Viðtal við Villa

Í Blaðinu í gær var viðtal við Vilhjálm borgarstjóra. Þar er hann meðal annars spurður út 'bjórkælismálið'. Um það hefur hann þetta að segja:

Það hefur nokkuð verið snúið út úr því máli. Mér gekk einungis gott eitt til og bað aldrei um að vínkælir í áfengisbúð yrði fjarlægður. Málið snerist um það að útigangsmenn í miðbænum hafa komið sér fyrir eins og setulið niðri í Austurstræti þar sem þeir áreita fólk, stökkva jafnvel að því og þrífa í það og krefja um pening fyrir bjór. Síðan fara þeir inn í áfengisverslunina og kaupa sér bjór í stykkjatali. Ég var að tala um þennan vanda. Það var ákvörðun áfengisverslunarinnar að fjarlægja kælinn. Eftir á að hyggja hefði ég hugsanlega mátt nálgast þetta mál með öðrum hætti en ég er ekki fullkominn frekar en aðrir. Þetta mál reyndist mér hins vegar alls ekkert erfitt. Eftir stendur að útigangsmenn í Austurstræti angra fólk og slíkt framferði þarf að stöðva.

Þar höfum við það. Svart á hvítu. Villa virðist algjörlega sama um neyð þessa útigangsmanna og þann vanda að til sé fólk sem er það langt leitt af áfengissýki að það býr á götunni og betlar. Nei, aðalvandamálið í hans augum er að þessi lýður skuli voga sér að angra broddborgarana. Ég hef af þessum sökum afskaplega lítið álit á borgarstjóranum og tel hann vera snobbhana og hrokagikk sem skeytir engu um raunverulega neyð hinna smæstu íbúa borgarinnar. Ég á alla vega afskaplega erfitt með að lesa nokkuð annað úr þessu viðhorfi Vilhjálms.

Síðan er það hinn bjánalegi útúrsnúningur Vilhjálms, að hann hafi ekki beðið með beinum orðum um að bjórkælirinn yrði fjarlægður. Hann bað um að búðin hætti að selja bjór í stykkjatali, fjárinn hafi það! Auðvitað var það bara málamiðlun hjá stjórnendum Vínbúðarinnar að fjarlægja kælinn; þeir vildu ekki taka það skref að hætta með öllu að selja bjór í stykkjatali. Líklegast finnst mér að Vilhjálmur hafi ekki einu sinni vitað af þessum bjórkæli; hefði hann vitað af honum hefði hann án efa beðið um að hann yrði fjarlægður líka - því úr honum var jú seldur bjór í stykkjatali, ekki satt? Aðalmálið er að hann sendi Vínbúðinni bréf þar sem hann bað persónulega um að hún hætti að selja tiltekna vöru - en það er auðvitað annað dæmi um hroka hans og stjórnunarfíkn.

Vilhjálmur virðist telja að það sé hans hlutverk að ákveða hvaða vandamál steðja að borgarbúum, sem og lausnirnar við þeim, og framkvæma lausnirnar sjálfur. Slík viðhorf til stjórnsýslu tel ég ekki hæfa þessari öld ... reyndar tel ég ekki einu sinni að þau hæfi þeirri síðustu.

Ég hef heldur ekki gleymt þætti Björns Inga í þessu máli. Hann viðraði einnig hið sama viðhorf - að það væri skelfilegt vandamál að útigangsmenn skuli betla peninga af fólki og angra það. Aldrei sá ég hjá honum, frekar en hjá Villa, neinar áhyggjur af því að í Reykjavík búi útigangsmenn á annað borð, né neinar hugmyndir um hvernig mætti ráðast að rót vandans með því hjálpa þeim af götunni. Hann virðist því skipa sama bás og borgarstjórinn. Þeir sitja í sínum fílabeinsturni og hugsa einungis um þau vandamál sem steðja að broddborgurunum. Óhreinu börnin hennar Evu geta síðan étið það sem úti frýs - svo lengi sem þau angra ekki heiðvirt fólk.

Svo mörg voru þau orð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er sammála þér þarna.  Viðhorf sem ekki er mér þóknanlegt allavega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.9.2007 kl. 16:18

2 identicon

Góð og mjög þörf greining!

Ég er sammmála, og fannst stundum alveg furðulegt að þessir 2 borgarfulltrúar væru aldrei spurðir af fréttamönnum um tilverurétt þessara einstaklinga, sem allra minnst mega sín í þessu samfélagi græðgi og allsnægtar! 

Pólitíkusar af þessari gerð, virðast ekki gera sér grein fyrir að þeir eru "bara" kosnir í þjónustu fyrir borgarbúa og ber lagaleg skylda að sjá þessum ólánsömu bræðrum og systrum fyrir lágmarksþjónustu, svo sem húsnæði og fæði!

Sigrún Jónsdóttir 16.9.2007 kl. 16:27

3 Smámynd: halkatla

takk fyrir frábæran pistil, að vanda. það er sorglegt að þessi tveir menn skuli hafa tjáð sig svona, og að þeir líti virkilega á þennan vanda frá þessari hlið 

halkatla, 16.9.2007 kl. 16:31

4 identicon

Þetta er það sem kallað er að vera seinheppinn!

Margrét sig 16.9.2007 kl. 16:33

5 Smámynd: krossgata

Þetta er bara hárrétt hjá þér Þarfi.  Allt var þetta í kjölfar þess að taka þyrfti á auknu ofbeldi í miðborginni að næturlagi um helgar.  Mér fannst alltaf langsótt að nota útigangsmennina og verslun þeirra í ríkinu í þessu samhengi.  Þeir versla ekki í ríkinu frekar en aðrir að næturlagi um helgar, hvort sem bjórinn er í kæli eða ekki.  Allt óttalega hrokafullt klúður.

krossgata, 16.9.2007 kl. 20:50

6 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

heyr heyr!

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 17.9.2007 kl. 13:11

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill hjá þér Þarfi !  Mitt álit á villa vitlausa hefur ekkert breyst fyrir eða eftir kosningar.. hann hefur alltaf virkað á mig sem hrokafullur miðaldra hárkollunotandi.  Snobbborgari af guðs náð..

Óskar Þorkelsson, 17.9.2007 kl. 13:18

8 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Frábær pistill Dóri minn. 100% sammála, hann sýnir líka eindæma fordóma að láta svona setningar út úr sér:

Eftir stendur að útigangsmenn í Austurstræti angra fólk og slíkt framferði þarf að stöðva.

Maðurinn hefur greinilega ekki farið mikið niður í bæ, því ástandið er ekki svona eins og hann lýsir.  Mér finnst lágmark að borgarstjóri kynni sér ástand miðbæjarins áður en hann lætur svona fordóma bull út úr sér.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 17.9.2007 kl. 15:11

9 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ojá, sjaldan hef ég verið jafn sammála þér og nú.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.9.2007 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband