Verjandi á villigötum

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins sem var sýknaður af nauðgunarákæru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júlí síðastliðinn, ritar í Morgunblaðið í dag pistil sem ber yfirskriftina 'Prófessor á villigötum'.

Hann hefði betur látið það ógert.

Þetta segi ég ekki vegna þess að ég telji hann ekki hafa rétt til að tjá sig um málið, né heldur vegna þess að ég telji hann ekki skrifa vandað mál og vel rökstutt.

Nei, ástæða þess að ég segi þetta er að lögmaðurinn opinberar þarna þvílíka fádæma ónærgætni, hroka, og einstrengingslega ofurtrú á alskeikulleika hinna íslensku laga, að álit mitt á honum hefur fyrir vikið fallið allgríðarlega.

Nú skil ég vel að það er hlutverk verjanda að beita lögunum rétt til að fá sína skjólstæðinga sýknaða, óháð persónulegum skoðunum verjandans eða hugmyndafræði hans. Þetta tókst Sveini Andra síðastliðinn fimmtudag, enda er hann víst snjall og vel hæfur verjandi. Að hann skuli hafa kosið að verja þennan tiltekna mann, og beitt til þess þeim málflutningi og rökum sem leiddu til sýknu, segir mér ekkert um mannkosti Sveins Andra til eða frá. Þarna var hann bara að vinna sína vinnu.

Hins vegar virðist Sveinn Andri núna vera kominn í einhvers konar hugmyndafræðilega herferð til að verja skjólstæðing sinn siðferðilega - að því er virðist vegna þess að honum blöskrar 'refsigleði dómstóls götunnar og fasískra femínista sem helst vilja hengja menn án dóms og laga', eins og hann kemst svo pent að orði í niðurlagi pistils síns. Að grunninum til er pistillinn lögfræðilegs eðlis, en það er í niðurlaginu sem Sveinn Andri fer algjörlega yfir strikið, og færir í raun baráttu sína í burtu frá sviði lögfræðinnar, og yfir á svið almenningsálitsins og siðferðisins. Hann kallar t.a.m. skjólstæðing sinn 'barnungan saklausan pilt' og lýsir því hversu hroðalegt það hafi verið fyrir hann að dúsa saklaus í fangelsi; sem eru ekki lagaleg rök, heldur siðferðileg og tilfinningaleg. Það er af þessum sökum sem ég tel mér skylt að taka þeirri áskorun sem í pistlinum felst, fyrir hönd 'dómstóls götunnar'.

Í skætingi sínum í garð 'dómstóls götunnar' missir lögmaðurinn nefnilega svo algjörlega marks á kjarna málsins að skömm er að. Hneyskli 'dómstóls götunnar' yfir þessum tiltekna dómi hefur ekkert með það að gera að hengja skuli fólk án dóms eða laga. Hneykslanin er til komin vegna þess að dómur og lög virðast hafa brugðist algjörlega í þessu tilfelli. Niðurstaða dómaranna er algjörlega á skjön við þær hugmyndir sem þorri 'venjulegs fólks' gerir sér um hvað felst í hugtökum eins og nauðgun og ofbeldi. Hún er meira að segja á skjön við þær hugmyndir sem löggjafar, lögfræðingar og dómarar í þorra hinna siðaðri þjóða í kringum okkur gerir sér um þessi hugtök!

Sveinn Andri eyðir miklu púðri í að árétta að fram hafi komið í dómnum að 'meint' fórnarlamb skjólstæðings hans hafi ekki strax í upphafi sýnt mótþróa eða kallað á hjálp, og því hafi skjólstæðingur hans ekki haft neina sérstaka ástæðu til að gera sér grein fyrir því að hann var að nauðga; að ekki sé sannað að ásetningur hafi verið til staðar. Hann virðist sumsé telja að þetta sé einstaklega mikilvægt lagalegt atriði sem 'dómstóll götunnar' gerir sér ekki fyllilega grein fyrir, eða þá sýnir ekki nægilegan skilning. Þetta er hrapalegur misskilningur. Þvert á móti er þarna komin meginástæða hneykslunarinnar. Flest sómakært fólk gerir sér nefnilega grein fyrir því að hátterni á borð við það sem skjólstæðingur Sveins Andra sýndi umrætt kvöld (eins og sannað þykir í dómnum) er rangt; nauðgun. Maður sem ryðst inn á sér ókunnuga konu á kvennaklósetti, og byrjar orðalaust að ýta henni til, læsir inn á bás, hnoðar þar saman, og hefur mök við hana í kjölfarið, hefur fulla ástæðu til að gera sér grein fyrir því að hann hefur ekki samþykki hennar. Viðbrögð konunnar koma því andskotans ekkert við - þau firra hann engri siðferðilegri ábyrgð. Ekki ætla ég nú að eyða mörgum orðum í það að rökstyðja þá staðreynd að möguleg, og jafnvel algeng, viðbrögð í svona aðstæðum eru að fórnarlambið frýs og fer í það mikið sjokk að það er ófært um að átta sig á aðstæðum strax (og ekki er ölvunarástand nú líklegt til að bæta þar úr skák). Ég læt mér nægja að benda á að, eins og ég minntist á hér fyrir ofan, þá er gert ráð fyrir þessum möguleika í lögum flestra siðaðra þjóða - og það sem mikilvægast er; í þeim lögum er ekki talið að slíkt firri gerandann ábyrgð. Í þeim lögum er ábyrgðinni ekki varpað yfir á fórnarlambið. Í þeim lögum er gerð sú krafa að menn þurfi ekki að láta fórnarlömb þeirra segja sér hvað sé rétt hegðun, og hvað sé röng. Í þeim lögum eru menn látnir bera ábyrgð á sínum gjörðum, óháð því hvernig brugðist er við þeim.

Sveinn Andri Sveinsson ætti því að skammast sín, og það rækilega. Það er eitt að nota meingölluð lög og meingallaðar réttarvenjur til að fá mann á borð við margumræddan skjólstæðing Sveins Andra sýknaðan. Hins vegar er það allt annar og rotnari handleggur að verja slíka menn siðferðilega. Hafðu endilega þitt lögfræðingsálit á 'dómstóli götunnar', Sveinn Andri, en ekki væna hann um að vilja 'hengja menn án dóms og laga' þó honum finnist ákveðin lög og dómsniðurstöður siðferðilega ámælisverð. Þó íslensku lögin og réttarvenjurnar séu eins og þau eru, þá þýðir það ekki að þau eigi að vera helsta leiðarljós nokkurs Íslendings í siðferðisefnum - jafnvel þó hann sé lögfræðingur.

P.S. Varðandi tilfinningarök þín um hinn 'barnunga saklausa pilt', þá eru þau fljótafgreidd, Sveinn Andri, því skjólstæðingur þinn er ekki barnungur, heldur þvert á móti fullorðinn maður - í augum laganna sem þú metur svo mikils og vinnur eftir.

---

Þeir sem vilja fræðast meira um hversu miklu mun vandaðri og mannúðlegri nauðgunarlöggjöf til að mynda Bandaríkjamenn búa við geta skoðað þetta:

http://www.stopvaw.org/a6200a22-49cf-4680-a01b-e862d23ccfb6.html

Ég hvet Svein Andra, sem og aðra kollega hans sem kunna að hafa svipuð viðhorf og hann, sérstaklega til að kynna sér hina bandarísku löggjöf, og spyrja síðan sjálfa sig einnar samviskuspurningar: Af hverju eru svona lög ekki nógu góð fyrir okkur Íslendinga?

Þar sem Alþingismenn setja lögin er einnig full ástæða, ef ekki meiri ástæða, til að beina sömu áskorun til þeirra.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Sveinn Andri tekur, að ég held, að sér aðila sem aðrir vilja ekki verja

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 9.7.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Swami Karunananda

Þú ert hörkufínn penni, bróðir kær - við höfum þetta báðir í genunum! Hvað innihald pistilsins varðar þá gæti ég ekki verið meira sammála.

Swami Karunananda, 9.7.2007 kl. 17:35

3 Smámynd: Þarfagreinir

Ég þakka skjallið bróðir sæll; já það er rétt að við virðumst báðir vera hannaðir frá náttúrunnar hendi til að skrifa góðan texta. Þó tel ég þig mér mun fremri, svo það komi nú fram.

Annars hef ég meira út á Svein Andra að setja. Upp er komin sú umræða í netheimum að hann sé einfaldalega að ljúga á opinberum vettvangi; að leggja stelpunni sem kærði orð í munn til að fegra málstað skjólstæðings síns. Ég man að hann skrifaði bloggfærslu um málið sem síðan hvarf, en henni var auðvitað 'bjargað', eins og vill gerast í svona tilfellum:

http://eyjan.is/ordid/2007/07/08/bloggf%c3%a6rsla-logmannsins/ 

Þarna legg ég orð í belg, en það er skömm frá því að segja að á þessum tímapunkti hafði ég víst ekki skoðað dóminn né netumræðurnar nógu vel; gagnrýni mín þarna á rétt á sér, en ég hefði getað gert miklu betur. Betra er þó seint en aldrei. Ég vil benda sérstaklega á þessi ummæli Sveins Andra:

Fyrir dómi sagði stúlkan aðspurð að hún hefði hvorki með látbragði né orðum gefið ákærða það til kynna að hún væri andsnúin kynmökum. Síðan upplýsti hún um það að þegar kynmökin höfðu átt sér stað í einhverja stund hefði hún skyndilega fundið til sársauka og þá ýtt ákærða frá sér og þannig gert honum grein fyrir því að hann ætti að hætta. Þá hætti hann á stundinni. Að þessu leyti voru ákærði og stúlkan alveg samstíga í frásögn sinni.

Ef dómurinn er hins vegar lesinn ítarlega er ljóst að stelpan segir hvergi í sínum vitnisburði þar að hinn ákærði hafi hætt þegar hún sagði honum að hætta. Þvert á móti þá má til að mynda draga fram þetta:

Aðspurð hvort hún hafi veitt mótspyrnu segist hún hafa verið alveg frosin og í sjokki og ekki veitt mótspyrnu fyrr en hún fann nístandi sársauka „þarna niðri“ við það að hann hreyfði sig með svo miklum látum. Hafi hún þá rankað við sér og ýtt honum frá sér og staðið upp. Hafi hann þá ýtt henni aftur á klósettið og sagt að hann væri ekki búinn. Hafi hún nú verið orðin reið, teygt sig í hurðina og tekið úr lás, en maðurinn hafði áður læst klefanum. Hafi hún opnað til hálfs en hann lokað aftur og læst og sagt aftur að hann væri ekki búinn. Hafi hún þá opnað aftur og hurðin lent á honum. Segist hún halda að honum hafi brugðið við þetta og hafi hún smeygt sér fram. Hafi hann komið á eftir henni og viljað fá hana aftur inn á klósett en hún farið fram á gang, öskureið, áður en hann gat nokkuð að gert.

Ekki rímar þetta nú alveg við fullyrðingar verjandans.

Svo heyrir maður af því að hann hafi haldið uppi svipuðum málflutningi í Kastljósi í kvöld; að stelpan hafi sagt hinum ákærða að hætta, og þá hafi hann hætt.

Ertu að fara með ósannindi, Sveinn Andri? Og ef svo er, af hverju?

---

Dómurinn er hérna:

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200700839&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

Gangi ykkur vel að finna eitthvað sem styður hinar undarlegu fullyrðingar Sveins Andra.

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 00:24

4 Smámynd: krossgata

.... sagði hann með þrumuraust og sló í borðið.  Talaði hún Sif Konráðsdóttir ekki um að í dómi mannréttindadómstólsins standist ekki þessi túlkun um að ekki hafi verið um ofbeldi að ræða?  Þannig að úrskurðir mannréttindadómstólsins eru ekki heldur nógu góðir fyrir íslendinga.

krossgata, 10.7.2007 kl. 00:26

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Áfrýjun. Ekkert annað.

Jóna Á. Gísladóttir, 10.7.2007 kl. 02:14

6 Smámynd: Halla Rut

Var að lesa hluta af dómnum en næ ekki að klára....eitt langar mig að vita. Er maðurinn með símann hjá stúlkunni inni í símanum sínum? Kemur það fram?

Halla Rut , 10.7.2007 kl. 15:28

7 Smámynd: Þarfagreinir

Nei, það kemur ekki fram - ekki einu sinni hvort það hafi rannsakað. Það myndi nú líka skipta litlu máli þó hann væri með símanúmerið; hann hefði getað fengið það hvaðan sem er, ekki satt?

Hins vegar kemur fram að rannsakað var hvort hann hafi hringt í síma hennar þetta kvöld, eins og hann heldur fram að hann hafi gert, en svo virtist ekki vera; alla vega fannst ekkert því til sönnunar. Það er afar margt í hans vitnisburði sem stenst ekki, og þess vegna er alls ekki skrítið að dómararnir hafi trúað framburði stelpunnar frekar. Ruglið felst í því að trúa hennar framburði en sýkna engu að síður, út frá stórfurðulegum lagaflækjuforsendum. Sorglegt.

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 15:48

8 Smámynd: GeirR

Sæll aftur

Varðandi orð þín um  " hversu miklu mun vandaðri og mannúðlegri nauðgunarlöggjöf til að mynda Bandaríkjamenn búa við " Ég þekki ekki nauðgunarlöggjöfina en ég veit að Bandaríkjamenn fleygja mönnum í fangelsi vinstri/ hægri og kippa sér lítið upp við þó einn og einn sitji inni saklaus eða sé líflátinn saklaus 

Um mitt ár 2005 sátu 1.495 fangar inni á hverja 100.000 íbúa Bandaríkjanna. Miðað víð íbúafjölda Íslands þýddi það að  4.485 fangar væru í fangelsum á Íslandi.  Skv. fangelsismálastofnun sitja um 120 fangar inni á íslandi. Það eru sem sagt 37 sinnum fleirri fangar í Bandaríkjunum miðað við mannfjölda.

Fannst þetta áhugavert í tengslum við umræðu um refsingar. Engin dulinn skilaboð, eingöngu til umhugsunar 

Kveðja

Geir

GeirR, 10.7.2007 kl. 17:35

9 Smámynd: Þarfagreinir

Já Geir, auðvitað er það alltaf vandasamt að feta stigið milli þess að refsa saklausum og láta hina seku sleppa. Hins vegar tók ég Bandaríkin sem dæmi aðallega af því að ég fann þessa góðu heimild og samantekt um þeirra löggjöf og þróun hennar. Fleiri lönd í kringum okkur eru með svipaða löggjöf, svo sem Bretland og Norðurlöndin. Það sem ég er að benda á er munur á hugmyndafræði; sú nauðgunarlöggjöf sem ég tel vera 'rétta' er þannig úr garði gerð að gerandinn er ekki firrtur ábyrgð þó að fórnarlambið streitist ekki nógu mikið á móti.

Tökum til dæmis bresku löggjöfina:

http://www.opsi.gov.uk/ACTS/acts2003/30042--b.htm#4

Þarna segir:

4    Causing a person to engage in sexual activity without consent
 
     (1) A person (A) commits an offence if-
 
 
    (a) he intentionally causes another person (B) to engage in an activity,
 
    (b) the activity is sexual,
 
    (c) B does not consent to engaging in the activity, and
 
    (d) A does not reasonably believe that B consents.
     (2) Whether a belief is reasonable is to be determined having regard to all the circumstances, including any steps A has taken to ascertain whether B consents.

Ég tel að ákærði í umræddu máli hefði hiklaust verið sakfelldur undir þessum lögum, þar sem hann tók nákvæmlega engin skref til að ganga úr skugga um að stelpan væri samþykk.

Ágætis punktur hjá þér með refsigleði Kananna, en málið er umfangsmeira en svo. 

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 18:55

10 Smámynd: Halla Rut

Nei það er einmitt málið. Mér finnast mál hér oft ekki almennilega rannsökuð. Mjög auðvelt hlýtur að vera að komast að því hvort hann hafi hringt í hana á svipuðum tíma og atburðurinn gerist. Hann hefði átt að vita símanúmerið hennar þá ef hún fer með rétt mál og hef hann hefur ekki hringt þá er hann auðsjáanlega að fara með rangt mál. Forvitnilegt finnst þér ekki.

Ég skil hvað þú ert að segja um að hann sleppi á lagaflækjum en samt sem áður er margt skrítið við þetta. t.d. að hann fari fram og segi strax að hann hafi verið með konu inni á klósetti og taki því bara rólega, fékk sér bjór og sígó  og einnig að hann segist hafa fengið símanúmerið hennar og að hann hafi hringt í hana sem hann veit að er mjög auðvelt að sanna. Á hinn bóginn er allt þetta blóð ekki fyllilega skýrt heldur. Mér finnst svo mikið talað um blóð að hún hljóti að hafa stórt sár. Mér finnst því ekki gefið næg skil. Hvaðan kom allt þetta blóð. Ef stúlkan er með opin sár er það augljós árást og ofbeldi.

Mér finnst einnig að þegar sagt er að hennar saga sé trúverðugari þá sé það líka svolítið skrítið. Hún er Íslensk og hann pólverji. Mun Íslensk stúlka ávalt vera trúverðugari miðað við þá fordóma sem pólverjar þurfa að þola hér? Það margar fullyrðingar er til í þessu máli að það hefði verið auðvelt að sanna mál annan hvors. Til að loka mann inni fyrir nauðgun í áratug og þar með er hans von um eðlilegt líf horfin þarf að vera 100% sönnun og tel ég að auðveldlega hefð verið hægt að fá hana í þessu máli.

Halla Rut , 10.7.2007 kl. 19:03

11 Smámynd: Þarfagreinir

Halla, það kemur fram í dómnum að það var rannsakað hvort hann hringdi í hana, en það fékkst ekki staðfest. Þetta er orðað svona í dómnum af því að auðvitað er ekki hægt að afsanna það 100%.

[i]Nokkur rannsókn hefur verið gerð á símatengingum við farsíma ákærða og farsíma X og kom ekki fram að símar þeirra hefðu tengst á þeim tíma sem máli skiptir. Þá kom fram að hringt var úr farsíma ákærða í farsíma B kl. 00:44 um nóttina, sbr. það sem segir hér að framan.  Þessi gögn eru óstaðfest.[/i]

B er sumsé vinur hins ákærða og vitni í málinu. Reyndar skil ég ekki alveg hvað er átt við þegar sagt er 'þessi gögn eru óstaðfest', en ég held að eins og ég segi þá virðist meginpunkturinn vera sá að rannsókn bendir til þess að hinn ákærði hafi ekki hringt í stelpuna. Varðandi það af hverju hann segist hafa hringt í hana og fengið númerið, þá verður hver líklega bara að svara því fyrir sig. Er ekki alveg eins líklegt að hann sé að búa það til í því skyni að sá einmitt þeim efasemdum sem hafa kviknað til að mynda í þínum kolli, Halla? 'Af hverju ætti hann að skálda þetta upp ef hann er sekur?'

Svo er það áverkinn sem hún hlaut; hann er í fullkomnu samræmi við hennar lýsingu á því sem gerðist, en í ósamræmi við hans frásögn. Það tel ég mjög mikilvægt atriði. 

Ég minni síðan enn og aftur á að dómurinn virðist ganga út frá því að saga stelpunnar sé sönn; það var ekki sýknað á þeim forsendum að vafi lagi á málsatvikum, heldur því hvernig túlka bæri þau, sérstaklega í ljósi þess hvort ákærði beitti ofbeldi við verkið, og hvort hann hafði ástæðu til að vita að hún var ekki samþykk.

Varðandi hugleiðingarnar um íslenska stelpu vs. Pólverja, þá leyfi ég mér að stórefast um að dómararnir hafi trúað henni frekar en honum sökum þjóðernis. Það eru alla vega engar slíkar hvatir í mínum eigin huga; ég lít bara hlutlægt á málið og álykta út frá því - og það eru dómarar líka vanir að gera. Þessi dómur er alla vega alveg nógu helvíti hlutlægur fyrir mér. 

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 19:24

12 Smámynd: Halla Rut

Ekki misskilja mig. Nauðgun er eitt það versta eða kannski bara versta sem nokkur manneskja verður fyrir. Mér finnst bara ýmislegt loðið í þessu máli eins og t.d. með símamálið...Óstaðfest. Hvað þíðir það? Það sem ég er að segja að mér finnist málið heldur illa unnið í alla staði.

Halla Rut , 10.7.2007 kl. 20:26

13 Smámynd: krossgata

"Nokkur rannsókn hefur verið gerð á símatengingum við farsíma ákærða og farsíma X og kom ekki fram að símar þeirra hefðu tengst á þeim tíma sem máli skiptir."  Það var gerð rannsókn á símatengingum.  Símar ákærða og fórnarlambsins tengdust ekki á þeim tíma sem skipti máli.  Þar með hafa frekari rannsóknir ekki verið gerðar.  Sem sagt hann hringdi ekki í hana á þeim tíma sem hann sagðist hafa gert það og er þar með ein gloppan í frásögn hans.

krossgata, 10.7.2007 kl. 20:58

14 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Á einum stað í yfirheyrslunum segir strákurinn að hann hefði átt að taka orð bróðir síns um að íslenskar stelpur væru heimskar trúanleg sennilega vegna þess að hann sá ekki fram á að hafa gert neitt rangt. Þarna komum við kannski að því að siðfræðin eða viðhorfin eru gjörólík. En eins og ég hef sagt áður þá finnst mér mjög ólíklegt að kona leitandi að klósetti á skemmtistað sé með hugan við það að sofa hjá ókunnugum manni um leið. Sem betur fer er það ekki okkar að dæma í þessu máli en þetta verður að fara fyrir fjölskipaðan Hæstarétt!

Sveinn Andri er hörkulögfræðingur en kannski er hann búinn að forherðast of mikið af öllum þeim hrylling sem hann hefur tekist á við. 

Ævar Rafn Kjartansson, 10.7.2007 kl. 21:14

15 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Svo verður að passa að gera þetta ekki að íslensku-pólsku máli. Það krauma nú þegar of miklir fordómar undir og ég stend sjálfan mig ma. að því stundum.

Ævar Rafn Kjartansson, 10.7.2007 kl. 21:17

16 Smámynd: Þarfagreinir

Já, Ævar ... það er því miður hætta í þessu öllu saman að þetta verði notað til að kynda undir fordómum. Sem betur fer hef ég ekki verið sérstaklega mikið var við slíkt, alla vega ekki enn sem komið er ...

Þarfagreinir, 11.7.2007 kl. 09:42

17 Smámynd: Þarfagreinir

Annars varðandi 'símamálið', þá rakst ég á ósamræmi í mismunandi framburðum hins ákærða hvað það varðar.

Eitt skiptið segir hann:

Hefði hann spurt hana hvort hún væri til í að gefa honum upp símanúmerið sitt og hún verið til í það.  Hefði hann hringt úr farsímanum sínum í hennar númer svo hún hefði númer hans í sínum síma og hann um leið í sínum.

En annað skiptið segir hann: 

Hann kveðst ekki vita hvort stúlkan var með síma þarna en hún hafi slegið númerið sitt inn í hans síma.  Ekki viti hann hvar í símaminninu þetta númer hafi verið vistað.  Það gæti hafa þurrkast úr minninu við það að síminn varð batteríslaus.

Trúlegt, ha? 

Þarfagreinir, 11.7.2007 kl. 09:49

18 Smámynd: GeirR

Sæll

Gaf mér loks tíma til að skoða linkinn frá þér um löggjöf í Bretlandi 

Þar er nauðgun skilgreind með eftirfarandi hætti

1    Rape
      (1) A person (A) commits an offence if-
  

    (a) he intentionally penetrates the vagina, anus or mouth of another person (B) with his penis,
 
    (b) B does not consent to the penetration, and
 
    (c) A does not reasonably believe that B consents.
     (2) Whether a belief is reasonable is to be determined having regard to all the circumstances, including any steps A has taken to ascertain whether B consents.
      (3) Sections 75 and 76 apply to an offence under this section.
      (4) A person guilty of an offence under this section is liable, on conviction on indictment, to imprisonment for life.

Þar þarf dómarinn að svara  sömu spurningunni sem íslenski dómarinn þarf að svara, þ.e.

    (c) A does not reasonably believe that B consents.

Ég sé ekki betur en þetta sé sama spurningin sem íslenski dómurinn spyr og svarar svona orðrétt:

"Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X.  "

Ég sé því ekki að þessi löggjöf sé "vandaðri og mannúðlegri" og að málið hefði verið dæmt öðruvísi í Bretlandi en á Íslandi.

Varðandi Bandarísku löggjöfina þá hefur þú líklega rétt fyrir þér að þar hefði ákærði væntanlega verið dæmdur fyrir nauðgun. Mér sýnist að þar sé krafist munnlegs/skriflegs samþykkis áður en að kynmök fari fram. Þ.e. að "gerandi" þurfi að hafa spurt beint út hvort að "Þolandi" væri samþykkur að hefja mök . Ekki sé nóg að hann hafi skynjað að "þolandi" hefðí áhuga kynmökum.

En hvernig á að sanna svona hlut ? Þeir sem eru útsmognir nauðgarar og þekkja lögin að segjast hafa spurt og fengið jákvætt svar. Oft hefjast "eðlileg" mök án þess að fólk spyrji þessar spurningar beint út. Hefst t.d. með augngotum, káfi og síðan samförum jafnvel án orða. Menn skynja (eða mis-skynja) áhuga hvers annars. En auðvitað verða menn að hætta ef þeir skynja "óvilja".

Já það er vandlifað í henni veröld og erfitt að finna meðalveg sem allir sætta sig við í svona löggjöf. Það breytir samt ekki þeirri grundvallarskoðum minni sem ég skal standa með fram í rauðan dauðan að:

“ Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð”

úr 70 grein Stjórnarskrárinnar

 Kveðja

Geir

GeirR, 11.7.2007 kl. 21:44

19 Smámynd: Þarfagreinir

Geir, ég bendi aftur á að í bresku lögunum er sú krafa gerð sérstaklega að hinn ákærði hafi tekið raunhæf skref til að fullvissa sig um að hann hefði samþykki. Þegar maður ryðst inn á konu og fer að ýta henni til án þess að tala nokkuð við hana ... og þröngvar henni með þeim hætti sem lýst er í dómnum, þá get ég engan veginn séð að viðkomandi hafi nokkurn áhuga á að vera viss um að hann hafi samþykki. Honum er bersýnilega nákvæmlega sama. Í bandarísku lögunum er þetta án efa svipað, þó ég nenni ekki að grafa í þeim líka. Þetta snýst ekki um að fá pottþétt skriflegt eða munnlegt "Já", heldur að sýna ábyrgð og virðingu. Í algjörlega allra besta falli ætti þessi maður að vera sekur um vítavert gáleysi.

Eða finnst þér virkilega í lagi að menn geti hagað sér svona gagnvart drukknum konum án þess að þurfa að svara fyrir það? Því dómskerfið er jú víst eina leiðin til að láta menn svara fyrir sínar gjörðir og þann skaða sem þeir valda öðrum. Hvað myndi tapast ef ábyrgð ákærðra í nauðgunarmálum yrði aukin nógu mikið á Íslandi til að ná yfir svona hegðun?

Þarfagreinir, 11.7.2007 kl. 22:04

20 Smámynd: GeirR

Sæll

Nei mér finnst hann sannarlega hafa hagað sér mjög heimskulega. Mér finnst persónulega siðlaust að yfir höfuð að vera að hafa kynmök við stúlku sem er væntanlega mjög drukkin . Ég hef lýst yfir innilegri samúð með stúlkunni. Ég hef líka samúð með drengnum. Ég veit ekki hverjum á að trúa varðandi hvað gerðist inn á salerninu. Mér finnst af vitnisburði hans og vitna að hann hann  hafi ekki talið sig ekki vera að gera neitt rangt. Fer og ræðir við félaga sinn og grobbar sig yfir því að hafa haft samfarir við stúlku inn á klósetti Fer svo aftur niður og fer að ræða við stúlkuna og starfsmann hótelsins. Það er eins og hann telji að hann hafi ekkert rangt gert.

Mér finnst að allar vitnisburður stúlkunnar og drengsins um það sem gerðist utan salernisins trúverðugur. Myndavérlar staðfesta sögu þeirra beggja. Vitnum ber saman um hvernig þau hittust, þau sögðu bæði frá konuni sem hann mætti við salernisdyrnar o.s.frv. Þeim ber meira að segja saman um hvað hann sagði þegar þó fóru saman inn á salernið. Þú verður að athuga að þau eru yfirheyrð í sitt hvoru lagi og áður en þau vita af myndavélum og vitnum. Ljúgvitni þekkjast af því að þeim verður margsaga, sagt hafa gert hluti sem eru í ósamræmi við sönnunargögn osfrv.  og fllækjast að lokum inn í sinn eign lygavef.

það má ekki útiloka allt sem strákurinn segir að hafi gerst þarna inni, það er ekki sjálfgerið að hann ljúgi og hún segi satt.

Dómarar standa því frammi fyrir erfiðu sönnunarmati og verða að dæma eftir lögunum og út frá sönnunum. Mat þeirra er að ekki er sannað að drengnum hafi verið ljós "óvilji" hennar. Ég sé ekki ástæðu til að vanteysta dómurum í málin og ég persónulega tel að hann sé réttur.

Ég er sammála þér að drengurinn hagaði sér með siðlausum hætti og að hann sýndi ekki ábyrgð og virðingu. En það er samt ekki sannað að hann sé sekur um nauðgun í skilningi lagana.

Ég þakka þér umræðuna, Ábendingar þínar hafa vakið mig til dýpri umhugsunar um þessi mál. Vona að þær hafi verið þér til einhvers gangs þó að við séum ekki sámmála um alla hluti.

Passaðu þig bara á femínistunum

Kveðja

Geir

GeirR, 11.7.2007 kl. 23:41

21 identicon

Jæja félagi ég sé að þú ert einstefnu maður í þessu máli, maður finnur tilfininga hitan úr skirfum þínum og ekki er hægt að tala um mjög málefnalegt blogg í þessu máli.

Hefur lesið dóminn allan? Það er nokkuð ljóst að stúlkan var mjög ölfuð og mundi ekki vel það sem fór fram áður en hún fór á salernið m.a. hvort hann hélt utan um hana og fleirra en man allt rosalega vel sem gerðist inni á klósetti.

Hér er gott dæmi um þá þversögn að hún man allt rosalega vel inni á wc-inu en minna fyrir það:

"Ákærði hefur komið vel fyrir undir málsmeðferðinni en á framburði hans hafa þó reynst vera veilur.  Á hinn bóginn hefur X enga tilraun gert til þess að gera hlut sinn betri í meðferð málsins og álítur dómurinn hana almennt einkar trúverðuga.  Þó virðast nokkrar gloppur vera í frásögn hennar vegna ölvunar, að ætla má.          

   Ákærði neitar sök og hefur sagt að samfarirnar hafi verið með vilja X.  Þeim ber saman um upphaf samskipta þeirra og frásögn kunningja ákærða, B, af því atriði er á sama veg.  Ákærði hefur sagt að vel hafi farið á með þeim á leiðinni niður að snyrtingunni og þau haldið hvort um annað.  Þá hefur B sagt að þau hafi gengið saman niður, eins og par og talað saman.  Fyrir liggur að X var orðin töluvert ölvuð þegar þau hittust og hefur komið fram hjá henni að hún hafi slagað og hún segist ekki muna allt nákvæmlega.  Hefur hún sagt að vel geti verið að þau ákærði hafi gengið saman niður stigann og ákærði þá haldið utan um hana.  "

Miða við öll málsgögn er málflutningur stúlkunar ekki síður glopotur en ýmis gögn benda þó til þess að hún hafi ekki viljað stuna samfarir með manninum. Það er þó alveg ljóst að einstaklingur á ekki að þurf að segja nei og samfarir eiga aldrei að fara fram nema með samþykki allra aðila. Við verðum samt í svona málum að sýna fram á ásetning og að sýna fram á að gerandanum hafi verið það allan tíman ljóst að hann var ekki velkominn. Þú sérð það ef þú lest dóminn að góðar líkur er á að hann hafi mátt túlka orð og látbragð stúlkunar sem boð um eitthvað meira. Einstaklingar er ekki dæmdir fyrir nauðgun af gáleysi sem betur fer og því vart annað hægt í stöðunni en að sýkna drenginn. Ákæruvaldinu tókst eifaldlega ekki að sýna fram á ásetning.

Þú fullyrðir líka gífurleg um atburðarásina að hún hafi verið nákvæmlega svona en ekki hinsegin og byggir málflutning þinn á því. Það er möguleiki að frásögn stráksins sé rétt og því skirf þín siðlaus, það kann líka að vera að stúlkan hafi rétt fyrir sér og því skrif þín réttmæt. Ég held þó að samskiptaörðuleikar, ölvun og fleirra spili stóra rullu í þessu og að báðir einstaklingar í þessu máli séu fórnarlömb. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson 12.7.2007 kl. 17:45

22 Smámynd: Þarfagreinir

Hversu oft á ég að þurfa að útskýra að aðalástæða þess að ég geng út frá því að stelpan sé að segja satt, en ekki hinn ákærði, er að dómararnir gengu út frá því sjálfir? Ef þeir væru í einhverjum vafa um málsatvik, þá hefðu þeir tekið það fram dómnum til grundvallar, ekki satt? Ef það hefði verið tekið fram í dómnum að vafi leiki á hvort þeirra væri að segja satt, þá myndi málið auðvitað horfa allt öðru vísi við.

Nei, ruglið í málinu er að rökstuðningurinn var að það athæfi sem hún lýsti taldist ekki vera ofbeldi, og að vegna þess að hún barðist ekki nógu mikið á móti þótti ásetningur ekki sannaður. Það voru einu uppgefnu ástæðurnar fyrir sýknun. Jú, sem og það að maðurinn var talinn hafa 'ástæðu til að ætla að hún væri honum ekki andhverf', sem er auðvitað fáránlega orðað rugl - eins og það sé samasemmerki milli þess að vera ekki andhverfur einhverjum og að vilja hafa við viðkomandi mök!

Allar vangaveltur um það hvort þeirra segir satt breyta því ekki út frá hverju var sýknað. Auðvitað eru mínar fordæmingar á hinum ákærða marklausar ef hann var að segja satt, en það sem ég er að hneykslast yfir eru forsendur dómsins, sem mér finnst forkastanlegar. Ég veit ekki einu sinni hvað þessi maður heitir, og hef engan áhuga á að vita það ... þetta er miklu meira og víðtækara prinsipmál en bara sú staðreynd að hann hafi sloppið. Þetta snýst líka ekki um refsingu, heldur að réttarkerfið viðurkenni að svona hegðun er röng og ólíðandi í siðuðu samfélagi.

Annars svo ég taki engu að síður efnislega á athugasemd þinni, þá sé ég ekki að lélegt minni stelpunnar um smáatriði fyrir utan klósettið varpi vafa á það sem hún segir hafa gerst þar inni. Tilfinningalegt inntak atburða hefur mjög mikil áhrif á hversu vel maður man þá, og hefur mér sjálfum til dæmis fundist sem að áfengi ýki þau áhrif verulega. En þetta er, eins og ég segi, aukaatriði. Dómurinn gengur út frá því að frásögn hennar af því sem gerðist þarna inni sé sönn, en engu að síður er sýknað.

Og varðandi það að ölvun geri ákærða að fórnarlambi, þá segist hann sjálfur hafa drukkið 2 - 3 bjóra. Hann hefur því, nema hann sé þeim mun meiri hænuhaus, verið með réttu ráði. Stelpan var hins vegar mjög drukkin. Samt eru bæði fórnarlömb ölvunar? 

Samskiptaörðugleikar eru síðan líka aum afsökun, þegar ekkert annað kemur fram í hennar framburði (sem ég minni enn og aftur á að dómararnir gengu út frá að sé réttur) en að þeirra samskipti hafi verið afar takmörkuð ... smá orðaskipti uppi, og síðan hafi hann hugsanlega haldið utan um hana. Mikil samskipti það. Og nei, það kemur ekkert fram í hennar vitnisburði sem bendir til að túlka hefði hennar athæfi sem 'boð um eitthvað meira'. Að hann skuli hafa haldið utan um hana þegar hún slagaði drukkinn telst til dæmis ekki sem slíkt.

Þú segir líka að sú krafa eigi að vera gerð að gerandanum eigi að vera 'allan tímann ljóst að hann sé ekki velkominn' til að ásetningur geti sannast. Hvað með að gera frekar þá kröfu að honum sé það ljóst að hann sé velkominn? Er það virkilega svona hættulegt að lögin krefjist þess að fólk sýni hvort öðru virðingu, en vaði ekki á aðra með offorsi og neyði það til að gera hluti sem það vill ekki, án þess að hafa í hinu minnsta fyrir því að fá þeirra samþykki fyrir slíku?

Auðvitað virði ég önnur sjónarmið um það hversu langt á að ganga í að leggja gerendum í svona málum ábyrgð á hendur ... ég er bara ekki sammála þeim. Að þröngva manneskju til samræðis er skelfilegur hlutur sem skilur eftir sig varanleg ör. Mér finnst nákvæmlega ekkert að því að gera þá kröfu til manna, með lögum, að þeir fari varlega í þeim efnum. Réttur manna til að veitast að drukknum konum og meðhöndla þær eins og hér hefur verið marglýst er fjarri því heilagur í mínum augum. Siðferði mitt og réttlætiskennd er bara einfaldlega þannig.

Þarfagreinir, 12.7.2007 kl. 19:00

23 identicon

Þú ert alltaf að detta í þá grifju að gefa þér að allar forsendur í þessu máli séu þér í hag. Lestu dóminn og þá sérðu að málflutningur stúlkunar er ekki jafn traustur og þú telur hann vera. Rétturinn telur framburð stúlkunar almenn einkar trúverðugan en gefur sér samt þann fyrirvara að stúlkan var nokkuð ölvuð og því gloppur í málflutiningi hennar.

Ég endurtek það sem ég sagði um ásetning, gerandi verður að hafa sýnt ásetning til brotsins ef það á að vera hægt að dæma hann fyrir það. Ástæðan fyrir því er sú að ef svo væri ekki opnum við flóðgáttir mála þar sem saklausir menn munu liggja í valnum. Þetta segi ég vegna þess að í um 95% nauðgunarmála sem koma á borð til lögreglu er ekki um nauðgun að ræða og kærur dregnar til baka. Þú ert að biðja um að taka upp nauðgun af gáleysi en hvað er það? Úps ég nauðgaði henni, ætlaði ekki að gera það, var bara af gáleysi? Nauðgun er þvingun eins eða fleirri aðila á annan aðila til samfara án samþykkis þeirr og er alltaf gert af ásetningi, það nauðgar enginn óvart.

 "Er það virkilega svona hættulegt að lögin krefjist þess að fólk sýni hvort öðru virðingu, en vaði ekki á aðra með offorsi og neyði það til að gera hluti sem það vill ekki, án þess að hafa í hinu minnsta fyrir því að fá þeirra samþykki fyrir slíku?"

Þetta er bara rugl í þér og varla svaravert.

Annað sem þú ert líka að misskilja er að dómurinn er ekki að segja okkur að löggjöfin skilgreini ofbeldi á einhvern annan hátt, það var bara ekki hægt að sýna fram á að um ofbeldi hafi átt sér stað eða að nauðgun hefði verið framin. Ef rétturinn viðurkennir að hann hafi nauðgað henni hefði drengurinn fengið dóm. Það skorti sannanir til að sýna fram á ásetning og framburður stúlkunar var ekki nægilega skýr til að sýna fram á nauðgun.

Vilhjálmur Andri Kjartansson 13.7.2007 kl. 00:22

24 Smámynd: Þarfagreinir

Jæja já ...

Þú mátt endilega benda mér á atriði í framburði stúlkunnar sem er ótraustur, því það er rétt hjá þér að ég virðist ekki sjá þau.

Og þetta með að um 95% nauðgunarkæra séu dregnar til baka ... hvaða heimildir hefurðu fyrir því? Mér finnst þetta afskaplega undarleg fullyrðing, sérstaklega í ljósi þess að það sem maður hefur heyrt hingað til er allt á þann veg að einungis lítill hluti nauðganna er kærður, og síðan er auðvitað ekki sakfellt nema í hluta þeirra sem eru kærðar. 

Ég er ekki endilega að biðja um að refsað verði fyrir nauðgun af gáleysi ... það er fullmikil einföldun. Ég endurtek bara að maður sem hegðar sér eins og lýst er í framburði stelpunnar hefur algjörlega fullar forsendur til að vita að hann hefur ekki samþykki, og þó það hafi virkilega vera þannig að hann gerði sér ekki grein fyrir því, þá er þetta engu að síður saknæmt athæfi í mínum augum. Punkturinn er að hann hefði átt að gera sér grein fyrir því, og ég tel að réttarkerfið hefði átt að áminna hann um það. Ég meina; hvað var að því að bíða þar til hún kom út af klósettinu? Af hverju að bíða þar til hin konan var farin og síðan ryðjast inn? Lögin tala um ásetning; ég tala um ábyrgð. Menn eiga að taka afleiðingum gjörða sinna, og þær gjörðir sem þarna fóru fram tel ég ekki þess eðlis að sérstök ástæða sé til að löggjafinn haldi hlífiskildi yfir þeim. Þess fyrir utan er ég persónulega sannfærður um að ásetningur var þarna til staðar. Það eina sem er notað í dómnum sem rök gegn því að ásetningur telst ekki sannaður er að stelpan barðist ekki nógu vel á móti, og að hún 'gaf honum ekki ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf' ... en því miður, þá get ég sjálfur ekki fallist á það sem nægileg rök. 

En það er rétt hjá þér að dómurinn er ekki að segja að löggjöfin skilgreini ofbeldi á einn eða annan hátt, enda er það hugtak hvergi skilgreint í löggjöfinni; ekki frekar en ýmis önnur hugtök. Hann er hins vegar að segja okkur svart á hvítu að ákveðið, tilgreint athæfi, geti ekki talist ofbeldi 'eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd'. Hér er nákvæm tilvitnun þessa efnis:

Ef byggt er á frásögn X af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra inni á snyrtingunni lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti X inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd.  Nægir þetta eitt til þess að ákærði verði sýknaður af ákærunni.

Þetta athæfi tel ég hins vegar sjálfur vera ofbeldi. Þannig er það nú bara.

Þarfagreinir, 13.7.2007 kl. 01:34

25 Smámynd: Þarfagreinir

Fleira sem má taka á svona í andvökunni ...

Rétturinn hefði aldrei getað viðurkennt að þetta hafi verið nauðgun. Hann var líka ekki að viðurkenna að þetta hafi ekki verið nauðgun. Nauðgun er nefnilega nokkuð sem réttarkerfið getur ekki tekið afstöðu til, þar sem það hugtak kemur hvergi fyrir í lögum. Það sem dómurinn sagði var að ekki væri sannað að ákærði hefði 'með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvað manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka', samkvæmt þeirri lagagrein sem ákært var undir, þeirri 194. í almennum hegningarlögum.

Einnig er merkilegt að ekkert er talað um ásetning í þessari lagagrein. Hvaðan kemur þá krafan um að sýna þurfi fram á ásetning? Ég hefði haldið að nóg væri að sýna fram á þröngvun með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Ásetningur er líka nokkuð sem er erfitt að að sanna eða afsanna fyrir rétti, þar sem hann felst fyrst og fremst í hugarástandi. Í nauðgunarmálum þætti mér rökréttara að sanna eða afsanna að ákærði hefði lögmæta ástæðu til að telja að hann hefði samþykki, sem og horfa til framferðis hans með tilliti til þess hvað hann gerði til að fullvissa sig um hvort hann hefði samþykki. Að konan streitist ekki nógu mikið á móti finnst mér ekki lögmæt ástæða til að líta sem svo á að samþykki sé til staðar, og hið sama gildir um fas og samskipti sem benda til þess að stelpan hafi 'ekki verið honum fráhverf'; slíkt jafngildir bara einfaldlega ekki samþykki fyrir kynmökum í mínum bókum. Eins og ég hef bent á hér áður, þá virðist þetta vera hugmyndafræðin í þeirri erlendu löggjöf sem ég hef dregið fram.

Þarfagreinir, 13.7.2007 kl. 03:23

26 Smámynd: Sigurjón

,,...95% nauðgunarmála sem koma á borð til lögreglu er ekki um nauðgun að ræða og kærur dregnar til baka."

Hvað hefurðu fyrir þér í þessu Vilhjálmur?

Sigurjón, 13.7.2007 kl. 03:24

27 Smámynd: Þarfagreinir

Æi, nú get ég ekki hætt.

Þú segir:

Nauðgun er þvingun eins eða fleirri aðila á annan aðila til samfara án samþykkis þeirr[a]

Og þá spyr ég: Hvar, hvernig, og hvenær var gefið samþykki í þessu tilfelli (miðað við vitnisburð stelpunnar, sem og venjulega)?

Og þú segir líka:

Ástæðan fyrir því er sú að ef svo væri ekki opnum við flóðgáttir mála þar sem saklausir menn munu liggja í valnum.

Þarna ertu að gefa þér það að hætta sé á að konur fari að kæra menn í stórum stíl saklausa - til hvers? Eins og það sé eitthvað gamanmál að gefa skýrslu fyrir lögreglu, og mæta fyrir rétt og gefa ítarlegar lýsingar á kynferðisathöfnum, og ljúga fyrir dómi? Ég veit að þetta er hugarfarið hjá mörgum, að það sé alltaf stöðug hætta á því að konur kæri menn ranglega fyrir nauðgun, en ég á bara svo afskaplega bágt með að skilja hvaða hugarfar er þarna að baki. Eru sannanir fyrir þessu? Rannsóknir? Vísbendingar? Kannski ég ætti að bíða eftir svari þínu við fyrirspurn minni um heimildirnar sem þú hefur um að um 95% kæra séu dregnar til baka ... en gæti það kannski ekki bara allt eins verið vegna þess að konurnar sjá fram á að þær treysti sér ekki til að fara alla leið sökum þess að erfitt gæti reynst að sakfella? Íslenskt réttarkerfi virðist alla vega senda slík skilaboð frekar skýrt.

Stelpan þarna gerði allt 'rétt'. Það er afskaplega ólíklegt að hún hafi verið að gera ákærða upp þessar sakir. Rétturinn hlýtur að geta tekið tillit til þátta eins og hvernig vitni sáu fórnarlambið hegða sér strax eftir atburðinn, hversu fljótt var kallað á lögreglu, og hvað sérfræðingar sem meðhöndla fórnarlambið segja. Þeir gerðu það í þessu tilfelli. Það er afskaplega erfitt að fara að falsa slíka þætti, detti einhverri konu einhverra hluta vegna að ákæra mann ranglega fyrir nauðgun.

Þarfagreinir, 13.7.2007 kl. 03:36

28 identicon

Ég mæli með að þú lesir dóminn það er alveg ljóst að þú hefur ekki lesið hann. Það sjá það allir sem lesa dóminn að stúlkuna mynnir ýmislegt en er ekki viss í frásögn sinni. Frásögn hennar er reikul og alls ekki áreiðanleg. Hvenar var gefið samþykki? spyrðu, samkvæmt lýsingu ákærða var samþykki fengið, augljóslega ekki skriflega en með látbragði og athöfnum inni í klefanum. Það hefur ekki verið sýnt fram á annað og ekkert sem bendir til þess í dómnum að annað hafi átt sér stað.

Það er ekkert gaman mál að gefa skýrslur en konur og menn koma að jafnaði drukkin og undir áhrifum annarra vímuefna og leggja fram kærur sem síðar reynist ekki grunndvöllur fyrir.  Fjöldi kvenna hefur notað nauðgun sem hótun gegn karlmönnum og hef ég þær heimildir frá einstaklingum sem unnið hafa við rannsóknir og mótöku meintra fórnarlamba nauðganna. Auk þess er sérstaklega fjallað um slík mál í refsirétti og aðferðir réttarkerfisins og löggjæslunar til að lágmarka slíkt.

