Skandall!

Þannig að þessi maskari lengir ekki í alvöru augnhárin þannig að þau nái út fyrir gufuhvolfið???

Maður hefur heyrt af fölskum auglýsingum, en þetta er einum of ... 

 


mbl.is Gerviaugnhár Penélope Cruz óviðundandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt hatur

Það er stórmerkilegt að sjá hversu margir virðast fyrirlíta þetta fólk. Ég skil vel að mörgum kunni að finnast mótmæli af þessu tagi tilgangslaus og pirrandi, og málstaðurinn bjánalegur - en fyrr má nú vera að ausa úr skálum forpokaðrar gremju og fýlu. Ég man varla til þess að nokkurn tímann hafi verið jafn víðtæk samstaða í íslensku þjóðfélagi um að fordæma fólk með fúkyrðum og ódýrum sneiðum. Maður verður eiginlega bara hálfsmeykur við að sjá sumar fordæmingarnar sem fólk hefur verið að rita á alnetinu.

Mig grunar að rótin að þessu sé sú að hér á Íslandi hefur lítið tíðkast að velta bátnum, sérstaklega með því að vekja athygli á sjálfum sér. Hvers kyns 'fíflalæti' og hegðun sem fellur ekki innan normsins er síðan afskaplega ámælisverð í íslensku samfélagi. Þeir sem hegða sér þannig hljóta að vera kolbilaðir atvinnulausir aumingjar - í augum Íslendinga. Mér sýnist sem svona viðhorf fari vaxandi, ef eitthvað er. Það verður sífellt minna og minna í tísku að mótmæla eða vekja athygli á einhverjum málstað á nokkurn hátt; áberandi hugsjónamennska er sett á svipaðan bás og holdsveiki hér á Fróni.

Það angrar mig sjálfan nákvæmlega ekki neitt þó að einhverjir skuli enn nenna að mótmæla á Íslandi. Deila má um aðferðir þessa hóps og hugmyndafræði, en mér finnst hann ekki hafa gert neitt til að verðskulda það gríðarlega hatur sem mér sýnist margir bera til hans. Er virkilega svona ljótt að mótmæla?


mbl.is Áberandi mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukk

Jæja, ég náði ekki að forðast klukkið. Það var gert úr launsátri á meðan ég var í fríi. Þá er bara að bíta í það súra epli:

 

1) Ég á tvö alsystkyni sem bæði hafa sama afmælisdag og ég.

2) Ég er með fullt sett af algjörlega heilum tönnum; ekkert hefur verið fjarlægt né nokkru bætt við - hvað þá nokkuð rétt af.

3) Ég hef afar takmarkaða listræna hæfileika ... nema forritun teljist list ... og svo er það ritlist og ljóðlist þegar ég nenni að iðka slíkt.

4) Ég var mjög uppátækjasamur í æsku; eitt sem ég gerði var til að mynda að troða flíkum inn í aðrar flíkur til að búa til 'gervimenn' - mér skilst að foreldrum mínum hafi oftar en ekki brugðið við að rekast á þá, þar sem þau héldu oft í fyrstu að þetta væru alvöru óboðnir gestir í húsið.

5) Eitt sinn ætlaði ég mér að læra bókmenntafræði. Sennilega var það uppreisn gegn hinum óumflýjanlegu örlögum mínum - að verða tölvunarfræðingur.

6) Mér leiðist stærðfræðigreining óheyrilega mikið, en hef þeim mun meira gaman af til að mynda talnafræði og líkindafræði. Líklega er mér bara illa við rauntölur.

7) Ég er INTJ, samkvæmt persónuleikaprófi nokkru sem ég hef miklar mætur á.

8) Ég á erfitt með að tala um sjálfan mig, eins og sannast á því að ég var lengi að berja saman þennan lista.

 

Ég mun síðan finna átta aðra sem ekki hafa verið klukkaðir og klukka þá.

En spurningin er þá: Hvað gerist þegar hin átta síðustu sem ekki hafa verið klukkuð verða klukkuð? Hverja eiga þau að klukka? 


Verjandi á villigötum

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins sem var sýknaður af nauðgunarákæru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júlí síðastliðinn, ritar í Morgunblaðið í dag pistil sem ber yfirskriftina 'Prófessor á villigötum'.

Hann hefði betur látið það ógert.

Þetta segi ég ekki vegna þess að ég telji hann ekki hafa rétt til að tjá sig um málið, né heldur vegna þess að ég telji hann ekki skrifa vandað mál og vel rökstutt.

Nei, ástæða þess að ég segi þetta er að lögmaðurinn opinberar þarna þvílíka fádæma ónærgætni, hroka, og einstrengingslega ofurtrú á alskeikulleika hinna íslensku laga, að álit mitt á honum hefur fyrir vikið fallið allgríðarlega.

Nú skil ég vel að það er hlutverk verjanda að beita lögunum rétt til að fá sína skjólstæðinga sýknaða, óháð persónulegum skoðunum verjandans eða hugmyndafræði hans. Þetta tókst Sveini Andra síðastliðinn fimmtudag, enda er hann víst snjall og vel hæfur verjandi. Að hann skuli hafa kosið að verja þennan tiltekna mann, og beitt til þess þeim málflutningi og rökum sem leiddu til sýknu, segir mér ekkert um mannkosti Sveins Andra til eða frá. Þarna var hann bara að vinna sína vinnu.

Hins vegar virðist Sveinn Andri núna vera kominn í einhvers konar hugmyndafræðilega herferð til að verja skjólstæðing sinn siðferðilega - að því er virðist vegna þess að honum blöskrar 'refsigleði dómstóls götunnar og fasískra femínista sem helst vilja hengja menn án dóms og laga', eins og hann kemst svo pent að orði í niðurlagi pistils síns. Að grunninum til er pistillinn lögfræðilegs eðlis, en það er í niðurlaginu sem Sveinn Andri fer algjörlega yfir strikið, og færir í raun baráttu sína í burtu frá sviði lögfræðinnar, og yfir á svið almenningsálitsins og siðferðisins. Hann kallar t.a.m. skjólstæðing sinn 'barnungan saklausan pilt' og lýsir því hversu hroðalegt það hafi verið fyrir hann að dúsa saklaus í fangelsi; sem eru ekki lagaleg rök, heldur siðferðileg og tilfinningaleg. Það er af þessum sökum sem ég tel mér skylt að taka þeirri áskorun sem í pistlinum felst, fyrir hönd 'dómstóls götunnar'.

Í skætingi sínum í garð 'dómstóls götunnar' missir lögmaðurinn nefnilega svo algjörlega marks á kjarna málsins að skömm er að. Hneyskli 'dómstóls götunnar' yfir þessum tiltekna dómi hefur ekkert með það að gera að hengja skuli fólk án dóms eða laga. Hneykslanin er til komin vegna þess að dómur og lög virðast hafa brugðist algjörlega í þessu tilfelli. Niðurstaða dómaranna er algjörlega á skjön við þær hugmyndir sem þorri 'venjulegs fólks' gerir sér um hvað felst í hugtökum eins og nauðgun og ofbeldi. Hún er meira að segja á skjön við þær hugmyndir sem löggjafar, lögfræðingar og dómarar í þorra hinna siðaðri þjóða í kringum okkur gerir sér um þessi hugtök!

Sveinn Andri eyðir miklu púðri í að árétta að fram hafi komið í dómnum að 'meint' fórnarlamb skjólstæðings hans hafi ekki strax í upphafi sýnt mótþróa eða kallað á hjálp, og því hafi skjólstæðingur hans ekki haft neina sérstaka ástæðu til að gera sér grein fyrir því að hann var að nauðga; að ekki sé sannað að ásetningur hafi verið til staðar. Hann virðist sumsé telja að þetta sé einstaklega mikilvægt lagalegt atriði sem 'dómstóll götunnar' gerir sér ekki fyllilega grein fyrir, eða þá sýnir ekki nægilegan skilning. Þetta er hrapalegur misskilningur. Þvert á móti er þarna komin meginástæða hneykslunarinnar. Flest sómakært fólk gerir sér nefnilega grein fyrir því að hátterni á borð við það sem skjólstæðingur Sveins Andra sýndi umrætt kvöld (eins og sannað þykir í dómnum) er rangt; nauðgun. Maður sem ryðst inn á sér ókunnuga konu á kvennaklósetti, og byrjar orðalaust að ýta henni til, læsir inn á bás, hnoðar þar saman, og hefur mök við hana í kjölfarið, hefur fulla ástæðu til að gera sér grein fyrir því að hann hefur ekki samþykki hennar. Viðbrögð konunnar koma því andskotans ekkert við - þau firra hann engri siðferðilegri ábyrgð. Ekki ætla ég nú að eyða mörgum orðum í það að rökstyðja þá staðreynd að möguleg, og jafnvel algeng, viðbrögð í svona aðstæðum eru að fórnarlambið frýs og fer í það mikið sjokk að það er ófært um að átta sig á aðstæðum strax (og ekki er ölvunarástand nú líklegt til að bæta þar úr skák). Ég læt mér nægja að benda á að, eins og ég minntist á hér fyrir ofan, þá er gert ráð fyrir þessum möguleika í lögum flestra siðaðra þjóða - og það sem mikilvægast er; í þeim lögum er ekki talið að slíkt firri gerandann ábyrgð. Í þeim lögum er ábyrgðinni ekki varpað yfir á fórnarlambið. Í þeim lögum er gerð sú krafa að menn þurfi ekki að láta fórnarlömb þeirra segja sér hvað sé rétt hegðun, og hvað sé röng. Í þeim lögum eru menn látnir bera ábyrgð á sínum gjörðum, óháð því hvernig brugðist er við þeim.

Sveinn Andri Sveinsson ætti því að skammast sín, og það rækilega. Það er eitt að nota meingölluð lög og meingallaðar réttarvenjur til að fá mann á borð við margumræddan skjólstæðing Sveins Andra sýknaðan. Hins vegar er það allt annar og rotnari handleggur að verja slíka menn siðferðilega. Hafðu endilega þitt lögfræðingsálit á 'dómstóli götunnar', Sveinn Andri, en ekki væna hann um að vilja 'hengja menn án dóms og laga' þó honum finnist ákveðin lög og dómsniðurstöður siðferðilega ámælisverð. Þó íslensku lögin og réttarvenjurnar séu eins og þau eru, þá þýðir það ekki að þau eigi að vera helsta leiðarljós nokkurs Íslendings í siðferðisefnum - jafnvel þó hann sé lögfræðingur.

P.S. Varðandi tilfinningarök þín um hinn 'barnunga saklausa pilt', þá eru þau fljótafgreidd, Sveinn Andri, því skjólstæðingur þinn er ekki barnungur, heldur þvert á móti fullorðinn maður - í augum laganna sem þú metur svo mikils og vinnur eftir.

---

Þeir sem vilja fræðast meira um hversu miklu mun vandaðri og mannúðlegri nauðgunarlöggjöf til að mynda Bandaríkjamenn búa við geta skoðað þetta:

http://www.stopvaw.org/a6200a22-49cf-4680-a01b-e862d23ccfb6.html

Ég hvet Svein Andra, sem og aðra kollega hans sem kunna að hafa svipuð viðhorf og hann, sérstaklega til að kynna sér hina bandarísku löggjöf, og spyrja síðan sjálfa sig einnar samviskuspurningar: Af hverju eru svona lög ekki nógu góð fyrir okkur Íslendinga?

Þar sem Alþingismenn setja lögin er einnig full ástæða, ef ekki meiri ástæða, til að beina sömu áskorun til þeirra.

Lifið heil.


Gallaðar skilgreiningar

"Hins vegar segir dómurinn að ef byggt sé á frásögn stúlkunnar af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra tveggja inni á snyrtingunni verði að líta svo á, að það að maðurinn ýtti konunni inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægi þetta eitt til þess að maðurinn verði sýknaður af ákærunni."

Þarna er vandinn í hnotskurn.

Samkvæmt íslenska lagabókstafnum getur nauðgun ekki farið fram nema með ofbeldi, og ofbeldi er í þokkabót skilgreint þröngt.

Þessar skilgreiningar eru ekki í takt við veruleikann.

Nauðgun getur hæglega farið fram án ofbeldis; til dæmis ef konan er ölvuð eða á annan hátt ekki í ástandi til að veita mótspyrnu. Einnig getur það gerst við svona aðstæður að konan frýs algjörlega og fer í sjokk. Hvorugum þessum möguleikanum er sýndur skilningur í lögunum. Og ef það telst ekki ofbeldi að ýta við fólki og læsa það inni, þá veit ég ekki hvað.

Já, ég las allan dóminn, kverúlantar. Getið þið virkilega sagt að ykkur finnist niðurstaðan sanngjörn og eðlileg, þó hún sé í samræmi við lög?

Hér er annað áhugavert úr dómnum:

"Þykir þetta allt styðja svo þann framburð hennar, að hún hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við ákærða, að óhætt sé að slá því föstu."

Að óhætt sé að slá því föstu. 

En, fyrst að hún var ekki í ástandi til að gera manninum nógu ljóst að hún vildi ekki hafa við hann kynferðismök, og hann beitti ekki ofbeldi í skilningi laganna, þá telst hann sýkn saka. Andskotans skömm að því. 

 ----

Hér er dómurinn.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iss

Ég fæ alltaf reglulega tölvupósta þar sem mér er boðið að kaupa lyf á góðum kjörum á netinu. Þetta er því ekkert nýtt.

Bróðursblogg

Bróðir minn er byrjaður að blogga, og það á fullu. Ég mæli með skrifum hans; hann hefur alltaf haft alveg einstaklega gott lag á orðum, og hann fjallar um mjög áhugaverða og djúpa hluti. Bæli bróðursins er hérna: http://kariaudar.blog.is/blog/kariaudar/...

Kemur ekki á óvart

... enda er þetta frábært lag. Yfirvegaður biturleiki er eitt af sérsviðum meistara Dylans. Lagið er núna 44 ára gamalt; og hugsa sér að karlinn er enn í fullum gír. Ætli maður birti ekki bara textann svo fólk geti metið ágæti hans sjálft? It ain't no...

Tónlistarvefsíða?

Síðast þegar ég vissi þá var MySpace svokölluð 'social networking' síða (félagsnetssíða?); það er að segja vefsvæði sem er í raun samfélag þar sem notendur eiga sér sínar síður og tengjast hver öðrum vinaböndum. Má vera að meðal annars noti hljómsveitir...

Jamm

... því að ríkið er bara einhver botnlaus hít sem sogar í sig peningana og notar þá ekki í neitt vitrænt. Við erum að vinna fyrir ríkið fyrri part árs. Ekki börnin, ekki námsmennina, ekki sjúklingana, ekki gamla fólkið, ekki öryrkjana ... Heldur ríkið....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband