Rangtúlkanir Þorgerðar

Mogginn virðist hættur að ræða 'Þorsteinsmálið', þannig að nú verður maður víst að seilast yfir í vísi til að halda áfram að bölsóttast yfir vitleysisganginum í ráðherrum okkar.

Þarna segir Þorgerður meðal annars:

Það er rétt að undirstrika það að það er ekki hlutverk nefndarinnar að skipa mönnum í flokka eftir hæfni og að mínu mati hefðu menn átt segja hæfur eða ekki hæfur.

Þetta er algjörlega rangt hjá Þorgerði, og hún má skammast sín fyrir þessa rangfærslu alveg jafn mikið og Árni má skammast sín fyrir sínar. Það er einmitt hlutverk nefndarinnar að  raða umsækjendum í hæfnisflokka! Reglur sem dómsmálaráðherra setti henni árið 1999 skuldbinda hana til þess. Um þetta hefur aldrei verið deilt áður. Ekki þarf að seilast lengra en yfir í nýlega greinargerð nefndarinnar til að sjá þetta skrifað skýrum stöfum:

Um störf dómnefndarinnar gilda auk 12. gr. dómstólalaga reglur nr. 693/1999. Í 5. gr. þeirra er sú skylda lögð á nefndina að setja fram í skriflegri umsögn um umsækjendur annars vegar rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og hins vegar rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni.

Er menntamálaráðherrann virkilega svo illa að sér að vita þetta ekki? Ég trúi því tæpast.

Að ráðherrar skuli grípa til lyga (Já, hví ekki að kalla þetta réttu nafni? Lygi er þetta, og lygi skal það heita) til að fegra eigin hlut er alveg hreint ótrúlega lúalegt, og sýnir svo ekki verður um villst, að þarna hafa menn vondan málstað að verja. Ráðherrar gera núna bókstaflega allt sem þeir geta til að gera nefndina tortryggilega og draga úr henni - allt nema að ræða það sem hún hefur fram að færa á efnislegum forsendum. Þetta fólk einangrar sig núna í fílabeinsturnum þar sem annar veruleiki er við lýði en hjá okkur hinum, og spýr þaðan bitru galli sem það ætlast til að við kyngjum möglunarlaust. Ekki ætla ég mér alla vega að gleypa það óæti.

Ingibjörg Sólrún þegir annars þunnu hljóði, og af því er einnig skömm - en þó er það ögn skárra en að opna munninn og láta lygar vella upp úr honum.

Ég hef  aldrei nokkurn tímann áður skammast mín jafn mikið fyrir hönd ráðamanna þessa lands. Það er með ólíkindum að ekki sé gert miklu meira úr þessu en raun ber vitni. Geta ráðherrar logið hverju sem er opinberlega án þess að lenda í teljandi vandræðum vegna þess?

Ég vísa annars aftur til eldri pistla um málið:

Rangtúlkanir Árna

Aumt mál, aumar varnir 

VIÐBÓT 14/01: Ég fann loksins reglugerðina sjálfa á netinu. Hana má finna hér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Promotor Fidei

Kenningin er mjög áhugaverð hjá Ímugusti, og alls engin ástæða til annars en að vera með augun opin fyrir samsærum á Íslandi. Það hafa bæði pólítíkusar og viðskitpamenn sýnt í gegnum tíðina að þeir eru færir um ótrúlegustu leikfléttur og blekkingar.

Promotor Fidei, 12.1.2008 kl. 04:25

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Halldór, að vekja athygli á þessum ummælum Þorgerðar Katrínar. Þau eru í raun ótrúleg, en gefa kannski um leið færi á því að fá hana til að draga í land – eða fyrir einhvern ágengan fréttamann til að spyrja hana eitthvað á þessa leið: "Í ljósi þess, að þú hafðir ekki réttar forsendur né vitneskju um grundvallar-starfsreglur dómnefndarinnar, þegar þú ræddir þetta mál á Vísir.is svo seint sem í hádeginu á föstudag 11/1, þarftu þá ekki að endurskoða gagnrýni þína á nefndina í fjölmiðlum?"

Ég hafði ekki heyrt þessa mjög svo athyglisverðu frétt í hádeginu, en heyrði hins vegar í Þorgerði í kvöldfréttum Sjónvarpsins, og þar sagðist hún (þegar hún sneiddi að niðurstöðu nefndarinnar) einmitt tala "sem lögfræðingur"! – sem þó, vel að merkja, veit ekki þessi aðalatriði málsins um skyldu nefndarinnar til að gera samanburð á umsækjendum (jafnvel, eftir atvikum, í númeraröð) eftir hæfni þeirra!

Jón Valur Jensson, 12.1.2008 kl. 04:34

3 Smámynd: Þarfagreinir

Já, áhugaverð kenning hjá Ímugusti, sérstaklega í ljósi þess að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur farið mikinn í þessu húsafriðunarmáli á bloggsíðu sinni. Svona nokkuð er þó auðvitað ekki hægt að sanna - einfaldara er að einbeita sér að augljóslega vondum málstað ráðherrana, þegar þeir verja skipun Þorsteins Davíðssonar til embættis héraðsdómara.

Mjög áhugaverður punktur hjá þér, Jón Valur. Ég sá einmitt hið sama viðtal og þú nefnir. Eitthvað virðist hún hafa dregið í land með að halda því fram að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að raða umsækjendum eftir hæfni - líklega hefur einhver samherji hennar bent henni á þessa rangfærslu. Verra er þó að þetta sé ekki leiðrétt. Hvar er til að mynda dómsmálaráðherrann? Ætti hann ekki að hafa þessa hluti á hreinu, og er hann ekki í kjörinni aðstöðu til að árétta þetta atriði, alla vega á bloggsíðu sinni, sem hann er svo duglegur við að skrifa á? Alla vega - eins og Jón Valur bendir á, þá er hjákátlegt að Þorgerður Katrín skuli svo gott sem lýsa yfir frati á umsögn nefndarinnar, "sem lögfræðingur", þegar hún veit ekki einu sinni á hvaða lögfræðilegum forsendum nefndin starfar! Þetta lyktar því miður allt af því, að Þorgerður Katrín hafi verið fengin til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi á þetta vonda verk Árna Mathiesen, "sem lögfræðingur", til að ljá þeim einhvern snefil af trúverðugleika.

Annað sem má tína til þessari kenningu til stuðnings er að Þorgerður Katrín hamrar á því að Þorsteinn sé hæfur til að gegna starfsins, þegar umræðan snýst að engu leyti um það, heldur hvort hann hafi verið hæfastur allra umsækjenda. Því treystir sér auðvitað enginn til að halda fram, né treystir nokkur sér til að gagnrýna störf nefndarinnar á einhverju sem líkist málefnalegum forsendum, og þá er þess í stað hamrað á aukaatriðum og rangfærslum.

Það er skömm að þessu. Mikil skömm. 

Þarfagreinir, 12.1.2008 kl. 12:06

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það má treysta þér þarfagreinir með að koma með góða pistla um þjóðmálin.. þessi var góður.

Já aumingja Davíðsson.. engin mun nokkurn tímann muna hvað hann heitir bara að hann er sonur Dabba..

Óskar Þorkelsson, 12.1.2008 kl. 20:30

5 identicon

Sæll,

ef þú vilt lesa fleiri athugasemdir mínar um málið, þá er þær að finna á  sveiflan.blog.is

En Gísla Frey leist ekkert á mig: var fljótur að loka á mig. Það finnst mér leitt, því hann er nú að mörgu leyti strákur að mínu skapi.

olof magnusson 14.1.2008 kl. 00:42

6 Smámynd: Þarfagreinir

Þær eru góðar þarna líka, Ólöf. Svona Sjálfstæðismennsku líkar mér vel við. Ég reyndar var búinn að gleyma því að ég stóð í rökræðum á þessu bloggi, og henti þarna inn reglunum um nefndina, sem ég fann loksins. Takk fyrir að minna mig á þetta!

Leitt að Gísli virðist hafa lokað á þig. Athugasemd þín var langt í frá ómálefnaleg.

Þarfagreinir, 14.1.2008 kl. 02:28

7 Smámynd: Þarfagreinir

Og já, takk fyrir hólið Óskar. Maður reynir sitt besta.

Þarfagreinir, 14.1.2008 kl. 03:21

8 Smámynd: Þarfagreinir

Hah. Gísli Freyr eyddi athugasemd eftir mig og lokaði svo á mig. Mikið er álit hans á frelsinu, augljóslega.

Ég ætlaði að setja eftirfarandi inn í staðinn, en mátti það ekki. Hendi því bara hingað inn. Því miður á ég ekki afrit af upphaflegu athugasemdinni, en hún var í alvöru talað ekki svo hræðileg.

---

Hér hvarf athugasemd sem ég setti inn. Veit ekki hvort það er kerfisvilla eða að þú hafir eytt henni, Gísli - en reyndar lái ég þér ekki þó þú hafir eytt henni, þar sem hún var kannski helst til ómálefnaleg á köflum, þó ekki vilji ég meina að hún hafi verið dónaleg - bara gífuryrt. Biðst ég engu að síður forláts ef ég hef móðgað þig ... það var ekki ætlun mín.

Innihald færslunnar snerist annars um það, að þú gerir það að aðalatriði við ráðningu Stefáns, að hann hafi verið bendlaður við Samfylkinguna - slengir því fram eins og sjálfsögðum sannindum, án nokkurs sérstaks rökstuðnings, að hann hafi verið ráðinn á flokkspólitískum forsendum. En svo þegar kemur að skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara, þá skiptir það þig höfuðmáli, að þar hafi verið farið eftir reglum. Engu máli virðist skipta að gengið hafi verið í fyrsta sinn í 16 ár algjörlega framhjá áliti nefndarinnar. Þetta, ásamt ýmsu öðru, eru þó einhver rök fyrir því að hugsanlega sé pottur brotinn. Þrátt fyrir það heldur þú við það að þar sé ekkert hægt að sanna, og ekki sé hægt að gagnrýna Árna fyrir að hafa bara fylgt sinni sannfæringu, né svo mikið gefa í skyn að þarna hafi kannski flokkslitir ráðið förum - alla vega sérð þú enga ástæðu til þess.

Af hverju nýtur Þorsteinn vafans, en Stefán ekki? Ég sé ekki alveg í hverju munurinn felst, þegar maður lítur á þetta hlutlægum augum. Aðeins algjör sannfæring um skilyrðislaust ágæti eins flokks, en óheiðarleika annars, myndi gefa tilefni til að gera þarna svona afdráttarlaust upp á milli.

Er virkilega ástæða til að gera svona skýran og skilyrðislausan greinarmun á milli flokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar?

Mér þætti mjög vænt um að fá svör við þessum vangaveltum. 

Þarfagreinir, 14.1.2008 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband