Aumt mál, aumar varnir

Það er orðið nokkuð ljóst að þessi skipun setts dómsmálaráðherra er óverjandi með öllu.

Einhverjir hafa reynt að verja þetta í netumræðunni, en ég held að þeim hljóti nú að fara sífellt fækkandi. Þessir varnartilburðirnir hafa annars aldrei snúist um það, hvort Þorsteinn Davíðsson hafi raunverulega verið hæfastur umsækjenda, svo ég hafi séð. Þess í stað hafa menn reynt að grugga vatnið með hinum og þessum hætti, til að afvegaleiða umræðuna - enda held ég að maður þyrfti að vera alveg sérstök tegund af afglapa til að halda því fram að Þorsteinn Davíðsson hafi verið hæfastur umsækjenda.

Sumir hafa reynt að varpa rýrð á nefndina með því að benda á að áður hafi ekki verið farið alveg eftir áliti hennar, án þess að hún hafi kvartað. Hér má sjá dæmi um slíkt. Slík rök eru fljótafgreidd, því eins og berlega kemur fram í greinargerð nefndarinnar, þá hefur það aldrei gerst áður að ráðherra hafi skipað annan en þann sem nefndin setti í hæsta hæfnisflokk. Til að mynda má nefna að í dæminu sem Friðjón nefnir þarna, um skipun Ástríðar Grímsdóttur, þá setti nefndin alla sex umsækjendur í flokkinn Vel hæfur, en raðaði þeim í hæfnisröð innan þess flokks, og setti þar Ástríði í þriðja sæti. Þetta er því engan veginn sambærilegt við skipun Þorsteins, þar sem þrír aðrir umsækjendur voru settir hæsta hæfnisflokk, Mjög vel hæfur, en Þorsteinn var settur í flokkinn Hæfur, eða tveimur flokkum lægra! Þannig er þetta ekki einungis fyrsta dæmið í 16 ára sögu nefndarinnar um að settur ráðherra hafi skipað umsækjanda sem nefndin setti ekki í hæsta hæfnisflokk, heldur fór Árni þarna algjörlega á skjön við hæfnisflokkaröðunina. Til að ganga framhjá heilum þremur umsækjendum sem nefndin taldi vera Mjög vel hæfa á kostnað umsækjanda sem nefndin taldi Hæfan hefði hann þurft að hafa geigvænlega góð rök. Þau hafði hann ekki, og ég sé engan halda því fram - enda er ekki hægt að verja þá skoðun, að mínu mati. Er þá skrítið að nefndin hafi ekki getað þagað í þetta skiptið?

Annað sem maður hefur séð er skítkast í garð nefndarinnar fyrir að hafa ekki sagt af sér; að það sé hræsni hjá nefndarmönnum. Slíkt er einnig fljótafgreitt, í ljósi þess að sú umræða hefur ekkert með það að gera hvort Þorsteinn hafi verið hæfastur eða ekki, né hvort nefndin er með rökin sín megin, en engu að síður má benda á að þessi nefnd hefur starfað farsællega í 16 ár, og nefndarmenn taka það fram í greinargerð sinni að þeir vonast til að skipun Þorsteins sé algjört einsdæmi. Hún situr áfram í trausti þess, og varar í raun við því að á því kunni að verða breyting, haldi framkvæmdavaldið uppteknum hætti. 

Aðrir hafa talað um pólitíska ábyrgð Árna og Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað er það hárrétt að ábyrgðin er hans og flokks hans. Hins vegar hef ég ekki séð hjá þeim sem þannig tala taka fram hvernig Árni eða flokkurinn eiga að sæta þessari ábyrgð. Mun hann, eða flokkur hans, til að mynda gjalda þessarar ákvörðunar í næstu kosningum? Það er vafamál. Það er ekki svo stutt í næstu kosningar, og allsendis óvíst að þetta mál sé það stórt að það muni hafa afgerandi áhrif á afstöðu kjósenda. Þess fyrir utan er ljóst að Árni og Sjálfstæðisflokkurinn eru fráleitt einangruð dæmi um gagnrýniverða stjórnsýslu - eins og fjaðrafokið í kringum nýlegar ráðningar Össurar iðnarráðherra sýnir. Ef kjósendur vilja refsa Árna eða Sjálfstæðisflokknum, geta þeir ekki gert það með öðrum hætti en að kjósa eitthvað annað - en ekki er víst að skárri kostum sé til að dreifa. Önnur spurning er hvort Árni þurfi að svara fyrir þetta innan síns eigins flokks. Það er einnig vafasamt, þar sem líklegast er að Árni hafi ekki tekið þessa ákvörðun upp á sitt einsdæmi. Hann hlýtur að hafa haft þarna stuðning innan innsta hrings flokksins, og því hæpið að flokkurinn fari að refsa honum fyrir þetta. Varðandi þann möguleika að Árni verði fyrir persónulegum álitshnekki í kjölfar málsins má benda á að einhverjir hafa væntanlega valið Árna sérstaklega til þessa verks, og hann hefur fallist á það - honum var sumsé augljóslega til fórnandi í þetta skiptið. Ef það verður almenn regla að settur dómsmálaráðherra geti skipað hverja þá sem hann vill, er búið að opna dyrnar fyrir stjórnarflokkana að velja alltaf þann meðal ráðherra til verksins, sem mest er til fórnandi, til að lágmarka skaðann af slíkri spillingu. Fyrir utan allt þetta er það þeim hæfu umsækjendum sem voru sniðgengnir væntanlega lítil huggun þó Árna eða flokki hans verði refsað. Er síðan ekki meiningin að ráða hæfasta fólkið í hvert starf? Er það ekki almenn regla, samkvæmt sjónarmiðum bæði réttlætis og góðrar stjórnunar? Er þetta sjónarmið allt í einu farið að víkja fyrir kröfu um 'pólitíska ábyrgð'? Merkilegt það, ef satt er.

Nei, aðalspurningin er hvort Þorsteinn Davíðsson hafi í raun og veru verið hæfastur allra umsækjenda. Ef svo var ekki, þá er Árni M. Mathiesen sekur um annað hvort gengdarlausa spillingu (hafi hann skipað Þorstein vitandi að hann var í raun og veru ekki hæfastur) eða algjör afglöp í starfi (hafi hann skipað Þorstein í þeirri einlægu trú að hann væri hæfastur, algjörlega þvert á afgerandi álit sérfræðinefndar, hverrar hæfni hefur aldrei verið dregin í efa áður). Hvort sem á þarna við er ljóst að þarna var á ferðinni algjörlega misheppnuð stjórnsýsla - allt tal um pólitíska ábyrgð breytir engu þar um, né dregur það úr þeim gríðarlega skaða sem þarna var unninn gagnvart trausti til kerfisins, eða því óréttlæti sem hinir sniðgengnu umsækjendur máttu sæta.

Ef einhver vill annars taka þann slag að halda því fram að Þorsteinn Davíðsson hafi raunverulega verið hæfastur allra umsækjenda, þá er ég til í að ræða það líka, finnist slík hugrökk sál. Ég held svei mér þá að ég myndi treysta mér til að skeggræða þetta við Árna sjálfan, sem er sá eini sem hefur haldið því fram opinberlega að Þorsteinn hafi verið hæfastur, svo ég hafi orðið var við.

P.S. Það að ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar þegi að mestu þunnu hljóði um þetta mál eru mér, sem kjósanda þess flokks, mikil og sár vonbrigði, og góð sönnun þess að allt tal um pólitíska ábyrgð í þessu samhengi dugar skammt. Ef ég get ekki treyst 'mínum' flokki, sem nú hefur þau völd sem ég vonaðist til að hann fengi, til að nýta sér þau völd til að gagnrýna augljósa spillingu, þá er vandséð hvaða leiðir ég hef persónulega, sem kjósandi, til að lýsa yfir vanþóknun minni á spillingunni, aðra en þá að röfla og væla hér á blogginu - en það telst nú varla með, er það nokkuð?


mbl.is Dómnefnd segist sitja áfram þrátt fyrir óvandaða stjórnsýslu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Bíðum í ... segjum 3 vikur... þá verða Íslendingar búnir að gleyma þessu.  En, ég er algjörlega sammála þessu.  Eina sem Þorsteinn hefur með sér, virðist vera að vera Davíðsson.  Nefndin, sem á jú að vera með vit og gáfur til að vinna úr svona, skilgreindi, eins og þú segir, 3 aðila, 2 *FLOKKUM* betri heldur en þennan.  Hvernig getur það verið annað en ... já, köllum það bara beint út, pólitísk spilling, að 4. persónan, skilgreind ekki eins hæf, hljóti svona embætti?

Ég sé enga aðra skýringu, heldur en þarna sé verið að toga í spotta.

Varðandi þögnina hjá samfylkingunni, þá finnst mér það miður, að þessi flokkur, samfylkingin, sem hefur þóst vera að starfa fyrir litla manninn, skuli núna steinhalda kjafti yfir þessu.  Ekki bara steinhalda kjafti, heldur gera svipaða hluti sjálf, sbr. Össur.

En.  Hvað geta kjósendur gert?  Það er sami rassinn undir öllum þessum pólitíkusum.  Og það er ekkert raunhæft í boði í dag.  Sorry.

Nei, VG teljast ekki með sem raunhæfur kostur.  Ekki meðan VG eru svona aggressífir í feminiska stefnu (svona sem dæmi).

Einar Indriðason, 10.1.2008 kl. 11:44

2 Smámynd: Þarfagreinir

Úbbs - ég gleymdi alveg að svara þessu.

Það er rétt að það virðist skipta litlu máli hvað maður kýs - en ég vona enn að þessi gjörningur verði ekki liðinn af þorra almúgans, hvað þá endurtekinn. 

Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband