Fleiri lélegheit

Útúrsnúningarnir og lélegheitin halda áfram. Allt skal gert til að reyna að þyrla upp ryki og halda fólki í vafa um hvað málið nákvæmlega snýst - og gera nefndina sem Árni hundsaði sem allra tortryggilegasta.

Nú er Árni kominn með þá línu að það hafi nú gerst áður, að stjórnmálamenn hafi "neyðst" til að hundsa álit lögbundinna álitsgjafa. Auðvitað nefnir hann þar Hafró, sem hann veit væntanlega að er umdeild stofnun - margir hafa hrósað stjórnmálamönnum þegar þeir standa í hárinu á henni og lýst yfir efasemdum um ágæti hennar. Svo þykja mörgum svona sérfræðinefndir og stofnanir almennt séð frekar tortryggilegar, og vilja gera mikið í því að draga hlutleysi þeirra í efa (eins og ráðherrar séu þá til að mynda frekar hlutlausari?). Þetta sýnist mér því vera lítið annað en lýðskrum hjá Árna.

Einnig er áhugavert að Árni segir hér (eða gefur mjög eindregið í skyn) að hann hafi borið einhverja nauðsyn til að skipa Þorstein Davíðsson. Fyrst svo er, þá hlýtur hann að geta sagt af hverju svo var - nokkuð sem hann hefur engan veginn útskýrt með sannfærandi hætti ennþá.

Allt málþóf og útúrsnúningar breyta því ekki að þetta snýst um tvær mjög einfaldar spurningar:

- Af hverju taldi Árni M. Mathiesen Þorstein Davíðsson vera hæfastan umsækjenda? 

- Að hvaða leyti er hann svona gríðarlega ósammála áliti nefndarinnar í því sambandi?

Árni getur þæft málið og reynt að gera nefndina tortryggilega alveg fram í rauðan dauðann - en það sem hann getur ekki gert er að svara þessum spurningum - enda eru án efa engin góð svör til við þeim.

Þegar Þorsteinn var skipaður var gengið framhjá hæfari umsækjendum. Ég hef nákvæmlega ekkert séð frá Árna, né neinum öðrum, sem hrekur þá staðhæfingu. 

Og þið sem viljið röfla um pólitíska ábyrgð, og að Árni hafi nú verið í lagalegum rétti, og að ráðherrar eigi að vera bundir sinni sannfæringu eingöngu ... að sú ógeðfellda hugmyndafræði sé því grundvallaratriði að skipa hæfasta manninn í hverja stöðu æðri - allt það tal breytir því ekki að Árni heldur því fram að hann hafi skipað hæfasta umsækjandann. Því er ekkert sem firrir hann frá þeirri ábyrgð, að hann útskýri nákvæmlega á hvaða forsendum hann taldi Þorstein hæfastan. Þá sem halda því fram að það komi almenningi ekki við, eða þá að lýðurinn hafi enga heimtingu á að Árni útskýri sitt mál almennilega, kalla ég síðan fasista, og það með réttu - að ég tel.

Ég vísa annars aftur til eldri pistla um málið. Þeir eru þrír aðrir eldri hjá mér. Þið finnið þá bara sjálf ef þið hafið áhuga. 

P.S. Ég minni líka á að engum af þeim alvarlegu spurningum sem velt var upp í greinargerð nefndarinnar hefur verið svarað af neinum ráðamanni, né þá af neinum öðrum þeirra sem vilja verja Árna í þessu máli, svo ég hafi séð - enda telur það fólk sig víst ekki þurfa að ræða það plagg efnislega, ekki frekar en neitt annað sem er þeim óþægilegt. Þessi greinargerð er nefnilega miklu meira og merkara plagg en svo, að nefndin sé að kvarta yfir því að ekki hafi verið farið eftir hennar áliti - þó svo að margir einum of flokkshollir Sjálfstæðismenn vilji afgreiða þessa greinargerð með svo skammarlega einfeldingslegum hætti. Það sem rætt er í henni lýtur að grundvallaratriðum íslenskrar stjórnsýslu og hvaða hugmyndafræði hún á að byggjast á - en því miður eru víst alltaf til einhverjir sem telja flokkspólitíkina og nánast ótakmörkuð völd (réttra) ráðherra (samhliða lítilli raunverulegri ábyrgð) mikilvægari en allt slíkt 'froðusnakk'.


mbl.is Oft gerst að ráðherrar fari ekki að áliti álitsgjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sjálfstæðismenn hafa einsett sér að þagga þetta mál niður og rægja alla þá sem véfengja niðurstöuna. Nefndin mun verða fyrir ófrægingarherferð áróðursmaskínu sjallana og samfylkingin þegir þunnu hljóði fyrir utan Lúlla greyið.

Óskar Þorkelsson, 14.1.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: Þarfagreinir

Því miður virðist þetta vera tilfellið, já. Og meira að segja stjórnarandstaðan við frekar þögul í þessu máli, satt best að segja.

Annars var mér að detta í hug ein einföld leið til að sýna í hnotskurn að þarna er eitthvað vafasamt á ferðinni. Rökfærslan hljóðar svona:

Fyrst þetta var svona gríðarlega útpælt hjá Árna - svo útpælt að hann hafi séð þarna nokkuð sem sérfræðinefnd þriggja lögfræðinga (nefnd sem hefur starfað í áraraðir, og hverrar hæfni hefur aldrei áður verið dregin í efa), þá hlýtur hann að hafa legið yfir þessari ákvörðun, ekki satt? Hann hlýtur að hafa borið umsækjendur mjög gaumgæfilega saman, rýnt í álit nefndarinnar, og þá, aðeins þá, ákveðið að matið væri kolrangt - að Þorsteinn væri þrátt fyrir allt hæfastur. Það er eina leiðin til að það gangi upp, að hann hafi haft lögmætar ástæður til að vera ósammála álitinu.

Af hverju getur maðurinn þá ekki komið með neinar góðar ástæður fyrir því af hverju hann tók þessa ákvörðun? Af hverju er þetta auma rugl það eina sem birst hefur eftir hann opinberlega, því til útskýringar? Af hverju lýsir Árni ekki nákvæmlega hvað hann var að hugsa, til að taka af allan vafa? Er eitthvað sem bannar honum það?

Nei, þetta eru sýnist mér enn ein sterku rökin fyrir því að hann var bara að hugsa sem svo, að það yrði að koma réttum manni að. Þetta verður væntanlega ekki hrakið, frekar en annað, nema með einhverju aumingjalegu röfli um trúnað og annað, sem ég get ekki séð að sé eitthvað sem sé lagt á herðar ráðherrans í þessu tilfelli - en auðvitað telja flokkslegátarnir, að svoleiðis hugsjónir eigi einna helst við þegar leyna þarf einhverju óþægilegu.

Nefndin birti lýsingar á málsgögnum og lýsti eigin hugrenningum opinberlega, og hún hefur ekki verið gagnrýnd fyrir það. Ættu þá aðrar reglur að gilda um ráðherrann?

Hvar eru alvöru rök fyrir því að ráðherrann hafi haft einhverjar lögmætar ástæður fyrir því að vera algjörlega ósammála áliti nefndarinnar?

Þarfagreinir, 14.1.2008 kl. 13:36

3 Smámynd: B Ewing

Ég hef ekki haft tíma til að klára lesturinn á þessum greinum hjá þér en miðað við það sem ég upplifi í þessu máli þá er ekkert nema skítalykt af öllu saman.

 <Kýs Árna> 

Nei bíddu....  vitlaus þráður...  <Laumast út hægra megin>

B Ewing, 14.1.2008 kl. 20:26

4 identicon

Sumir lokuðu á mig, aðrir hótuðu lokun, vegna þess að ég notaði orð eins og "ofsatrúarfólk" og "einræði" í athugasemdum um mál þetta.

En ... það eru orðavarari menn - Sigurður Líndal - heldur en "dóninn" ég sem geta ekki annað en vísað til ofsatrúarfólks og einræðisríkja þegar rætt er um geranda og verjandur Þorsteinsmáls.

Og ég segi fyrir mitt leyti að þótt ég sé styðji D, þá hefur mér alltaf þótt vægast sagt afskaplega sárt til þess að vita að flokkurinn er, að mínum dómi, morandi í ofsatrúarfólki.

Þá meina ég fólki sem ég hef sterklega grunað um að vera langtum umhugaðra um söfnuðinn heldur en þjóðarhag.

Fólk sem ég hef því miður sterklega grunað um að væri víst til að fylgja flokknum (sínum söfnuði) útí hvað sem er, já þess vegna útí takmarkalaust einræði. 

Sem betur fer veit ég hins vegar um marga D-menn sem eru jafnhryggir og ég yfir þessu elementi flokksins - elementi sem baðar sig í öllum sínum fráhrindandi ljótleika í Þorsteinsmáli.

En hitt veit ég líka að slík fylgispekt, ofsatrúarelementið, er síður en svo einskorðað við einn flokk. Því miður, svona er mannlífið einfaldlega og hefur alltaf verið; hrífandi mælska fólks breiðir ekkert yfir það.

olof magnusson 15.1.2008 kl. 10:03

5 identicon

Afar mikilvægt úrskurðarmál liggur nú á borði fjármálaráðherra, um heimild fjármálafyrirtækja til að gera upp í erlendri mynt, og annað í þá veru, eða í stuttu máli sagt: heimild fjármálafyrirtækja til að taka upp evru.

Þetta mál er það mikilvægt að víst má telja að forystumenn flokkins komi að þessari ákvörðun.

Hvorki forystumönnum flokksins né öðrum sem innsýn hafa í efnahagsmál þarf að blandast hugur um að það er vægast sagt mikið hagsmunamál fyrir fyrirtækin okkar - og þar með þjóðina - að leyft verði, í þessum efnum, að velja annan gjaldmiðil en krónuna.

Í þessu máli hefur (D)almættið talað.

En .... ekki lagt fram nein gild rök svari sínu til stuðnings.

Úrskurður flokksins í þessu stórmáli mun að nokkru skera úr um það hvort hann líti fremur á sig sem stjórnmálaflokk (með það markmið að bæta þjóðarhag) eða trúarhreyfingu sem lítur svo á að láta skuli jarðneska hagsmuni lönd og leið stangist þeir á við (rakalausan) vilja (D)almættisins - eða ætti maður frekar að segja, í þessu tilfelli, illvilja?

olof magnusson 15.1.2008 kl. 14:00

6 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Til hvers er nefndin að nefna fleiri en einn hæfan?  Af hverju gefur nefndin ekki bara upp þann hæfasta?  Svo virðist sem margir haldi því fram að ráðherra hafi ekkert með þetta að segja....

Garðar Valur Hallfreðsson, 15.1.2008 kl. 14:30

7 Smámynd: Þarfagreinir

Ég svaraði þessu sama á þínu eigin bloggi, Garðar. Vona að það sé gott svar.

Þarfagreinir, 15.1.2008 kl. 14:45

8 Smámynd: Þarfagreinir

En já - áhugaverður punktur með evruna, Ólöf. Ég hef reyndar lítið nennt að setja mig inn í það allt saman, en kaupi það vel að þar geti verið sitthvað athugavert á ferðinni.

Varðandi ofsatrúarelementið og hjarðhugsunina, þá er slíkt vitaskuld til í öllum hópum - en slæmt er það orðið þegar ráðherrar virðast smitaðir af slíku.

Þarfagreinir, 15.1.2008 kl. 14:47

9 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Takk fyrir svarið Þarfagreinir, þú ert greinilega vel lesin um þessi efni.  Þess vegna langar mig að bauna annarri svipaðri spurningu.

Af hverju heldur þú að nefndin flokki fólk í þrjá flokka, af hverju ekki bara einn flokk sem svo má nota úr?  (þ.e.a.s. ef ekki má nota flokk 2 eða 3 o.s.frv.)

Bara smá útúrnúningapæling

Garðar Valur Hallfreðsson, 15.1.2008 kl. 15:02

10 Smámynd: Þarfagreinir

Þú ert alltaf að setja inn spurningar á tvo staði, Garðar! Ég verð alveg ruglaður! 

Eigum við ekki bara að halda okkur á þínu bloggi, svona fyrst ég er byrjaður að svara þar?

Þarfagreinir, 15.1.2008 kl. 15:17

11 identicon

Þetta mál, Seðlabankinn gegn fyrirtækjunum, er, vegna hins gífurlega skaða sem það getur valdið fyrirtækjunum og þar með þjóðinni, eitt af stærri og alvarlegri málum sem upp hafa komið í þjóðfélaginu - ef Seðlabankinn lætur ekki af rakalausri andstöðu sinni hið fyrsta.

Eins og Björgólfur Thor hefur bent á þá er skaðinn þegar orðinn umtalsverður.

Og það er með öllu útilokað að fyrirtækjunum verði áfram vært hér á landi ef á að halda því til streitu að binda þau við krónuna, meina þeim að taka upp evru.

olof magnusson 15.1.2008 kl. 16:41

12 Smámynd: Þarfagreinir

Ég bind nú bara vonir við það að ekki verði farið út í aðgerðir sem reka fyrirtæki úr landi - bara út af einhverju rugli.

Ef svo er, væri það að vissu leyti kostulegt í ljósi þess að mikið grín var gert að Ögmundi Jónassyni um síðustu kosningar, að hann hafi gefið í skyn að hann væri sáttur við að missa jakkafataliðið úr landi, ef það yrði til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Kostulegt væri þá ef öfl innan Sjálfstæðisflokksins leiddu til landflótta innan þeirrar stéttar.

En auðvitað væri það hins vegar fyrst og fremst skelfilegt að missa fyrirtæki úr landi ... 

Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 03:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband