Lagabókstafurinn og túlkun hans

Ég fór mikinn í því að gagnrýna þennan dóm á sínum tíma, og þótti hann fráleitur. Gott að sjá að Hæstiréttur er þar mér sammála - það er vonandi að Héraðsdómur muni taka þetta til athugunar.

Það er víst algjör óþarfi að ég fari að endurtaka það sem ég sagði um dóminn á sínum tíma. Nóg ætti að vera að vísa bara í eldri pistla:

Gallaðar skilgreiningar

Verjandi á villigötum

Annars má bæta einu við - hér eru klárlega á ferðinni túlkanir á lagatextanum, og ágreiningur um þær; hversu þröngar þær eiga að vera. Hér virðist vera sem að Héraðsdómur hafi túlkað lagaákvæði þar sem er notast við hugtakið ofbeldi afskaplega þröngt, og nú hefur Hæstiréttur troðið því ofan í kokið á lægri réttinum. Túlkunin um að manninum hefði ekki endilega átt að vera það ljóst að kynmökin fóru fram í óþökk konunnar vegna þess að hann hafi 'ekki haft ástæðu til að halda að hún væri honum andhverf', sem einnig er hrakin ofan í Héraðsdóm, er síðan afskaplega áhugaverð, svo vægt sé til orða tekið.

Ég hef áður haldið því fram að vandinn stafi af ónákvæmum lagabókstaf - en núna er ég frekar farinn að hallast að því að rót vandans megi frekar rekja til lélegra túlkana. Kannski er þetta bland beggja.

Ástæðan fyrir því að ég er orðinn andhverfari trú minni á því að lögin þurfi að vera betur skilgreind er aðallega sú, að í seinni tíð hef ég séð glitta hjá ákveðnum ráðamönnum hérlendis í þá hugmyndafræði, að lögin eigi að vera allsráðandi, og að allt sem ekki sé beinlínis brot á lagabókstafnum, í hans þrengstu og tærustu mynd, sé hafið yfir gagnrýni. Þetta sannfærir mig um að svo lengi sem einhverjir sjá enga nauðsyn á því að túlka nokkurn tímann lögin, eða þá vilja túlka lögin eins þröng og hægt er, þá skiptir litlu máli hversu vel skilgreind lögin eru - það verður alltaf hægt að fara framhjá þeim og finna í þeim gloppur. Það er sérstaklega slæmt þegar valdamiklir menn eru haldnir slíkum viðhorfum, þar sem áhrif þeirra hljóta að leiða til þess að viðhorfin smita út frá sér. Því tel ég mikilvægara að berjast gegn þessu viðhorfi, en að beita sér fyrir breytingum á lögunum sjálfum.

Ég vísa í þennan pistil hér - þar sést nákvæmlega hvað ég á hér við. Já, og þennan hér líka. Reyndar er þessi líka ágætur.

Svo má líka vísa til þess sem fyrrverandi borgarstjórinn Vilhjálmur sagði nýlega, þess efnis, að venjulega segðu menn af sér ef þeir hefðu brotið lög eða reglur - en að hann hefði engin lög brotið. Það var sumsé hans helsta réttlæting fyrir því að segja ekki af sér.

Dómsmálaráðherrann virðist sumsé vilja hafa dómara í dómstólunum, sem dæma eingöngu eftir lagabókstafnum - þá er auðvitað alveg öruggt að enginn sem ekki brýtur lögin eins og þau eru nákvæmlega sett niður á blað verði nokkurn tímann dæmdur fyrir dómstólum. Engar hvimleiðar túlkanir leyfilegar.

Kannski er ómaklegt hjá mér að tengja þetta tvennt saman; hugmyndafræði dómsmálaráðherrans um túlkunarhefta dómara, og það viðhorf sumra ráðamanna að fátt sé ámælisvert, annað en brot á lögum - en það er vissulega mjög freistandi. Í báðum finnst mér alla vega felast tilraun til að afnema flest önnur mannleg viðmið en lagabókstafinn - og vitaskuld kemur það sér óneitanlega vel fyrir þá sem vilja ekki vera bundnir af öðru en lögum, ef dómararnir túlka lögin þröngt. Einnig er mjög hentugt að geta þá jafnframt sett lögin sjálfur.

Mér þætti fróðlegt að fá að sjá hjá dómsmálaráðherranum nánari útlistun á þessari hugmyndafræði hans. Hingað til hefur hann ekki útskýrt hana mjög ítarlega, né sett hana í samhengi við nein dæmi úr veruleikanum. Hann hefur heldur útskýrt hvað hann á nákvæmlega við með 'framsækinni lagatúlkun', eða þá hvað er svona slæmt við hana. Hann segir að dómarar seilist með þessu inn á svið löggjafans - en er þetta ekki nokkuð sem dómararar verða alltaf að gera? Að túlka lögin, og jafnvel notast stundum við önnur viðmið en lögin eingöngu?

Eins og ég lít á þetta, þá eru dómarar mannlegar verur, og lögin alltaf ófullkomin. Líkt og ég hef gagnrýnt áður, þá er síðan ekki einu sinni eins og íslensk lög séu ítarlega orðuð, né skilgreiningar þar settar kyrfilega niður. Ef dæma ætti í brotamálum samkvæmt lagabókstafnum eingöngu, þá væri það í raun oft á tíðum ómögulegt, því þar eru engar skilgreiningar að finna á því hvað hugtök á borð við líkamsárás og ofbeldi þýða.

Hversu langt nær þetta hjá Birni? Hvar finnst honum mörkin liggja? Hvenær ganga dómstólar of langt í að túlka lögin, og hvenær ekki? Er verið að 'seilast inn á verksvið löggjafans' þegar hugtök eru túlkuð? Ef ekki þá, hvað þarf þá til, svo segja megi að dómstólarnir séu farnir að ganga of langt?

Björn telur lausnina á vandanum vera þá, að skipa eingöngu þá sem aðhyllast ekki 'framsækna lagatúlkun' sem dómara - en hver er vandinn? Og er vandinn virkilega það mikill að það réttlæti að misvitur ráðherra ráði því sjálfur, hverja hann skipar til að dæma yfir okkur Íslendingum? Að hann þurfi ekki að taka tillit til neinna annarra í því sambandi, né réttlæta skipanirnar umfram það að segja, að hann ráði þessu bara lögum samkvæmt?

Væri ekki nær að skilgreina vandann betur áður en menn fara að rífast við prófessora um hann?

Þarna er kannski komin skýringin á því af hverju Birni virðist lífsins ómögulegt að ræða málin efnislega við Sigurð Líndal - hann veit kannski bara ekkert hvað hann er að fara sjálfur. Né þá hefur hann kannski gert sér fyllilega grein fyrir afleiðingum þess fyrir þjóðina, ef ríkisstjórnin ætlar sér að fara út í að skipa flokksgæðinga í dómarastöður, og ýta þar með hæfara (í öllum hlutlægum skilningi þess orðs - já, hæfni getur vel verið hlutlægt hugtak, sama hvað sumir röfla) fólki til hliðar.

Hvaða hagsmunir eru það nákvæmlega sem réttlæta það að pota á kostnað annarra flokksgæðingum inn í dómskerfið, Björn Bjarnason?

Stórt er spurt ... 

P.S. Biðst forláts á því hversu pólitísk þessi færsla varð. Ég hafði það ekki í huga þegar ég hóf að skrifa hana að tengja hana við pólitík, en svo virðist sem heilinn í mér sé stilltur sjálfkrafa inn á það að gera pólitík úr (flest)öllu.


mbl.is Ályktun héraðsdóms stenst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ertu í lögfræði þarfagreinir ?  ótrúlegt hvað þú getur skrifað um svona þung málefni.

Óskar Þorkelsson, 14.2.2008 kl. 20:45

2 Smámynd: Þarfagreinir

Takk fyrir það Hlynur - og góð athugasemd líka. Ég er á því að ekki saki að spyrja út í svona hluti; hver veit nema Björn lumi á einhverjum snilldarsvörum við þessum vangaveltum mínum? Maður veit nefnilega aldrei.

En nei Óskar, ég hef aldrei numið lögfræði - hef bara gaman af því að lesa hluti og pæla svo í þeim.

Þarfagreinir, 14.2.2008 kl. 21:46

3 Smámynd: Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

Sæll nafnlausi maður.

Nei það er alveg greinilegt að þú ert ekki löglærður maður. Reyndar krefst það engrar voðalegar lögfræðikunnáttu til að skilja þetta. Bara almennrar skynsemi. Nokkur atriði:

Ég hef áður haldið því fram að vandinn stafi af ónákvæmum lagabókstaf - en núna er ég frekar farinn að hallast að því að rót vandans megi frekar rekja til lélegra túlkana. Kannski er þetta bland beggja.

Hvað kallarðu lélega túlkun, og hvernig á meta það? Í mínum huga væri léleg túlkun að hrapa að niðurstöðu án þessa beita viðurkenndri aðferðarfræði. Aðferðarfræðin getur leitt til mismunandi niðurstöðu. Það að löglærðir menn/dómarar geti komist að mismunandi niðurstöðu varðandi túlkun sama lagaákvæðis bendir aftur til þess að lögin séu ekki nógu skýr. Nema þú sért sannfærður um hina einu réttu lögfræðilegu niðurstöðu, sem er önnur umræða.

 að í seinni tíð hef ég séð glitta hjá ákveðnum ráðamönnum hérlendis í þá hugmyndafræði, að lögin eigi að vera allsráðandi, og að allt sem ekki sé beinlínis brot á lagabókstafnum, í hans þrengstu og tærustu mynd, sé hafið yfir gagnrýni.

Þetta er mjög einfalt. Einstaklingar/einkaaðilar mega gert allt sem ekki er bannað með lögum. Hið opinbera má einungis gera það sem þeim er heimilt að lögum. Þannig er það og þannig á það vera. Ella þyrftirðu að setjast niður og semja lagabálk þar sem upp eru taldar allar mögulegar heimilar athafnir. Slíkt væri vægast ógerlegt, og hefur sjaldnast gefist vel. Bein afleiðing þess yrði að einstaklingur yrði dæmdur fyrir að gera eitthvað sem löggjafinn gleymdi að heimila með lögum.

Dómsmálaráðherrann virðist sumsé vilja hafa dómara í dómstólunum, sem dæma eingöngu eftir lagabókstafnum - þá er auðvitað alveg öruggt að enginn sem ekki brýtur lögin eins og þau eru nákvæmlega sett niður á blað verði nokkurn tímann dæmdur fyrir dómstólum. Engar hvimleiðar túlkanir leyfilegar.

Dómarar EIGA bara að dæma eftir lagabókstafnum. Eins og þú kannski veist/veist ekki geta þó verið til fleiri lög heldur en þau skráðu, svo sem venjur, meginreglur o.s.frv. Slíkar óskráðar reglur þurfa þó að hafa fest sig vel í sessi svo unnt sé að dæma eftir þeim. Ástæðan fyrir því að dómarar eiga einungis að dæma eftir lögunum er mjög einföld og ein grundvallarstoð vestrænnar menningar. Lög eru birt. Vegna þess að lög eru birt þá getur fólk gert sér grein fyrir mögulegum afleiðingum verka sinna. Dómstólar geta ekki búið til nýja lagareglu og dæmt eftir henni, slík regla er ekki birt og enginn vissi af henni. Finnst þér slík afturvirkni sanngjörn? Vitaskuld vill enginn hvimleiðar túlkanir.

og vitaskuld kemur það sér óneitanlega vel fyrir þá sem vilja ekki vera bundnir af öðru en lögum, ef dómararnir túlka lögin þröngt.

Dómarar eiga ekki að skýra öll lög þröngri lögskýringu. Á hinn bóginn eru ákveðin lagaákvæði sem ber að skýra þröngt leiki vafi á hvort verknaður falli undir þau. Til að mynda undantekningar og íþyngjandi lagaákvæði t.d. refsiákvæði. Að dæma mann í fangelsi, svo dæmi sé tekið, er líkast til það mest íþyngjandi sem einstaklingur getur lent í. Með því er verið að svipta hann frelsi. Við öll eigum því rétt á því að vera ekki dæmd nema 100% vissa sé um sekt okkar. Dómarar geta ekki dæmt mann sekan vegna þess að "þeir séu nokkuð vissir" um að hann gerði það sem honum er gefið af sök. Á bak við þetta liggur meðal annars sú hugsun að skárra sé að 9 sekir menn gangi lausir en einn saklaus einstaklingur sé sviptur frelsi. Þú ert væntanlega ósammála þessu.

Hann segir að dómarar seilist með þessu inn á svið löggjafans - en er þetta ekki nokkuð sem dómararar verða alltaf að gera? Að túlka lögin, og jafnvel notast stundum við önnur viðmið en lögin eingöngu?

Svarið við þessu er einfalt nei. Dómarar eiga ekki að seilast inn á svið löggjafans. Á Íslandi, líkt og mörgum öðrum ríkjum, höfum við það sem kallað er þrígreiningu ríkisvalds. Löggjafarvald, framkvæmdarvald, og dómsvald. Eftir því sem unnt er eiga þessir handhafar valds að vera óháðir hvor öðrum. Alþingismenn eru þjóðkjörnir til þess að setja lög. Það eru dómarar ekki. Það eitt nægir til þess að réttlæta að dómstólar eigi ekki að setja lög. Bendi þér á að þessi sama þrígreining er undirstaða gagnrýni flestra þeirra sem hafa gagnrýnt nýlega skipun héraðsdómara. Annars geturðu lesið meira um þrígreininguna hjá Monstesque og John Locke.

Þú talar um önnur viðmið sem dómarar eiga að beita? Hvaða viðmið eru það? Siðferðisleg viðmið? Samfélagsleg viðbrögð? Eiga dómarar e.t.v. að dæma eftir því hvað bloggheimurinn segir? Þá værum við í vondum málum. Dómarar eru engir siðapostular og þeir ákveða ekki hvað sé rétt og rangt. Dómarar eiga ekki að dæma eftir eigin sannfæringu. Þeir kveða á um sýkn og sektu. Nánar tiltekið hvort einhver hefur gerst brotlegur varðandi lögin, ekki hvort þeim finnist að einhver hafi gert rangt.

Án þess að ég vilji leggja þér orð í mun, þá sýnist mér að vilji þinn til að menn sé dæmdir án þess að lagaheimild sé til þess, stafi af nokkru af óánægju með stjórnmálamenn. Þetta atriði er hins vegar mjög einfalt líka. Í þessum efnum verðum við að gera greinarmun á lagalegri ábyrgð og pólitískri ábyrgð. Lagalegri ábyrgð verður ekki komið við nema menn brjóti lög. Hin pólitíska ábyrgð verður hins vegar fram komið af öðrum stjórnmálamönnum. Þetta er nánar tiltekið hin svokallaða þingræðisregla. Í henni felst gróflega að ríkistjórn/ráðherra getur ekki setið nema meirihluti þings styðji eða að minnsta kosti umberi hana í embætti. Sama á við að breyttu breytanda í sveitarstjórn. Ef meirihluti sveitarstjórnarmanna vill ekki hafa ákveðinn borgarstjóra, þá einfaldega kjósa þeir nýjan.

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, 15.2.2008 kl. 10:13

4 Smámynd: Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

Við þetta má svo bæta því við að Hæstiréttur í umræddum úrskurði sínum einmitt að gagnrýna þá aðferðarfræði sem héraðsdómur beitti, ekki niðurstöðu hans.

Vek athygli á því að Hæstiréttur er ekki heldur að kveða á um sekt mannsins, heldur að mál skuli tekið fyrir aftur.

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, 15.2.2008 kl. 10:17

5 Smámynd: Einar Jón

Alltaf gaman að vitna í sjálfan sig...

Mér finnst viðeigandi að gera það sama:

Mér finnst bara skrýtið/sorglegt/fáránlegt að allt tal um pólitík virðist vera farið að snúast um spurninguna "brutu þeir einhver lög?", frekar en "voru þeir að vinna af heilindum?" eða "hverra hagsmuna voru þeir að gæta?"

Er þetta virkilega aðalatriðið? 

Merkilegt að búa landi þar sem kjörnir embættismenn telja sig mega gera allt sem ekki er bannað með lögum.

Einar Jón, 15.2.2008 kl. 10:21

6 Smámynd: halkatla

þegar lögin eru túlkuð í "sinni þrengstu og tærustu mynd" leysist allt uppí siðspillingu fyrr eða seinna. Svo mikið veit ég, annars ekki mikið.

En þú ert snillingur - takk fyrir þín skrif um þetta og svo margt

halkatla, 15.2.2008 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband