeir vildu ekki taka það skref að hætta með öllu að selja bjór í stykkjatali. Líklegast finnst mér að Vilhjálmur hafi ekki einu sinni vitað af þessum bjórkæli; hefði hann vitað af honum hefði hann án efa beðið um að hann yrði fjarlægður líka - því úr honum var jú seldur bjór í stykkjatali, ekki satt? Aðalmálið er að hann sendi Vínbúðinni bréf þar sem hann bað persónulega um að hún hætti að selja tiltekna vöru - en það er auðvitað annað dæmi um hroka hans og stjórnunarfíkn.

Vilhjálmur virðist telja að það sé hans hlutverk að ákveða hvaða vandamál steðja að borgarbúum, sem og lausnirnar við þeim, og framkvæma lausnirnar sjálfur. Slík viðhorf til stjórnsýslu tel ég ekki hæfa þessari öld ... reyndar tel ég ekki einu sinni að þau hæfi þeirri síðustu.

Ég hef heldur ekki gleymt þætti Björns Inga í þessu máli. Hann viðraði einnig hið sama viðhorf - að það væri skelfilegt vandamál að útigangsmenn skuli betla peninga af fólki og angra það. Aldrei sá ég hjá honum, frekar en hjá Villa, neinar áhyggjur af því að í Reykjavík búi útigangsmenn á annað borð, né neinar hugmyndir um hvernig mætti ráðast að rót vandans með því hjálpa þeim af götunni. Hann virðist því skipa sama bás og borgarstjórinn. Þeir sitja í sínum fílabeinsturni og hugsa einungis um þau vandamál sem steðja að broddborgurunum. Óhreinu börnin hennar Evu geta síðan étið það sem úti frýs - svo lengi sem þau angra ekki heiðvirt fólk.

Svo mörg voru þau orð. 


Og?

Ef fólk er að eyða of miklum tíma í eitthvað annað en vinnu, að mati stjórnenda, er best að reka það bara. Ekki satt?

Það gildir einu hvað það er sem fólk er að eyða tíma í; það ætti að koma biður á afköstum þess, og ef stjórnendurnir vita eitthvað hvað þeir eru að gera ættu þeir að geta mælt afköstin með einhverjum hætti. Mér finnst það vera svolítið að ráðast að birtingarformum vandans en ekki afleiðingum hans að sía út þær síður sem starfsfólk kemst í. Ef fólk vill eyða tíma í vitleysu mun það eyða tíma í vitleysu, þó að lokað sé á einhverjar tilteknar leiðir til að eyða tíma í vitleysu.


mbl.is Samskiptasíður eru fyrirtækjum dýrkeyptar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví?

Hvað með það þó að einhverjum Múslimum í Múslimaríkjum mislíki það að í sænsku blaði birtist fíflaleg mynd af Múhammeð? Hvað angrar það þá þó hinir trúlausu fari ekki eftir boðskapnum? Ég hef aldrei fengið fulla skýringu á því af hverju þetta er svona...

Annað dæmi

Það er víst ekki það sama smais.is og smáís.is ...

Einmitt það já

"Ekki verið að brjóta nein grundvallarmannréttindi," segir borgarstjórinn. Þannig að Villi virðist líta á það sem sitt hlutverk að standa vörð um grundvallarmannréttindi eingöngu - en þegar þeim sleppi geti hann sent bréf út um hvippinn og hvappinn án...

Jahá

Er þessi vitleysa nú komin hingað til Íslands? Að það sé hægt að fá einkaleyfi á hugtökum! Ég sem hélt að það væru hefðir og venjur sem jafnan tengja ákveðin hugtök við ákveðna hluti eða atburði ... ég tel til að mynda næsta líklegt að ef einhverjum...

Snilldin heldur áfram

Villi Vínbúðarskelfir tekur undir ruglið í Binga Bjórdósabana heilshugar; að það sé bráðnauðsynlegt að Vínbúðirnar hætti að 'auka aðgengi að áfengi' með því að hætta að selja bjór í stykkjatali - og gengur skrefi lengra með því að leggja til að Vínbúðin...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband