28.5.2007 | 17:48
"Probably the most ruthless company in the world"
Þetta eru orð sem höfð voru uppi um Rio Tinto, eins og vitnað er í bók Andra Snæs, Draumalandið. Því væri það ekki sérstaklega gaman ef þetta fyrirtæki keypti Alcan og væri þar með formlega með rekstur hérlendis. Svo hefur maður heyrt af því að hið sama fyrirtæki muni hugsanlega líka kaupa Alcoa; alla vega er þróunin í þessum bransa öll í átt að samþjöppun, þar sem stærstu risarnir eru að gleypa smáfiskana - og margir hafa verið orðaðir við að vilja kaupa Alcoa.
Gæti farið svo að íslenska stóriðjan verði öll rekin af sama risanum? Jafnvel risa sem er þekktur er fyrir ómennsku og svívirðilega framkomu?
Við sjáum nú þegar hvernig Impregilo hefur farið með erlenda starfsfólkið sem hefur unnið við Kárahnjúkavirkjun. Þar er allt gert til að halda verðinu niðri, enda er það bráðnauðsynleg forsenda hagnaðar þegar raforkan er seld á útsöluverði.
Er þetta virkilega það sem Íslendingar vilja? Að raforkan okkar sé seld nógu ódýrt til að hingað geti komið erlendir risar með mengandi starfsemi sem þeir gætu hæglega lagt niður, fái þeir betra verð annars staðar? Það er nefnilega algjört glapræði að halda að þó að einhvers staðar hafi verið byggt álver, þá sé tryggt að það muni standa endalaust. Sagan geymir fjölmörg dæmi um verksmiðjur sem hafa verið lagðar niður af því að ódýrara var að fara með sömu starfsemi annað.
En jæja, svo lengi sem við seljum okkur nógu helvíti ódýrt held ég að það sé lítil hætta á að álrisarnir verði okkur afhuga ...
P.S. PLC Stendur fyrir Public Limited Company, sem er breskt hugtak sem þýðir einfaldlega hlutafélag. Þetta er því ekki hluti af nafni fyrirtækisins, og því bjánalegt að hafa það með í íslenskum texta. Það er alltaf jafn leiðinlegt þegar þýðendur skilja ekki alveg það sem þeir eru að þýða.
Rio Tinto sagt íhuga yfirtökutilboð í Alcan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.5.2007 | 23:24
Sigur?
Á meðan ég fagna þeirri ákvörðun stjórnenda torrent.is að taka leikinn úr umferð í stað þess að reyna að verja hann, þá hef ég engu að síður enn og aftur efasemdir um málið allt saman:
- Af hverju þótti fjölmiðlum nauðsynlegt að gefa upp öll smáatriði? Nafnið á leiknum, nafnið torrent.is, ógeðfelldar myndir úr leiknum ... þetta viðurstyggilega fyrirbæri, sem líklega örfáar hræður vissu af áður en fréttaflutningur hófst, er nú á allra vitorði. Þar sem leikurinn er fáanlegur víða um netið geta nú allir sem vilja farið og náð sér í hann, reki forvitni þeirra þá til þess. Hver er hinn siðferðilegi sigur í því?
- Af hverju eru svona hlutir ekki hneykslunarverðir fyrr en þeir dúkka upp á íslenskum vefsíðum? Ég ítreka að þó að þessi leikur hafi ratað inn á Istorrent, þá voru sárafáir sem náðu sér í hann þar fram að því að fjölmiðlarnir hófu umfjöllun sína; eftir það rauk niðurhalið upp. Fólk sem stundar Istorrent er þar langflest til að ná sér í sjónvarpsþætti, bíómyndir, tónlist ... ekki viðbjóð. Sori á borð við þennan leik er eitthvað sem fólk þarf að þefa uppi og hafa áhuga á að ná sér í. Grandvör manneskja sem rekst á svona á síðu á borð við torrent.is fær ekki allt í einu þá flugu í höfuðið að ná sér nú bara í þetta. Það er aumasti barnaskapur að halda að aðgengi meðalíslendingsins að þessum leik, eða áhugi hans á honum, hafi aukist eitthvað þegar hann birtist á torrent.is.
- Hversu langt verður farið í að tryggja að Íslendingar geti ekki náð sér í þennan leik og margan annan sora sem er fáanlegur á netinu? Eina leiðin til að tryggja það er að setja upp netsíur ... og jafnvel þær myndu ekki stöðva af þá sem virkilegan áhuga hafa á að ná sér í ógeðfellt efni. Er það virkilega vilji Íslendinga að þetta verði gert?
P.S. Istorrent og torrent.is eru tvö nöfn yfir sama fyrirbærið ... ég vona að það valdi ekki ruglingi að ég skuli nota þau á víxl.
Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.5.2007 | 15:47
Nokkrir punktar
Þar sem ég var ekki úthrópaður sem pervert og ógeð fyrir síðustu færslu mína um þetta mál, þá tel ég mér óhætt að setja niður nokkra punkta í viðbót, og árétta hitt og þetta. Margt af þessu hefur komið fram í færslum og athugasemdum annarra, en mig langar til að taka þetta saman.
- Þessi leikur er aðgengilegur víða á netinu, og meira að segja er hægt að panta hann af Amazon. Að hann skuli hafa skotið upp kollinum á Istorrent eykur aðgengi Íslendinga að honum ekki neitt hætishót.
- Istorrent er lokað samfélag í þeim skilningi að þeir sem eru þar notendur fyrir þurfa að bjóða nýjum notendum aðgang. Lágmarksaldur til að fá aðgang að Istorrent er 15 ár.
- Á Istorrent deila notendur hvaða því efni sem það á og vill bjóða öðrum, og ná sér í það sem þeir hafa áhuga á að fá af öðrum notendum. Langmest af efninu sem þarna er eru tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþættir. Af þessum sökum hafa því margir framleiðendur og seljendur slíks efnis horn í síðu Istorrent, sem og hagsmunasamtök þeirra. Er óeðlilegt að gruna þá um að standa fyrir ófrægingarherferð gegn Istorrent með því að grafa upp ljótt efni þar og slengja því fram í fjölmiðlum?
- Sárafáir náðu sér í leikinn á Istorrent þangað til í gær; eftir að fréttaflutningur af honum hófst hafa margir gert það af forvitni. Eru fjölmiðlar þá firrtir ábyrgð á því að hafa auglýst leikinn og vakið athygli á honum?
- Ef Istorrent yrði lokað af því að þar er hægt að ná í þennan leik innan um aragrúa 'heilbrigðs' efnis, hvað myndi vinnast með því? Væri þá þörf á frekari aðgerðum til að tryggja að hann væri hvergi aðgengilegur hérlendis? Hvers konar aðgerðir væru það þá?
- Er það besta leiðin að berjast gegn kynferðisglæpum að eltast við æsifréttir af þessum toga; asnalegur japanskur tölvuleikur sem einhver bjáni setti inn á Istorrent og enginn hafði áhuga á þar til fjölmiðlar komust í málið?
P.S. Mér finnst þessi leikur ógeðslegur og fordæmi alla þá sem spila hann ... hefði ekkert á móti því að svona leikir væru bannaðir með lögum ... ef ég væri stjórnandi á Istorrent myndi ég taka þennan leik út .... blablabla ... þetta snýst ekkert um álit fólks á því, heldur stærri hluti sem ég er að reyna að benda hér á. Æsifréttamennsku og storm í vatnsglasi sem dregur athyglina frá aðalvandanum.
"Afar ósmekklegur leikur" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.5.2007 | 11:05
Urg
Enn og aftur sýna fjölmiðlar engan skilning á umfjöllunarefni sínu.
Vissulega er torrent.is, eða Istorrent, 'vefsvæði' í þeim skilningi að hluti kerfisins er vefsíða þar sem hægt er að skoða lista yfir skrár sem í boði eru. Hins vegar eru engar skránna hýstar á vefnum sjálfum - það eru notendurnir sjálfir sem leggja þær fram og dreifa í gegnum kerfi sem nefnist bittorrent. Það sem gerist síðan þegar einhver notandi falast eftir því að ná í eitthvað í listanum er að hann nær í viðkomandi efni frá öðrum notendum kerfisins sem eiga það. Istorrent er því ekkert annað en miðlari - einn leggur fram eitthvað sem hann á, og aðrir geta þá náð í það. Oftast er þetta tónlist, sjónvarpsþættir eða kvikmyndir, en einnig tölvuleikir og sitthvað fleira.
Ég vil líka spyrja að því hvaða lög er verið að brjóta með þessum tölvuleik. Það er mikill munur á því að hneyksla siðgæði fólks (og þessi leikur hneykslar vissulega mitt siðgæði) og að brjóta lög.
Þriðji punkturinn: Af hverju er það sérstakt hneykslunarefni að þessi leikur skuli vera aðgengilegur í gegnum 'íslenskt vefsvæði'? Þessi leikur og margt verra og ljótara er í boði um allt alnetið. Af hverju er það siðferðilega verra að hann birtist á 'íslensku vefsvæði'? Nú veit ég líka fyrir víst að Istorrent er lokaður klúbbur - fólki þarf að vera boðið af öðrum notendum Istorrent til að fá að taka þátt. Það er því ekki eins og þetta liggi á glámbekk fyrir hvaða saklausu sál sem er.
Æi, ég er bara grautfúll út í hvert þetta þjóðfélag virðist vera að stefna. Ég held að netlögregla sé svei mér þá bara handan við hornið.
Ég veit að ég mun fá á mig holskeflu hneykslunar fyrir þessi skrif mín, en það verður bara að hafa það. Einhver verður að benda á hættuna sem er samhliða því að fara offari í siðvöndunarhneykslan á alnetinu ... sérstaklega þegar því fylgir algjört þekkingarleysi á viðfangsefninu.
---
UPPFÆRT: Ég sé reyndar núna að klausu hefur verið bætt neðst við fréttina þar sem eðli Istorrent er útskýrt nánar. Færi ég blaðafólki mbl.is kærar þakkir fyrir það.
Nauðgunarþjálfun á Netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.5.2007 | 15:46
Rétt hjá Steingrími
Ég verð að taka undir þessar áhyggjur Steingríms. Það er ekkert í stjórnarsáttmálanum sem bendir til annars en að áfram verði haldið að drita niður virkjunum og álverum ... bara svo lengi sem það verður gert 'í sátt við náttúruna'.
Ég tel það mikið glapræði að halda áfram á þessari braut. Virkjanirnar eru nú eitt, en að nota alla orkuna í álver þykir mér metnaðarlaus vitleysa. Að stjórnvöld séu síðan virkt að móta stefnu í þessum efnum og séu í virkum herferðum til að laða að erlenda álrisa þykir mér nánast sovésk tímaskekkja. Mun eðlilegra væri að láta þetta algjörlega stjórnast af markaðsöflunum.
Fyrst minnst er á markaðsöfl, þá er það staðreynd, sem furðu margir þráast við að neita, að raforkan er seld álverunum á afskaplega lágu verði. Þetta er eina leiðin til að laða að álrisana - að undirbjóða til að mynda ríki í Suður-Ameríku, sem nota bene nota líka vatnsaflsorku í miklum mæli. Auðvitað hefur verið gert arðsemismat á þessu öllu saman, og ég efa ekki að þetta borgar sig að einhverju leyti til lengri tíma litið - sérstaklega þegar við almenningurinn í landinu erum látin niðurgreiða þetta lága verð sem stóriðjan greiðir. Hins vegar tel ég nær öruggt, sama hversu mikið er þráast við að neita því, að aðalástæðan fyrir þessari áherslu á að laða að álrisana er þrýstingur frá byggðarlögum úti á landi, sem mörg hver eru örvæntingarfull yfir fólksfækkun og hnignun, og vilja sjá einhverjar aðgerðir sem líklegar eru til að snúa þróuninni við. Þetta er afl sem ómögulegt virðist að stöðva - ekki ætlar ríkisstjórnin nýja að gera það.
Mér þætti afskaplega vænt um að fleiri myndu viðurkenna þennan sannleika í málinu; að stóriðjustefnan snýst ekki um efnahag landsins í heild, heldur byggðastefnu. Þá væri hugsanlega hægt að ræða þessi mál á vitrænni nótum. Umhverfisverndarrökin eru til að mynda algjörlega glötuð - fullyrðingar um að ef við tækjum ekki við þessum álverum hingað þá yrðu þau bara sett upp í Kína og keyrð áfram af kolum standast til dæmis engan veginn þegar samkeppnin kemur fyrst og fremst frá áðurnefndum vatnsaflsvirkjuðum Suður-Ameríkuríkjum. Hver er síðan umhverfislegi 'sparnaðurinn' af því að flytja súrál langa leið yfir hafið hingað til Íslands, bræða það, og senda síðan afurðina annað til frekari vinnslu?
Steingrímur: Samfylking virðist hafa gefist upp á umhverfismálunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2007 | 20:55
6 - 1
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.5.2007 | 13:25
Rugl
18.5.2007 | 10:04
Gott mál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.5.2007 | 11:58
Samanburður
13.5.2007 | 13:01