Stelpan í þessu máli gerði ekki allt rétt, hún var ölvuð og óvarkár en slíkt bíður hættunni heim. Málflutningur þinn er alveg ótrúlegur þú hefur tekið algjörlega eina hlið í þessu máli og ræðst á saklausan dreng með oforsi og viðbjóði. Þú getur reynt að fela þig bakvið það að þú sért að gagnrýna réttarkerfið en um leið ertu að segja að dómurinn sé rangur og að drengurinn sé nauðgari.

Ég vona að þú lendir í því einhvern tíman að verða kærður fyrir glæp sem þú hefur ekki framið, kannski þá fyrst áttaru þig á því að hvað það er mikilvægt að vera álitin saklaus þar til sekt mans er sönnuð. Það er með ólíkindum að þú skulir vera að tjá þig um hluti sem þú hefur ekki einu sinni haft rænu til að kynna þér almennilega. Þú mátt kalla þetta hroka í mér eða hvað sem er en ég nenni bara ekki hlust á meir rugl frá þér um þennan dóm. Þú hefur gefið þér að drengurinn sé nauðgari og stúlkan engill,  því verður ekki breitt. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson 13.7.2007 kl. 14:02

29 Smámynd: krossgata

"Ég vona að þú lendir í því einhvern tíman að verða kærður fyrir glæp sem þú hefur ekki framið,...."

Ég á (næstum) ekki orð.  Þetta skín af illsku, rökþrotum, siðleysi og fleiru sem ekki er hafandi eftir. 

"Stelpan í þessu máli gerði ekki allt rétt, hún var ölvuð..." Ertu virkilega að segja að konur megi ekki fá sér í glas eins og annað fólk?  Er það ekki frekar að maðurinn var ölvaður og dómgreind hans brostin og hann skildi áhugaleysi sem áhuga?

krossgata, 13.7.2007 kl. 19:17

30 identicon

Maður sem óskar þess að réttarkerfinu sé breitt á þann veg að þú ert sekur þar til sakleysi þitt er sannað og tekur engum rökum verður að fá að upplifa það að vera borinn röngum sökum. Ég á góðan vin sem var borinn þungum sökum í kynferðismáli og mátti þola ýmsa gagnrýni, þrátt fyrir að stúlkan í málinu hafi dregið allt til baka og viðurkennt að hafa borið hann röngum sökum er hann enn að líða fyrir hennar lygar. Bjóðum ekki saklausu fólki upp á að ganga í gegnum það. Hann misti vinnuna sína, íbúðina og alla virðingu fólks í kringum sig á þessum tíma, hann er enn dag í dag maðurinn sem var kærður fyrir kynferðisáreittni þótt hann hafi verið alsaklus. 

Krossgata rökþrotin liggja hjá ykkur sem heimtið hengingar á almanna færi og fylgið liði með vopna-feministum.

Ég stend líka við það sem ég sagði um stúlkuna, það er rökleysi og heimska að deyfa dómgreind sína með áfengi það býður hættuni heim. Hún hefur heimtingu á því að geta klætt sig eins druslulega og hún vill og drekka sig hauga fulla án þess að vera nauðgað en það eru til menn  þarna úti sem nauðga slíkum konum eða notfæra sér ástand þeirra. Þú skilur ekki bílinn þinn eftir ólæstan eða íbúðina opna þegar ´þú yfirgefur bílinn eða húsið, þrátt fyrir að eiga heimtingu á að hlutinrnir þínir séu látnir í friði. Ef þú lest dóminn sérðu að stúlkan man ekki vel atburðarásina og óviss um margt í frásögn sinni sökum ölvunar.

Vilhjálmur Andri Kjartansson 13.7.2007 kl. 21:56

31 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

KLUKK

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 14.7.2007 kl. 01:17

32 Smámynd: Fræðingur

Vilhjálmur, hvaðan færðu þessa tölu 95% ?

Fræðingur, 14.7.2007 kl. 22:20

33 Smámynd: halkatla

Þarfagreinir þú ert mikill penni og hugsuður. Ég vissi ekkert að þetta hefði verið að gerast, kom bara úr sumarfríinu inní þetta rugl og var ekki að fatta neitt. Það var sagt í fréttunum að dómarar hefðu komist að niðurstöðu um að þetta væri nauðgun, en hún var svo ofbeldislaus að það var samt ekki nauðgun??? Úff, ég nenni sko ekki að lesa dóminn ég er löngu hætt að meika að lesa dóma. Ekki síðan maður var sýknaður af að smita 6 ára barn af tveim kynsjúkdómum.... Sumt sem netverjar hafa verið að skrifa um þetta mál er til skammar, en mér finnst þú taka á þessu frá mjög nytsamlegum sjónarhóli. Kærar kveðjur frá mér

Vilhjálmur Andri Kjartansson = þú ættir að skammast þín! þú vilt greinilega sjálfur láta nauðga þér þegar þú ert í varnalausri stöðu, eða hvað?  Athugaðu að ég kem ekki engilega aftur á þennan þráð til að taka þátt í einhverjum heimskulegum rökræðum við siðblinda fávita, þannig að ekki vera að svara þessu, hugsaðu bara um það hvað þú ert grimmur og óheilbrigður í rökstuðningi þínum um þetta mál sem þú þykist geta talað fjálglega um. Hérna að lokum er síðan eitthvað sem er örugglega mikið fyrir þig, þú getur lagst á hnén við að tilbiðja þennan mann og sakleysi hans; http://www.dailymail.co.uk/pages/live/articles/news/news.html?in_article_id=468503&in_page_id=1770

 beinn linkur á frétt/gjöf til Vilhjálms

Skrítið hvernig sumt fólk hefur enga samúð og lifir alveg í eigin siðblinda heimi

halkatla, 16.7.2007 kl. 00:11

34 Smámynd: Óskar Þorkelsson

magnaður þráður og mikill lestur..

Ég hef einfaldan smekk.. árás er árás og það var það sem gerðist þarna.. hvort deila á um hvort mannfílann hafði þröngvað lim sínum inní konuna er aukaatriði í raun.. hann framdi líkamsárás.. hvort eigi að munnhöggvast út í hvort þetta hafi verið nauðgun eða ekki þá er grundvallaratriðið það að hann braut á mannréttindum konunnar, braut á ferðafrelsi hennar og misþyrmdi henni einnig..

já hann er sekur um líkamsárás og hefði átt að dæma hann sem slíkan. orðhengilsháttur í réttarsal er eitthvað sem maður á að venjast frá Boston legal en ekki úr raunverulegikanum.. en ég hef líka misst trúnna á íslenskt réttarkefi eftir að hafa verið "nauðgað" af þessu kerfi ekki bara einu sinni heldur nokkrum sinnum..

Óskar Þorkelsson, 16.7.2007 kl. 14:06

35 Smámynd: Þarfagreinir

Ég var að koma heim úr stuttu sumarfríi þar sem ég nennti ekki að vera nettengdur. Ég hef hvort eð er litlu við það sem ég hef sagt hér að bæta, nema bara að ég er ánægður með að dómnum hefur verið áfrýjað, og ég vona að dæmt verði á annan veg í Hæstarétti.

Þarfagreinir, 17.7.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband